Eyland

Sigríður Hagalín Björnsdóttir. Eyland.

Benedikt, 2016.

Kristján Atli. Nýja Breiðholt.

Draumsýn, 2016.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2017

Heimsendir nýtur afskaplega mikilla vinsælda um þessar mundir – eins og reyndar jafnan, því ef bókmennta- og listasaga síðustu aldar er skoðuð einkennist hún mjög af heimsendum og má auðveldlega rekja þennan áhuga langt aftur í aldir. Birtingarmyndir heimsendis í trúarbrögðum hafa til að mynda löngum þótt sérlega spennandi. Það virðist láta mannkindinni vel að ímynda sér hrun eigin siðmenningar og sína eigin gereyðingu.

Fyrri heimsstyrjöld markaði ákveðið upphaf á heimsendisgleði síðustu aldar sem jókst til muna eftir þá síðari og hélst nokkuð stöðug fram að aldamótum í krafti kjarnorkuváarinnar. Aðdragandi aldamótanna hristi og hrærði verulega upp í heimsendisspámönnum og ný öld hefur tekið heimsendinum fagnandi með aukinni vitund um loftslagsbreytingar, sem gefa kjarnorkunni hvergi eftir í markvissri eyðingu samfélags og náttúru.

Hrun siðmenningar hefur lengst af verið viðfangsefni bókmennta- (og kvikmynda) greina sem hafa ekki talist til fagurbókmennta – vísindaskáldskapar, hrollvekju og fantasíu – þó vissulega hafi nokkrar þessar náð að brjótast út úr viðjum bókmenntastofnunarinnar og komast á stall sem klassísk verk. Nægir þar að nefna hið fræga tvíeyki Aldous Huxley (Veröld ný og góð, 1932) og George Orwell (1984, 1949) frá fyrri hluta tuttugustu aldar og bækur Margaret Atwood (t.d. Saga þernunnar, 1985) frá síðari hlutanum. Allar teljast þessar sögur til dystópískra bókmennta, verka sem lýsa því mögulegri framtíð sem er þveröfug við besta heim allra heima útópíunnar. Sögur Huxley og Orwells eru skrifaðar í kjölfar samfélagslegra hruna, kreppu, stríða og fasisma og bók Atwood kemur út þegar óttinn við kjarnorkueyðingu kalda stríðsins var orðinn viðvarandi.

Þrátt fyrir hin æsispennandi Ragnarök í norrænum sögum hefur ekki mikið borið á heimsendisbókmenntum innan íslenskra bókmennta. Síðustu árin hefur þó verið bætt úr þessu, sem dæmi má nefna endalokaseríu myndasöguhöfundarins Hugleiks Dagssonar sem hófst með Opinberun árið 2012, en sú saga er byggð á Opinberunarbók Biblíunnar. Nýr heimsendir hefur svo birst árlega. Á síðasta ári komu út fimm heimsendissögur, þar af tvær myndasögur: Súperkúkur eftir Hugleik og Árna Jón Gunnarsson og Ormhildarsaga eftir Þóreyju Mjallhvíti H. Ómarsdóttur, sem nýtir sér íslenskar þjóðsögur sem efnivið. Lokaverk þríleiks Sjóns, Ég er sofandi hurð, sækir til vísindaskáldsögunnar og samtíma umræðna um erfðavísindi, en sagan endar á hvarfi mannkyns. Hinar tvær eru Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur og Nýja Breiðholt eftir Kristján Atla.

Það er óneitanlega athyglisvert að á árinu skuli hafa komið fram fimm dystópísk skáldverk sem fjalla um samfélagslegt hrun. Sögurnar sækja greinilega innblástur í efnahagshrunið 2008, en það hefur birst sem stef í íslenskum bókmenntum æ síðan. Þetta er sérlega áberandi í verkum Sigríðar og Kristjáns Atla, en báðar sögurnar fjalla um algert hrun siðferðisgilda, það sem í umræðu um efnahagshrunið 2008 hefur verið kallað siðrof. Það væri þó of mikil einföldun að einskorða lestur sagnanna við hrunið, til þess er tilvísanaramminn of víður. Bæði verk fjalla um viðbrögð við einhverskonar heimsendi og líkt og iðulega er raunin í slíkum verkum á viðfangsefnið margt skylt með samtímaumræðu, meðal annars með því að lýsa samfélagi sem er byggt á rústum.

