Álfrún Gunnlaugsdóttir. Rán.

Mál og menning, 2008

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2009.

RánNýjasta skáldsaga Álfrúnar Gunnlaugsdóttur segir frá ferðalagi hinnar íslensku Ránar frá heimili sínu í Sviss til Íslands með viðkomu í Barselóna, þar sem hún lagði stund á nám á sínum yngri árum. Reyndar er þetta ekki allskostar rétt því þótt ferðinni sé heitið til Íslands lýkur frásögninni áður en þeim áfangastað er náð. Ferðalagið á milli landa verður þó aðeins rammi fyrir lengra og mikilvægara ferðalag sem söguhetjan fer í huganum og spannar allt líf hennar. Það ferðalag byggist á upprifjunum, tilfinningum og tilraunum Ránar til að henda reiður á fortíð sinni og raða saman sundurlausum minningarbrotum. Það gengur þó ekki þrautalaust enda er Rán í allnokkurri afneitun og lætur lengst af sem fortíðin sé óaðgengileg og tilgangslaust sé að reyna að skoða hana: „Þýddi ekkert að horfa til þess sem verið hafði og varð tæpast vakið aftur“ (50); „Einkennilegt hvernig allt máist út. Og þó ekki“ (58). „Ég er ekki í skapi til að fara í fortíðarleik“ (40) segir hún á öðrum stað en þó verður ekki undan þessum leik vikist og öðrum þræði virðist Rán þarfnast einhvers konar uppgjörs: „Það var komið að henni að horfast í augu við breytingar sem óhjákvæmilega höfðu átt sér stað á heilli mannsævi“ (34).

Þeir sem þekkja til bóka Álfrúnar sjá hér kunnugleg mynstur. Uppgjör við fortíðina er sá rauði þráður sem auðvelt er að greina í öllum hennar verkum. Skáldsögurnar Þel (1984), Hringsól (1987) og Yfir Ebrofljótið (2001) segja allar frá manneskjum sem eru í svipaðri stöðu og Rán, líta yfir líf sitt og heyja baráttu við minnið, tregar en þó tilneyddar til uppgjörs. Og líkt og í fyrri verkum Álfrúnar er sögusviðið hér að mestu leyti Ísland og Spánn þótt leikurinn berist víðar um lönd Vestur-Evrópu. Annað einkenni á verkum Álfrúnar Gunnlaugsdóttur er frásagnarháttur þar sem línulegri framvindu er hafnað en frásögnin sett fram í formi brotakenndra atburða og svipmynda. Þá er stokkið fram og aftur í tíma og söguatvikin borin á borð fyrir lesandann á svipaðan hátt og þau koma aðalpersónunni í hug; sprottin af tilfinningum augnabliksins og hugrenningatengslum. Þótt slíkur „brotakenndur“ frásagnarháttur sé oft talinn eitt megineinkenni módernískra texta má kannski allt eins halda því fram að hann sé „raunsæislegri“ en línulegur frásagnarháttur þar sem allt gerist í „réttu“ orsakasamhengi og tímaröð því hann standi reynslu okkar nær. Í Rán er frásögnin reyndar alls ekki eins brotakennd og í ýmsum fyrri sögum Álfrúnar, vísa til aðalpersónunnar ýmist með 1. persónufornafninu „ég“ eða 3. persónufornafninu „hún“. Þessi skipti eru nokkuð ör framan af sögu en þeim fækkar eftir því sem á líður frásögnina. Í þekktri skáldsögu Marguerite Duras, La douleur (1985) (titillinn vísar til sársauka) notar Duras þessa sömu aðferð. Þar er augljóst að sögukonan, sem að mestu leyti talar í 1. persónu, grípur til 3. persónufornafnsins þegar það sem hún lýsir er of sársaukafullt fyrir hana að horfast í augu við; 3. persónufornafnið er þá leið sögukonu til að skapa fjarlægð á milli sín og hinna sársaukafullu lýsinga. Ég fæ ekki séð að neitt slíkt sé á ferðinni í sögu Álfrúnar, með einni athyglisverðri undantekningu sem rædd verður hér á eftir. Það má hins vegar geta sér til um að hér sé einfaldlega verið að vísa til þess að sögukonan skoðar sjálfa sig bæði utan frá og að innan; að upprifjun hennar á fortíðinni sé fólgin í því að horfast í augu við atburði fortíðar og ekki síður í því að kannast við þær tilfinningar sem hafa lengst af verið bældar.

