Þór Magnússon. Íslenzk silfursmíð I & II.

Þjóðminjasafn Íslands, 2013, 400 bls + 287 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2014

Íslenzk silfursmíð I & IIEftir því sem árin líða er mér æ meiri ráðgáta hvaða mælikvarða dómnefndir styðjast við þegar þær tilnefna íslenskar fræðibækur til viðurkenninga eða verðlauna. Þess skal getið að sjálfur hef ég nokkrum sinnum orðið aðnjótandi slíkra viðurkenninga og því síður en svo óánægður með minn hlut í því lotteríi. Hins vegar varð nýlegt tilfelli mér sérstakt umhugsunarefni. Í fyrra kom út tveggja binda verk Þórs Magnússonar, fyrrverandi þjóðminjavarðar, um íslenska silfursmíð. Þetta verk, sem óhikað má kalla grundvallarrit um silfursmíð og silfursmiði á landinu frá upphafi landnáms og til vorra tíma, hefur Þór unnið að mestan hluta starfsævi sinnar. Burtséð frá ótvíræðu heimildargildi sínu er ritið sérstakt augnayndi í hvívetna, smekklega hannað og prýtt ljósmyndum Ívars Brynjólfssonar.

Nú bregður svo við að þegar fræðibækur eru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2013, er Íslensk silfursmíð fjarri góðu gamni, ásamt öðru tímamótaverki sem Þjóðminjasafnið stendur að og fjallað var um nýlega í TMM, bók Ingu Láru Baldvinsdóttur um Sigfús Eymundsson. Þá er nærtækast að álykta að Þjóðminjasafnið hafi, af ástæðum sem ég fæ engan botn í, ákveðið að tilnefna þessi tvö rit ekki til bókmenntaverðlaunanna. Og eins og alþjóð er kunnugt koma ótilnefnd rit ekki fyrir augu dómnefnda. Er þetta skýringin á fjarveru Íslenskrar silfursmíðar? Þess má geta að útgefandi þarf að inna af hendi greiðslu fyrir hvert verk sem hann tilnefnir.

Síðan víkur sögunni að viðurkenningum Hagþenkis fyrir árið 2013, sem snúast um tíu úrvals fræðirit, sem dómnefnd á vegum þess ágæta félags telur lofsverð; eitt þeirra hlýtur svo eftirsótt peningaverðlaun félagsins. Þar var rit Ingu Láru að sönnu inni í myndinni, en aftur var horft framhjá riti Þórs. Og þá er vissulega tilefni til vangaveltna. Getur hugsast að rit Þórs þyki ekki nógu alþýðlegt eða nógu mikið fyrir augað? Tæplega fer framhjá neinum sem hefur bindin tvö um íslenska silfrið undir höndum að markhópur verksins er ekki áhugafólk í leit að auðmeltri upplýsingu eða einskærum myndskreytingum á gulli og silfri. Til að mynda er síðara bindið nánast ómyndskreytt upptalning þeirra 530 gullsmiða sem Þór hefur fundið heimildir um að hafi starfað hér á landi, ásamt viðauka um tæplega 30 íslenska gullsmiði sem störfuðu eða ílentust í Danmörku.

Þá held ég að fullyrða megi að fyrra bindið, með sinni nákvæmu útlistun á sögu íslenskrar silfur- og gullsmíði í rúmlega eitt þúsund ár, lýsingum á smíðaefni og aðferðum, kirkjusilfri, kvensilfri, borðbúnaði og reiðtygjum og aðskiljanlegum öðrum smíðisgripum, ásamt með viðaukum um leturgröft, farandsala og gullsmíðar í seinni tíð, eigi fyrst og fremst erindi við fagog safnafólk. En til þessa hefur sérhæfing ekki verið talin ljóður á fræðiriti, ekki síst einstæðu riti eins og því sem hér er til umfjöllunar.

Þakklátt handverk

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að ritnefnd bókarinnar hafi verið óþarflega sparsöm þegar kom að myndskreytingu efnisins. Þá á ég ekki einvörðungu við fjölda mynda, heldur einnig hönnun og umbrot verksins. Fátt listhandverk er eins þakklátt þegar kemur að útgáfu á bók eins og silfur-, gull- og koparsmíði og kemur þar til bæði blæbrigðaríkur málmurinn og handbragð högustu smiða, þar sem hver og einn hefur sín persónueinkenni.

