Bergþóra Snæbjörnsdóttir: Svínshöfuð.

Benedikt, 2019. 236 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2020

 

I

Er maðurinn ekki meira en þetta? Hyggið vel að honum. Þú skuldar orminum ekkert silki, villidýrinu engan feld, sauðinum enga ull, kettinum ekkert des. Hvað? Þrír okkar hérna eru falsaðir. Þú ert hinn rétti sjálfur; tilhafnarlaus maður er ekki annað en slíkt vesalt nakið klofdýr, sem þú ert. (Lér konungur, 3.4.102–109, þýðing HH)

 

Svínshöfuð

Drifkraftur atburða í Svínshöfði, fyrstu skáldsögu Bergþóru Snæbjörnsdóttur, er kunnuglegur. Langvarandi endurómur ástleysis og áfalla. Bakgrunnurinn, sögusviðið, er einnig valið þannig að hægt er að lesa söguna sem tilbrigði við stef. Þó að Breiðafjarðareyjar, þar sem aðalpersónan slítur barnsskónum, hafi á öldum áður haft á sér ímynd matarkistu og hlunninda þá er lífsbaráttan þar engu frábrugðin heiðarbýlum skáldskaparins frá sjónarhóli nútímans.

Harðneskjan í náttúrunni og kvistirnir í lífi fólksins sem þraukar í námunda við hana hefur verið yrkisefni (jafnvel deiluefni) bæði rithöfunda, frá því nútíminn hófst í íslenskum bókmenntum, og ekki síður kvikmyndagerðarmanna allt frá því að voraði í þeirri grein með Landi og sonum 1980. Af því sem Bergþóra leggur nýtt til málanna er augljósast hvernig hún víkkar sjónarhornið svo það spannar nú allan heiminn, og hvernig niðurstaðan verður óhjákvæmilega hin sama. Hjörtum jaðarfólks í mis-örvæntingarfullri leit að betra lífi svipar alls staðar saman. Hvað þarf til að lifa af? Mögulega að fórna mennsku sinni.

Við byggingu bókarinnar beitir Bergþóra tveimur aðferðum sem fyrir fram blasir ekki við að eigi samleið. Sú fyrri hefur á sér nokkurn „afþreyingarblæ“. Fyrsti hlutinn er rammaður inn af endurliti gamalmennisins Svínshöfuðs, sem vaknar einmana, pissublautur og níræður í húsi sínu í Stykkishólmi og man að „strákurinn“, sem við fáum brátt að vita að er kínverskur stjúpsonur hans, á afmæli. Við fáum líka fljótlega vitneskju um að strákurinn liggur á sjúkrahúsi og hefur gert árum saman, og að eitthvað nógu hræðilegt hefur gerst til að umturna lífi bæjarins um stund. Löngu síðar komumst við að því að báðir heita þeir Gunnar, og undir lok bókarinnar er loks ljóstrað upp um hvað gerðist.

Seinni aðferðin lýtur að formi bókarinnar sem heildar. Hún skiptist mjög skýrt í þrjá hluta með þrjár ólíkar aðalpersónur; Svínshöfuð í þeim fyrsta, Helena frænka hans í miðhlutanum og strákurinn í lokin. Hryggjarstykkið í hverri um sig er æviágrip aðalpersónunnar, og saman leggja þær í púkk heildarmyndarinnar af hinu skelfilega lykilatviki. Um sumt minnir þessi þrískipta bygging á klassískt tónverk, hljómsveitarkonsert, þar sem stefjaefni ummyndast og birtast á ný í ólíkum köflum. Þetta á sérstaklega við um síðari hluta upphafskaflans og miðhluta lokakaflans, sem segja frá sömu atburðum frá ólíkum sjónarhornum: komu stráksins og Mary móður hans til Íslands og sambýli við Svínshöfuð.

