Einar Kárason. Stormfuglar.

Mál og menning, 2018. 124 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2019

Stormfuglar, stutt skáldsaga eftir Einar Kárason, segir frá baráttu skipshafnar á íslenskum togara í fárviðri um vetur á Nýfundnalandsmiðum. Sagan er byggð á atburðum er urðu í febrúar 1959 þegar fjöldi skipa lenti í erfiðleikum á þeim slóðum. Sjávarhiti var undir frostmarki og þegar skipin fengu á sig norðanstorm hlóðst á þau ísing og fyrr en varði var ekki hægt að snúa þeim undan veðrinu og setja stefnu á hlýrri hafssvæði. Menn stóðu sólarhringum saman við að berja klakann en urðu jafnframt að halda áfram að andæfa upp í norðanbál, hörkufrost og 18 til 20 metra ölduhæð. Einn íslenskur togari, Júlí frá Hafnarfirði, hvarf með 30 manna áhöfn. En fyrirmynd skipsins í sögunni er Þorkell máni frá Reykjavík. Hann var fulllestaður og mjög siginn þegar fárviðrið brast á. Þegar reynt var að snúa honum undan vindi lagðist hann nánast á hliðina og í rauninni unnu skipstjóri og vélamenn mikið afrek þegar þeim tókst að rétta skipið við.

Stormfuglar

Í bókinni heitir skipið Máfurinn; það er eins konar skávísun í nafn fyrirmyndarinnar. Togarar Bæjarútgerðar Reykjavíkur báru á þessum árum m.a. nöfn landnámsfjölskyldunnar í Reykjavík; móðir Þorkels mána var Hallveig Fróðadóttir, sjómenn kölluðu hennar skip Veiguna, en son hennar Mánann. Á einum stað í bókinni heitir togarinn jafnvel því nafni (bls. 46), líklega fyrir misritun. Þó að margar persónur bókarinnar eigi sér raunverulegar fyrirmyndir er nöfnum breytt til að höfundi gefist svigrúm til að færa söguna í skáldlegan búning. Það er því í rauninni rökrétt að breyta nöfnum skipanna líka: Gerpir frá Neskaupsstað heitir Garpur í bókinni, Hafnarfjarðartogararnir Júní og Júlí heita þar fornum mánaðanöfnum, Skerpla og Harpa. En Marz frá Reykjavík, sem var nefndur eftir plánetunni og stríðsguðinum forna, ber heitið Póseidon í sögunni. Það skip kom til liðsinnis við Mánann þegar þeir sem enn stóðu uppi voru sumir að því komnir að gefast upp og fylgdi honum síðan heimleiðis. Þó að væntanlega hefði lítið verið hægt að gera til að bjarga mönnum ef skipið hefði farið niður þegar veðrið var sem verst þá veitti nærvera Marzins þeim andlegan stuðning.

Einhvern tíma um miðjan áttunda áratuginn minnist ég þess að Njörður P. Njarðvík benti nemendum sínum í kennslustund í Árnagarði á þá einkennilegu staðreynd hve íslenskir rithöfundar hefðu lítið sinnt því að skrifa skáldverk um sjómennsku. Þegar sjómenn birtust í skáldsögum væru þeir ævinlega staddir í landi. Skáldsögur hefðu yfirleitt ekki skip að sögusviði; sveitin væri aftur á móti mjög algengt sögusvið. Njörður átti sjálfur eftir að leggja sitt af mörkum, stutta skáldsögu sem gerist um borð í togara, Hafborg (1993). En hvers vegna skrifuðu íslenskir höfundar ekki skáldverk um þetta efni? – Má vera að það hafi verið af því að önnur bókmenntagrein hafði þegar helgað sér þetta sögusvið, „sjómannabækurnar“ svokölluðu.

