Gata mæðrannaKristín Marja Baldursdóttir. Gata mæðranna.

JPV útgáfa, 2020. 243 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2021

 

 

Mæðgna- og systrasambönd eru Kristínu Marju Baldursdóttur hugleikin í mörgum verka hennar og nýjasta verk hennar, Gata mæðranna, einkennist af óskýrum mörkum og ruglingi þessara hlutverka og fjölskyldutengsla kvenna. Á þeim byggir bæði söguflétta og samfélagsgreining verksins. Við fylgjumst með lífi stúdínunnar Marínar um tíma út frá hennar sjónarhorni en smám saman kemur í ljós að systir hennar er ef til vill meiri aðalpersóna sögunnar – fyrir utan að sjálf titilgatan stelur senunni. Undir yfirborði raunsærrar sögu um örlög einnar Reykjavíkurstúlku kafar Kristín Marja niður á dýpi heimspekilegra og bókmenntalegra formæðra.

 

Götur

Titill skáldsögunnar, Gata mæðranna, skapar umsvifalaust hugrenningatengsl við skáldsögu Tove Ditlevsen, Götu bernskunnar frá 1943, þar sem segir frá Ester sem elst upp á Vesturbrú í Kaupmannahöfn á fjórða áratug 20. aldar. Við fylgjumst með Ester frá því hún er um tíu ára og fram á fullorðinsár. Unglingsárunum fylgir óttablandinn vandræðagangur og gatan sem hún elst upp við, í hverfi verkamanna og þeirra efnaminni, verður persónugervingur aðstæðna sem móta ákveðna kynslóð af ákveðinni stétt á ákveðnum stað:

Gatan sefur aldrei. Stórt, órólegt hjarta hennar slær varla eins hratt og á daginn, í stað þess er hún aðgætnari. Hún teygir mjúka hramma sína og hefur gát á börnum sínum. Ó, þú elskulega rándýr – hrá og römm lykt þín loðir við föt okkar, við felum okkur í þúsund fylgsnum þínum og núum okkur ástúðlega við hrjúfar hendur þínar. Æ, þú slærð okkur og tætir okkur sundur, af því að þú ert svo feimin, að þú þorir aldrei að sýna hve heitt þú elskar okkur. Önuga, gamla gata – við stöndum undir ljóskerum þínum og kyssumst, og ef við hefðum tíma, mundum við geta heyrt þinn djúpa, góðlátlega hlátur goppast upp úr gráum steinunum sem við skriðum yfir áður en við kunnum að tala.[1]

Gatan rennur hér að einhverju leyti saman við líkama móðurinnar; allra mæðranna sem ríkja yfir þessum heimi bernskunnar, að minnsta kosti á meðan eiginmennirnir eru fjarverandi við vinnu sína:

Það er mamma sem hefur framkvæmdavaldið á daginn. Mamma, sem refsar, mamma, sem hrósar, mamma, sem fer með manni í gönguferð og hlýðir manni yfir lexíurnar. Og það er mamma sem maður verður reiður við og mamma sem maður óttast og mamma sem maður leitar til […]. (Gata bernskunnar, 33)

Gata bernskunnar líkamnar þó stundum, og í raun meir þegar á líður, kröfur og hömlur feðraveldisins í garð dætra sinna:

Heitast ann gatan þeim dætrum sínum, sem virðast stökkva á einni nóttu á fögrum, samstilltum, hraðfleygum fundi frá bernsku til kynþroska. Þær sem gefa sig andstuttar götunni á vald í blíðu og stríðu og fá fyrirgefnar drýgðar og ódrýgðar syndir. Þær hefur gatan í sinni umsjá, með þær eru kyrrar hjá henni, og þær elska hana og vilja ekki hafa hana öðruvísi. Þær giftast henni og eignast börn með henni og langar aldrei burt. (Gata bernskunnar, 118)