Gott dæmi um þessa tvíátta sýn á sömu atvikin er þegar Svínshöfuð missir stjórn á skapi sínu og rassskellir strákinn eftir erfiða verslunarferð í Kringluna. Skömmu síðar fer hann og kaupir á hann rándýru hettupeysuna sem fjaðrafokið varð út af. Í lokakaflanum man strákurinn eftir peysunni en dramatískur aðdragandi þess að hann eignast hana er horfinn. Einnig mætti hér nefna sjálfan bókartitilinn, nafnið sem Svínshöfuð/Gunnar telur Maríu hafa gefið sér og notar á sjálfan sig upp frá því, enda taldi hún honum trú um að þetta væri ástúðlegt kínverskt gælunafn. Í lokakaflanum komumst við að því að nafnið er smíði stráksins, uppnefni hans á karlinum sem honum þykir dýrslegur og höfuðstór. Þar fregnum við líka eiginnöfn þeirra beggja, Svínshöfuðs og stráksins, þó að Svínshöfuð haldi sínum titli til loka og nafn stráksins komi ekki frekar við sögu.

 

 

II

Svínshöfuð vaknaði kófsveittur og skjálfandi með nafn stráksins á vörunum, flæktur í sængina sem var rennandi blaut. Hafði hann pissað undir? Hann þreifaði á lakinu undir sér, klofinu á nærbuxunum, allt var blautt, blautt, blautt! (7)

 

Það má líta á Svínshöfuð sem nokkurskonar nóvellu-þríleik. Þrjár næstum því sjálfstæðar sögur með mismunandi frásagnarhætti og ólíkt fólk í sögumiðju, sem fylla út í sameiginlega heildarmynd.

Í fyrsta hlutanum, „Zhū tóu“, er ævi Svínshöfuðs rakin í þriðju persónu frá fæðingu hans að afmælisdegi stráksins,sem liggur lamaður og ólæknandi á sjúkrahúsi. Við fáum ekkert að vita um hvað gerðist en vitum frá upphafi að það var stórt og fréttnæmt:

Fyrstu dagana eftir atvikið með strákinn var eins og náttúruhamfarir hefðu átt sér stað, eins og ofsafenginn stormur hefði gengið yfir bæjarfélagið og rifið í sundur hvert einasta hús. […] Það var haldin minningarathöfn í kirkjunni. Svínshöfuð fór ekki sjálfur en frétti að það hefði þurft að sprauta tvo niður með róandi lyfi í æð. (9)

Við vitum líka að það snerti fleiri í fjölskyldunni en strákinn:

Það skipti ekki máli þótt þessir krakkar hefðu verið löngu flutt í burtu. Þau voru innfædd. Ef maður fæðist í smáþorpi á landsbyggðinni er þorpið eins og fæðingarblettur sem vex alltaf aftur og aftur. (10)

Við vitum ekki þegar þarna er komið sögu að strákurinn er ekki einn af „þessum krökkum“. Eða upplifði sig alla vega ekki sem slíkan. Eins langt frá því að vera „innfæddur“ og hægt er. Hann kemur til landsins með móður sinni sem Svínshöfuð „kynnist“ í gegnum hjónabandsmiðlun sem finnur austurlenskar/kínverskar konur handa einmana Vesturlandabúum.

Áður en við komumst að því heyrum við söguna af uppvexti aðalpersónunnar, harðneskju lífsbaráttunnar í eynni á Breiðafirði og glímunni við afleiðingar fötlunar sem gerir hann afskiptan í systkinahópnum og kyndir undir tryllinginn í skaplyndinu. Farið er hratt og hlutlægt yfir sögu að mestu, þó að líðan og afstaða Svínshöfuðs sé tilgreind þegar hún skiptir máli. Höfundur hefur mikið vald á efni sínu, sögumaður er alvitur og þó að hugarheimur Svínshöfuðs sé í forgrunni er hann þess umkominn að segja okkur umbúðalaust hvað undir býr hjá persónunum.