Bæling hlýtur alltaf að vera undirliggjandi í frásögn þar sem sögumaður er tregur til þeirrar upprifjunar sem frásögnin byggist engu að síður á. Það er líklega engin tilviljun að sagan hefst á draumi sögukonu sem hún afgreiðir sem: „Tómt rugl auðvitað,“ en bætir síðan við „en þótt draumar séu lítið annað geta þeir samt fengið hjartað í manni til að ólmast líkt og innilokaður fugl í leit að frelsi“ (5). Ekki túlkar sögukona drauminn fyrir okkur þó að henni hvarfli að vísast hefði Freud eitthvað haft um hann að segja (6). Stuttu síðar skellur á mikil regnskúr og Rán óttast að vatn flæði í kjallarann og drífur í að hreinsa rusl sem safnast hefur í niðurfallið: „Hvaðan kom þetta allt? Fatan ofan við brekkuna sem húsið stóð í hlaut að vera sökudólgurinn, áreiðanlegt að flæddi óhindrað um opið hliðið og niður stíginn. Hana verkjaði í bakið en mátti ekki gefast upp. Sannfærðist um að hún væri að gera eitthvað sem hefði táknræna merkingu þótt í svipinn væri henni ókunnugt um hvað það var“ (14). Freistandi er einmitt að lesa kjallara sem á að hættu að fyllast og niðurfallshreinsun sem táknræna tilvísun til undirmeðvitundarinnar og þeirrar sálrænu skoðunar sem á sér stað í bókinni. Rödd í draumnum segir skipandi: „Vertu kyrr! Ekki hreyfa þig!““ (6) og Rán tengir skipunina við bernskuna og móður sína. Tilefnið voru tíðar heimsóknir til saumakonu sem mældi Rán út þegar sauma skyldi á hana nýjar flíkur. Skipunin: „Vertu kyrr“ fær að sjálfsögðu aðra skírskotun þegar haft er í huga að hana dreymir drauminn daginn áður en hún leggur af stað í ferðalagið til Íslands. Þótt hún sé staðráðin í því að fara, verði reyndar að fara til að gera upp dánarbú foreldra sinna með systur sinni, Þóru, þá er ljóst að hún kvíðir fyrir ferðalaginu. Reyndar verður brátt ljóst að Rán er ekki í góðu jafnvægi. Hún er kvíðin, tekur svefnpillur og notar áfengi óspart. Hjónaband hennar og hins svissneska eiginmanns hennar, Hansjürg, er barnlaust og virðist ekki mjög hamingjusamt. Þau hjónin eiga fáa vini, þeir eignuðust börn og barnabörn, voru uppteknir af fjölskyldum sínum og hurfu. Eina vinkonu á Rán, Mado, en samband þeirra virðist ekki byggjast á trausti, að minnsta kosti ekki af hálfu Ránar. Rán er dómhörð í garð Mado, hefur lítinn skilning á skammvinnum ástarsamböndum hennar, líkar ekki hversu „nær- göngul“ hún er (17), fullyrðir að hún kunni ekki að setja mörk á milli sín og annarra (44) og hikar við að láta hana hafa lykil að húsinu sínu þar sem „hún yrði ofan í hverri kirnu“ (23). Upp teiknast mynd af einrænni, lokaðri og bældri konu enda segir Mado við hana: „Þú lifir í eigin heimi“ (25).

Uppgjörið sem Rán fer í gegnum í bókinni er margs konar; hún rifjar upp bernsku sína; hún rifjar upp við fortíð sína á Spáni, ástarsamband sitt við Roberto, spænskan andófsmann; hún rifjar upp tilurð og forsendur hjónabands síns og Hansjürgs. En það sem mestu máli skiptir er hins vegar sú sára lífsreynsla sem er fólgin í því að Rán eignast son (með Roberto) sem verður eftir í umsjón móður hennar og systur á Íslandi þegar hún giftist Hansjürg. Þegar hún ætlar að sækja hann aftur vill drengurinn ekki koma: „Hún hafði tapað þessu stríði og um leið fjölskyldu sinni“ (11). Smám saman verður lesanda ljóst að þessi fórn hefur litað allt fullorðinslíf Ránar, haft áhrif á (barnlaust) hjónabandið og í henni er fólginn sá mikli tregi sem verkið miðlar og gerir að verkum að lesandinn öðlast samúð með sögukonu þrátt fyrir ýmis fráhrindandi persónueinkenni hennar sem birtast aftur og aftur í frásögninni. Móðurhlutverkið sem Rán fékk ekki að gegna litar líf hennar og samskipti hennar við annað fólk. Það er engin tilviljun að Rán dregst aftur og aftur að Maríulíkneskjum dagana sem hún dvelur í Barselóna áður en hún heldur til Íslands. Hún nýtur þess að horfa á Maríu og soninn í steingerðri einingu, en verður bylt við þegar hún rekst á líkneskju sem hún hefur ekki séð áður:

