Blokkin á heimsenda

Blokkin á heimsenda

Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir: Blokkin á heimsenda.

Mál og menning, 2020. 256 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2021

 

Samspil einstaklings við samfélag og umhverfi, einmanaleiki og einangrun er meðal þess sem er til umfjöllunar í skáldsögunni Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Arndís hefur áður sent frá sér barna- og unglingabækur, smásögur og ljóð og Hulda Sigrún hefur sent frá sér unglingabækur á ensku sem hafa verið gefnar út erlendis.

Blokkin á heimsenda hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka árið 2020 en í henni er sagt frá sérkennilegu, einangruðu samfélagi á lítilli eyju á hjara veraldar og því hvað gerist þegar utanaðkomandi einstaklingur sem kann ekki reglurnar kemur og hristir rækilega upp í öllu.

 

Í heimsókn

Aðalpersóna sögunnar er Dröfn, sem er 11 ára hvatvís og hreinskilin bjartsýnismanneskja. Undir lok sumars tilkynna foreldrar hennar þeim systkinunum, Dröfn og stóra bróður hennar Ingó, að fjölskyldan ætli í frí að heimsækja föðurömmu barnanna, Bríeti. Amma Bríet býr á afskekktri eyju lengst í norðri og börnin hafa aldrei hitt hana en nú þarf hún á aðstoð að halda eftir að hafa lent í óhappi og slasast. Dröfn hefur lengi látið sig dreyma um að eiga ömmu sem bakar og dekrar við hana og er því mjög spennt, en þegar fjölskyldan kemur í eyjuna verður fljótt ljóst að þar er ekkert eins og hún hafði ímyndað sér.

Eyjaskeggjarnir eru kuldalegir og tortryggnir, klæðast gamaldags, slitnum fötum og tala um hluti sem hún skilur ekkert í. Dröfn tekst auk þess strax að móðga nokkra jafnaldra sína á staðnum þegar hún reynir að ræða tölvuleiki og Youtube við þá til að brjóta ísinn. Amman reynist svo alls ekki eiga von á þeim og hefur engan áhuga á gestum, sérstaklega ekki frá meginlandinu, en meginlandsbúar eru í hennar huga pjattaðir ónytjungar. Dröfn líst ekkert á blikuna en foreldrar hennar eru ákveðin í að gera gott úr málunum, þrátt fyrir að þau þurfi að sofa á gólfinu hjá ömmu Bríeti og meira að segja vinna fyrir sér á meðan þau dvelja í eyjunni. Þar er nefnilega gert ráð fyrir að allir leggi sitt að mörkum og geri eitthvað gagn.

Samfélagið í eyjunni er mjög ólíkt því sem Dröfn á að venjast af meginlandinu. Allir íbúarnir, sem eru rétt um 200 talsins, búa saman í stórri blokk, en þar eru ekki bara íbúðir heldur líka mötuneyti, verslun, skóli, tannlæknir, veðurstofa, orkusetur, búgarður og ýmislegt fleira. Amma Bríet er húsvörðurinn í blokkinni en það er afar mikilvægt starf. Hún ber ekki aðeins ábyrgð á öllu skipulagi í eyjunni og að allt gangi smurt, heldur einnig á velferð allra íbúanna. Dröfn finnst þetta allt saman stórfurðulegt en í hugum eyjarskeggja er þetta eina vitið. Hrikaleg óveður geisa á eyjunni á veturna og allar samgöngur við meginlandið falla niður, ekki er óhætt að fara á milli húsa í verstu veðrunum og svo er mun hagkvæmara fyrir alla að búa saman. Þannig er hægt að hjálpast að við alla hluti, tryggja að öll störf sem þarf að vinna séu unnin og að nægilegt rafmagn sé framleitt til að hægt sé að halda öllu gangandi. Dröfn kemst reyndar fljótt að því, sér til mikillar mæðu, að rafmagnið er mjög takmarkað. Íbúarnir þurfa nefnilega að framleiða það sjálfir og það er mikið púl að búa til rafmagn sem dugar í það allra nauðsynlegasta, hvað þá eitthvað umfram það. Hún verður því að finna sér eitthvað annað að gera en að hanga á netinu eða í tölvuleikjum eins og hún er vön, sérstaklega eftir að kemur í ljós að fjölskyldan er ekkert á förum úr eyjunni.