Þeim fannst að draumar ættu að vera einkamál, rétt eins og veikindi, tilfinningar og hugsanir. (17)

Persóna Svínshöfuðs heldur áfram að mótast eftir að móðir hans flytur í land með eftirlifandi börn þegar eldri synirnir farast í sjóslysi með föður sínum. Einelti, námsörðugleikar og hið stríða skap einangra hann og dæma til einsemdar, sem loks er rofin með alþjóðavæddu aðgengi að konum þriðja heimsins. María breytir valdahlutföllum heimilisins. Lýsingin á fyrstu dögunum eftir komu hennar og stráksins, og hvernig hún skapar sér pláss í þessum nýja heimi, er yfirveguð, kaldhömruð og áhrifarík.

 

III

Barnið kunni ekki að skríða. Það lá á bakinu á leikteppinu, hjalaði og teygði hendurnar í áttina að bláum gíraffa sem dinglaði fyrir ofan það. […] Það var ennþá klætt í röndóttu samfelluna sem það hafði sofið í. Bleyjan á milli fóta þess var farin að bólgna. (115)

 

Líkt og í upphafshlutanum er þriðju persónu frásagnarmáti á miðhlutanum, „Helenu“. Einnig hér rammar endurlit inn hluta kaflans. Öllu dramatískara samt: Titilpersónan situr, lömuð af þráhyggjuröskun, og fær sig ekki til að sinna pissublautri og svangri dóttur sinni. Þannig líða fyrstu 36 blaðsíður annars hlutans á meðan Helena rifjar upp fortíð sína. Endurlitið heldur síðan áfram, fleygað með lýsingu á brothættu fjölskyldulífinu og sviðið undirbúið fyrir lokakafla þríleiksins, þar sem Helena og maður hennar fallast á að hýsa strákinn, stjúpson ömmubróður hennar, sem er á leið suður að búa sig undir inntökupróf í læknadeild Háskólans.

Miðhlutinn greinir sig frá hinum tveimur í því að dvelja ekki við eða rekja líf Helenu frá frumbernsku og fyrstu minningum, eða leitast við að setja brothætt sálarástand hennar í samhengi við áföll á fyrstu skrefum lífsins. Reyndar er sérstaklega tekið fram að Helena hefur ekkert samband við barnæsku sína:

Hún vissi ekki afhverju hún var eins og hún var. Henni fannst eins og það væri einhver skuggi yfir sér, eitthvað sem hún gæti ekki almennilega náð að negla niður. […] Árum saman var hún sannfærð um að hún hlyti að hafa verið misnotuð. […] Það versta sem hafði komið fyrir hana í æsku var að foreldrar hennar skildu og mamma hennar flutti í Grafarvog. (127)

Lesandinn kemst þó að því að það sem leggur línuna í lífi Helenu er nauðgun á unglingsárum sem leiðir hana á braut skaddaðrar sjálfsmyndar og taumleysis í kynlífi, átröskunar og þráhyggju, sem brýst fram á ýmsan hátt, meðal annars í þessu sársaukafulla skeytingarleysi gagnvart grátandi ungbarninu.

Helena er barnabarn Lovísu, systur Svínshöfuðs. Fortíð fjölskyldunnar fær ekkert rými í sögu hennar. Aldrei er minnst á Breiðafjarðareyjar og ömmubróðir hennar er fjarlægur, skrítinn og ógeðslegur karl. Aðeins er minnst á Helenu í fyrsta hlutanum en hún passar stundum strákinn þegar María og Svínshöfuð eru upptekin eða bregða sér af bæ.

