Ólafur Gunnarsson. Syndarinn.

JPV útgáfa, 2015.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2016

Syndarinn

Ut pictura poesis

Allt frá dögum Forn-Grikkja hafa menn velt fyrir sér tengslum myndlistar og skáldskapar. Plútark kallaði málverk þögul ljóð og ljóð málverk sem hefðu fengið málið; fræg eru líka orð Hórasar, Ut pictura poeisis: skáldskapurinn á að vera eins og málverk. Slíkar tengingar leita óneitanlega á hugann við lestur síðustu skáldsögu Ólafs Gunnarssonar, Syndarans, og þeirrar sem kom næst á undan, Málarans, þar sem sögð er mikil örlagasaga af tveimur ólíkum listmálurum. En það er ekki bara viðfangsefni Ólafs sem tengir saman tvær listgreinar, orð Hórasar um myndir og skáldskap hafa fjölþættari merkingu fyrir þessar sögur, og þá sérstaklega þá síðari, Syndarann, eins og síðar verður komið að.

Málarinn kom út árið 2012. Hún er skáldsaga um glæpi, lengi vel er málverkafölsun og afleiðingar hennar í forgrunni en sögunni lýkur á hrottalegan hátt þegar listmálarinn Davíð Þorvaldsson myrðir dóttur sína á unglingsaldri. Morðið er tilgangslaust og innantómt, Davíð ræðst á Söndru dóttur sína til þess að hún komi ekki upp um misgerðir hans og smáglæpi sem í stóra samhenginu eru lítilmótlegir. Ólíkt því sem við höfum stundum séð í verkum Ólafs virðist trúarlegt eða siðferðilegt samhengi fjarri, Davíð verður seint líkt við Abraham eða guð almáttugan, dótturmorðið er ekki fórn. En meira um trúarlega samhengið síðar.

Syndarinn hefst þar sem Málaranum sleppir. Ein af aukapersónum Málarans, listmálarinn Illugi Arinbjarnar, er aðalpersóna sögunnar. Hann nýtur hylli gagnrýnenda og listunnenda bæði á Íslandi og í hinum alþjóðlega listheimi. Málararnir tveir tengjast þannig að í Málaranum skrifar Illugi níðgrein um myndlist Davíðs sem, ásamt ýmsu öðru, verður til þess að ýta honum fram af brúninni. Margar af persónum sagnanna virðast líta svo á að Illugi sé ábyrgur fyrir morðinu, þeirra á meðal hann sjálfur.

Í Syndaranum er Illugi í sviðsljósinu lengst af, og það sviðsljós er sterkt. Í upphafi sögunnar vinnur hann sinn stærsta sigur, einkasýning hans á Museum of Modern Art í New York slær í gegn og hann selur þar myndir fyrir upphæðir sem sjaldan sjást í íslenskum listheimi. Myndirnar eru, líkt og öll verkin á sýningunni, hluti af mikilli myndröð úr síðari heimsstyrjöldinni sem lýsir viðureign hersveita Þriðja ríkisins og Rauða hersins undir titlinum Barbarossa, innrásin í Sovétríkin.

Á sýningunni verða tveir atburðir sem hafa áhrif á líf Illuga það sem eftir er. Annars vegar ræðst að honum gamall maður sem kallar hann lygara og falsara vegna myndanna og endar á því að kveikja í sér í mótmælaskyni, hins vegar kynnist hann ungri íslenskri blaðakonu, Helgu, sem tekur við hann viðtal, verður honum samferða heim og gerist þar lærlingur hans.

Atburðarásin sem fer af stað í kjölfarið er margslungin og þar kemur fjöldi persóna við sögu, ættingjar Illuga eru stórtækir í viðskiptum, eiginkona Davíðs Þorvaldssonar kemur mjög við sögu þeirra í margvíslegu braski en sjálfur situr hann á Litla-Hrauni og glímir við sjálfan sig og guð.