Ester þarf að horfast í augu við að þessi gata bernskunnar, með allar sínar mótsagnakenndu kröfur og þrár, liggur líka í gegnum hana sjálfa, er hún sjálf þegar hún líkist „stúlku, sem liggur á bakinu með höfuðið við Engigarðstorg, ungt og saklaust […] En við Gasstöðvarveg aðskiljast fæturnir og teygja sig léttúðarfullir í áttina að brautarstöðinni.“ (Gata bernskunnar, 168) Eftir því sem hún þroskast – og hversu mikið sem hún streitist á móti og fjarlægist götuna sjálfa – verður tengingin sterkari, á sama hátt og „blóðugur arfur mæðranna með blygðun og ama“ kemur fram í hennar eigin líkama (Gata bernskunnar, 102). Að því leyti er gata bernskunnar gatan þar sem dæturnar fylgja í fótspor mæðranna.

 

Gestsaugað

Gatan dottaði þegar Marín gekk heim. Gatan vildi komast snemma í ró á virkum dögum og Marín hafði áttað sig á því þótt hún hefði ekki búið þar eins lengi og aðrir íbúar hennar.[2]

Tove Ditlevsen er einn fremsti höfundur Norðurlanda og ekki síst þekkt hér á landi fyrir Götu bernskunnar sem var þýdd á íslensku árið 1972. Persónugerving götunnar er aðeins ein af mörgum tengingum milli verks hennar og skáldsögu Kristínar Marju þar sem við fylgjum eftir unglingnum Marín á þeim tíma sem hún stígur inn í fullorðinsárin; tekur stúdentspróf og reynir að átta sig á því hvert hún stefnir í lífinu.

Gatan í bók Kristínar Marju er, líkt og gata Ditlevsen, kvengerð og stundum „róleg og ljúf“ (61); stundum daðursleg, „Aldrei verið fegurri, og vissi vel af því sjálf“ (99); stundum ergileg, „ekkert nema tortryggnin“ og „öll á taugum“ (154). Þessi gata sem persónugerir aðstæður og framtíðarhorfur ungrar konu í Reykjavík sjöunda áratugarins er þó ekki bernskugata Marínar. Æska hennar er þegar að baki; hún hefur nýlega misst foreldra sína og er, öfugt við Ester, alin upp í sveitinni og ný í borginni. Hún horfir því á borgargötuna sína með gestsauga, sem er þó ekki alltaf glöggt. Áherslan á utanaðkomandi augnaráð hennar er undirstrikuð í leik sem hún leikur með vini sínum Kristófer, en hann er í raun og sann barn þessarar Reykjavíkurgötu. Marín á það sammerkt með Ester að standa utangarðs og vera félagslega óörugg en Kristófer er sjálfsöryggið uppmálað; áreynslulaust vinsæll og „alltaf hrókur alls fagnaðar, það er að segja þegar hann nennti því sjálfur“ (25). Þessi ólíka afstaða þeirra, þar sem annað horfir á götuna og fólkið þar utan frá en hitt innan frá, endurspeglast líka í leik þeirra þar sem Ester teiknar fólk sem þau kannast við og Kristófer skrifar niður upplýsingar um það: „Hún hafði áhuga á útliti þess, hann á þess innri manni“ (10).

Þannig er sífellt vakin athygli á því að augnaráð Esterar stýrir sögunni og hamrað á tengingu hennar við hið sjónræna. Fyrir utan að teikna vel vinnur hún í kvikmyndahúsi og veltir jafnvel fyrir sér kvikmyndagerð, auk þess sem hún hannar fyrirhafnarlaust flíkur samkvæmt nýjustu tísku sem hún hefur auðvitað sérstakt auga fyrir. Um leið verður lesandi meðvitaður um að þetta augnaráð getur verið yfirborðskennt og duttlungafullt í takt við æsku sína. Marín vill njóta lífsins á sínum forsendum, fara á böll og dást að draumaprinsinum úr fjarlægð, hún vorkennir sjálfri sér óhóflega vegna þeirrar ábyrgðar á heimilishaldi og barnaumönnun sem henni er gert að axla í æ meira mæli og er svo upptekin af sjálfri sér að hún gerir sér sjaldan það ómak að gægjast undir yfirborðið sem dylur óblíð örlög annarra sögupersóna: hneyksli, svik og sorgir. Þar er engin fjölskylda undanskilin og á þessu dýpra plani er Marín heldur ekki svo mikill gestur. Reykjavík, eina borgin okkar, stendur í raun og veru ekki svo langt frá sveitinni – hvorki í tíma né umfangi. Gatan sem Marín flyst til er í raun aðeins framlenging á þorpinu þar sem allir vita allt um alla þótt um ýmislegt sé ekki talað opinskátt. Þöggun hefur verið nokkuð tryggur fylgifiskur örsamfélagsins, eins og allir Íslendingar vita.

