Guðjón Friðriksson og Jón Þ. Þór. Kaupmannahöfn sem höfuðborg Íslands I–II.

Hið íslenska bókmenntafélag, 2013.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2014

„Þér vitið vel að sá auður sem hér í Kaupinhafn samanstendur hefur á undangeingnum mannsöldrum grundvallast á Íslandsversluninni. Leiðin til æðstu metorða í þessum danska höfuðstað hefur jafnan legið gegnum Íslandsverslunina. Sú fjölskylda er varla til í þessum stað, að ekki hafi einhver meðlimur hennar brauð sitt frá compagniet. Og ekki hefur þótt öðrum bjóðandi en hæsta aðli, helst konúngbornum mönnum, að þiggja Ísland að léni. Ísland er gott land. Ekkert land stendur undir jafnmörgum auðkýfingum og Ísland.“

Kaupmannahöfn sem höfuðborg ÍslandsOftlega hefur verið vitnað til þessa samtals hins þýðverska kaupmanns Uffelens og Arnasar Arneusar í Íslandsklukku Halldórs Laxness, þar sem Uffelen býður Arnasi landstjórn, fari svo að hann kaupi Ísland eins og honum stendur til boða. Úr þessu samtali hefur setið eftir hugmyndin um hina moldríku kaupmenn sem versluðu við Ísland í skjóli einokunar og hafta, og auðguðust stórkostlega, eins og sjá mátti á gylltum þökum glæsihúsa þeirra í höfuðborginni við Eyrarsund sem við þá er kennd, sjálfri Kaupmannahöfn.

Hingað til hef ég, og sjálfsagt fleiri, litið á þessi orð sem dæmigerðar ýkjur hjá skáldinu; Halldór færi í stílinn af sinni alkunni snilld, en þegar lesið er hið nýja, stóra og glæsilega verk Guðjóns Friðrikssonar og Jóns Þ. Þór, Kaupmannahofn sem hofudborg Islands, þá hvarflar að manni að meiri innistæða hafi verið fyrir orðum skáldsins en maður hugði. Og væri þá ekki í fyrsta sinn sem skáldskapur Halldórs Laxness reynist nær veruleikanum en óskáldlegri texti úr öðrum áttum. Þar kemur nefnilega fram að Íslandskaupmenn voru óvenju stöndugir í gegnum aldirnar og mynduðu á tímabili eins konar yfirstétt í höfuðstaðnum og urðu sumir afar valdamiklir. Orð Uffelens um að einungis mönnum af æðstu stigum hefði hlotnast það veraldlega lán að versla við Íslendinga virðast líka styðjast við nokkur rök.

Það má furða sig á þessu því löngum hefur verið litið á aldirnar frá siðaskiptum og fram á 19. öld sem niðurlægingaskeið í Íslandssögunni; gríðarleg fátækt lá í landi, nánast örbirgð samfara almennri hnignun, og maður á bágt með að sjá að nokkur leið sé að hagnast verulega á svo fátækum lýð. En sú hugsun er líkast til hliðstæð því þegar danskir kunningjar spurðu mann iðulega í miðju svokölluðu góðæri, þegar íslenskir útrásarvíkingar fóru mikinn í að kaupa upp fyrirtæki og stórhýsi gömlu höfuðborgarinnar við Sundið, hvernig í ósköpunum menn gætu orðið svona ríkir á því að selja svo fámennri þjóð eins og Íslendingum banana og epli ódýrt!

Það er óvenjulegt verkefni sem þeir félagar takast á hendur, að skrifa sögu borgar sem gegndi hlutverki höfuðborgar Íslands í nær 500 ár. Þetta er að sönnu mikið verk og í tveimur vænum bindum; fyrra bindið fjallar um söguna frá því Kaupmannahöfn verður höfuðborg um miðja 15. öld og fram til 1814 þegar Danir eru komnir nánast að fótum fram eftir miklar ófarir í styrjöldum og höfuðborgin rústir einar. Síðara bindið fjallar svo um söguna eftir það, dönsku „gullöldina“ sem kölluð er, og fram til 1918 þegar Ísland fær fullveldi og Kaupmannahöfn gegnir ekki lengur margþættu hlutverki höfuðborgar landsins.

