Ragna Sigurðardóttir. Hið fullkomna landslag.

Hið fullkomna landslagMál og menning, 2009.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2010.

Framan á kápu: Mynd af herbergi, á gólfinu standa trönur með málverki af kræklóttu birki, fjalli og himni. Undir hlífðarkápunni: Einungis landslagsmyndin; trönurnar og umgjörðin urðu eftir fyrir utan. Inni í bókinni: Listræn blekking af ýmsu tagi en líka sitthvað fleira.

Strax í byrjun Hins fullkomna landslags eftir Rögnu Sigurðardóttur opnast lifandi heimur þar sem andstyggilegur janúardagur í Reykjavík ræðst á næstum öll skilningarvitin. Aðalpersónan Hanna „gleypir kalt og hráslagalegt myrkur“ og myrkrið „lyktar af regni, blautu malbiki og bílaútblæstri með votti af sjó og þangi“. Það eru ekki bara augun sem nema myrkrið, af því er líka lykt og bragð, jafnvel hægt að snerta það. Hanna hefur búið erlendis lengi og var „búin að gleyma hvað miðbærinn getur verið nöturlegur“ (5). Nú er hún flutt aftur til landsins til að taka við starfi hjá listasafni borgarinnar en gestsauga hennar er nýtt til ýmiss konar athugunar, ekki bara á vetrardegi í miðbæ Reykjavíkur heldur líka á myndlistarheiminum og samfélaginu. Þótt rammi sögunnar, sem gerist í gróðærinu, sé safnið og listaheimurinn er vandalaust að lesa ýmsar víðari skírskotanir til samfélagsins milli línanna, m.a. í þessum vangaveltum Hönnu:

Lítið safn í litlu landi, hugsar hún. Kannski er starfssvið þeirra sem hér vinna ekki eins afmarkað og þar sem hún þekkir til, reglurnar ekki eins ósveigjanlegar, kannski gerist hér allt með liðlegri hætti en hún er vön en það einfaldar ekki endilega hlutina. (16)

Inn í frásögnina er ofinn margs konar fróðleikur um myndlist og gerð er grein fyrir ýmsum mismunandi hugmyndum um hana. Hanna hefur alltaf haft sérstakan áhuga á landslagsverkum þótt hún hafi oft skorið sig úr hópnum vegna þess; sjálf stundaði hún myndlistarnám á yngri árum en fékk síðan meiri áhuga á að „lesa, skoða og túlka“ (17) svo hún sneri sér að listfræðinni. Baldur, samstarfsmaður hennar á safninu og gamall skólafélagi, hafði líka málað sjálfur, fylgt straumnum og jafnvel orðið nokkuð þekktur á tímabili en hann „átti hápunkt sinn á tímum nýja málverksins“ (16) og hætti svo að skapa sjálfur frá grunni. Alls konar listamenn eru skáldaðir upp og dregið óbeint fram að á hverjum tíma er unnið eftir fleiri en einni listastefnu þótt þær séu mismikið í tísku. Málverk sem gefin hafa verið safninu á þeim forsendum að þau séu eftir tvo látna og fræga listamenn, Guðrúnu Jóhannsdóttur og Sigfús Gunnarsson, gegna veigamiklu hlutverki í bókinni, en þótt fram komi að þau hafi verið samtíðarmenn eru verk þeirra gerólík: Guðrún málaði hlutbundið, Sigfús abstrakt. Svipuðu máli gegnir um eldri kynslóðina á sýningu sem Hanna stendur fyrir: Hámundur og Stefán eru jafnaldrar en Hámundur hefur alltaf verið á skjön við samtímann, hann málaði abstrakt framan af ferlinum en sneri sér svo að landslagi; Stefán hefur aftur á móti aldrei málað mynd, listsköpun hans felst í skúlptúrum, gjörningum og hugmyndalist. Yngri kynslóðin á sýningunni býr svo til enn aðrar tegundir af listaverkum: Guðmundur gerir innsetningu en Anselma hljóðverk.