Danir hafa gefið út bækur um sína silfursmíð, þar sem smágervir hlutir fá að njóta sín jafnt í heilsíðumyndum sem uppstækkuðum smáatriðum; að handfjatla þessar bækur er eins og að vera með gripina sjálfa í höndunum. Feginn hefði ég viljað sjá fleiri uppstækkaðar myndir af ótrúlegri fjölbreytni mynsturgerðarinnar í íslensku skúfhólkunum, fleiri stórar litmyndir af margbreytilegum smáatriðunum í kvensilfrinu, dittó af teikningunni í smáhlutum, svo ekki sé minnst á myndir þar sem sæist til fullnustu sú stöðuga ummyndun efnis og forma sem á sér stað í víravirkinu og loftverkinu í tímans rás. Þannig skynjar áhorfandi/lesandi líka betur skapandi þátt þeirrar sögu sem sögð er í bók Þórs.

Ekki er heldur hægt að segja að bók hans fái mikinn myndrænan stuðning af sýningunni sem sett var upp í tilefni af útgáfu hennar í Bogasal Þjóðminjasafnsins. Í stað þess að gera áhugafólki kleift að fylgja eftir ýmsu því sem fjallað er um, til dæmis að skoða grannt þróunarsögu kaleika, breytilega formgerð hnífa og gaffla eða einfaldlega að bera saman gamalt handverk og nýtt, bregður sýningarstjórinn, Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður, á það ráð að setja saman eins konar kúnstverk, innsetningu í glerbúri. Hún er gerð úr svífandi, hangandi og misjafnlega útafliggjandi silfri úr fórum Þjóðminjasafnsins, sem raðað er saman eftir tegundum, en að því er virðist án minnsta tillits til sögu og samhengis. Upplýsingar um staka gripi eru ekki fyrirliggjandi á sýningunni og flesta þeirra er ógerlegt að skoða í nálægð.

Bók Þórs hefur að geyma ógrynni markverðra staðreynda. Fyrir það fyrsta er með ólíkindum hversu margir handverksmenn koma við sögu silfursmíðarinnar í aldanna rás, hátt á sjötta hundrað, og þá er ekki einvörðungu átt við þá sem smíðuðu úr gulli og silfri, heldur einnig úr kopar, látúni, járni og öðrum málmblöndum. Af skiljanlegum ástæðum höfðu sárafáir þeirra tök á að stunda þessar smíðar einvörðungu, heldur unnu að þeim meðfram búskap, útróðrum og öðrum störfum.

Þá er einnig áhugavert að lengi vel mátti telja á fingrum annarrar handar þá smiði sem hlotið höfðu formlega starfsmenntun, t.d. í Kaupmannahöfn; flestir lærðu fagið af öðrum sjálfmenntuðum silfursmiðum í sama byggðarlagi. Það er ekki fyrr en á 19. öld að Íslendingar fóru í einhverjum mæli að afla sér fagþekkingar hjá silfursmiðum í öðrum löndum, fyrst þá fóru þeir að stimpla – merkja – smíðisgripi sína. Þessi vöntun á stimplum hefur án efa torveldað eftirgrennslan Þórs.

Lausleg könnun á starfsvettvangi smiðanna, eins og honum er lýst í síðara bindi verksins, leiðir í ljós að langflestir störfuðu þeir í Reykjavík og nágrenni – sem engum þarf að koma á óvart – en að staðaldri var næstflesta smiði að finna á Suðurlandi og austur undir Höfn í Hornafirði. Þar á eftir komu svo Norðlendingar: Akureyringar, Þingeyingar og Skagfirðingar. Á sumum – og ólíklegum – stöðum voru hlutfallslega margir smiðir að störfum, t.d. í Vestmannaeyjum, á Vestfjörðum og Snæfellsnesi. En þetta er sosum ekki skotheld statístík, því könnunin leiðir einnig í ljós að margir þessara smiða fluttu sig milli staða, stöldruðu kannski við í Reykjavík og unnu þar að iðn sinni um tíma.

Brotið, rænt og týnt

Það var mál margra útlendinga sem ferðuðust um landið að silfursmíð Íslendinga væri „einkar falleg“, svo vitnað sé í Nicolai Mohr, færeyskan náttúrufræðing sem var hér 1780–81 á vegum dönsku stjórnarinnar. Daninn Nils Horrebow, sem hér dvaldi á árunum 1749–51, hrósaði íslensku kirkjusilfri í hvívetna, taldi það vandaðra en það sem finna mátti í dönskum þorpskirkjum.

