Helgi Ingólfsson. Runukrossar.

Ormstunga, Reykjavík, 2010.

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2011.

Íslam mun yfirtaka heiminn. Múslimar koma sér fyrir hvarvetna, milljónum saman fylla þeir borgirnar, þeir smeygja sér inn í stjórnsýsluna, menntaheiminn og hið opinbera líf og leggja grunn að íslömsku gildismati, sharialögum. Þetta er ein af þeim framtíðarsýnum sem á kreiki eru í samtímanum. Önnur gengur út á að hið ört vaxandi heimsveldi Kína muni fyrr en varir taka þeim stökkbreytingum í iðn- og tækniþróun sem til þarf og vinna þau pólitísktdiplómatísku klækjabrögð sem nauðsynleg eru til að yfirtaka stöðu ríkjandi heimsveldis, Bandaríkjanna, og útbreiða fagnaðarerindi algers virðingaleysis fyrir mannréttindum, mannslífum og málfrelsi. Japanir hafa á stundum þótt líklegir til heimsyfirráða, í bandarískri spáskáldsögu frá áttunda áratugnum hafa þeir yfirtekið allt og farið minnkandi að líkamsvexti á sama tíma og sjást ekki lengur berum augum.

RunukrossarEnn ein framtíðarsýnin, vinsæl í vissum kreðsum á Íslandi, spáir gerræðislegri Evrópu sem við endurheimt síns kapítalíska lífskrafts breytir sér í stríðsvél, blandar sér í olíustríðin, eyðir sjálfræði smáþjóða, murkar lífið úr krónunni og sauðkindinni. Þá er ónefnd algengasta framtíðarsýn allra tíma: Heimsendir. Heimsendasýnin er ekki bara á kreiki í samtímanum heldur innbyggð í trúarbrögðin, hvort sem er íslam eða kristni, hún er innbyggð í alla menningu. Oftast hljóðar hún svo í samtímanum, studd rannsóknum: Loftlagsbreytingar af mannavöldum munu skjótt gera endanlega út um allan menningarlegan ágreining og þagga niður í orustunum um frásögnina, gegndarlaus virkjanastefna Íslendinga undanfarin ár fer þá hratt með landið í hundana. Græðgi mannsins og skeytingarleysi gagnvart náttúrunni gerir út af við hann.

Framtíðarsýnir segja mikla sögu um samtíðina. Því á hverjum tíma er aðeins unnt að hafa svo og svo margar gerðir framtíðarsýna. Og þær standa alla jafna í beinu sambandi við það hverjum augum fortíðin er litin. Það virðist deginum ljósara að jákvæðar framtíðarsýnir eru heldur sjaldséðar í dag, þær virðast með einhverjum hætti örðugri en oft fyrr; þó lifum við heldur ekki á tímum sem líta með sérlegri lotningu til klassískra tíma í fortíðinni. Nær er að halda að spænski hugsuðurinn Ortega y Gasset hafi lög að mæla: „Í fyrsta sinn stöndum við frammi fyrir öld sem núllar út alla klassík, sem viðurkennir í engri liðinni tíð hugsanlega fyrirmynd eða eðlislægt ástand.“ [1]

Vesturlönd dagsins í dag kenna ekki mikillar virðingar fyrir Forn-Grikkjum eða endurreisn. Sé spurt á götu er vafalaust algengast að álíta eitthvert samtímaverk hápunkt siðmenningarinnar. Þó lítum við heldur ekki beinlínis á okkur sem sögulegan hátind sem muni vara: Á tímabilum sem líta á sig sem fullnun tímans er jafnan talin blasa við háslétta framundan, þúsund ára ríki en ekki einskær skáhalli niður á við. Það er því sem við höfum farið fram hjá hápunktinum og séum handan hans, í eftirnútíð. Og þar af leiðir hrein lógík: Að loknum hátindi er aðeins hægt að fara niður á við. Þetta er ekki nýtt en ég segi það samt: Síðnútíminn hefur slitnað úr samhengi við fortíðina og bögglast því með sýn á framtíðina.