 

Fjarverandi foreldrar

Eftir dauða móður sinnar býr Marín hjá Elísabetu, 15 árum eldri systur sinni sem á sjálf tvo stráka, og þar lendir hún í húsmóðurhlutverkinu því Elísabet hefur metnað og veit hvað hún vill, ólíkt Marín. Elísabet fær sér vinnu í búð og nýtur þess að láta litlu systur, sem hún öfundar af menntaskólagöngunni, elda ofan í sig og þrífa af sér eins og Elísabet sé húsbóndinn á heimilinu.

Á hælaháum skóm og í peysusetti og pilsi settist hún við borðið sem konungborin væri. Hún nennti ekki einu sinni að ná í glös eða hnífapör ef þau vantaði á borðið, sagði bara að hún væri búin að standa allan morguninn og hefði ekki orku í meiri stöður. En það var blikið í augum hennar sem kom upp um hana, blik sem fólk fékk í augun þegar það hafði unnið langþráðan sigur í erfiðu máli. (44)

Hér kemur undirliggjandi valdabarátta upp á yfirborðið þar sem kyn ákvarðar samfélagshlutverk og stöðu innan stigveldis þar sem karlmaður sem vinnur utan heimilis trónar efst og fær þjónustu kvenna innan heimilis. Vilji konur komast í valda- og virðingarmeira hlutverk verða þær að ganga inn í það kerfi og fá þjónustu annarra kvenna. Marín streitist hins vegar á móti, hún vill líka fá meira vald yfir eigin lífi. Togstreitan milli systranna endurspeglar almennar hræringar í samfélaginu eins og sést þegar ástandið verður nógu slæmt til að Marín leggst í húsnæðisleit í götunni. Þrátt fyrir almennt áhugaleysi sitt um raunveruleg kjör annarra kynnist hún þannig hinum ýmsu konum sem þarna búa og sögum þeirra. Þetta minni kemur einnig fyrir í skáldsögunni Hús úr húsi sem Kristín Marja gaf út árið 1997 og lýsir því hvernig húshjálpin Kolfinna kynnist smám saman hinum ýmsu og ólíku vinnuveitendum sínum. Úr viðtali við Kristínu Marju má þó lesa að hún hafi hér verið uppteknari af andrúmslofti götunnar en fólkinu við hana, enda er hvergi kafað mjög djúpt í karakter eða bakgrunn þess þótt geta megi ýmislegt í eyðurnar.[3] Fremur má segja að dregin sé upp samfélagsmynd:

Í flestum húsanna bjuggu þrjár til fjórar fjölskyldur, aðeins í tveimur þeirra hafði ein fjölskylda allt húsnæðið út af fyrir sig. Þetta var fína fólkið í götunni, stórkaupmaðurinn og forstjórinn með fjölskyldum sínum. Í hinum húsunum bjuggu iðnlærðir menn með sínu fólki, bifvélavirki, smiður, húsgagnabólstrari, líka sjómenn og verkamenn, og ekki mátti gleyma lögmanninum og okurlánaranum sem var með skrifstofu sína í húsi lögmannsins. (7)

