Ófeigur Sigurðsson. Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma.

Mál og menning, 2010.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2011

Þessi skáldsaga fjallar um eldklerkinn svonefnda, séra Jón Steingrímsson, sem uppi var frá 1728 til 1791. Sagan er sögð í bréfum sem hann er látinn skrifa Þórunni konu sinni veturinn 1755 til 1756 þegar hann dvaldist að Hellum og raunar í helli í Mýrdal en hún barnshafandi norður í Skagafirði. Jón fór suður um haustið ásamt Þorsteini bróður sínum og ætlaði að fá Þórunni til sín næsta sumar eins og raun varð á. Frá þessari dvöl segir Jón á svo sem fimm blaðsíðum í sjálfsævisögu sinni. Nútímamönnum mundi ekki þykja fýsilegt að eiga í miðju Kötlugosi vetrardvöl í helli í Mýrdal, þótt þiljað væri fyrir opið, en um dvölina segir Jón sjálfur: „vorum við þar bræður báðir um veturinn og áttum þar það bezta og rólegasta líf“ (Jón Steingrímsson, Æfisagan og önnur rit. Kristján Albertsson bjó til prentunar. Reykjavík 1973, bls. 127). Líklega þekkjum við engan Íslending fyrir daga Jóns Steingrímssonar eins vel og hann. Svo er sjálfsævisögu hans og öðrum ritum fyrir að þakka. Ófeigur Sigurðsson hefur því úr miklum efnivið að moða þegar hann tekur að semja skáldsögu sína, sem er auðvitað bæði kostur og galli fyrir hann. Kostirnir eru augljósir, en vandinn er að vinna þannig úr efninu að sá lesandi geti fellt sig við sem þekkir eða leggur á sig að kynna sér heimildirnar en hinum sé ekki ofboðið.

Skáldsagan um Jón & hans rituðu bréf til barnhafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tímaHér verður ekki spurt hvar heimildum sleppi og skáldskapur taki við í skáldsögunni. Það gæti svo sem verið verkefni sem einhver hefði gaman af að glíma við. Ég hef ekki séð þar neitt sem beinlínis fer í bága við það sem ævisagan segir en hverjum manni má vera ljóst að hér er mikill skáldskapur á ferð. Saman er fléttuð raunsæisleg og í einhverjum skilningi sönn eða sennileg frásögn og sprettir hugarflugsins sem oft verða sannkölluð þeysireið á skáldfáknum.

Það sem fyrst grípur lesandann er stíllinn. Ófeigur fer víða mjög nærri 18. aldar máli, líkir eftir því, en sendir jafnframt lesandanum skilaboð um að ekki sé allt sem sýnist; höfundur og lesandi eru staddir á 21. öld. Taka má upphafssetninguna sem dæmi: „Það er aðeins fyrir Guðs moldríku miskunnsemi sem við bræður erum komnir heilir í hellinn eftir ferðina suður yfir hálendið og hingað inn í myrkrið“ (7). Hér er það hin moldríka miskunnsemi sem gefur tóninn. Umfram allt er þetta auðvitað gamansöm stílblöndun en íhugull lesandi gæti líka staldrað við og séð nýjar víddir í hinni nútímalegu samsetningu, þar sem orðið er annars vegar tengt við Guð, hins vegar miskunnsemi. [1] Fleiri dæmi, oft tvíræð, mætti taka, en hver lesandi getur skemmt sér við það. Á sömu blaðsíðu ávarpar Jón konu sína beint eins og hann gerir víða. Þessi ávörp eru falleg og tjá djúpar tilfinningar: „Landið er ein lifandi skepna. Líkami. Og Þórunn, hve sárt er að hafa þurft að skilja við þig og okkar guðsmyndarkríli í kroppnum, megi okkar góði Herra vera með ykkur og góð ljósmóðir þá barnið vill hingað koma í okkar snautlegu jarðvist.“

Það er ekki annað hægt en taka ofan fyrir þeim sem svona skrifar; guðsmyndarkrílið er sannarlega alveg í anda átjándu aldar, þótt orðið sé höfundar, en orðið gegnumlýsir Þórunni að nútíðarhætti og sýnir okkur fóstrið. Fyrsta bréfið er stutt, aðeins tvær blaðsíður, hugarflugið beinist að því að draga upp mynd af hugsunum Jóns og tilfinningum, mynd sem er sannarlega sennileg. Eftir myndræna og ógnvekjandi en þó raunsæja lýsingu á Kötlugosinu, lýkur bréfinu í bjartsýnum tón: „Með guðs réttlæti mun öllu þessu slota og burt fjúka og niður rigna og við aftur fyrirfinnast í vorblíðum högum. Þá set ég fífil í hatt minn og kyssi þig.“ Þótt Jón sé allan sögutímann fjarri sinni elskuðu eiginkonu og það sem segir af samlífi þeirra sé mótað af háttvísi fyrri tíma, er sagan um hann ástarsaga, gagnsýrð af ást, og skal tilfærð enn ein falleg tilvitnun til marks um það: „Ég hugsa stöðugt til þín, Þórunn, og þú ert með mér í öllum verkum. Mér finnst svo óralangt síðan ég lagði af stað úr fangi þínu á Frostastöðum hingað suður þótt aðeins rúmur mánuður sé liðinn“ (15). Lýsingin á Þorsteini bróður Jóns og sambandi þeirra bræðranna er líka fjörleg og skerpir mynd Jóns sjálfs.