Sjómannabækur, ævisögur sjósóknara og ýmsar frásagnir af hrakningum á sæ, voru afar vinsælar bókmenntir mestalla tuttugustu öldina og veigamikill hluti hinnar sterku hefðar svaðilfara- og mannraunafrásagna hér á landi. Tveir höfundar höfðu m.a. gert Nýfundnalandsveðrinu 1959 skil í ritröðum um þess háttar efni á undan Einari Kárasyni, Steinar J. Lúðvíksson í 14. bindi af sjóslysasögu sinni, Þrautgóðir á raunastund (1982), og Óttar Sveinsson í Útkalli, 22. Bindi (2015). Ljóst er að frásagnir þeirra hafa orðið Einari notadrjúgar og hann þakkar raunar Steinar J. Lúðvíkssyni sérstaklega fyrir veitta aðstoð.

Önnur skýring gæti verið sú að skip á sjó er veröld útaf fyrir sig. Þar ríkir sérstök menning og tungutak; sjómenn skipta um skipsrúm þegar svo ber undir en ganga þar að öllum meginatriðum vísum. Rithöfundar þurfa að þekkja þennan heim nokkuð vel til að geta skrifað um hann. – Auðvitað á það við um hvert viðfangsefni að höfundar verða að kynna sér það til að geta skrifað um það á sannfærandi hátt en sjómennskan er eins og framandi land; það skrifar engin ferðabók um slíkan stað án þess að hafa farið þangað sjálfur. Heimur skipsins er á sífelldri hreyfingu, háður veðri og vindum, býr yfir eigin hljóðum og lykt. Um borð er einangrað samfélag sem lýtur ströngum leikreglum, flestum óskráðum, oftast eingöngu skipað körlum og sumum ekki beint hversdagslegum. Einar upplýsti í viðtölum eftir útgáfuna að hann byggi enn að þeirri reynslu að hafa verið dálítið til sjós á yngri árum, m.a. farið túr á síðutogara þegar hann var um tvítugt, og skyldi ekki gert lítið úr mikilvægi þess.

Þetta skipti jafnvel meira máli á þeim árum þegar skip og tækni voru ófullkomnari en nú og fjölmiðlar höfðu minni tök á að sýna fólki í landi hvernig þessi heimur liti út. Sjómannastéttin var aftur á móti talsvert fjölmenn um og upp úr miðri tuttugustu öld, margir skólapiltar sóttu sjó á sumrin og það var jafnvel ekki óþekkt að konur legðu fyrir sig sjómennsku. Alls staðar mátti því reikna með að rekast á fólk sem hafði kynnst heimi sjómennskunnar nógu vel til að geta gagnrýnt þann höfund sem hefði slysast til að hafa hausavíxl á einhverjum lykilatriðum.

Togaramenn nútímans hafa líklega fæstir mikla reynslu af síðutogurum. Þegar þessir atburðir gerðust var raunar að hefjast hnignunarskeið þeirrar útgerðar og bókin staðfestir það á sinn hátt. Síldveiðar gáfu meira í aðra hönd, útilegur við Grænland heilluðu ekki fjölskyldumenn; vertíðarbátar á Íslandsmiðum voru aftur á móti fjöldamargir.

Nú er þetta allt breytt; Hagstofan segir að „bændur og fiskimenn“ hafði verið 5700 árið 2017, hafði fækkað um helming frá upphafi tíunda áratugar síðustu aldar. Og nú er ekki mikið um að skólafólk geti skroppið á sjó á sumrin og heyjað sér þannig reynslu sem gæti síðar nýst til að skapa skáldverk.