Gatan í bók Kristínar Marju sýnir því þverskurð af samfélaginu fremur en afmarkaðan hluta þess eins og reyndin er í sögu Ditlevsen. Gata mæðranna gerist á þeim tíma þegar húsmóðurhlutverkið hefur verið upphafið í bókum og tímaritum en raunveruleikinn er allt annar; gatan er fullt af einstæðum konum og yfirgefnum börnum. „Dæmigerða“ kjarnafjölskyldan, einingin sem samfélagsgerðin og regluverk hennar byggir á, er háleitt markmið sem fáir ná, enda hefur íslenskt samfélag löngum einkennst af því að börn voru tekin í fóstur eða fóru snemma til vandalausra og í vinnu. Og þótt húsmæðurnar við götuna eigi „það sameiginlegt að þær báru enga starfstitla, voru bara húsmæður“, þá „voru þær margar í alls konar aukavinnu samhliða hússtörfunum, saumuðu föt á aðra og fengu smotterí fyrir, skúruðu skrifstofur og verslanir í bænum, unnu í þvottahúsum sjúkrahúsanna, þrifu klósettin á hótelum, bökuðu kleinur og flatkökur sem þær seldu í bakaríin“ (8). Um þetta neðanjarðarhagkerfi sem heldur samfélaginu gangandi og mörgum fjölskyldum á floti fjárhagslega ríkir hins vegar undarleg þögn og bók Kristínar Marju fjallar ekki síst um að draga þessa ólaunuðu vinnu kvenna fram í dagsljósið.

Á sama tíma eru yngri konur jafnframt að rísa upp gegn öllum þessum kröfum samfélagsins. Unglingarnir sækja í meira frjálsræði – mínípils, Rolling Stones og böll – og menntun er stúlkum smám saman að verða aðgengilegri þótt enn sé ungum konum beint á hefðbundnar kvenlegar slóðir þar sem þær fást helst við að búa til eða selja mat og fatnað. Þær standa því með annan fótinn í heftandi veruleika formæðranna og hinn fótinn í óljósri en meira lofandi framtíð. Einmitt þar er Marín stödd, rétt að komast af táningsárunum þar sem allir möguleikar eru opnir en óljósir, dagdraumar allsráðandi en grimmur veruleikinn farinn að láta skína í tennurnar:

Það var svo kvíðvænlegt að þurfa að verða kona. Þær lifðu svo leiðinlegu lífi þegar þær voru giftar og komnar með börn. Samt fylgdi tilhugsuninni um að verða kona einhver kitlandi spenna. Hún mundi þá ráða sér sjálf, ráða yfir líkama sínum, þyrfti ekki að vera á nálum út af Elísabetu þótt hún kæmi seint heim. Þótt hún hefði sofið hjá einhverjum. En þá gæti hún líka orðið ólétt og það væri hryllilegt. (56)

Hér reynist kvenleg gatan, eins og í bók Ditlevsen, gegna því hlutverki að viðhalda strúktúr feðraveldisins. Gatan er til dæmis sögð elska konuna sem drýgir heimilistekjurnar með því að selja flatkökur sem hún bakar í kjallaranum og heldur samtímis „húsi og heimili fallegu, sópaði gangstéttina reglulega […] hirti vel um garðinn sinn“ og „hugsaði vel um barnabörnin sín fjögur“ (68). Og gatan „ljómaði af ánægju“ við áform vinkonu Marínar um að setja þar á stofn hárgreiðslustofu því það er „svo mikilvægt að halda unga fólkinu heima í götunni“ (88). Það er nefnilega hættulegur „óróleiki í unga fólkinu, einhver allsherjar fiðringur og pirringur sem gatan hafði ekki orðið vör við áður“ (88). Ekki síst eru konurnar „eitthvað svo reiðar“ (226). Ein konan hefur enga von fyrir sína hönd en segir um dætur sínar: „Menntunin mun gera þær frjálsar. Þær eiga aldrei að þurfa að vera upp á náð og miskunn karla komnar. Mitt eina takmark í lífinu er að mennta þær.“ (112) Aðrar neita að fórna sér og feta jafnvel í fótspor karla sem yfirgefa börnin sín. Við það verður gatan „kuldaleg að sjá, enda var hún síður en svo ánægð með framvindu mála, það var ekki æskilegt að konur létu sig bara hverfa til útlanda, gatan mátti ekki við því að missa vinnandi fólk, síst af öllu konur sem voru hornsteinar heimilisins“ (238). Alltaf þarf þá önnur kona að sitja eftir og axla ábyrgðina, og í lok bókar reynist Marín, sem ekki hefur haft næga ákveðni til að nýta tækifæri sín til að komast í burtu, „[s]ú sem sat í súpunni“ (227).