Það segir sig sjálft að efnið kallar á visst jafnvægi í efnistökum milli danskrar sögu og íslenskrar, þar sem aðalhættan er kannski fólgin í of þröngu, íslensku þjóðernislegu sjónarhorni. Guðjón og Jón eru greinilega meðvitaðir um þessa hættu og tekst vel að forðast slíkar gryfjur. Annar vandinn snýst líka um að kunna að nýta sér sjónarhorn borgarinnar, leyfa henni að njóta sín á sjálfstæðan hátt ef svo má að orði komast, þannig að falleg og merkileg hús borgarinnar eða atburðir sem ekki tengjast beint mikilvægum þáttum í Íslandssögunni, fái samt umfjöllun þannig að lesandi verði einhverju nær um sögu og þróun borgarinnar, fái tilfinningu fyrir henni sem slíkri. Og er þá ónefndur sá vandi að gæta jafnvægis í frásögninni milli þess að fara hvorki of djúpt í mál né of grunnt, vegna þess að í yfirlitsriti af þessu tagi þar sem urmull persóna er leiddur fram er þessi hætta stöðug og sínálæg; þá gildir að freista þess að teikna útlínur snöggum dráttum, gefa stutt yfirlit en reyna samt að vekja spennu og kveikja í lesanda þannig að áhugasamir geti síðan bjargað sér sjálfir um frekari upplýsingar. Í stuttu máli finnst mér höfundum takast þetta almennt séð prýðilega og til fyrirmyndar hvernig þeir kappkosta að halda ávallt heildarmyndinni, þótt frásögnin fari út og suður, eða réttara sagt í sífellu til Hafnar og heim.

Eins og alkunna er var Kaupmannahöfn sá gluggi sem Íslendingar horfðu á heiminn um – um tíma jafnvel eini glugginn – þangað leituðu þeir mennta og nauðsynja, og þangað leituðu þeir réttlætis eða réttlætið sem þar bjó leitaði þá uppi. Í Kaupmannahöfn er því mikil íslensk saga við næstum hvert fótmál. Einn meginkostur þessa verks er reyndar sú ákvörðun höfunda að horfa víðu sjónarhorni á söguna og þeir leggja sig til dæmis fram um að tengja sögusviðið evrópskri sögu sem er ævinlega í bakgrunni.

Sagan á sér ekki alltaf upphaf og endi í Kaupmannahöfn, heldur ráðast örlög Dana, og þar með Íslendinga, af gangi mála í Evrópu og víðar í heiminum. Það er mikilvægt að draga fram áhrif stjórnmálahræringa í álfunni á stöðu Íslands; svo aðeins eitt dæmi sé tekið sýnist blasa við að pólitískt vanmat Friðriks VI. í Napóleonsstríðunum og deilunum við Breta hafi styrkt stöðu Íslands til muna og þar með flýtt fyrir allri sjálfstæðisviðleitni. Litlu virðist reyndar hafa mátt muna að Danir misstu Ísland alfarið úr höndum sér, eins og til dæmis Noreg. Allt er þetta vel dregið fram í bókunum og í góðu jafnvægi.

Ítarlega er fjallað um verslun og viðskipti enda byggðist Kaupmannahöfn upp sem verslunarmiðstöð, nánast beint úr því að vera virki eins og miðaldaborgir voru gjarnan. Samskiptin við Ísland eru líka einkum á sviði viðskipta. Að loknum þeim lestri hlýtur maður að álykta, nokkuð óvænt, að Íslendingar virðast í raun og veru aldrei hafa verið sérstaklega einangraðir. Óvænt segi ég vegna þess að sú mynd af verslunarmálunum sem Guðjón og Jón draga upp er býsna langt frá þeirri sem lesa mátti í Íslandssögu Hriflu-Jónasar, svo dæmi sé tekið, af sárafátækri þjóð við hungurmörk sem voru allar bjargir bannaðar vegna illra einokunarkaupmanna sem héldu möðkuðu mjöli að landanum og stóðu í vegi fyrir að landsmenn gætu bjargað sér um nokkuð annað. Þessi virðist alls ekki hafa verið raunin, þótt auðvitað felist í þessu sannleikskorn.