Hvíta drottningin og skátarnir

Táknræn sýn einkennir dystópísku skáldsöguna Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur. Einn daginn missir Ísland allt samband við umheiminn án allra skýringa. Þeir sem fljúga eða sigla burt til að kanna hvað veldur hverfa sporlaust. Landið einangrast algerlega frá umheiminum og eftir árangurslausar tilraunir til að átta sig á orsökum og ná sambandi hefst uppbygging samfélagsins á nýjum forsendum sjálfbærni og samstöðu. Fljótlega kemur þó í ljós að þessi samstaða nær ekki til allra, sameiningaraflið er að sjálfsögðu þjóðernið og bæði strandaðir ferðamenn og innfluttir íslendingar verða fyrir barðinu á stefnu hins nýja forsætisráðherra. Þegar ósköpin dynja yfir eru forseti og forsætisráðherra staddir erlendis og því kemur það í hlut konu, Elínar Ólafsdóttur innanríkisráðherra að taka við embætti forsætisráðherra og æðsta valdamanns þjóðarinnar og halda samfélaginu gangandi. Hún klæðist ævinlega hvítu og með blíðlegum hætti tekur hún öll völd í landinu og krefst fullkominnar jákvæðni gagnvart ástandinu. Gagnrýni er ekki liðin og allir eiga að fylgja sama flautuleiknum.

Þessi fyrsta skáldsaga Sigríðar er áhrifamikið verk um þjóð og þjóðerni, fjölskyldubönd og fasisma. Auk þess er unnið á áhugaverðan hátt með kyn og kynhlutverk þar sem móðurlegt einveldi byggir að hluta til á kynferðislegu ofbeldi karla gegn konum.

Sagan er sögð af blaðamanninum Hjalta sem í upphafi er í innsta hring forsætisráðherra, elskhugi hennar, ráðgjafi og trúnaðarmaður, en vinnur sér óvinsældir með því að gagnrýna nýjar reglur um brottflutning fólks af erlendum uppruna. Fyrrum sambýliskona hans, María, er af erlendu bergi brotin og sonur hennar sömuleiðis. Hann endar því sem flóttamaður og útlagi sem í félagi við nokkur flóttabörn, þar á meðal fyrrum stjúpdóttur sína, Margréti, reynir að byggja upp sitt eigið örsamfélag byggt á öllu meiri mannúð.

Úrkynjun og ábyrgð

Nýja BreiðholtNýja Breiðholt eftir Kristján Atla er einnig frumraun höfundar. Hún sver sig á meira áberandi hátt í ætt við vísindaskáldskap og er það væntanlega ein ástæða þess að bókin hlaut ekki viðlíka athygli og Eyland þrátt fyrir að vera ekki síður athyglisvert verk. Sagan er ennfremur að hluta til glæpa- og spennusaga með hrollvekjandi tónum en söguþráðurinn snýst um leit að morðingja og fórnarlömb hans. Sögusviðið er ekki svo fjarlæg framtíð þar sem eiturefnaárás af óljósum uppruna hefur valdið samfélagslegu hruni og miklum landflótta. Landið er einangrað því öll tækni hefur eyðilagst og fólkið sem eftir er þarf að hverfa aftur til eldri lifnaðarhátta. Líkt og í Eylandi byggja þeir á sjálfbærni og markaðsviðskiptum því peningar hafa ekkert gildi lengur. Reykjavík er skipt upp í tvö meginsvæði, Breiðholt og miðbæinn. Í Breiðholti hefur Austur-evrópsk mafía öll völd, en í miðbænum ráða öllu nokkrar fjölskyldur af íslenskum ‚aðli‘.