 

Arfur mæðranna

Marín situr sem sagt föst í götu mæðranna í lok bókar, allar aðrar dyr virðast vera að lokast, þótt enn sé ekki útilokað að hún muni finna frelsi til að feta sína eigin leið í framtíðinni. Eftir stendur að það var hún sjálf sem nýtti ekki tækifærin og að það er hún sjálf sem lætur sig hafa það að axla ábyrgð annarra. Stóra spurning bókarinnar er hvers vegna hún grípur ekki þau tækifæri sem hún þó fær til að yfirgefa þessa „götu mæðranna“ og sjálf er Marín ekki með svör á reiðum höndum. Þegar Kristófer spyr „af hverju hún þyrfti endilega að fá sér herbergi í götunni heima, það væri nóg af herbergjum í öðrum götum, nóg af herbergjum í öllum bænum“ er svarið að hún „þekki þessa götu best“ og þar sé hennar eina fjölskylda. En þegar hann krefst betri rökstuðnings getur hún „engu svarað“ og kemur „ekki upp hljóði“ (57-58). Sjálf spyr hún sig örvæntingarfull: „Af hverju var hún alltaf svona hrædd við allt, hrædd við að styggja fólk, hrædd um að standa sig ekki, hrædd við að haga sér ekki rétt, hver kom þessari fjandans angist inn í hana, eða var hún fædd með hana?“ (201)

Vingulsháttur Marínar er auðvitað afar raunsæislegt einkenni á ungmenni, fyrir utan það að með honum sver hún sig í langa ætt karlkyns andhetja sem hafa engan dug og ekkert þor til hetjudáða. Það er hins vegar ekki endilega mikil hefð eða þolinmæði fyrir slíkum kvenkyns andhetjum. Þorgeir Tryggvason hefur bent á augljósa snertifleti milli Götu mæðranna og Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur, sem gerist á svipuðum tíma en þar sem söguhetjan Hekla veit allan tímann hvað hún vill og snýr klók á feðraveldið:

Hekla og Marín eru bæði hliðstæður og andstæður. Auður Ava gerir sína söguhetju nánast að ofurhetju og heiminum sem hún lifir í er lýst sem distópískri karllægri þrautabraut þar sem ofbeldi virðist alltaf rétt handan við næstu vendingu. Marín glímir í grunninn við sömu samfélagskrafta, ef „glíma“ er rétta orðið. En það er ljóðræn óræðni í lýsingu heimsins/götunnar, og Marín sjálf er óræð og óráðin, ólíkt Heklu sem finnur skáldskapinn krauma innra með sér. Hekla veit hvað hún er og hvert hún verður að stefna. Marín veit það ekki, en streitist þó með hálfum huga við tilraunum samfélagsins til að teyma hana á „réttan“ bás.[4]

Við viljum og þörfnumst ef til vill slíkra sterkra fyrirmynda í skáldskap en Marín er sem sagt engin ofurhetja sem brýtur af sér hlekki feðraveldisins heldur ósköp venjuleg manneskja. Gefið er til kynna að hún sé enn hálflömuð eftir nýlegan móðurmissi en að dramatísk fjölskyldusaga sem fyllir hana höfnunartilfinningu hafi jafnvel enn meira að segja. Þessu fylgja „andvökur, kvíði, angist og efasemdir“, ekki síst vangaveltur um hlutverk mæðra og væntingar okkar til þeirra (59). Í samræmi við áðurnefnda áherslu höfundarins á andrúmsloft götunnar verður hin persónulega, sálfræðilega hlið þó aldrei jafn sannfærandi og hin samfélagslega og framtaksleysi Marínar er hreinlega pirrandi.