Miðað við frásögn Guðjóns og Jóns virðast Englendingar, Frakkar, Hollendingar og fleiri þjóðir voma sífellt við Ísland og landsmenn virðast hafa verið ansi klókir að fara sínu fram þrátt fyrir tilburði Dana til þess að koma í veg fyrir slíka verslun og vernda hagsmuni sína. Það auðveldaði landsmönnum vissulega leikinn að fulltrúar Danakóngs á Íslandi voru fáir og landið stórt. Framan af eru Hansakaupmenn fyrirferðarmestir í Íslandsversluninni, og eitt af því sem athygli vekur er hin mikla uppskipun á fiski af Íslandsmiðum sem er til dæmis í Glückstadt í nærfellt 150 ár. Svo komast Hollendingar reyndar inn í Íslandsverslunina og ná þar sterkri stöðu, meðal annars vegna gríðarlegra skulda Kristjáns IV.

Þann kóng má öðrum fremur kalla föður Kaupmannahafnar: hann gengur vasklega fram í að byggja upp borgina og meðal bygginga sem hann hafði forgöngu um og enn standa má nefna Sívaliturn, Kauphöllina (Börsinn), Rósenborgarhöll, Nýbúðirnar … En þessar miklu framkvæmdir Kristjáns IV. og svo stríðsgleði hans kostuðu sitt og Danir sátu stórskuldugir eftir. Hið stóra fyrirtæki um Íslandsverslunina, Islandsk kompagni, stóð höllum fæti og Hollendingar sættu lagi. Til dæmis eru skip þeirra um allt Ísland árið 1659 þegar ekkert danskt verslunarskip kemur hingað út. Þannig ná þeir að smeygja sér inn í verslunina, þrátt fyrir hávær mótmæli danskra kaupmanna sem telja ekki einungis sínum eigin hag ógnað heldur og „nokkur hundruð manna í Kaupmannahöfn“ sem hafi framfæri sitt af Íslandsversluninni, og allt þetta fólk muni „bíða tjón af því að framandi mönnum sé leyft að versla á Íslandi“ (234), eins og segir í bréfi þeirra til yfirvalda. Þau orð sýna bæði viðhorfið til Íslands og hin mikilvægu óbeinu áhrif Íslandsverslunarinnar í Kaupmannahöfn.

Enginn vafi er þó á því að þessi þróun mála kom Íslendingum til góða. Einn þeirra sem þarna kemst inn í verslunina er Daninn Jonas Trellund frá Ribe, sem var giftur hollenskri konu og með hollenskt fjármagn á bak við sig. Sú framkvæmd minnir reyndar einna helst á kvótakerfið íslenska; Trellund kaupir einkaleyfi til þess að höndla á Íslandi fyrir fúlgur fjár og borgar þær hinum fjárvana Friðriki III. Danakonungi.

Konungur skuldbindur hollensku kaupmennina hins vegar til búsetu í Kaupmannahöfn, sem er klókt hjá honum því það kemur borginni til góða og færir þangað fjármagn. Til að mynda hreiðra margir þeirra um sig í Kristjánshöfn, sem að hluta til er byggð upp með Amsterdam sem fyrirmynd. Jonas Trellund má kannski taka sem dæmi um kaupmann sem virðist hafa tekið sitt hlutverk alvarlega, og verið framtakssamur kaupmaður sem verslar víða um land, einkum á Vesturlandi og við Breiðafjörð. Þar reisir hann til dæmis hús í Bjarnareyjum og hefur fjölda manns í vinnu á því svæði. Hann vingast við Eggert Björnsson ríka á Skarði á Skarðsströnd, og færir honum m.a. sykurtoppa að gjöf sumarið 1663 sem mun í fyrsta sinn sem sykurs er getið á Íslandi.