Stormfuglar er sem fyrr segir stutt skáldsaga, nóvella. Hún gerist aðallega á tveimur tímasviðum; strax í upphafi er lesandi staddur í háskanum miðjum þar sem menn berjast við ísingu með öllum tiltækum verkfærum. En inn í þá atburðarás eru síðan fleyguð kyrrlátari frásagnarbrot: fjölskyldan í landi, kveðjustund á bryggjunni, löng sigling. Aðdragandi og sviðsmynd eru þannig dregin upp fyrir lesanda og þar skipta smáatriðin máli: akkerið sem slæst stöðugt utan í kinnunginn þegar skipið klýfur ölduna og heldur vöku fyrir þeim sem liggur í koju fyrir innan; augnablikshvíld með sígarettu á meðan menn bíða undir brúarvængnum eftir að hlerarnir komi upp o.s.frv. Lesandi fær jafnvel á tilfinninguna að þetta séu svipmyndir eða hugrenningar sem sögumaður dvelur við á stýrisvakt eða meðan hann stendur með barefli að brjóta ís tímunum saman. Í sögulok, þegar kyrrð hefur færst yfir, er stuttlega drepið á það hvað varð um skipverjana eftir að í land var komið.

Einar skrifar í löngum málsgreinum sem e.t.v. hefði mátt ætla að gerðu textann tyrfinn en svo er ekki hér. Þó að málsgreinar verði oft býsna langar eru setningar ekki óvanalega langar og innskot til frekari skýringa beinskeytt. Textinn er lipur og auðlesinn. Þessi stíll miðlar tilfinningu fyrir hraðri atburðarás; slíkum flaumi stuttra setninga í lotulöngum málsgreinum svipar til stíls munnlegrar frásagnar góðs sögumanns. Hann á vel við þegar um er að ræða svo ógnarlangar og erfiðar vinnulotur sem hér er lýst, mörgum sögum vindur fram samtímis og óvíst er um endalok.

Höfundur leiðir lesanda þannig um heim togarans samhliða því sem hann segir frá baráttu skipverja, lýsir veiðarfærum og vistarverum; tekur ýmis dæmi af því enskuskotna málfari, – með íblöndun dansks skútumáls – sem tíðkaðist og lifir að nokkru enn meðal sjómanna. En hann leitast ekki við að endurgera tungutak þess tíðaranda og samfélags sem um ræðir; sagan er skrifuð inn í samtíma okkar, handa lesendum sem búa við aðra veröld en söguhetjurnar. Höfundur notar þannig hugtök og samlíkingar sem ekki voru til í málinu þegar áhöfnin á Þorkeli mána háði sitt stríð. Þannig líkir hann t.d. járnbobbingunum sem velta yfir hafsbotninn við „jeppadekk“ sem velta yfir ójöfnur og býr þannig til mynd af nútímalegum fjallabíl á stórum dekkjum.

Sögumaður, röddin sem segir söguna, er meðal áhafnar á skipinu en talar þó jafnan í þriðju persónu; sjónarhornið er af ætt hins alvitra sögumanns sem bæði getur lýst hugarstríði bátsmannsins og veit jafnvel hverju loftskeytamaður hvíslar að skipstjóranum þegar hann hefur illar fréttir að færa. Miðdepill sögunnar er ungur háseti, nýliði um borð, 18 ára og heitir Lárus. Í lokakaflanum gengst hann við því að vera höfundur frásagnarinnar, talar nú í fyrstu persónu og horfir á atburðina úr ákveðinni fjarlægð. Og þegar hann gefur til kynna að sagan hafi lengi blundað með honum eftir að hann fór í land þá verður hinn nútímalegi blær stílsins rökréttur.

Þetta er í rauninni svipuð nálgun og Einar beitir í Sturlungusagnabálki sínum. – Það truflaði að vísu suma Sturlungumenn þegar Þórður kakali og Sturla Þórðarson voru loks vaktir til lífs að þeir töluðu eins og hverjir aðrir athafnamenn á tuttugustu öld. En Einar gerði sér vafalaust grein fyrir því að þess væri tæplega að vænta að lesendur hans hefðu almennt lesið Sturlungu svo rækilega að söknuður eftir stíl hennar myndi eyðileggja fyrir þeim lesturinn.