Ákveðið frjómagn í íslenskum samtímabókmenntum býr í hugmyndaskáldskap. Ekki endilega pólitískum skáldskap heldur bókmenntum sem vinna með hugmyndir. Einhvers konar hugmyndalega deiglu má sjá á víð og dreif, handan kynslóða, handan við stefnur og tilhneigingar, skóla og klíkur. Höfundarferill Helga Ingólfssonar er sérstæður. Hann byrjaði á því að gefa út tvær skáldsögur sem eru kanónískar í eðli sínu, tvær bækur sem gerast í Róm til forna. Letrað í vindinn hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 1994. Þessar bækur voru vitsmunalega fjörugar, þaulunnar, fróðar, menntaðar og alvörugefnar. Rómaveldi er tíminn og Cattulus skáldið. Síðan var eins og höfundur ákvæði að söðla algerlega um og tók til við að skrifa skemmtisögur úr Reykjavík samtímans. Þær urðu fjórar talsins (um eina þeirra skrifaði undirritaður ritdóm í Morgunblaðið og þótti hálfléttvæg).

Þvínæst skrifar Helgi bók sem er kannski einhvers staðar þarna mitt á milli, Þegar kóngur kom, (Íslands)söguleg spennusaga sem kom út árið 2009. Þar var eins og hann hefði fundið gullið jafnvægi milli sinna tveggja mjög svo ólíku fasa. Bókin sló í gegn. Hún er ófeimin við að nýta sér spennusagnaformið en heldur einnig jafnvægi sem söguleg skáldsaga úr Reykjavík. Af þeim höfundum sem blanda glæpasögu saman við eitthvað annað, þeir eru nokkrir, er Helgi einhver sá afslappaðasti, því stundum gætir að mínu mati fyrirlitningar á glæpasagnaforminu sem skín í gegnum textann og gerir hann herptan, aðkrepptan; ég nefni Steinar Braga. Hér er ekkert hatur á því formi (fremur en hjá stórum höfundum eins og Orhan Pamuk, Borges, Javier Marías eða Ortega y Gasset sem hvað best hefur skilgreint formið). Þegar kóngur kom er í raun ansi flippuð bók með neðanmálsgreinum og ýmsu frásagnardúlleríi sem auðvelt væri að skammta yfirborðslega fordæmingu sem stæla.

Sú nýja, Runukrossar, heldur áfram á sömu braut. Verkið er framtíðarsaga sem gerist í heimi þar sem Ísland er orðið hluti af íslömsku heimsveldi. Raunar ekki alsvört framtíðarsýn, öllu heldur rökleg niðurstaða einhvers eins af mörgu sem henda má á lofti í samtímanum, þótt hér eins og í flestum framtíðarsögum samtímans sé skyldleikinn meiri við dystópíu en útópíu. Hvað um það, framtíðin er íslam. Hella er höfuðborg Íslands, landið er útnárabyggð í íslömskum heimi sem þó inniheldur einnig kristni og er málaður af nokkurri nákvæmni. Veðursæld er í Helluborg, enda er hún undir hvolfþaki. Ísland er raunar eintóm steikjandi auðn og kemur þar ýmislegt til, meðal annars landskjálftar og virkjanastefna, en landið er krökkt af virkjunum þótt nánast óbyggt sé. Bróðir söguhetjunnar finnst látinn, að því er virðist eftir vinnuslys; söguhetjan, Umar ibn-Yusef, heldur í fylgd með rannsóknarlögreglumanni í virkjunina þar sem bróðirinn vann og tekur þátt í rannsókn málsins.

Um leið og sögunni vindur fram er lesandinn smám saman kynntur fyrir söguheiminum, framtíð með tækninýjungum og nýrri menningarblöndu – eða ekki svo nýrri því sama blanda var uppi á tímum máranna á Suður-Spáni. Íslamsmenningarþáttur verksins er þaulunninn og lúmskur, það borgar sig að hafa Kóraninn við höndina við lesturinn en þýðing Helga Hálfdanarsonar fæst á bókaútsölum, ef ekki víðar. Hverjum kafla Runukrossa er skipt í undirkafla sem aðgreinast með tilvitnunum í helg múslimsk rit en vísanaheimurinn er háll og erfitt að henda reiður á hvað er skáldað og hvað rangfeðrað, hvað úr helgum ritum og hvað ekki. Allar þessar tilvitnanir minna á Spámanninn eftir Kahlil Gibran en eru ekki þaðan: „Og spámaðurinn sagði bergnuminn: Hve fullkomlega hið lægra endurspeglar hið æðra! Á ströndinni rignir einum dropa fyrir hvert sandkorn“ (bls. 83). Tilvitnanirnar endurspegla jafnan eitthvað í textanum sem á undan fer, stundum verkið allt og þann leik með hátt og lágt sem fram fer í því. Verkið er könnun á kokteil menningarheima með öllum sínum kostum og göllum, könnun á mögulegri framtíð, könnun á trú og vantrú – og glæpasaga af gerðinni „who-dunnit“.