Einn jafnaldra Drafnar í blokkinni, hinn ljúfi og jákvæði Krummi, ákveður að vera vinur hennar og tekur að sér að fræða hana um lífið í húsinu og um húsreglurnar, sem eru bæði óskaplega margar og flóknar en mikilvægt að allir fylgi til hins ýtrasta. Krummi er afskaplega þolinmóður og býr yfir miklu jafnaðargeði. Hann verður þannig mótvægi við Dröfn sem er bæði uppstökk og gagnrýnin á allt í eyjunni, ekki síst húsreglurnar, og kemur sér ítrekað í alls konar vandræði fyrir vikið. Íbúunum í blokkinni finnst Dröfn frekar þreytandi og yfirleitt mjög dónaleg, en kröfur hennar um skýringar á ýmsum hefðum og reglum verða á endanum til þess að vekja að minnsta kosti einhverja til umhugsunar. Ömmu Bríeti finnst Dröfn til að byrja með frekar treg vegna þess að hún aðlagast illa eyjarlífinu, en þegar Dröfn er farin að læra hvernig hlutirnir virka í blokkinni tekst henni að sýna ömmu sinni að breytingar séu ekki endilega allar slæmar.

Sagan fjallar þannig um aðlögun Drafnar að samfélaginu í blokkinni og aðlögun samfélagsins að henni. Inn í frásögnina af lífi Drafnar fléttast svo hálfgerð glæpasaga sem stigmagnast eftir því sem á líður. Dröfn tekur eftir dularfullum auglýsingum á korktöflu í mötuneyti hússins, þar sem er lýst eftir alls konar hlutum sem hafa horfið. Enginn virðist kippa sér upp við þetta nema hún, en henni finnst frekar grunsamlegt hversu margt hverfur í þessu litla samfélagi. Eyjan er algerlega einangruð frá umheiminum yfir vetrartímann vegna óveðranna og þegar skemmdarverk eru unnin á hlutum sem eru íbúunum mikilvægir verður alvarleiki málsins öllum skyndilega ljós. Ef einhver vill þeim illt er engin undankomuleið. Í blokkinni þekkjast allir og eina aðkomufólkið liggur strax undir grun, Dröfn verður að finna sökudólginn áður en allt fer úr böndunum.

 

Einmanaleiki og samvera

Sagan er í fyrstu persónu frásögn Drafnar, sem veitir innsýn í atburði og líf annarra persóna. Þó að íbúar blokkarinnar séu fúllyndir og óþarflega reglufastir að hennar mati er sagan engu að síður full af lúmskum húmor, sem kemur oft fram í viðbrögðum Drafnar við því sem er að gerast og tilraunum hennar til að setja hlutina í samhengi sem hún skilur. Dröfn botnar til dæmis ekkert í gleði Krumma þegar Beggi Bingó deyr, en Dröfn sem er þá nýkomin í eyjuna veit ekkert hver það er:

„Er Beggi Bingó … uh … rotta sem hefur verið að stela úr matarbúrinu?“ spurði ég varfærnislega.
„Ha?“ sagði Krummi.
„Uh, var Bingó-Beggi mjög pirrandi hrafn sem goggaði alltaf á gluggann þinn á nóttunni?“
„Hvað … Hvað ertu að tala um, Dröfn?“ spurði Krummi ringlaður.
„Þú ert rosa glaður að þessi Beggi sé dáinn,“ sagði ég. „Hann getur þess vegna ekki verið manneskja, og hlýtur því að vera mjög leiðinlegt dýr. Nú, eða þá dýr sem þér þykir mjög bragðgott …“ (bls.74)

Krumma finnst þetta bráðfyndið og útskýrir fyrir Dröfn að Beggi Bingó hafi vissulega verið manneskja og meira að segja frændi hans og ágætur kall, hann hafi verið Skemmtanastjóri eyjunnar. Dröfn veltir því þá fyrir sér hvort allir í blokkinni hati skemmtanir og séu þess vegna svona glaðir með að Beggi Bingó sé dáinn og finnst það reyndar frekar líkleg skýring á viðbrögðunum. Hún hefur ekki mikla trú á að íbúar blokkarinnar séu neinir stuðpinnar en skýringin á gleði Krumma er hins vegar sú að öll skemmtikvöld undir Skemmtanastjóranum Begga Bingó hafa verið bingókvöld og allir íbúarnir eru komnir með hundleið á því, enda Beggi búinn að vera í starfinu í 50 ár.