Í lok 18. aldar fór Bretinn John Clevely einnig fögrum orðum um hérlenda silfursmíð. En eins og Þór getur um (bls. 30) þótti Mohr einnig sérkennilegt hve þessir hagleiksmenn á málma voru hirðulausir um verkfærakost og verkmenningu þjóðar sinnar. Vitnisburður útlendinga á borð við Horrebow, Mohr og Clevely er mikilvægari en ella vegna þess hve mikið hefur gengið á gullog silfurgripi landsmanna í aldanna rás. Hefði varðveist þriðjungur þeirra góðmálma sem fluttir voru úr landi í formi gripa eða brotasilfurs er viðbúið að heildarmyndin liti öðruvísi út.

„Gullgripir eru nánast engir til lengur en útdeilingaráhöld frá miðöldum, kaleikar og patínur úr silfri, eru enn til í kirkjum og söfnum og má telja sumt það með nokkurri vissu íslenzkt,“ segir Þór (bls. 34). Heimildir frá miðöldum gefa til kynna að Íslendingar hafi snemma byrjað á því að brjóta niður gull- og silfurgripi og nota sem gjaldmiðil, enda var það alsiða í Evrópulöndum. „Það sem bilað var eða hæfði ekki lengur tízku eða breyttum tíðaranda, eða var ofaukið, svo sem aukaáhöld í kirkjum, var óhikað brotið í deiglur málmsmiða og var þá sjaldnast hirt um listgildi eða minjagildi hluta, og sízt þeirra sem gamlir voru.“ (bls. 27)

En niðurlægingartímabil íslenskrar silfursmíðar hófst fyrir alvöru í kjölfar siðaskipta, er Kristján konungur III hóf að sölsa undir sig eignir klaustra og biskupsstóla. Skálholtsstóll og Hólastóll voru tilneyddir að senda konungi tunnur af silfri, og var margt vandaðra kirkjugripa meðal þess. Á höfðingjasetrum rupluðu konungsmenn og rændu, m.a. á einum stað „gyllinum, skálum og staupum“ og rifu jafnvel nisti af kvenfólki (bls. 36). Er það mat Þórs að siðaskiptin hafi orðið til þess að gullsmíði lagðist af að mestu á landinu, og hafi ekki náð sér að marki fyrr en á 18. öld.

En Kristján III og siðbótin voru ekki einu skaðvaldarnir. Síðari konungar og „plattfurstar“ í Danmörku kröfðust silfurs af Íslendingum í hvert sinn sem þeir stóðu í stríði eða voru blánkir. Með reglulegu millibili riðu danskir og enskir ribbaldar um héruð, rændu stöndugum Íslendingum og kröfðust lausnargjalda fyrir þá í silfri, svokallaðir „Tyrkir“ gerðu strandhögg víða á landinu og stálu silfri; silfur eyðilagðist og í talsverðum mæli í eldsvoðum á heimilum ríkisfólks (bls. 39). Til dæmis er talið að mikið af gömlu silfri hafi farið forgörðum í bruna að Hverfisgötu 34 í Reykjavík svo seint sem 1912. Loks má geta þess „umtalsverða magns silfurgripa, sem fór úr landi á 19. öld vegna söfnunar útlendinga og erlendra safna, en þá var frekast um að ræða að menn sæktust eftir eigingildi gripanna sjálfra,“ ( bls. 43). Í lok þessarar hrakfallasögu íslenska silfursins, sem Þór rekur skilmerkilega í bók sinni, þakkar lesandinn eiginlega sínum sæla fyrir þá silfursmíð sem stóð af sér þessi áföll.

Ýmislegt ranghermi varðandi íslenska silfrið er hér skilmerkilega leiðrétt. Sjálfur stóð ég í þeirri trú að víravirkið hefði komið hingað frá Noregi með fyrstu landsnámsmönnum og verið við lýði allar götur síðan. Þór staðhæfir að ekki finnist dæmi um íslenskt víravirki frá fyrri hluta miðalda, það sé fyrst nefnt hér á landi um 1400. Elstu víravirkisgripir með svokölluðu „dregnu“ og „skrúfuðu“ virki eru frá 18. öld, og hin eiginlega gullöld hins „klassíska“ víravirkis á Íslandi er 19. öldin. Þá var það líka í tísku víða um Norðurlönd og víða í Evrópu. Þá er því líka mótmælt að víravirkið sé einhæft, heldur séu tilbrigði býsna mörg frá einum smið til annars. Undir þetta má vissulega taka. Í nútíð hefur margvísleg hantéring ungra íslenskra gullsmiða á víravirkinu staðfest að það er til margra hluta nýtilegt. Áhrifa þess gætir m.a.s. í öðru og óskyldu íslensku handverki, eins og menn geta sannfærst um með því að gera sér ferð í hönnunarverslanir á borð við Kraum.