Söguþráðurinn er á þá leið að ung stúlka, Móna, er numin á brott af morðingja sem er þekktur fyrir að misþyrma og limlesta fórnarlömb sín. Faðir stúlkunnar, Númi, hefur örvæntingarfulla leit að henni í félagi við Brittu, unga konu sem missti systur sína í klær illmennisins. Í ljós kemur að hann tilheyrir miðbæjaraðlinum sem er úrkynjaður og spilltur meðan Austur-evrópska mafían reynist siðferðislega og samfélagslega ábyrgari. Þetta birtist í því að glæpaforinginn Nikolai aðstoðar Núma og Brittu, þrátt fyrir að stefna með því fólki ‚sínu‘ og veldi í hættu.

Saga Kristjáns Atla er gróf og harkaleg öfugt við hina frekar blíðlegu sýn á spillingu og völd sem birtist í Eylandi. Samfélagið er gersamlega stjórnlaust og engin yfirvöld til staðar. Í staðinn eru þessar tvær valdaklíkur og svo mannleg tengsl, en vinátta, samúð og félagsleg samstaða af ýmsu tagi er áberandi innan um alla villimennskuna. Þótt samkeppnin sé mikil og baráttan fyrir lífinu harkaleg er einnig lögð áhersla á það hvernig fólk passar upp á hvert annað og er tilbúið að hjálpa þegar á þarf að halda.

Hrun siðmenningarinnar

Eyland lýsir endalokunum sjálfum, frá upphafi sambandsslitanna og þar til samfélagið og siðferðisgildi hrundu, hægt og örugglega, undir stjórn hvítu drottningarinnar meðan Nýja Breiðholt gerist eftir að endalokin hafa orðið og samfélagið er hrunið þegar atburðir sögunnar eiga sér stað. Þannig bjóða verkin upp á ólíka tegund upplifunar.

Í Eylandi er lesandinn látinn fylgja hruninu eftir, afleiðingum þess, átökum í kjölfarið og svo þeirri uppbyggingu sem verður þegar samfélagið tekst á við gerbreyttan veruleika. Þetta er lúmsk aðferð sem gerir lesandann að nokkru leyti samsekan ferlinu frá lýðræði til einræðis, því samfélagsleg upplausn með tilheyrandi hruni gilda er óhjákvæmileg orsök heimsendis og óttinn við að hið illa taki völdin er ríkjandi. Hér er auðvelt að finna tilvísanir í söguna, þar sem þægindin og öryggið sem felst í röð og reglu eru tekin fram fyrir óöryggi átaka. Því virðast aðgerðir hvítu drottningarinnar í fyrstu til góðs, en hún leggur áherslu á að halda samfélaginu gangandi. Eins og mörg heimsendisverk endar þetta svo allt á ofurlítilli bjartsýni.

Nýja Breiðholt gerist hinsvegar eftir að öllu er lokið og samfélagið hefur náð nokkrum stöðugleika. Upphafið er því framandlegt og óhugnanlegt, áhersla er lögð á það hvernig það sem þykir sjálfsagt í nútímaheimi hefur horfið og eftir stendur hörð lífsbarátta í samfélagslegri auðn. Reynt er að gefa innsýn í þennan nýja heim og lýsa því hvernig samfélagið hefur þróast og aðlagast gerbreyttum kringumstæðum. Inn í þann (ó)stöðugleika er svo settur upp nokkuð hefðbundinn geðsjúkur morðingi, kunnuglegur úr glæpasögum. Líkt og í hrollvekjum veldur þetta upplausn og óróa í samfélaginu, faðirinn fer á stjá að rannsaka málið og flækist þannig inn í valdabaráttu klíkanna tveggja. Afleiðingarnar verða svo þær að eftir átökin skapast stöðugleiki á ný – en einungis innan þessa dystópíska veruleika. Hér fer því minna fyrir möguleikanum á veröld nýrri og góðri, aðeins er boðið upp á aðeins skárri útgáfu af endalokunum.