Þrátt fyrir að sjónarhornið einskorðist við Dröfn má lesa ýmislegt á milli línanna sem hún sér eða heyrir en skilur ekki að fullu, allavega ekki til að byrja með. Þannig er það til dæmis ekki bara vegna umhyggju eða skyldurækni sem foreldrar hennar ákveða að fara til að aðstoða ömmuna, heldur hefur slæm fjárhagsstaða fjölskyldunnar og atvinnuleysi áhrif á ákvörðunina. Dröfn hefur heyrt eitthvað útundan sér um það, en setur það ekki í samhengi fyrr en seinna þegar Ingó, sem er nokkrum árum eldri en hún, útskýrir málin fyrir henni.

Fjölskylda Drafnar á miserfitt með að aðlaga sig lífinu í blokkinni. Ingó fellur strax í hópinn þegar hann er ráðinn í aukavinnu í mötuneytinu og íbúum blokkarinnar finnst hann sýna framtakssemi og dugnað þegar hann ákveður að byggja sér skýli á eina staðnum á eyjunni þar sem hægt að komast í netsamband. Dröfn upplifir sig hins vegar utangarðs og langar aftur heim. Hún er samt ekkert minna utangarðs á meginlandinu, þar sem hún á fáa vini, spilar tölvuleiki í staðin fyrir að hitta jafnaldra sína og er oftast bara ein með hundinum sínum. Þegar hún hefur verið í eyjunni í smá tíma áttar hún sig á því að hún hefur í fyrsta sinn eignast alvöru vin í Krumma. Samfélagið í blokkinni kennir henni líka að leggja sig fram um að skilja aðra og að umgangast jafnaldra sína utan tölvuleikja. Henni gengur mun betur í skólanum í blokkinni, þar sem eru fáir nemendur og rólegra andrúmsloft en á meginlandinu, og þegar amma hennar biður hana að vera sendiboði húsvarðarins, sem felur líka í sér það mikilvæga verkefni að vera augu og eyru ömmunnar í blokkinni, vill hún standa sig og sýna að hún sé traustsins verð. Dröfn hefur þannig þroskast töluvert í lok sögunnar og hún áttar sig á því að henni líður í raun alls ekki illa, þrátt fyrir allt.

 

Einfaldara líf

Lífið í eyjunni einkennist af allskonar hefðum og reglum sem allir verða að fylgja en samt sem áður er daglegt líf þar töluvert einfaldara en á meginlandinu. Minni hraði, minni streita og minna álag er einmitt eitt af mörgu sem heillar foreldra Drafnar þar og þá sérstaklega mömmu hennar. Íbúarnir hafa nefnilega neyðst til að draga úr ýmissi neyslu vegna þess hve afskekkt þeir búa. Þeir endurbæta og endurnýta allt sem þeir geta, spara rafmagn og eru ekki að bruðla með mat. Gamall búnaður er ekki endurnýjaður ef hann virkar ennþá. Dröfn hefur hins vegar aldrei velt fyrir sér hvaðan hlutirnir koma, eða hvað þarf til að búa til eða framleiða það sem hún notar. Þó að foreldrar hennar glími við peningavandræði hefur hún aldrei upplifað skort eða einu sinni takmarkað aðgengi að því sem hana langar í. Dröfn er því hissa á mörgu í eyjunni og er brugðið þegar Krummi útskýrir fyrir henni hvers vegna allir íbúarnir borða saman aðalmáltíð dagsins í mötuneytinu:

„Nú, það væri algjört rugl ef það væri bara ísskápur, eldavél og allt í hverri einustu íbúð!“ sagði Krummi og hló. „Pældu bara í rafmagninu sem færi í það!“
Rafmagninu? Ég hafði aldrei mikið pælt í rafmagni. Það bara var þarna.
„Eruð þið mikið að pæla í rafmagninu?“ spurði ég.
„Það þarf auðvitað að hafa svolítið fyrir því,“ sagði Krummi hress. „Við reyndum einu sinni að setja upp vindmyllu á þakið en fyrst snjóaði hana í kaf og svo kom stormur og hún fauk. Það eru sólarrafhlöður á þakinu en það er mjög lítil sól á veturna. Og erfitt að moka snjóinn af! En þetta er ekkert mikið mál. Við þurfum ekki mikið rafmagn og Orkusetrið sér okkur fyrir því sem við þurfum.“
„Þarf ekki mikið rafmagn?“ apaði ég eftir honum.
Ég hugsaði um öll hleðslutækin mín.
Ég hugsaði um öll ljósin sem pabbi var alltaf að tuða í mér að ég ætti að slökkva í mannlausum herbergjum.
Ég hugsaði um fartölvuna mína, spjaldtölvuna, símann, sjónvarpið og meira að segja Minecraft-vekjaraklukkuna mína.
Þarf ekki mikið rafmagn? (bls. 30)