Annar athyglisverður kaupmaður er á sviðinu um hundrað árum síðar, Niels Rydberg. Hann virðist hafa verið einlægur framfaramaður þótt hann lendi í harðvítugum deilum við Skúla Magnússon fógeta um Innréttingarnar, sem Rydberg virðist ekki hafa haft mikla trú á. Rydberg hefur hins vegar forgöngu um að kenna Íslendingum að verka saltfisk sem átti heldur betur eftir að vera mikilvægt í ljósi þess að saltfiskur verður með tímanum verðmætasta útflutningsafurð landsins. Rydberg lagði að auki til fjölda umbótatillagna í landbúnaðarmálum sem flestar gengu út að auka ræktun á Íslandi, hann vildi jafnvel kanna hvort hægt væri að rækta tóbak á Íslandi, en lagði líka til þangvinnslu, brennisteinsvinnslu og fleira. Þar strandaði, að því er virðist, á andstöðu íslenskra embættismanna – gömul saga og ný. Niels Rydberg var auk þessa lykilmaður í að byggja upp eitt stærsta fyrirtæki Dana á þessum tíma og síðar, Det asiatiske Kompagni, og hagnaðist vel á þrælasölunni frá Indíum – sem er sérstök og afar áhugaverð hliðarsaga í verkinu. Það er reyndar Rydberg sem ályktar sem svo að um það bil tvö þúsund manns hafi lifibrauð af Íslandsverslun í Kaupmannahöfn, en þá voru íbúar borgarinnar í kringum sextíu þúsund.

Umfjöllunin um dönsku kaupmennina, sem höndluðu hér á Íslandi á 19. öld en voru þó búsettir í Kaupmannahöfn, er einnig bæði greinargóð og lifandi. Margir þeirra skildu eftir sig varanleg spor í sínu héraði, þótt verið hafi misjafnlega þokkaðir, eins og gengur. Hér má til dæmis nefna þá Örum & Wulff sem höfðu sína starfsemi einkum á austanverðu landinu og P.C. Knudtzon sem hafði mest umsvif á sunnanverðu Íslandi og var mikill stórgrósser og vel tengdur inn í konungshöllina, var meðal annars fylgdarmaður Friðriks arfaprins, síðar Friðriks VII. konungs, í afbötunarferðinni frægu 1834 sem prinsinn var sendur í til Íslands vegna sinna drykkjuog kvennamála. P.C. Knudtzon stóð líka fyrir ýmsum framfaramálum, lét meðal annars reisa vindmyllur í Reykjavík, flutti inn Bernhöft bakara og reisti undir starfsemi hans Bernhöftstorfuhúsin sem enn standa í Bakarabrekkunni, sem svo var kölluð (nú Bankastræti). En hin hliðin á málum er að Knudtzon var sakaður um einokun, yfirgang og ólöglegt samráð, meðal annars af Jóni Sigurðssyni.

Þannig gengur það til í heiminum … Hér má líka minnast á Gudmannsverslun og Höepfners- á Akureyri, Clausensverslun í Ólafsvík, Sören Jacobsen á Skagaströnd, Tang á Ísafirði, Thomsens Magasín í Reykjavík … og þannig mætti lengi telja. Einnig má nefna Íslendinga sem láta til sín taka í versluninni, svo sem Gísla Símonarson sem sagður var vellauðugur þegar hann lést sviplega í vagnsslysi í Höfn árið 1837, Bjarna Sívertsen í Hafnarfirði, Pétur Thorsteinsson á Bíldudal og fleiri. Sérstaka athygli vakti þáttur um Ólaf Thorlacius á Bíldudal sem vann sig upp úr engu, virðist hafa verið dugmikill og vinsæll, starfrækti verslun bæði í Bíldudal, Stykkishólmi og Ísafirði, og auðgast svo verulega á því að flytja út saltfisk beint til landa við Miðjarðarhaf, áður en hann deyr sviplega af slysförum í Kaupmannahöfn árið 1815.