Í báðum verkum byggir samfélagið á fjölskyldutengslum. Áherslan á fjölskylduna er sett á oddinn í upphafi Eylands, en sagan hefst á formála um það að tilheyra samfélagi:

Við erum bundin hvert öðru með þúsund ólíkum tengingum; orðum, röddum, snertingu, texta, blóði, söng, strengjum, vegum, þráðlausum skilaboðum. […]

[S]tundum gerist eitthvað sem tengir okkur enn betur, færir okkur nær hvert öðru. Brúðkaup, barnsfæðingar og dauðsföll kalla fjölskyldur saman […]. (7)

Næsti kafli er sagður í fyrstu persónu einbúa á eyðibýli í einangruðum firði sem hefur „ekkert að gera nema skrifa. Rifja upp og skrifa“ (11). Einbúinn er Hjalti sem skrifar „annál þess sem undan er gengið“ (11) eftir að hafa hafnað valdboði hvítu drottningarinnar. Síðan hefst þriðju persónu frásögn um Hjalta og sambandsslit hans við Maríu. Þetta þríþætta upphaf dregur annars vegar fram mikilvægi fjölskyldunnar sem grunnstoð siðmenningar, en jafnframt er minnt á að fjölskylda er fjölþætt og fjölmenningarlegt fyrirbæri. Skilnaður Hjalta og Maríu kemur ekki í veg fyrir að meðferðin á henni og syni hennar opni augu hans fyrir einræðistilburðum Elínar og í lokin hefur hann stofnað til nýrrar ‚fjölskyldu‘ með stjúpdóttur sinni og börnum sem hann þekkir ekkert til.

Á sama hátt er fjölskyldan lykilatriði í Nýja Breiðholti. Þau birtast hvað augljósast í föður- og systurást Núma og Brittu sem vilja bjarga Mónu og stöðva morðingjann. Morðinginn tilheyrir svo líka fjölskyldu, nánar tiltekið einni af þeim fimm fjölskyldum sem náðu völdum eftir árásina. Eftir hatrömm átök náði hópur fólks valdi yfir „miðborginni, og pottþétt allt frá Tjörninni og niður að sjó á allar hliðar“ (59). Þetta er sterkasta afl borgarinnar og til að halda stöðunni er valdið fjölskyldutengt:

Þeir voru fimm sem sömdu upphaflega sín á milli, fimm kóngar sem tóku þá ákvörðun að til að lifa af og geta haldið sinni stöðu yrðu þeir að vinna saman. Þannig að upp frá því hafa þessir fimm kóngar, og áfram fjölskyldur þeirra að þeim látnum, myndað einskonar stjórn Reykjavíkur. Ekkert gerist í þessari borg án þess að þeir samþykki það, ekkert. (60)

Reykjavík er stjórnað af spilltu fjölskylduveldi sem verndar geðsjúkan morðingja. Þannig er sýnin á fjölskylduna flækt, líkt og í Eylandi. Sem mótvægi við þennan íslenska aðal er svo samfélagið sem Nikolai stýrir í Breiðholtinu, „allt mitt fólk hér í Seljunum“ (61). Þar eru vissulega einnig fjölskyldutengsl til staðar, en ekki með jafn rótgrónum hætti og í miðbænum. Samfélag ‚nýja Breiðholts‘ byggir á „samþykki Stjórnarinnar og samvinnu við hana“ (60) og því vill Nikolai ekki í fyrstu aðhafast í máli morðingjans. Þegar hann lætur loks til skarar skríða er það til að bjarga eiginkonu sinni, Söru, og ófæddu barni þeirra. Afleiðingarnar eru síðan þær að vald hans eykst með auknu samstarfi við Stjórnina.

Hugmyndin um fjölskylduna sem grunnforsendu siðmenningar er því bæði við haldið og hún gagnrýnd. Þau tilfinningabönd sem tilheyra fjölskyldunni eru mikilvæg, en í Nýja Breiðholti er sýnt fram á hvernig slík geta einnig verið skaðleg þegar fjölskyldan verndar illmenni í blindni. Í báðum verkum er áhersla lögð á að hugtakið ‚fjölskylda‘ spanni víðtækt svið mannlegra tengsla.