Af sögunum þremur er miðhlutinn sá sem kemst næst því að standa sjálfstætt. Ef upphafskaflinn minnir á lífsbaráttubækur í anda Sjálfstæðs fólks, þá kallast saga Helenu á við félagsraunsæisbækur níunda áratugarins, saga af þrúgandi hjónabandi, sálrænum erfiðleikum konunnar og áföllunum sem þeir botna í. Sálarástandi Helenu er á köflum frábærlega lýst með einföldum en áhrifaríkum dæmum:

Helenu fannst gaman að fara í skurðaðgerðir. Eða réttara sagt – henni fannst gaman að láta svæfa sig. Hún elskaði að missa meðvitund. […] Þegar hún var tíu ára gömul og það þurfti að taka úr henni hálskirtlana fannst henni eins og hún hefði orðið fyrir andlegri reynslu þegar hún var svæfð. Hún vaknaði við að kasta upp blóði í lítinn frauðplastbakka og var þá minnt rækilega á hversu ömurlegt það er að vera manneskja með meðvitund. (124)

Ef horft er á bókina sem heild mætti jafnvel líta svo á að Helena sé varla ein af aðalpersónum hennar. Hún er ekki gerandi eða örlagavaldur í lífi annarra helstu persóna. Hún á engin teljandi samskipti við Svínshöfuð og Maríu, og þegar strákurinn kemur inn í líf hennar í lokakaflanum eru það samskipti hans við Hannes, eiginmann hennar, sem taka pláss og ráða úrslitum um endalokin.

Kringumstæður í upphafi fyrsta og annars hluta eru áþekkar, en kallast líka á sem skýrar andstæður. Í þeim fyrsta vaknar Svínshöfuð upp við að þurfa að heimsækja strákinn á afmælisdaginn hans, og það eru engar vöflur á þeim undirbúningi, þrátt fyrir lífsaðstæður og sjálfsmiðaðan persónuleika titilpersónunnar. Helena situr hins vegar lömuð af þráhyggjuröskun, ófær um að sinna skyldum sínum við barnið. Helenu dreymir um algleymi, Svínshöfuð böðlast áfram. Hann þraukar, hún ferst.

 

IV

Mig kitlaði í typpið, ég togaði í það annars hugar á meðan ég gekk í hringi um torgið. Ég fór að syngja með sjálfum mér á meðan ég togaði í typpið. Ég söng hærra og hærra og togaði fastar og fastar. Mér leið svo vel. (169)

 

Ansi margt kemur fyrst heim og saman í þriðja hluta bókarinnar. þar skiptir Bergþóra um frásagnarhátt. Við tekur fyrstu persónu frásögn stráksins, frá hans fyrstu minningu hjá ömmu sinni í kínversku dreifbýli, fram að „atburðinum“ sem lesandinn hefur beðið eftir að vita hver var frá fyrstu blaðsíðu bókarinnar. Á þeirri leið fyllist út í mynd fyrsta hlutans af lífinu í húsi Svínshöfuðs eftir að María og sonur hennar flytja þar inn.

Stór hluti sögu stráksins segir í grunninn frá sama tíma og fyrsti hlutinn, frá öðru sjónarhorni. Hér fáum við að vita að þótt strákur sé auðvitað mjög upp á móður sína kominn í nýjum heimkynnum þá eru tengsl þeirra í raun grunn, þau eru nýbúin að sjást í fyrsta sinn og í raun ókunnug. Einsemd stráksins er þannig algert lykilatriði, staða hans utan við lífið í bænum:

Ég var með líkama en hin voru gagnsæ. […] Umhverfis mig fléttaðist ósýnilegur, fínlegur vefur af tengingum, ósvöruðum spurningum og minningum sem strengdust yfir í aðra heimsálfu. Hin börnin voru ekki með vef, þau voru með harðgerðan og seigan naflastreng sem nærði þau daglega. (186)

Einsemdin magnast upp þegar hann fer að öðlast meðvitund um kynhneigð sína, nokkuð sem umhverfi hans er algerlega ófært um að hjálpa honum að taka í sátt.