Tveir langir sögulegir útúrdúrar fleyga söguna, í öðrum þeirra fáum við að kynnast frásögn Kósakkans Ívans sem kveikir í sér á sýningu Illuga á MoMa til að mótmæla því sem hann telur fölsun hans á sögu síðari heimsstyrjaldarinnar. Þar er dregin fram grimmd Sovétmanna og bandamanna þeirra í garð Kósakkanna og hlutur þýska hersins verður nokkuð annar en í hefðbundnum frásögnum af stríðinu. Hin frásögnin er saga sem Illugi les í gamalli minnisbók, skreyttri hakakrossi, og virðist innihalda dagbók ungs íslensks rithöfundar í Kaupmannahöfn. Sigurður, eins og hann kallar sig, gengur til liðs við andspyrnuhreyfinguna sumarið 1942 en gerist fyrir gráglettni örlaganna flugumaður í SS-sveitum Hitlers. Þessar sögur virðast tengjast en þar er ekki allt sem sýnist.

Saga Ívans verður Illuga innblástur að nýrri myndröð þar sem hann tekst að nýju á við síðari heimsstyrjöldina en beinir nú athyglinni að örlögum Kósakkanna sem börðust með Þjóðverjum og voru að loknum sviknir í hendur Sovétmanna af bandamönnum í stríðslok. Þegar þær myndir eru sýndar er Illugi úthrópaður sem nasisti og útskúfaður úr listheiminum. Í fortíð Illuga eru einnig atburðir sem ýta undir þessar ásakanir um nasisma; sem ungur maður setti hann á svið gjörning með hakakrossfána og nasískum ræðuhöldum sem áttu að vera ádeila á pólitíska róttækni jafnaldra þeirra á vinstri vængnum en lítur illa út í ljósi sögunnar.

Myndir Illuga eru unnar í anda gamalla meistara eins og Rembrandts, Caravaggios, Bruegels, Bosch, en einnig nútímamálara sem fengust við söguleg málverk eins og hins mexíkóska Diegos Rivera, og norski málarinn Odd Nerdrum kemur einnig við sögu beint og óbeint. Illugi er feykisnjall málari sem leggur mikið upp úr anatómíu, ljósi og skuggum, en myndbygging og mótíf eru einnig sótt til fyrirmyndanna. Þannig er ein myndanna í seinni myndröð Illuga byggð á alræmdri fresku eftir Diego Rivera, Manneskjan á krossgötum frá 1934, og verk Caravaggios, Kristur handtekinn eða Júdasarkossinn frá 1602, er fyrirmyndin að öðru verki. Meðal annarra fyrirmynda má nefna mynd Picassos, Fjöldadrápin í Kóreu.

Viðhorf Illuga til myndlistar endurspegla val hans á fyrirmyndum, hann er í meðvitaðri uppreisn gegn samtímalist. Í viðtali við Helgu kemur þetta skýrt fram:

En það er einmitt minn stíll: Ekki að feta í fótspor gömlu meistaranna, eins og það hefur verið orðað, heldur takast á við það sem best hefur verið gert, reyna þar þrótt minn og afl og sjá hversu langt verður komist. Ég gæti hlunkað upp 100 abstraktmálverkum á dag ef ég nennti því og raðað upp rúgbrauðum í hauga frá morgni til kvölds. En það sér hver maður sem kynnir sér verk þessara málara sem þú nefndir að þeir taka flestum ef ekki öllum fram. (75)

Persónusköpun Illuga sækir fleira en fyrirmyndir að einstökum verkum til málara fyrri alda. Öll sjálfsmynd hans sem listamanns, persónuleiki hans og jafnvel skynjun er eins og útblásin útgáfa af rómantískum hugmyndum um listamanninn sem karlkyns snilling. Sem listamanni virðist honum ekki sjálfrátt, hann sér umhverfi sitt sífellt sem hráefni í málverk og sum verka sinna vinnur hann í einum hvínandi innblæstri.

Það er freistandi að sjá hliðstæðu milli þessara málverka og skáldsagna Ólafs Gunnarssonar undanfarna tvo áratugi, þótt með því sé ekki verið að líkja honum við Illuga Arinbjarnar að öðru leyti! Ferill Ólafs tók stakkaskiptum með Tröllakirkju árið 1992. Frá þeim tíma eru skáldsögur hans, að Öxinni og jörðinni undanskilinni, unnar með aðferðum sem að sumu leyti minna meira á gamla meistara en nútímalegri bókmenntastefnur. Eins og margoft hefur verið bent á, bæði af Ólafi sjálfum og þeim sem fjallað hafa um verk hans, eiga þær sér fyrirmynd í verkum Dostojevskís og annarra risa raunsæisins. Annar áhrifavaldur Ólafs, Herman Melville, er nefndur í Syndaranum og leggur sögunni einnig til einkunnarorð. Orð sem Illugi hefur í tvígang eftir honum lýsa vali hans sjálfs á viðfangsefnum, og raunar Ólafs Gunnarssonar líka: „Engin mikil bók mun nokkurn tíma verða samin um flóna.“ (73, sjá einnig 19)

Persónum í skáldsögum Ólafs verður seint líkt við flær. Þær eru stórar í sniðum, skapsmunir þeirra, athafnir og brestir, allt er þetta á tröllauknum skala.