Hjá Jóni Steingrímssyni blandast saman lúterskur rétttrúnaður og andi upplýsingarinnar. Hann lítur á eldgos og óáran sem réttláta hirtingu guðs og ber með þolinmæði þess sem veit að öll él styttir upp um síðir, en hann hefur vísindalegt viðhorf til náttúrunnar. Þótt guð sé að baki öllu ber manninum að reyna að skilja náttúruna og nota þekkinguna og skynsemina til að bæta líf sitt. Þetta kemur glöggt fram í hans eigin verkum, og því er vel til haga haldið í sögu Ófeigs. Nútímanum kann að þykja slíkt viðhorf þversagnakennt, en upplýsingaröldin var á öðru máli. Höfundur Jóns óttast heldur ekki þversagnir eða mótsagnir eins og glöggt kemur fram þegar skáldfákurinn spyrnir við hófum og lyftist á flug. Það gerist þegar í öðru bréfi sem segir frá bréfberanum Kristófer sem á að færa Þórunni fyrsta bréfið og ber ungbarn á öxl sér um fjöll og firnindi. Nafn bréfberans er vitaskuld lykill að tákngildi þeirrar sögu sem sögð er í bréfinu, en þar er skáldlega lýst ósköpum jarðskjálfta, eldgosa og flóða. Í þessari frásögn og öðrum slíkum, t.d. í sautjánda bréfi, er allt annar stíll en í þeim hugleiðingum og frásögnum af eigin reynslu sem Jón beinir beint til Þórunnar. Þessar sögur eru bæði líkar og ólíkar íslenskum þjóðsögum. Þótt frásögnin sé myndrík og hver furðan elti aðra á ógnarhraða, mynda stíleinkenni úr þjóðsögum frá 19. öld – t.d. endurteknar setningagerðir þar sem umsögn fer á undan frumlagi – áhrifaríkt og um leið launfyndið mótvægi.

Ef menn vilja velta fyrir sér hvers konar textabrigði séu á ferð hér og þar í sögunni er sjálfsagt rétt að líta á margt í bréfunum sem hugaróra Jóns og jafnvel drauma fremur en eitthvað sem hefði getað staðið í raunverulegu bréfi. Þannig hefst t.d. sjötta bréf á stórskemmtilegri erótískri fantasíu sem snýst upp í erótíska tákngervingu náttúru og umhverfis. Jón segist raunar skrifa niður drauma sína í svefnrofunum. Línum er víða skipt upp með skástrikum þegar draumkenndur texti er á ferð. Aðrir textar eru með alla athygli á náttúrunni og veruleikanum, og þar koma þekktir átjándu aldar menn mjög við sögu, Skúli fógeti, Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson (Jón segir þá E&B vera „fullkomið kombó“). Hjá þeim ríkir upplýsingarandi, framfaravilji og andúð á hindurvitnum, en Jón sjálfur tvístígur gagnvart hugarfluginu og segir í sautjánda bréfi stórskemmtilega kynjasögu um Kötlu, sem þeir Eggert og Bjarni koma við.

Undir lok sögunnar fer Jón í meira mæli að rifja upp fortíðina og stundum að segja konu sinni það sem hún hlýtur að vita, enda er hann hér eins og í ævisögunni áhyggjufullur vegna þess orðróms að hann hafi banað fyrri manni Þórunnar. Grundvöllur þessara frásagna er í ævisögunni.

Það sem grípur mann fyrst við lestur þessarar stórskemmtilegu bókar er stíllinn, frumlegur og fjölbreytilegur, myndríkur og fyndinn og þó alltaf í ákveðnu sambandi við stíl átjándu aldar. En vitaskuld er erindi bókarinnar meira en að vera stílleg flugeldasýning. Upp úr textanum rís Jón Steingrímsson, samsettur en þó heill, ótrúlegur atorku- og bjartsýnismaður eins og í ævisögunni, en hér er hann gæddur tilfinningum og hugarórum sem flytja hann inn í nútímann og gera hann lesandanum einkar nákominn þrátt fyrir ólík lífskjör. Þegar ég las bókina fyrst fannst mér að allur fróðleikurinn sem þar er að finna innan um fantasíuna íþyngdi henni stundum og færi úr hófi, en ég er ekki lengur jafnviss um það. Lesandinn þarfnast vísana til áþreifanlegs veruleika til mótvægis við hugarflugið, ef hægt er að taka svo til orða um það sem fyrst og seinast er texti, vefur orða og setninga.

 

Vésteinn Ólason

 

Tilvísanir

  1. Til gamans má geta þess að orðið moldríkur kemur í fyrsta sinn fyrir í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans í Búnaðarritinu 1890 og er þar notað um moldríkan jarðveg. Ekki er hægt að sjá þar hvenær merkingin ‚stórauðugur‘ kemur fyrst fyrir. Góðfús lesandi er beðinn að afsaka þennan fáránlega útúrdúr, en þessi saga sendir lesanda á óvæntar slóðir, jafnvel inn í gagnagrunna nútímans.