Annar grundvallarþáttur sem bætist við söguvefinn er saga Maríu. Þó að hún fái ekki „sinn eigin“ kafla birtist hún mun skýrar í síðasta hlutanum en í þeim fyrsta, og mynd hennar verður margslungnari. Þó að staða hennar mótist vitaskuld mikið til af hinu alþjóðavædda, kapítalíska og karlmiðaða skipulagi heimsins þá heyr hún sína lífsbaráttu á eigin forsendum, aðallega þó í gegnum son sinn og með hans hagsmuni, eins og hún sér þá, að leiðarljósi.

Kröfuharkan og metnaðargirndin sem stýra lífi hans með Maríu sem verkstjóra kallast á við lífsbaráttuna á eyjunni í æsku Svínshöfuðs og minnir líka á hugmyndir kínversk-ameríska lögfræðingsins Amy Chua um „tígrismóðurina“. Vel er líka hægt að hugsa um Maríu sem nokkurs konar Bjart í Sumarhúsum, á valdi viljastyrks sem reynist eyðandi afl í lífi barnsins.

Síðari hluti lokakaflans er áhrifarík lýsing á aðdraganda „atburðarins“. Samdráttur stráksins og Hannesar, stutt og snarpt ástarævintýri, endalok þess, geðrof stráksins í framhaldinu og örþrifaráð sem leiða til dauða fjölskyldunnar og lömunar hans. Frá sjónarhóli dramatískrar byggingar má segja að þessi endalok hefðu þurft að tengjast meginefni sögunnar sterkari böndum. Það skortir nokkuð upp á harmrænan óhjákvæmileika í þessum þætti sögunnar. Á móti má segja að Bergþóra fellur ekki í algengustu gryfju höfunda sem byggja sögur sínar í kringum afdrifaríkan atburð sem lesandinn er dreginn á upplýsingum um alla bókina; að hann standi ekki undir væntingum. Lokakafli Svínshöfuðs er krassandi og magnaður, og viðbrögðin í heimabænum sem lýst er snemma bókar eru réttmæt og eðlileg.

 

V

Þó að áður útkomnar bækur Bergþóru séu ljóðabækur er sterkur frásagnarbragur á þeim báðum, sérstaklega Flórída (2018), svo það þurfti ekki að koma neinum á óvart að hún reyndi fljótlega fyrir sér á skáldsagnasviðinu. Hitt kemur nokkuð á óvart hvað hún velur sér raunsæisleg efnistök í Svínshöfði, nokkuð sem rætur á ljóðagerðarsviðinu benda síður til. Þannig sver þorpslýsingin sig mun sterkar í ætt við sjávarþorpsbækur Guðlaugs Arasonar en Tangabálk Guðbergs Bergssonar, og Helenukaflinn vekur frekar hugrenningatengsl við Ásu Sólveigu en Svövu Jakobsdóttur.

Þó eru sterk höfundarsamkenni á verkunum. Fuglar, beittir hlutir og lykt fá mikið pláss. Munurinn er sá að það sem ber uppi ljóðrænan myndheim og merkingu í Daloon dögum (2011) og Flórída er hér hluti af raunsæislegri atburðarás. Ágætt dæmi er árás kríanna á Svínshöfuð snemma í bókinni, hluti af röð áfalla sem sálræn lýsing hans hvílir á, og tengist stóra áfallinu – dauða Jóhannesar bróður hans sem drukknar í sínum fyrsta róðri, sem hann ef látinn fara í eftir að hafa verið sakaður um stuld sem Svínshöfuð ber ábyrgð á. En Jóhannes hafði áður skilið Svínshöfuð eftir varnarlausan í kríuvarpi eyjarinnar þar sem fjölskyldan býr með hrottalegum afleiðingum.