Kaupmannahöfn – Höfuðborg Íslands. Mynd: RÚV

Við alla þessa verslunarsögu má svo bæta því að mörg hús þessara umsvifamiklu Íslandskaupmanna standa enn í Kaupmannahöfn; flest í Nýhöfn, við Strandgade eða í Kristjánshöfn. Samhengið í sögunni verður þannig ljóslifandi fyrir lesanda, þökk sé ríkulegri myndskreytingu bókanna og koma ljósmyndirnar úr ýmsum áttum, bæði frá fyrri tíð en einnig úr nútímanum. Myndirnar eru eitt hið skemmtilegasta við þetta verk og full ástæða til að hrósa myndaritstjórn og þeirri ákvörðun að myndskreyta verkið svo myndarlega, þótt þær geri verkið helmingi umfangsmeira (og dýrara) en ella. Á hinn bóginn má finna að því að myndatextar eru stundum bein endurtekning á því sem fram kemur í texta, í stað þess að vera nýttir fyrir aukafróðleik sem færa út verkið.

Vegna þess hversu mikil saga er hér undir hafa höfundar tekið þá skynsamlegu ákvörðun að fjalla einungis stuttlega um þá atburði og persónur sem áður hefur verið skrifað hvað mest um í gegnum tíðina. Þar er fyrst og fremst um að ræða þjóðskáld og baráttumenn þjóðfrelsis á 19. öld; Jónas Hallgrímsson og Jón Sigurðsson þar fremstir meðal jafningja. Hins vegar er óhjákvæmilega dvalið við merka atburði og persónur Íslandssögunnar í Kaupmannahöfn; eldsvoðann mikla 1728 þegar safn Árna Magnússonar brann og stuðst þar við Jón Ólafsson Grunnvíking, sagt frá Árna frá Geitastekk og Jóni Indíafara, þeim lærðu Svefneyingum og upphafi íslenskrar fræðastarfsemi í Höfn, og sömuleiðis sagt frá Jóni Eiríkssyni konferensráð, uppgangi hans og sviplegum afdrifum.

Reyndar hefði vel mátt fara dýpra í stórmerkan feril Jóns Eiríkssonar, sem nú mun mörgum gleymdur, en enginn Íslendingur mun líklega fyrr eða síðar hafa notið jafn óskoraðs trausts og álits danskra stjórnvalda. Um Jón skrifaði reyndar Sveinn Pálsson merka ævisögu, en sú hefur verið ófáanleg í aldir. Á hinn bóginn fjalla höfundar rækilegar um annan gagnmerkan Íslending, Finn Magnússon leyndarskjalavörð, enda leitun á jafn dramatískri sögu um upphefð og fall, þótt um hann hafi oft verið fjallað, bæði í fræðiritum og skáldskap – síðast líklega Aðalgeir Kristjánsson í bók sinni Nú heilsar þér á Hafnarslóð sem rétt er að nefna og geymir mikinn fróðleik. Örlagasaga Finns prófessors býr líka yfir slíkri dýpt sem saga um gæfu og gjörvileika, hrifnæmi, hollustu og vissa einfeldni að hún er í senn heillandi og svolítið dæmigerð fyrir þegna smáþjóðar í stórri borg fyrr og nú.