Vilji maður skilja það er nauðsynlegt að líta á enn víðara samhengi. Eins og Erik Skyum-Nielsen bendir á í ritdómi um danska þýðingu bókarinnar er þetta „sannkölluð femínísk uppreisnarbók sem fjallar um glötuð tækifæri“ og „nauðsyn þess að bera ábyrgð á sjálfum sér“.[5] Hér vísar hann í heimspekilegan boðskap verksins, en árið 1949 lýsti heimspekingurinn Simone de Beauvoir einmitt því verkefni að skrifa bók um hlutskipti kvenna sem „pirrandi“ og spurði: „Af hverju draga konur ekki í efa yfirráð karla? […] Hvaðan kemur undirlægjuháttur kvenna?“.[6] Beauvoir taldi ástæðu ósjálfstæðis þeirra gagnvart körlum og þess að þær „skilgreina sig ekki af heilindum sem sjálfsverur“ þríþætta: þær séu ekki í aðstöðu til þess; þær viti af hinu nauðsynlega bandi sem tengi konuna karlinum; og þær uni sér oft vel í þeirri stöðu sem karlar hafa markað þeim, stöðu Hins.[7]

Það væri synd að segja að Marín uni sér í þeirri stöðu sem hún er sett í en í Götu mæðranna má hins vegar sjá merki þess að aðstæður leyfi konum „ekki að sameinast í heild sem skapar sig sjálfa með andstöðu sinni“ eins og Beauvoir lýsir því, heldur „eru dreifðar á meðal karla, og fyrir tilstilli búsetu, vinnu, efnahagslegra hagsmuna og félagslegrar stöðu eru þær bundnari einstökum körlum – föður eða eiginmanni – nánari böndum en öðrum konum.“ [8] Hér verða tvær miðaldra systur sem búa hlið við hlið og voru áður samrýndar en hafa ekki talast við árum saman vegna ósættis eiginmanna sinna að lýsandi dæmi – og sú staðreynd að þær ná saman á ný verður jafnframt vísbending um að margt sé reyndar við það að breytast í götu mæðranna. Samband Kristófers og Marínar, sem virðist þróast nær sjálfkrafa í átt að sambúð og giftingu án þess að Marín sækist í raun eftir því, litast líka af þeirri aldalöngu samveru kynjanna sem Beauvoir lýsir, þar sem „togstreita þeirra hefur þróast án þess þó að togstreitan hafi rofið samveruna. Parið er grundvallareining og hvor helmingur þess er tengdur hinum órjúfanlegum böndum.“ Stærsti vandinn er þó sá að þótt áhrif „þeirrar félagslegu mismununar sem konur verða fyrir […] kunni að virðast lítilvæg utan frá séð, hefur hún sett […] djúpstætt siðferðislegt og andlegt mark á konur.“[9] Beauvoir bendir jafnframt á að þetta eigi karlar erfitt með að skilja.[10] Það skýrir að einhverju leyti áðurnefndan vanmátt Marínar þegar Kristófer krefst röksemda fyrir dugleysinu.

Beauvoir lítur til  tilvistarstefnunnar í leit sinni að lausnum og segir að möguleikar einstaklingsins verði „ekki skilgreindir út frá hamingju heldur frelsi“.[11] Samkvæmt tilvistarstefnunni fullkomnar sjálfsvera „ekki frelsi sitt nema með því að vera sífellt að fara fram úr því til að öðlast annað frelsi“.[12] Því er siðferðislega ámælisvert að sætta sig bara við að vera á valdi ytri aðstæðna.

Ef hún er þvinguð til þess er það frelsissvipting og kúgun. Í báðum tilvikum er þetta alslæmt. […] En það sem skilgreinir á einstakan hátt stöðu konunnar er að þótt í henni búi sjálfstætt frelsi, eins og í öllum manneskjum, þá uppgötvar hún sig og velur að vera það sem hún er, í heimi þar sem mennirnir neyða hana til að axla hlutverk Hins. […] Vandi kvenna liggur í þessum átökum milli grundvallarkröfu hverrar sjálfsveru um að hún sé sjálf merk og aðstæðna sem gera ráð fyrir að hún sé ómerk. Hvernig getur mannvera náð fullum þroska þegar hún búr við þær aðstæður sem konum eru skapaðar?[13]