Allir íbúar þurfa að mæta í Orkusetrið daglega og hjóla ákveðna vegalengd á þrekhjólum sem eru notuð til að framleiða allt rafmagn sem er notað í húsinu. Dröfn kemst að því að það þarf að hjóla svakalega mikið til að halda nauðsynjum eins og eldavél og ísskáp gangandi og ákveður að það sé of dýru verði keypt að hlaða spjaldtölvuna eða símann og betra að skella sér í borðtennis eða út með hundinn. Hún er heldur ekki vön að velta fyrir sér hvaðan maturinn kemur. Þegar hún kemst að því að gert er ráð fyrir því að hún og aðrir íbúar taki virkan þátt í sláturtíðinni til að þau geri sér grein fyrir því hvaðan maturinn kemur íhugar hún alvarlega að gerast vegan. Hún upplifir þannig allt í einu með beinum hætti hvaða áhrif hún hefur á umhverfi sitt, á dýrin sem er slátrað til að hún og aðrir geti fengið að borða og hvað fer mikil orka í að reka það sem henni finnst vera sjálfsagðir hlutir.

Í blokkinni kynnist hún því hvernig er að lifa án þess munaðar sem hún hefur vanist og vaknar smátt og smátt til umhugsunar um ýmislegt sem hún hefur aldrei leitt hugann að. Þessi vitundarvakning Drafnar gerist í litlum skrefum og er bæði vel útfærð og sannfærandi. Umræðan um umhverfismálin er eðlilegur hluti tilverunnar í eyjunni og mikilvægi hennar fer ekki framhjá Dröfn, sem þarf að endurskoða margar af hugmyndum sínum um heiminn og læra margt sem hún vissi ekki að skipti máli.

Blokkin á heimsenda er margslungin og afar áhugaverð saga þar sem snert er á ýmsum málefnum sem hafa verið í umræðunni upp á síðkastið. Einmanaleiki og einangrun í nútímasamfélagi, afturhvarf til einfaldara lífs og aukin áhersla á mikilvægi tengsla við aðrar manneskjur og við náttúruna eru þar í fyrirrúmi. Áhrif mannsins á umhverfið eru líka til umfjöllunar en virðingin sem eyjarskeggjar bera fyrir veðrinu, dýrunum á búgarðinum og náttúrunni í kring verður til þess að Dröfn fer að sjá líf sitt á meginlandinu í öðru ljósi.

Furða hennar yfir hefðunum í blokkinni, árekstrar við aðra íbúa og skilningsleysi á reglunum skapa oft fyndnar aðstæður sem fá lesandann ýmist til að skella upp úr eða glotta út í annað. Samfélagið í eyjunni er líka stundum frekar furðulegt og þó að margt þar sé skynsamlegt og sniðugt eru eyjarskeggjar líka mjög fastir fyrir og ekki hrifnir af hugmyndum Drafnar eða fjölskyldu hennar um hvað megi bæta eða breyta.

Heimur sögunnar er mjög vel gerður, hugsað er fyrir öllu og lesandinn fær góða innsýn í samfélagið, hvernig það virkar og hvers vegna, en líka hvað mætti betur fara, eins og Dröfn er dugleg að benda á. Dröfn tekst því á við og lagar sig að nýjum og mjög ólíkum veruleika en hún er vön, en hefur líka á endanum afskaplega góð áhrif á umhverfi sitt, þrátt fyrir að hafa vakið upp tortryggni og fordóma hjá íbúum eyjarinnar í fyrstu. Það sýnir sig þannig að breytingar geta verið af hinu góða, ekki bara fyrir Dröfn heldur líka fyrir íbúanna í blokkinni.

 

María Bjarkadóttir