Þjóðerni og kyn

Þessi áhersla á fjölskylduna er afar athyglisverð í ljósi þess að í báðum verkum er lögð áhersla á ádeilu á þjóðernishyggju og vald. Í Eylandi er þjóðernishyggjan sameiningaraflið og henni er viðhaldið með táknrænum ímyndum umhyggju og samfélagslegrar ábyrgðar sem birtast annarsvegar í hinni barnshafandi móðurlegu hvítu drottningu og hinsvegar í skátunum. Raunin er síðan sú að þessar ímyndir standast ekki, konan er grimmur einræðisherra og skátarnir eru ofbeldisfullur her málaliða. Valdið er pólitískt og spillt. Stjórnvöld eru ekki til staðar í Nýja Breiðholti og völdin eru í höndum glæpagengis og fjölskylduklíku sem hafa hvert sitt yfirráðasvæði. Í stað stjórnmálalegs valds er það stéttaskiptingin sem skiptir máli hér. Engin dul er dregin á að báðir aðilar nota ofbeldi til að halda völdum sínum, en í ljós kemur að hinn íslenski aðall er mun hættulegri en austur-evrópsku glæpamennirnir. Innflytjendurnir sýna þó einhverskonar samfélagslega ábyrgð í morðmálinu, meðan Íslendingarnir gera það ekki. Þó ber þess að geta að hér er ekki verið að hvítþvo glæpamennina, aðgerðir þeirra hafa einnig þau áhrif að auka á eigin völd.

Þannig hafna bæði verkin þjóðernishyggju (og stéttaskiptingu) á afgerandi hátt. Það er sjaldgæft að sjá íslensk skáldverk fjalla á jafnskýran hátt um þetta mikilvæga samfélagsmál og ljóst að í báðum tilfellum er gagnrýnin sett fram í skjóli þess að um fantasíu er að ræða, sögur sem gerast í annarlegum veruleika vísindaskáldskapar og dystópíu. Þetta er reyndar þekkt fyrirbæri, að fjallað sé um samfélagsleg átakamál í skáldskap sem kenndur er við afþreyingu, sem býður upp á beinskeytta notkun tákna í bland við endurnýttar klisjur og formúlur, sem hjálpa lesandanum að ganga inn í kunnuglegan heim. Sá kunnugleiki skapar síðan rými fyrir snarpa samfélagslega gagnrýni og hugmyndafræðileg átök sem í fagurbókmenntum þættu liggja of nærri áróðri og einföldunum.

Einnig er sláandi að skoða birtingarmyndir kynferðislegs ofbeldis í þessum tveimur verkum. Kynferðislegt ofbeldi gegn konum hefur verið veigamikill þáttur í dystópískum verkum, eins og Saga þernunnar eftir Atwood er lýsandi dæmi um. Hún er auðvitað kvenhöfundur og femínisti, en sömu áherslu er að finna í frægum heimsendisverkum eftir karlkynshöfunda, til dæmis The Stand (1978) eftir Stephen King. Sigríður og Kristján Atli leggja bæði áherslu á að sýna hvernig valdbeiting birtist í kynferðislegu ofbeldi gegn konum. Þetta er ekki síst áhugavert í ljósi þess hvernig þau vinna bæði markvisst með kynhlutverk í verkum sínum.