Meðal annars sem fjallað er um eru útilistaverk í borginni og veggjakrot unglinga en þessu tvennu lýstur líka saman við lítinn fögnuð Hönnu sem reynir þó að bregðast við á jákvæðan hátt  hún býður hópi unglinga í safnið í von um að víkka sjóndeildarhring þeirra gagnvart listinni, sérstaklega eins drengsins. Gjörningar koma einnig við sögu. Að auki tengir Hanna margt í daglegu lífi við myndlistarverk og þar er farið vítt og breitt um listasöguna. Áköf persóna minnir hana t.d. á málverk Jóns Stefánssonar af Þorgeirsbola (26) og á göngu um Öskjuhlíðina kemur henni í hug málverk eftir endurreisnarmálarann Paolo Uccello (30). Miðlað er fjölbreytilegri sýn og margþættum upplýsingum um myndlistarheiminn. Með því að fylgjast með daglegum störfum Hönnu verða lesendur líka margs vísari. Fróðleikurinn verður aldrei kæfandi, hann er í góðu jafnvægi við aðra þætti sögunnar og tengist ávallt vel gerðum persónulýsingum. Fólkið og samskipti þess er í forgrunni en ýmislegt fleira hangir á spýtunni og útkoman er trúverðugur og næstum áþreifanlegur heimur.

Afstaðan til myndlistar er síðan ennþá margvíslegri en listastefnurnar sem gerð er grein fyrir. Bókin gerist á nýliðnum tíma, auðhyggjan er allsráðandi og viðhorf sumra persóna til myndlistar markast einvörðungu af henni. Peningamaðurinn Hrafn „skoðar málverk af hyggjuviti en ekki með hjartanu“ (63), hann hefur einungis áhuga á verðgildinu og þegar hann íhugar að styrkja safnið er honum eigin ímyndarsköpun efst í huga. Unglingarnir sem Hanna býður í fræðsluferð í von um að vekja áhuga þeirra á myndlist svo þau hætti að spreyja styttur bæjarins sýna líka takmarkaðan áhuga á fyrirlestri hennar og listaverkunum sem eru til sýnis en það lifnar yfir þeim þegar frægð og háar fjárhæðir berast í tal. Og svo eru það falsararnir.

Hryggjarstykkið í frásögninni er rannsókn Hönnu og forvarðarins Steins á landslagsmálverki sem safninu var gefið og samhliða þeirri rannsókn verða lesendur margs vísari um falsanir og aðferðir falsara, auk þess sem minnt er á að ekki sé rétt að leyfa nýlegum fölsunarmálum í raunheiminum að gleymast. Smám saman staðfestist sá grunur að landslagsverkið sé falsað og jafnvel líka abstraktverk sem safninu hafði einnig verið gefið. Það flækir svo fölsunarsöguna að abstraktverkið hafði verið kóperað eftir heimildum um raunverulegt verk en upprunalega verkið kemur í ljós undir falsaða landslagsverkinu! Viðbrögð persónanna við þessu segja ýmislegt um þær. Steinn uppgötvaði falsanirnar og reynir að opna augu annarra fyrir þeim með hægð, hann gengur ekki fram með hrópum og köllum en stendur fast á sínu. Hanna vill helst ekki trúa honum í byrjun og hikar þar sem hún veit að starfsframinn er í húfi ef verkin reynast ófölsuð en ákveður svo að opna augun fyrir hinu augljósa og lætur slag standa. Kristín safnstjóri vill aftur á móti ekki aðhafast neitt þegar Hanna og Steinn vekja máls á fölsuninni og vilja hreinsa landslagsverkið af striganum til að fullvissa sig um hvað leynist undir. Staða hennar og viðhorf hafa ýmiss konar skírskotanir út fyrir bókina. Kunningjasamfélagið kristallast í því að Kristín er góð vinkona fólks sem hefur gefið safninu verk og það nýtist sem tilefni til að spyrja víðtækari spurninga um afleiðingar þess að láta peningaöflin ráða ferðinni:

Í sjálfu sér er kannski ekkert athugavert við að safnið þiggi þessa veglegu gjöf. Því ætti Kristín að hafna gjöf góðrar vinkonu sem að auki er ein ríkasta konan á landinu? Þó vaknar sú spurning hjá Hönnu hvað Steinunni skyldi detta í hug að gefa safninu næst og hvernig ætti að bregðast við gjöf sem væri safninu ekki samboðin. Ætli Kristín myndi hafna slíku? Og ef það yrði lenska hjá auðmönnum að gefa listasafninu gjafir til að baða nafn sitt menningarljóma, yrði þá ekki safneignin sundurleit og skringilega samansett? (14)

Sá hugsunarháttur Kristínar er kunnuglegur að varhugavert sé að rugga bátnum. Eins og svo fjölmargir á síðustu árum leiðir hún það augljósa viljandi hjá sér og neitar að aðhafast. Kristín forðast í lengstu lög að styggja fjármagnið og finnst einfaldast og öruggast að gera ekkert á þeim forsendum að málið sé ekki fullsannað. Þó gengst hún ekki við því að hún sé að slá neitt út af borðinu heldur réttlætir aðgerðaleysið með því að tímasetningin sé ekki alveg rétt, það sé best að bíða og sjá til:

– Þú verður að skilja hvaða stöðu við erum í. Þetta er svo lítill heimur hérna, svo viðkvæmur. Við megum bara ekki við þessu eins og er, ekki akkúrat núna, skilurðu. Við skulum geyma þetta aðeins, skoða málið betur. (143)

Viðbrögð Kristínar þegar Hanna og Steinn óhlýðnast henni og opinbera blekkinguna að viðstöddum fjölmiðlum eru í sama anda, allt skal vera með kyrrum kjörum á yfirborðinu. Á starfsmannafundi lætur hún sem ekkert sé en tekur svo Hönnu á eintal og segir henni upp störfum undir því yfirskini að safnið skorti fé, án þess að minnast orði á fölsunarmálið. Ýmis fleiri dæmi má finna í bókinni um átök sem eru ekki opinská og valdabaráttu sem er ósýnileg á yfirborðinu. Samskipti persóna eru grunnurinn að sögunni og þar sem annars staðar er ekki alltaf allt sem sýnist.

Blekkingar af ýmsu tagi eru eitt af meginstefjum bókarinnar, þar á meðal margþætt umræða um frummyndir og eftirmyndir. Listræn blekking af ýmsutagi tengist flestum sviðum bókarinnar, beint eða óbeint, sem og sígild spurning sem varðar listsköpun: er listin eftirlíking veruleikans? Þessi umfjöllunarefni snerta ýmislegt af þeirri myndlist sem fjallað er um og þau eru órjúfanlegur þáttur fölsunarsögunnar en þar að auki er listræna blekkingin auðvitað tæki rithöfundarins og m.a. beitt listilega í umhverfislýsingunni sem gerð var að umtalsefni hér í byrjun þar sem orð miðla alls konar skynjun. En spurningar um hvað er falskt og hvað ekta tengjast líka persónum bókarinnar og samskiptum þeirra. Margar persónurnar leyna á sér. Hanna leggur t.d. kalt mat á eina af samstarfskonunum, aðstoðarsýningarstjórann Katrínu, í upphafi en skiptir svo a.m.k. tvisvar um skoðun á henni. Leiðarstefið að ekki sé allt sem sýnist tengist líka þeirri staðreynd að Steinn er í vandræðum með sjónina. Enn ein útgáfa af tvöfeldninni kemur svo fram í því að lesendur vita stundum meira en aðalpersónurnar. Hanna og Steinn uppgötva að verkin eru fölsuð en þau vita ekki hver var að verki og hvernig farið var að. Það fá lesendur aftur á móti að vita í nokkrum köflum þar sem horfið er aftur í tímann.

Hið fullkomna landslag á margvíslegt erindi við lesendur. Umfjöllunarefnin virka á mörgum plönum og með því að draga upp lifandi mynd af einu sviði samfélagsins er varpað ljósi á samfélagið allt. Það spillir svo alls ekki fyrir, þvert á móti, hversu litríkur heimur er skapaður í bókinni og hve mörgum flötum er velt upp á samskiptum fólksins sem þar lifir og hrærist.

Erna Erlingsdóttir