Þá kem ég auga á hana. Marmarinn er hvítur sem mjöll. Maður gæti haldið að líkneskjan hefði verið að koma af verkstæði myndhöggvarans. Nýkomin undan meitlinum. Fögur kona og ung. Ég hef aldrei séð hana fyrr. María er með blæju yfir hárinu og ofan á henni situr kórónan. Skikkjan sem hún ber á öxlunum er tekin saman framan á brjóstinu með stórri nælu. En hendurnar … Vantar á hana hendur … brotnað og aðeins stúfarnir eftir. Ekkert nema stúfar … og sonur hennar horfinn úr fanginu á henni. (233)

Hér verða þau skil í frásagnarhætti sem minnst var á hér að framan; skipt er úr 1. persónu frásögn yfir í 3. persónu þegar sársaukinn lýstur sögukonu:

Hún hörfar afturábak, snýst á hæli og hleypur út. Hleypur niður efstu þrep stigans og fyrirverður sig fyrir tár sem velta niður kinnarnar eins og hnullungar niður hlíð. Hún skáskýtur sér upp að súlu í miðjum stiga þar sem pallur er og hlunkar sér í stól. (233)

Sé lesandinn í vafa um tenginguna við hinn fjarverandi son Ránar, er hún áréttuð í beinu framhaldi: „Litlir fætur í brúnum skóm tifa eftir malarstígnum meðfram Tjörninni. Stígurinn er langur og breiður miðað við mannveruna sem er þar á ferð. Hún er lögð af stað út í heiminn með tóma appelsínflösku í annarri hendi. Þyrfti ekki nema detta … og móðirin tekur undir sig stökk“ (233). Síðar, þegar Rán er stödd á Mírósafninu, virðir hún fyrir sér annað listaverk:

Hendur á striga. Margar hendur. Ég tek gleraugun ofan til að geta lesið hvað myndin heitir: Fljúgandi hendur á leið til stjarnanna. Ég tylli gleraugunum aftur á nefnið. Á myndinni er enga stjörnu að sjá. Ég mundi ekki vita að hendurnar væru á leið til stjarnanna nema af því að það stendur skrifað svart á hvítu. Að vísu er rautt tungl á myndinni. Svo virðist sem hendurnar séu að leita hins ómögulega og vilji ná í það. Ná í það sem aldrei næst. (245)

Hendur sem leita hins ómögulega kallast á við hina handa- og sonarlausu Maríu, sem áður var lýst, og í þessum þræði frásagnarinnar öðlast titill bókarinnar aðra skírskotun en til nafns aðalpersónunnar. Þjáning móðurinnar er rótföst í þeirri staðreynd að hún hefur verið rænd syni sínum, rænd móðurhlutverkinu og þeirri sáru staðreynd að ábyrgðin á því ráni liggur þegar allt kemur til alls fyrst og fremst hjá henni sjálfri.

Á sama hátt og lýsa má skáldsögu Álfrúnar Yfir Ebrofljótið sem áhrifamiklu söguljóði um hörmungar stríðsreksturs mætti líkja skáldsögunni Rán sem tregafullu harmljóði um missi og glötuð tækifæri. Hér mætti einnig minna á sjöunda erindi Sonatorreks Egils Skallagrímssonar:

Mjög hefr Rán
ryskt um mig,
er eg ofsnauðr
að ástvinum;
sleit mar bönd minnar ættar
snaran þátt
af sjálfum mér.

Egill vísar hér til sjávargyðjunnar Ránar sem „átti net það er hún veiddi í menn alla, þá er á sæ komu“, eins og segir í Snorra-Eddu og harmar það hversu harkalega Rán hefur leikið sig með því að taka til sín Böðvar son hans. Margt í þessu erindi má heimfæra upp á sögu Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, að breyttu breytanda, og kannski er því við hæfi að kalla þetta harmljóð Ránar Sonatorrek. Og eins og Agli forðum tekst sögukonu að snerta lesandann í gegnum harm sinn.

 

Soffía Auður Birgisdóttir