Það er mikið áhættuatriði að fyrna texta í skáldverki eða líkja eftir talsmáta horfinnar veraldar en þó verður að halda eftir föngum í það orðfæri sem sögusviðinu tilheyrir. Þetta heppnast yfirleitt ágætlega í Stormfuglum en auðvitað geta gamlir sjómenn leyft sér að fetta fingur út í einstaka smáatriði. Vistarverurnar frammi í skipinu voru t.d. yfirleitt ekki kallaðar „káeturnar undir hvalbaknum“ heldur voru einu nafni nefndar lúkar, hvort heldur sem var á bátum eða togurum og hvort sem þeim var skipt niður í klefa eður ei; það var arfur frá skútuöld. Þá má draga í efa að reyndur sjómaður myndi tala um togvindu, jafnvel þótt hann hefði ekki komið á sjó í áratugi; til sjós hétu slík tæki einfaldlega spil. – Þetta skiptir þó raunar litlu máli þegar á heildina er litið.

Sem fyrr segir eiga persónur margar sér skýrar fyrirmyndir, svo sem skipstjóri, fyrsti vélstjóri og loftskeytamaður. Það liggur þó í hlutarins eðli að í sögu sem þessari verða flestar mannlýsingar fremur einfaldar; sumir bugast og verða hálfgerðar skuggaverur. Mesta alúð leggur höfundur við að lýsa hásetanum unga, Lárusi, og klefafélaga hans, bátsmanninum sem kemur svo drukkinn um borð að hann lendir í lökustu vistarverunni með nýliðanum, fremst í lúkarnum. Þeir eru hreinar andstæður, annar óreyndur og bjartsýnn, hinn drykkfelldur svoli sem hefur nánast glatað lífsviljanum sjálfum eftir áföll í skiptum við Bakkus. En það er eitthvað sem tengir þá; þessir ólíku en samhentu klefanautar eru á sinn hátt lýsandi fyrir andstæðurnar sem samfélag skipsins býr yfir.

Hið hraðfleyga form Stormfugla gefur reyndar ekki mikið svigrúm til að rýna í líðan mannanna um borð. Hvernig var t.d. ástandið í vélarrúminu þegar hallamælirinn sýndi 60 gráður og skipið virtist vera að leggjast í sína hinstu hvílu?[1] Höfundur dvelur í rauninni ekki mikið við einstakar hryllingsmyndir; þær hefðu hægt á flæðinu í þessari stuttu frásögn, fært hetjusöguna nær harmleiknum. Væntanlega hefðu þær getað styrkt mannlýsingarnar – og svo mikið er víst að fæstir skipverjanna fóru framar á sjó – en niðurstaðan hefði orðið öðruvísi bók.

Titill bókarinnar er athyglisverður. Stormfuglarnir eru ritur og sögusviðið er kennt við þær, Ritubanki. Ritan er allra sjófugla fimust; fremur smávaxinn máfur og fíngerður, öllu kurteisari en hinir hávaðasömu frændur hennar en merkilega ófeimin við návist manna. Hún er óhrædd við að tylla sér á borðstokk þar sem staðið er í aðgerð, á það jafnvel til að þiggja lifrarbrodd úr lófa. Hún var löngum kærkominn gestur á þeim árum þegar vinna við fisk og veiðarfæri fór öll fram á opnu þilfari. Ritan er í raun tákn af svipuðu tagi og snjótittlingurinn í guðfræði Jóns Prímusar:

Oft finnst mér almættið vera einsog snjótitlíngur sem öll veður hafa snúist í gegn. Svona fugl er á þýngd við frímerki. Samt fýkur hann ekki þó hann standi á berángri í fárviðri. (Kristnihald undir jökli, bls.112 )

Það er ekki ónýtt fyrir þá sem lent hafa í háska að hitta fyrir slíkan félagsskap þegar eitthvað rofar til.