Þannig spyr Beauvoir í Hinu kyninu og fulltrúi hennar virðist reyndar mættur til sögunnar í Götu mæðranna sem „skrýtna konan“ í einu húsinu. Skrýtna konan reynist vera heimspekingur og reynir að brýna Marín til dáða: „Hvernig ætlið þið að mæta óréttlætinu?“ spyr hún þennan fulltrúa nýrrar kynslóðar, „það eltir alla upp, fyrr eða síðar. […] Það er undir ykkur komið hvernig þið takist á við það. Þið verðið að vera viðbúnar“ (182). Hún vill að Marín taki sjálf í taumana á lífi sínu og geri uppreisn gegn hefðinni sem heldur henni fastri: „Þú verður að bera ábyrgð á sjálfri þér og þú verður að bera ábyrgð á samfélaginu. Og mundu að þú getur ekki lifað í fortíðinni.“ (194-195). Boðskapurinn fer hins vegar „fyrir ofan garð og neðan hjá Marín“ (194) enda ekki þess að vænta að tvítug Reykjavíkurmær brjótist si-svona undan aldalangri kúgun kvenna. Heimspekingurinn spyr í lokin örvæntingarfullur: „Hvernig fórstu að því að enda svona?“ (239) en hefur reyndar áður svarað því sjálf þegar hún komst að þeirri niðurstöðu að mistök Marínar séu „fólgin í aldagömlu samfélagslegu uppeldi stúlkna“ þar sem „[k]onur áttu að vera hlýðnar, bera sinn kross í hljóði, trana sér ekki fram, vera lágróma, brosandi og fyrirgefa öllum allt“ (193-194).

Niðurstaða bókarinnar er nokkuð ófullnægjandi ef lesandi er í leit að femínískri hetjusögu en möguleikanum á að Marín safni vopnum sínum er þó haldið opnum. Líkt og Ester í Götu bernskunnar mun hún alltaf bera með sér arf mæðranna en hún hefur líka val um það hvernig hún mætir óréttlæti heimsins. Endirinn er nógu opinn til að bjóða upp á framhald ef höfundinum sýnist svo en þangað til verða lesendurnir sjálfir að gera upp við sig hvort og hvernig hún er líkleg til að nota þetta frelsi sitt.

 

Auður Aðalsteinsdóttir

 

Tilvísanir

[1] Tove Ditlevsen: Gata bernskunnar, þýð. Helgi J. Halldórsson, Reykjavík: Iðunn, 1972, 24-25.

[2] Kristín Marja Baldursdóttir, Gata mæðranna, Reykjavík: JPV útgáfa, 2020, bls. 17. Hér eftir verður vísað til þessa verks með blaðsíðutali í meginmáli.

[3] „Upp­haf­lega sá ég fyrir mér götuna. […] Fólkið var hins vegar lengi að koma til mín. Ég var mjög upp­tekin af því að ná and­rúms­loftinu enda er það ekki bara fólkið sem skapar það heldur líka um­hverfið“. Gunnþóra Gunnarsdóttir: „Skapa mér minn eigin heim“, viðtal við Kristínu Marju Baldursdóttur, Fréttablaðið, 29. október 2020, 46.

[4] Þorgeir Tryggvason: „Líf í biðstöðu“, ritdómur um Götu mæðranna eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, Bókmenntavefur Bókmenntaborgarinnra, nóvember 2020, sótt af https://bokmenntaborgin.is/umfjollun/gata-maedranna.

[5] Erik Skyum-Nielsen: „3 Romaner i én“, Information, 5. febrúar 2021, 11. Mín þýðing.

[6] Simone de Beauvoir: „Hitt kynið – Inngangur“, þýð. Torfi H. Tulinius, Simone de Beauvoir. Heimspekingur. Rithöfundur. Femínisti, ritstj. Irma Erlingsdóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir, Rannsóknastofa í kvennafræðum og Háskólaútgáfan, 1999, 30-31.

[7] Sama heimild, 34.

[8] Sama heimild, 32.

[9] Sama heimild, 32.

[10] Sama heimild, 40.

[11] Sama heimild, 44.

[12] Sama heimild, 43.

[13] Sama heimild, 43-44.