Stuttlega er líka fjallað um menn eins og Rasmus Rask, Baldvin Einarsson, Carl Christian Ravn, Gísla Brynjúlfsson og Konráð Gíslason, þótt í öllum tilvikum blundi undir miklu dramatískari sögur en höfundar hafa tækifæri til þess að gera fullnægjandi skil. Kærkominn og maklegur er hins vegar rækilegri þáttur um mann sem dvaldi með fleiri kynslóðum í Höfn og er gleymdari en hann á skilið; Magnús Eiríksson, einatt nefndur frater, sá frjálslyndi og frumlegi guðfræðingur sem háði sína mögnuðu baráttu við Martensen biskup, sem hann taldi stórhættulegan úlf í sauðargæru, og var í gagnrýni sinni á ýmsan hátt á sömu nótum og hinn miklu frægari samtímamaður, Sören Kierkegaard. Kierkegaard vildi þó ekkert af Frater vita, að því er virðist af því hann þótti hálfskrýtinn og ekki nógu fínn félagsskapur. Af þessu öllu er mikil ósögð saga. Svolítið má sakna meiri umfjöllunar um Benedikt Gröndal, þótt víða styðjist höfundar við lýsingar hans á lífinu í Kaupmannahöfn, sem og Jón Hjaltalín landlækni og hinn forkostulega Þorleif Guðmundsson Repp. En enn skal ítrekað að sá á kvölina sem völina.

Ég tala hér um höfundana í fleirtölu og það segir sína sögu. Þeir standa sameiginlega skráðir fyrir öllu verkinu, í stað þess að hvorum um sig séu merktir tilteknir þættir. Þar með taka þeir áhættu því dæmi eru um að slík verk verði líkt og klofin vegna ólíkra efnistaka og stíls. Það getur valdið hvimleiðri innri skekkju sem spillir heildarmyndinni. Hér hefur höfundum hins vegar tekist vel að stilla saman sína strengi, og þótt kunnugir fyrri verkum þeirra þykist stundum sjá fingraför annars hvors á texta, þá er sterkur og góður heildarsvipur á verkinu.

Sem fyrr sagði hefur hingað til í skrifum um Íslendinga í Kaupmannahöfn mest verið fjallað um fræðimenn, listamenn, skáld og baráttumenn fyrir sjálfstæði. Af þeim sökum er einna mestur fengur í umfjöllun þessa verks um iðnaðarmenn og handverksmenn af ýmsu tagi sem sóttu menntun sína til Hafnar. Hér kemur til dæmis fram að á 19. öld námu alls 270 smiðir iðngrein sína í Kaupmannahöfn, en jafnframt sóttu landsmenn þangað til að nema prentverk, málaraiðn, ljósmyndun, klæðskeraiðn, hattagerð og saumaskap, járnsmíði, úrsmíði, skósmíðar, gull- og silfursmíði, bakaraiðn og bókband, svo það helsta sé nefnt. Eins og nærri má geta er þetta mikil saga og þau gífurlegu áhrif sem nám þessa fólks hafði á iðnvæðingu Íslands og alla framþróun í þjóðfélaginu blasa við.

Fólk sagði ég, því þótt karlaslagsíðan sé allmikil framan af þessari sögu, af eðlilegum ástæðum því konur fyrri tíma voru ekki taldar eiga mikið erindi út fyrir landsteinana, þá koma þær smám saman inn í seinna bindið. Fyrsta konan sem lýkur iðnnámi er Ásta málari árið 1907, þekkt af endurminningum sínum sem Gylfi Gröndal skráði og frásögnum Þórbergs af störfum fyrir hana rigningasumarið mikla, en athyglisverð er líka sagan af Ragnheiði Berthelsen sem lærir til snikkara í Höfn fyrir aldamótin 1900 og lýkur svo prófi í húsgagnasmíði, og er á þeim tíma eina konan bæði í Kaupmannahöfn og Reykjavík sem vinnur þar að iðngrein sinni. Þá er vikið að þeim löndum okkar í Höfn sem sannarlega var þagað um og séð til að kæmust lítt inn í söguna, en það voru fátækar alþýðustúlkur sem stórbændur eða höfðingjar gerðu barnshafandi og sendu þær svo utan. Eitt slíkt launbarn var Emil Jörgensen, skírður eftir Emil Nielsen stýrimanni sem vék góðu að móðurinni, Mörtu Eiríksdóttur sem varð snortin af hjálpsemi hans. Emil Nielsen varð síðar fyrsti forstjóri Eimskipafélags Íslands. Allur gangur var á því hvort þessar stúlkur skiluðu sér aftur til Íslands, sumar ílengdust og áttu ekki allar góða vist.