Fárviðrið skall á laugardaginn 7. febrúar þegar áhöfnin var að ganga frá eftir síðasta halið og ætlunin var að hefja siglingu heim. Þann dag sást engin rita og framundan var þriggja sólarhringa martröð. Á þriðjudagsmorgni fór veður loks að ganga niður á Nýfundnalandsmiðum og þá birtist teikn á himni: „Þennan dag sáu þeir í fyrsta sinn frá því liðinn föstudag rituflugið yfir miðin, þetta eru stormfuglar, þegar þeir koma er maður á meðal vina.“ (119) Vissulega er ekki illa til fundið að skipið í sögunni dragi nafn af slíkum fuglum.

Það er freistandi að líkja Stormfuglum við aðra baráttusögu af svipaðri stærð, Aðventu Gunnars Gunnarssonar. Þar segir einnig af „veiðiferð“ sem reynist mikil þrekraun, baráttu við náttúruöfl og návist dauðans. – Gamli maðurinn og hafið eftir Hemingway kemur reyndar líka upp í hugann, ekki síst stíllinn. Aðventa er einnig sannsöguleg, byggð á ritaðri heimild. Ferð Fjalla-Bensa mun hafa átt sér stað 1925 og fáum árum síðar skrifar Gunnar frumgerð sögunnar.[2] Báðir höfundar taka sér einfaldlega fyrir hendur að segja frá háskalegri svaðilför í stuttri og tiltölulega útúrdúralausri nóvellu, sviðsetja vel þekkta frásögn. Í raun og veru fylgir Einar frásögnum heimilda í öllum meginatriðum; dramatískustu atriði Stormfugla eru ekki uppdiktuð; jafnvel hásetinn ungi á sér að nokkru leyti fyrirmynd í hópi skipverjanna á Þorkeli mána. Hið sama má segja um aðferð Gunnars í Aðventu. Hann breytti jafnvel ekki nafni söguhetjunnar – og Benedikt Sigurjónsson sjálfur mun hafa látið sér það vel líka.

Fjalla-Bensi varð þjóðhetja og Aðventa varð með tímanum að eins konar helgisögu um sambúð manns og náttúru. Það er ljóst að áhöfnin á Þorkeli mána vann líka mikið afrek; eftir að hafa fyllt skipið á þrem svefnlitlum sólarhringum þurftu þeir að berjast aðra þrjá við að halda því á floti. Enginn er hins vegar til frásagnar um það hvenær Júlí fór niður; hann var gufuskip, hafði ekki jafnmikið vélarafl og Þorkell máni. Má vera að það hafi skipt sköpum þegar yfirísað skip lagðist á hliðina.

Hetjudáð áhafnarinnar á Mánanum hvarf e.t.v. í skuggann af því mikla manntjóni sem varð í febrúar 1959. Auk 30 skipverja á Júlí fórust 12 menn með vitaskipinu Hermóði við Reykjanes 18. febrúar. Danir misstu nýtt Grænlandsfar, Hans Hedtoft, og með því 95 manns og er þó ekki allt talið sem henti annarra þjóða skip. En það var ekki til siðs á þessum árum að dvelja of lengi við áföll og dauða; lífið varð að halda áfram, hver maður að glíma sjálfur við sínar hugarhrellingar. Sagan af björgun Þorkels mána verðskuldaði þó vissulega að vera sögð á ný. Það var þarft verk og hefur heppnast vel.

Jón Árni Friðjónsson

Tilvísanir

1. Í frásögn af öðrum togara í þessu veðri segir m.a. af kyndara sem fær hálfgert taugaáfall í vélarrúminu. En um eigin líðan segir höfundur sem var þar einnig: „ég verð að segja eins og er að taugar mínar voru ekki þandar. Þær voru lamaðar. Og þær náðu sér aldrei eftir þessa reynslu.“ (Alfreð Jónsson: „Mannskaðaveðrið á Nýfundnalandsmiðum 1959“. Skagfirðingabók 31, 2008, bls. 43.)
2. Aðventa varð til í endanlegri mynd 1936 en birtist í íslenskri þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar árið 1939.