Frásagnaraðferð Syndarans minnir sömuleiðis á eldri meistara. Sögunni miðlar alvitur sögumaður, hann sér í huga flestra persóna og horfir á hlutina frá þeirra sjónarhorni. Lengst af fylgir hann Illuga en einstakir kaflar eru helgaðir Karli bróður hans, Kolbrúnu og fleiri persónum. Undir lokin, þegar Davíð er orðinn einn á sviðinu, sjáum við heim sögunnar með hans augum.

Ólafur er flestum höfundum snjallari í að byggja upp stórbrotið og lifandi sögulegt umhverfi og hægt er að sjá skáldsögur hans fyrir sér sem kraftmiklar „myndir“ sem saman mynda eins konar myndröð af Reykjavík 20. aldar, allt frá árinu 1919 sem birtist okkur í Höfuðlausn til ársins 2000 þegar eftirmála Syndarans lýkur. En rétt eins og meistarar hins hefðbundna málverks þá „málar“ Ólafur ekki umhverfi og persónur að gamni sínu, eða til þess eins að gera af þeim trúverðuga eftirmynd, þótt eftirlíkingin sé honum mikilvæg hafa sviðsmyndir hans og persónur alltaf táknræna vídd, rétt eins og í allegórísku málverki ratar ekkert inn á myndflötinn nema það hafi dulda merkingu, sögulega, siðferðilega eða trúarlega.

Eyðandi karlmennska

Milljón prósent menn hét fyrsta skáldsaga Ólafs Gunnarssonar, sagan um heildsalann Engilbert og stórkarlalega athafnasemi hans. Í raunsæisskáldsögum hans síðustu tvo áratugi hafa viðskipti líka verið áberandi þema. Þar hafa verið byggð risastór vöruhús og stórveldi í viðskiptum hafa risið og hnigið. Í Málaranum ræður Hafskipsmálið örlögum nokkurra persóna og í Syndaranum eru viðskipti með matvöruverslanir miðlæg. Faðir Illuga byggir upp mikið viðskiptaveldi, sem raunar reynist standa á brauðfótum, og eftirlætur það síðan syni Illuga sem átján ára gömlum tekst að verða forstjóri samsteypunnar, svíkja hundruð milljóna út úr viðskiptavinum hennar og valda stórhneyksli í brúðkaupi föður síns áður en hann fyrirfer sér. Saga Baldurs hins unga er eins og smámynd í stærra verki sem endurspeglar verkið í heild og kannski myndröðina alla, frá Tröllakirkju til Syndarans; þetta er mynd af karlmanni sem ræður ekki við hlutverk sitt, koðnar niður í samskiptum sínum við konur og tortímist að lokum. Það gæti verið nærtækt að grípa til orðaforða gríska harmleiksins til að lýsa þessum körlum í sögum Ólafs og tala um ofdramb, eða hubris, en líklega er nærtækara að skoða örlög sögupersónanna í ljósi þeirrar gagnrýni á hefðbundnar hugmyndir um ríkjandi karlmennsku sem gengur eins og rauður þráður í gegnum höfundarverk Ólafs Gunnarssonar, allt frá annarri skáldsögu hans, Ljóstolli, sem kom út árið 1980. Þessi gagnrýni er sett fram á kröftugan, stundum næstum yfirdrifinn hátt. Það er eitthvað tröllslegt við karlana í sögum Ólafs, þeir eru líkamlega sterkir og áhugamál þeirra tengjast hefðbundinni, ýktri karlmennsku, hnefaleikar, kraftlyftingar, bílar og viðskipti. Þrátt fyrir ytri stærð valda þeir ekki hlutverki sínu, þeir kikna og brotna, undan ábyrgð, eigin draumum og væntingum, og síðast en ekki síst andspænis konum. Þetta á við næstum alla karlana í Syndaranum, þeir glata öllu sínu; ef ekki lífinu, þá að minnsta kosti veraldargengi sínu og/eða orðspori.