Einn lærdómur af þessu ágæta verki Guðjóns og Jóns er að löngu tímabært sé að skoða rækilega hin miklu dönsku áhrif á íslenskt hvunndagslíf opnum huga. Þetta verk tæpir á mjög mörgum þáttum sem brýnt er að rekja áfram og gæti orðið liður í að endurmeta áhrif Dana á líf okkar og starf hér á landi. Á meðan sjálfstæðisbaráttan geisaði, og löngum seinna hafa þau verið feimnismál, „dönskuslettur“ hafa táknræna merkingu og skírskota ekki bara til málfars, og má skýra það sálfræðilega sem minnimáttarkennd; þörf smáþjóðar fyrir að réttlæta sig og stappa í sig stálinu. Af hverju að réttlæta sig? Eitt snýr að lýðveldisstofnuninni árið 1944, en miklum fjölda Dana þótti hún nánast rýtingur í bak hersetinnar þjóðar og Íslendingar hefðu betur beðið þar til stríðinu lyki og haft af því meiri sóma. Einkum fannst þeim framkoman slæm gagnvart konungi Íslands, Kristjáni 10., sem staðið hafði í ströngu gagnvart Þjóðverjum og verið þjóð sinni innblástur og fordæmi í hersetunni. Ýmsir menntamenn hérlendis voru og þessarar skoðunar, en máttu sín lítils þar sem lítið rými var gefið til yfirvegaðrar rökræðu um slíkt milliríkjamál, eins og jafnan á Íslandi. Enda kom í ljós að Íslendingar kusu að fá sitt frelsi samstundis, skiljanlega því hver segir nei við frelsi?

Þessi tími er nú liðinn. Ástæðulaust er að rækta með sér samviskubit vegna þessa, en að sama skapi er mikilvægt að við förum að meta Dani og margvísleg góð áhrif þeirra á land okkar og lýð að verðleikum. Nýlendutíminn er að baki. Fjölmargir Danir settust hér að og gerðust Íslendingar og gjarnan mætti huga meira að þeim þætti Íslandssögunnar – sögu Dana á Íslandi. Vel mættum við minnast þess oftar hversu vel Danir reyndust okkur í handritamálinu og er þeim til ævarandi sóma. Það er einstakt í síðari tíma sögu að herraþjóð afhendi fyrrum nýlendu sinni þeirra menningararf til baka. Sjá menn til dæmis fyrir sér að Bretar muni einhvern tíma taka til í British Museum og afhenda nýlendunum aftur alla fjársjóði þeirra til varðveislu? Þó er þetta algjörlega hliðstætt dæmi og til marks um stórmennsku Dana í okkar garð.

Við ættum líka að hætta að láta þá gjalda þess að vera stundum sú þjóð sem segir okkur til syndanna; sú þjóð sem sér í gegnum íslenskan moðreyk og minnir svolítið á foreldri að áminna börn sín sem fara offari. Í aðdraganda hrunsins voru Danir manna gagnrýnastir á íslenska efnahagsundrið, og varð tilefni ómaklegra skeytasendinga í þeirra garð, og þeir virðast líka hafa tekið sér krítíska stöðu um ágæti uppbyggingarinnar eftir hrun. Þvert á móti ber okkur að taka fullt mark á aðvörunarorðum þeirra – sem og annarra – minnug þess að vinur er sá er til vamms segir.

Þetta ágæta verk þeirra Guðjóns Friðrikssonar og Jóns Þ. Þór er, jafnhliða því sem það er barmafullt af fróðleik og skemmtun, gott og mikilvægt framlag til bættra gagnkvæmra samskipta við Danmörku.

Páll Valsson