Þetta var fyrsta minning Svínshöfuðs: að liggja hjálparvana á bakinu. Vængir sem slást í andlitið á honum. Rauðir goggar opnir upp á gátt. Harðar, oddmjóar tungur sem stingast út í loftið. Lyktin af eigin saur. (37)

Fuglamyndmál er áberandi í Flórída:

Hún hafði látið brjóta í sundur á sér andlitið, minnka nefið, breyta vörunum í sílíkongogg. Ég hélt að hún væri kráka í hlébarðakápu og hettupeysu. Hélt að hún væri ekkert annað en viðbjóðsleg kráka, ógeðsleg kerling … (Flórída, 10)

Fuglsmyndin sem þarna er á mörkum frásagnarlistar og ljóðrænu, óráðskennd og óraunsæ, gengur aftur í Svínshöfði sem algerlega raunsæislegur þáttur dramatískrar atburðarásar. Hægt er að hugsa sem svo að ógeðið sem ljóðmælandi Flórída finnur fyrir gangi aftur í fuglafælni Svínshöfuðs sem stafar af þessari „raunverulegu“ árás.

En einmitt vegna hinnar raunsæislegu hefðar, sem óhjákvæmilegt er að lesa Svínshöfuð sem hluta af, verða einstök atriði að byggingargöllum, atriði sem í lausbeislaðri og óræðari hefð hefðu ekki skipt máli eða einfaldlega verið skilin sem hluti af merkingu verksins. Hljóðlátt brotthvarf Geira, vinar og samstarfsmanns Svínshöfuðs, úr atburðarásinni er þarna á meðal. Lýsingin á þeim beituskúrsköllunum er harðneskjuleg og sérlega trúverðug, vegna þess hvernig Bergþóra leyfir sambandi þeirra að vera mótsagnakenndu, og hefði verið gaman að sjá það þróast og hvernig tengsl Svínshöfuðs og Geira hefði áhrif á samband Svínshöfuðs við Maríu, frekar en að sjá félagann hverfa úr sögunni. Einnig mætti nefna geðklofa- og geðrofseinkennin sem sem brjótast óundirbyggt og skyndilega fram hjá stráknum undir lok bókarinnar, eins og til að gefa ódæðisverkum hans sálfræðilega undirbyggingu.

Skýr þrískipting sögunnar auðveldar lesandanum, eða beinir honum jafnvel í þann farveg að bera saman aðalpersónurnar, spegla þær hverja í annarri og meta á vogarskálum sálfræði, samfélags og siðferðis. Hvort lesa eigi táknræna merkingu í að allir hlutarnir hefjast á pissandi fólki, tveimur börnum og einu gamalmenni, skal ósagt látið. Það er samt varla tilviljun. Kannski er það ábending um að huga að hinu frumstæða og dýrslega, og hvernig því reiðir af.

Af aðalpersónum verksins er Svínshöfuð sá eini sem „heldur velli“. Í sögulok er hann enn við líði þótt gamall sé, aðrir eru annaðhvort dánir eða lamaðir. Hann er líka sá eini sem tekur ekki róttækum breytingum. Eina tilraun hans til að bæta líf sitt er að fá Maríu og strákinn til sín. Hann lifir nánast hreinu frumþarfalífi. Hann flýr það ekki eins og Helena reynir með hjálp lyfja og feluleikja. Hann berst ekki við námsbækur eins og strákurinn, knúinn áfram af kröfuhörku og metnaði mömmu sinnar, sem ferðaðist yfir hálfan heiminn til að giftast manni sem varla er hæfur til umgengni við annað fólk.

Eftir stendur Svínshöfuð, með þrjóskuna eina að vopni, tilbúinn að lifa í kringumstæðum sínum. Kannski ekki hamingjusamur en þó á lífi. Hvers virði það líf er, hvort það er eftirsóknarvert að lifa sem einbert „klofdýr“, „forked animal“ í frumtexta Shakespeares, er önnur spurning sem Svínshöfuð vekur en svarar ekki, frekar en Lér konungur.

 

Þorgeir Tryggvason