Hvergi birtist þetta skýrar en í persónu Illuga sjálfs og hér gerist nokkuð óvænt. Athafnasemi og einæði Illuga fær útrás í listinni en sú sköpun virðist ekki göfga hann á nokkurn hátt. Rétt eins og athafnasemi annarra karla í sögu Ólafs hefur list Illuga ekkert markmið annað en að upphefja hann sjálfan og veita honum útrás. Þótt viðfangsefnin séu söguleg og pólitísk er það nánast aukaatriði; það sem öllu máli skiptir er hvernig honum tekst að ganga á hólm við meistara fyrri alda og um leið að skara fram úr samtímamönnum sínum í listinni.

Athafnasemin, hvort sem er á sviði viðskipta eða lista, snertir konurnar í sögunni með ólíkum hætti. Blaðakonan Helga heillast af Illuga sem málara, ekki sem karlmanni, honum til sárra vonbrigða. Hún gerist lærisveinn hans, byrjar á að blanda liti „eins og gert var á miðöldum“ en fer fljótlega að aðstoða við að mála einstaka fleti á málverkum og málar jafnvel sjálfstætt verk sem Illugi merkir sér og selur. Smám saman fer hún að líkjast meistara sínum. Ofkeyrsla við vinnu fyrir hann virðist ástæða þess að hún missir fóstur og undir lok sögunnar kemur í ljós að hún hefur „smitast“ af Illuga, rétt eins og hann er hún á valdi listarinnar á kostnað lífsins og jafnvel samlíðunar með öðrum. Hún bjargast naumlega úr hótelbruna í New York þegar hún reynir að forða málverki eftir Illuga. Það síðasta sem við sjáum til hennar í sögunni er þegar hún stendur á stéttinni fyrir utan brennandi hótelið:

Allt í einu æpti fólk og benti á hótelið. Kona hékk á handriði á sjöttu hæð og eldurinn stóð út á svalirnar. Sér þvert um geð sá Helga þennan atburð fyrir sér sem málverk. (394)

Öðru máli gegnir um aðalkvenpersónu sögunnar, Kolbrúnu. Í sögulok stendur hún með pálmann í höndunum, gift hinum atkvæðalitla bróður Illuga, viðskiptamanninum Karli. Síðasta myndin af henni sem birtist lesandanum er þegar hún hefur náð tökum á verslunarkeðju sem tengdafaðir hennar stofnaði með dugnaði í viðskiptum: „Enda var hún kosin viðskiptakona ársins, og var fegurri en nokkru sinni fyrr á forsíðu Frjálsrar verslunar, með nýfæddan son sinn í fanginu.“ (374) Þessi madonnumynd af Kolbrúnu í málgagni Mammons er raunar nokkuð tvíbent eins og raunar öll lýsing hennar í sögunni. Hún minnir oft á Sigrúnu, aðalpersónu Vetrarferðarinnar, sem einnig vinnur sigur á karlveldinu í viðskiptum. Báðar hafa glatað fjölskyldum sínum en eignast nýjar og mikinn auð.

Kolbrún á það líka sameiginlegt með Sigrúnu að hún svífst einskis og karlar óttast hana. Þegar Illugi mætir henni á opnun eigin sýningar birtist hún honum sem kvenskrímslið Medúsa í málverki Caravaggios með „hárið á flugi og orma í hárinu“ (272). Þessi mynd af Kolbrúnu er hrikaleg. Í henni birtist ótti Illuga, en líka hatur og jafnvel dauðaósk; Medúsa Caravaggios sýnir afhöggvið höfuð skrímslisins eftir að karlhetjan Perseifur hefur lagt hana að velli. Þessi mynd er þó sakleysisleg samanborið við síðustu myndina sem Illugi gerir af Helgu, hann hefur áður málað hana nakta og látið hana sitja fyrir nakta á mynd sem sýnir aftöku vanfærrar konu. En þegar hann hefur glatað valdi sínu yfir henni tekur óttinn öll völd og enn er það Medúsa sem verður honum innblástur:

Og eftir því sem hann gerði af henni fleiri teikningar, því djöfullegri varð hún yfirlitum uns snákahaugurinn sem var hárið hringaði sig um hálsinn, hún horfði sigurviss á þann sem hélt á penna og var að teikna hana, hann rissaði upp útglennta fætur og lék sér að því að teikna í fljótheitum skapahárin sem voru litlir blindir ormar með hvassar tennur. (377)

„Leikur“ Illuga birtir djúpstæðan ótta sem hann deilir með fleiri körlum í verkum Ólafs Gunnarssonar, konurnar í sögum hans eru miskunnarlausar, og Helga og Kolbrún eru ekki þær fyrstu sem minna á mannætuskrímsli eins og Medúsu.