Í Eylandi er það kona sem nær æðstu völdum í samfélaginu, kona sem að auki er barnshafandi. Hún er því hin fullkomna ímynd mæðraveldis sem ætla mætti að væri tilefni útópískrar sýnar hjá kvenhöfundi, eins og til dæmis í Herland (1915) eftir Charlotte Perkins Gilman. Titlarnir ríma meira að segja! En svo er ekki. Sigríður býður ekki upp á einfaldaðar hugmyndir um kynhlutverk og kyngervi, hvíta drottningin er fullkomlega miskunnarlaus þegar kemur að því að halda völdum. Ríkur þáttur í því er að segjast, á móðurlegan hátt, standa með fólkinu í landinu og vilja því allt hið besta, en bæla niður alla mótspyrnu með því að siga skátum sínum á þetta sama fólk; með áherslu á þá sem eru af erlendu bergi brotnir og konur – það er að segja, þá sem síður geta borið hönd fyrir höfuð sér og eru þegar í veikari stöðu. Þannig er einmitt ástatt fyrir Maríu, sambýliskonu Hjalta, sem er fyrst nauðgað á sveitasambýlinu þar sem hún leitar skjóls með son sinn sem er dökkur yfirlitum og er síðan send úr landi vegna hans, en fordómar gagnvart útlendingum beinast hvað helst að þeim sem eru ekki hvítir. Sem segir auðvitað sitt um titilinn ‚hvíta drottningin‘ og sýnir hann í nýju ljósi. Margrét, dóttir Maríu, þarf líka að þola kynferðislegt ofbeldi til að njóta verndar skátanna, en hún nær að flýja og eins og áður segir er það hún sem bæði bjargar börnum á flótta og reynir að byggja upp nýtt og betra samfélag með fyrrum stjúpföður sínum. Kvenlegt yfirvald býður því ekki upp á neina tryggingu fyrir þá sem standa höllum fæti.

Valdhafarnir í Nýja Breiðholti eru flestir karlkyns og nokkuð dæmigerðir fulltrúar feðraveldis, en þó eru nokkrar konur í stjórn íslenska aðalsins. Hinsvegar eru konur í veigamiklum hlutverkum í sögunni og plottið er knúið áfram af ofbeldi gegn þeim. Þessar konur eru tilbúnar að leggja allt í sölurnar til að stöðva ofbeldið og þegar Nikolai sendir Núma einan af stað til að finna morðingjann slæst Britta í för með honum og svo bætist Sara í hópinn, en hún var einnig fórnarlamb ofbeldismannsins. Þetta gerir hún í trássi við vilja eiginmannsins. Morðinginn er, eins og áður segir, verndaður af íslenska aðlinum og stjórn hans og því greinilegur fulltrúi og afsprengi þess feðraveldis sem heldur verndarhendi yfir kynferðisglæpamönnum.

Feðraveldið er mun hefðbundnari útgáfa af valdi, eins og birtist til dæmis ágætlega í hinu ósýnilega yfirvaldi í skáldsögu Orwells, sem gengur undir nafninu ‚stóri bróðir‘. Hinsvegar er athyglisvert að sjá að í Nýja Breiðholti er það ofbeldi gegn konum sem fellir þetta feðraveldi, allavega að einhverju leyti, og því má finna þar nokkuð kraftmikla sýn á mátt kvenna til samstöðu og byltingar.

Niðurstaða þessara tveggja ólíku skáldverka er einróma; hvað sem líður kyni þá er valdið vandmeðfarið og hreinlega vafasamt. Hvort sem valdið er í formi einræðis, eins og í Eylandi, eða hóps sem telur sig yfir aðra hafna, eins og í Nýja Breiðholti, þá er vald eitthvað sem þarfnast stöðugs aðhalds og viðspyrnu. Samfélagsleg upplausn og hrun siðferðislegra gilda eru öllum almenningi – og sérstaklega þeim sem tilheyra ‚minnihlutahópum‘ – ekki síður hættuleg en hamfarir af völdum náttúru eða sjúkdóma. Sögur eins og Eyland og Nýja Breiðholt eru framlag skáldskaparins til þess einfalda sannleika og því dæmi um það hvernig skáldverk taka þátt í samfélagslegri umræðu. Jafnframt eru verkin mikilvægur þáttur í því að breikka svið íslenskra bókmennta með því að sýna fram á að viðfangsefni sem iðulega eru tengd afþreyingu geta og þurfa að vera virkur þáttur í þriflegri bókmenntaflóru.

 

Úlfhildur Dagsdóttir