Framan af er innbyggður sögumaður – plús ex – að mínu mati helst til fyrirferðarmikill. Þetta stafar af nauðsyn á að skýra framandi söguheim og gerir að verkum að samanburðurinn sem lesandi gerir óhjákvæmilega á sögutíma og raunverulegum samtíma verður þvingaður, heimur textans á köflum ótrúverðugur, eða öllu heldur ofskýrður. Stundum er þetta hreinn óþarfi svo líkist vantrausti á lesandanum: „Munnvatnið streymdi fram meðan hann stakk fingurgómi í fingrafaralesarann til að greiða fyrir kræsingarnar. Greiðslumáti nútímans, þannig var tryggt að eigandinn einn tæki út af reikningi sínum. Hvar sem viðskipti fóru fram var slíka fingrafaranema að finna“ (bls. 69). Fyrsta setningin nægir hér, afgangurinn er auðályktanlegur. Og jafnvel þegar það er ekki ósýnilegur og alvitur sögumaður sem talar hendir þetta stundum, hér leiðréttir persóna sjálfa sig: „Ekki megum við rykfalla yfir skræðunum. Eða fræðunum réttara sagt. Við vinnum víst minnst með skræður nú til dags eða hvað?“ (bls 40). Þegar á líður minnkar yfirstærð frásögumanns og hann ríður ekki verkinu á slig, langt í frá.

Lestur skáldsagna gengur ef til vill út á stöðuga leit að miðju – og ef skáldsagan er góð skiptir lesandinn um skoðun oft meðan á lestrinum stendur um það hver þessi miðja sé. Runukrossar er þannig bók. Stundum dettur manni í hug að þjóðlegt menningaríhald sé kjarni verksins. Á næstu síðu er dársleg lífskátína tekin við, hámenntað samsull ólíkra tíma og menntaheima, hins háa og lága, þessi tegund húmors sem gengur út á að gantast með þjóðleg element, setja íslenskar þjóðsögur og slíkt í fáránlegt samhengi svo hvort grefur undan hinu – en þó er hið þjóðlega heldur umvafið væntumþykju en hitt (er þessi ærslaþráður íslenskra bókmennta ekki ættaður frá Benedikt Gröndal?). Hið augljósa er svo auðvitað skörun samtíma og sögutíma, stundum með svolitlum gáska: Söguhetjan er þýðandi og dreymir um að fá það verkefni að þýða Gyrði, Hallgrím og Þórunni. Einnig þetta er með hinum mesta virðingarblæ. Glæpasögunni vex ásmegin eftir því sem líður á lesturinn, samskipti söguhetju og lög reglumanns í karlaheimi eru í forgrunni og trúmál koma nokkuð við sögu en söguhetjan er mjög trúuð. Undir lok bókar verða alger hvörf, skipt er um vitundarmiðju (ef þá er ekki of mikið sagt) og atburðarásin tekur óvæntan snúning.

Runukrossar hefur margt til síns ágætis: Auðugt mál, gott vald á gróðursælu tungutaki og nákvæmni í orðavali. Snjalla fléttu sem gengur skemmtilega vel upp. Þétt samtöl (bókleg reyndar en þétt). Vel hugsaða byggingu. Óvæntar kúvendingar. Jafnvægi milli spennusögu og hugmyndaskáldsögu: Þetta er þekkingarbók, mikið unnin og rannsökuð, aftast fylgir atriðaorðaskrá með skýringum á ýmsum lykilhugtökum íslamstrúar. Hönnun bókarinnar má einnig telja ýmislegt til hróss, auk kápumyndar. Það er ekki vaninn að nefna leturgerðir í ritdómum en þó skipta þær miklu máli, Minion er alveg einstaklega gott letur, og óhjákvæmileg blöndun ólíkra leturgerða innan bókarinnar er vel heppnuð. Það er undir lokin að mann tekur að gruna að Runukrossar sé fyrst og síðast bók um framtíðarsýn. Það er að segja eðli þess að horfa til framtíðar. Hvernig sjáum við framtíðina? Af hverju sjáum við hana þannig? Væri hægt að sjá hana öðruvísi? Þetta er mikilvægt. Þessu teflir Helgi Ingólfsson fram í mjög vel heppnaðri skáldsögu.

 

Hermann Stefánsson

 

Tilvísanir

  1. Í riti sínu La rebelión de las masas, Uppreisn fjöldans, 1930.