Allt er hégómi

Í V. bindi Íslenskrar bókmenntasögu segir um þríleik Ólafs Gunnarssonar sem hófst með Tröllakirkju:

Persónur sagnanna eiga það flestar sameiginlegt að fórna öllu fyrir veraldlega hluti og hégóma, þær setja sig allar á stall með guði sjálfum og skortir auðmýkt frammi fyrir lífinu. Þær sem lifa þetta brjálæðislega rót af eru ekki nauðsynlega þær persónur sem vilja vel og eru „góðar“ í hversdagslegum skilningi heldur fremur hinar sem öðlast trú og ná að beygja sig fyrir einhverju sem er æðra en þær sjálfar. (642)

Niðurstaðan af tveimur síðustu skáldsögum Ólafs er á svipaða lund. En kannski eru átökin í þessum sögum ennþá ofsafengnari og um margt mótsagnakenndari vegna þess að þau verk sem hendur persónanna hafa unnið tengjast ekki bara viðskiptum og efnislegri uppbyggingu, heldur listinni sjálfri. Niðurstaða þessa mikla bálks um list, sköpunarkraft, tryggð við gamla meistara og innblástur snillingsins er nefnilega sú að allt er það unnið til einskis, nema kannski ein mynd sem bjargast úr hildarleiknum, mynd af Kristi í hásæti móður sinnar: „Í fangi hans hvílir Reinhard Heydrich, yfirmaður Gestapo og höfundur Auschwitz. Honum hefur verið fyrirgefið og efst á myndfletinum er letrað á latínu: Fyrirgefið hvert öðru, eins og ég hef fyrirgefið yður. (412) Og niðurstaða dótturmorðingjans Davíðs Þorvaldssonar, sem er orðinn einn á sögusviðinu þegar hér er komið sögu, er að þá „verði einnig svo um hann“, einnig honum verði fyrirgefið, enda hefur hann gert yfirbót og meira að segja farið bókstaflega eftir fyrirmælum Mattheusar: „Ef hönd þín eða fótur tælir þig til falls þá sníð hann af og kasta frá þér.“ (Matt 18.8)

Þetta er nokkuð afdráttarlaus niðurstaða en ætti ekki að koma þeim á óvart sem þekkja til verka Ólafs Gunnarssonar. Þegar rykið sest, persónurnar hafa glatað flestu sem þeim er kært og jafnvel sjálfum sér, stendur ekkert eftir nema náð guðs. Við lestur sagnanna leita orð Predikarans óneitanlega á hugann: „En svo leit ég á öll verk mín, þau sem hendur mínar höfðu unnið, og á þá fyrirhöfn er ég hafði haft af þeim og þá sá ég að allt var það hégómi og eftirsókn eftir vindi og að enginn ávinningur er til undir sólinni.“ (Prédikarinn 2.11)

Þessi eindregna niðurstaða vekur ýmsar spurningar sem vísa í ýmsar áttir: Í fyrsta lagi mætti spyrja hvort skáldsögurnar sjálfar, hinar stórbrotnu myndraðir Ólafs Gunnarssonar, séu ekki undir sömu sök seldar og verk Illuga, að gildi þeirra sé fyrst og fremst hægt að mæla eftir þeim boðskap um náð guðs sem þær boða – allt annað sé hégómi? Og þá hlýtur sá lesandi sem ekki fylgir sömu stefnu og Ólafur í eilífðarmálunum að spyrja sig hvernig hann nálgast þessar bækur. Einfalda svarið, og líklega það eina sem í boði er, er að maður geti notið stórbrotinna trúarlegra listaverka eins og skáldsagna Ólafs á sama hátt og miðaldadómkirkju, fúgu eftir Bach eða sálumessu Mozarts – hversu trúlaus sem maður annars er. Það svar nægir þeim sem hér skrifar.

Jón Yngvi Jóhannsson