Heiðurssess í sögunni

Kirkjusilfrið var tvímælalaust vandaðasta silfursmíð Íslendinga; þar komu oftast við sögu þeir smiðir sem hlotið höfðu besta menntun meðal Dana, Svía, Þjóðverja, jafnvel Skota. Að sönnu liggur tæplega nógu mikið eftir hvern smið til að hægt sé að hafa mörg orð um listræn sérkenni á verkum hans. Af nákvæmum samtímalýsingum að dæma virðist þó Þorsteinn Skeggjason, höfundur Þorláksskríns í Skálholti, hafa verið afburðamaður í faginu á 12. öld. Hins vegar er ekki fyrr en á 19. öld að við fáum dæmt silfursmiði af verkum þeirra. Taka má undir það með Þór að Helgi Þórðarson á Brandstöðum í Blöndudal (1761–1828) hafi verið með allra merkustu og mikilvirkustu silfursmiðum síns tíma. Annar ötull og listfengur silfursmiður á 19. öld var Indriði Þorsteinsson á Víðivöllum í Fnjóskadal (1814–1879), höfundur altarisáhalda í a.m.k. ellefu kirkjum á Norð-Austurlandi, en Þorgrímur Tómasson á Bessastöðum (1782–1849) stendur honum ekki langt að baki hvorttveggja að afköstum og listfengi. Þessir þrír silfursmiðir, og ugglaust einhverjir fleiri, verðskulda heiðurssess í sögu íslenskra sjónlista á 19 öld.

Spyrja má um hlut kvenna í íslenskri silfursmíð fyrri tíma, ekki síst vegna þess að þær urðu aðnjótandi margra fegurstu smíðisgripanna. Skemmst er frá því að segja, að það sama gildir hér og erlendis, „að konur sjást fyrrum afar sjaldan, eða nánast aldrei, nefndar í sambandi við handverk annað en tóvinnu og fatagerð á heimilum“ (bls. 78). Það er fyrst um aldamótin 1900 að íslenskra kvenna er getið í sambandi við gullog silfursmíði. Það er lærdómsríkt að bera þessa þróun silfursmíðar saman við það sem gerðist í ljósmyndun, þar sem ekki var fyrir hendi rótgróin karllæg hefð. Að því er kemur fram í samantekt Ingu Láru Baldvinsdóttur voru konur um þriðjungur starfandi ljósmyndara á 19. öld.

Ein kona gæti þó hafa komið við sögu silfursmíða til forna, nefnilega Margrét hin haga, sem var í Skálholti um aldamótin 1200. Að vísu er hennar ekki afdráttarlaust getið í tengslum við slíkar smíðar, en hún var oftlega kölluð „oddhögust manna á Íslandi“ og fengin til að vinna með sjálfum Þorsteini Skeggjasyni að áðurnefndu Þorláksskríni. Því er rökrétt að ætla að Margrét hafi einnig kunnað eitthvað fyrir sér í silfursmíðum. Ingibjörg Einarsdóttir frá Tannstaðabakka (1867– 1936) er talin vera fyrsta konan sem starfaði sem gullsmiður hér á landi, en hún lærði iðnina af föður sínum. Fyrst kvenna til að ljúka sveinsprófi í gullsmíði var hins vegar Sigríður Ásgeirsdóttir frá Hvítanesi í Skötufirði (1903– 1981). Vestfirðingar mættu huga að því að reisa þessum tveimur dugmiklu brautryðjendum minnisvarða á Ísafirði, þar sem báðar voru starfandi um tíma.

Fyrir utan alla aðra kosti, má líta á bók Þórs sem mikilvægt framlag til endurmats á listhandverki fyrri tíma, ekki síst mikilvægum vaxtarbroddum sjónlistarinnar á 19. öld, sem að ósekju hafa verið allt of lengi í skugga akademískrar myndlistar, málverksins og höggmyndarinnar.

 

Aðalsteinn Ingólfsson