Sigrún Helgadóttir: Sigurður Þórarinsson. Mynd af manni.

Náttúruminjasafn Íslands, 2021.

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2022

Sigurður Þórarinsson - Mynd af manniHaraldur konungur Sigurðarson sagði um Gissur Ísleifsson, seinna Skálholtsbiskup, að hann myndi best fallinn til að bera hvert tignarnafn sem hann hlyti. Eitthvað í þessum dúr mætti líka segja um Sigurð Þórarinsson prófessor og jarðfræðing, hann hefði getað orðið hvað sem hann vildi á sviði vísindanna. Það var nokkurn veginn sama hvað hann tók sér fyrir hendur, alls staðar skaraði hann fram úr, hvort sem það voru rannsóknir á gjóskulögum, jöklum, eldgosum, nú eða að setja saman dægurlagatexta eða skopkvæði. Eftir Sigurð liggur ógrynni fræðirita, ekki bara í jarð- landafræði heldur koma þau einnig inn á fornleifafræði sem og sögu lands og þjóðar, enda var hann að loknu stúdentspróf hreint ekki viss um hvaða fræðigrein hann ætti að velja sér og hefði alveg eins getað hugsað sér hugvísindi þótt jarð- og landafræðin yrðu á endanum fyrir valinu. Þar misstu íslensk hugvísindi góðan liðsmann, og þó.

Nú hefur Sigrún Helgadóttir ritað ævisögu þessa merka fræðimanns, gríðarmikið verk í tveimur bindum og upp á um átta hundruð síður. Það er því eins gott að taka það fram strax að hér verður aðeins drepið á örfá atriði sem þar er fjallað um og stiklað á stóru.

Höfundur hefur frásögnina á skemmtilegan hátt, in media res, ef svo má segja, á aðkomu Sigurðar að Öskjugosinu 1961. Þar slær höfundur á vissan hátt tóninn varðandi áframhaldið, hún lýsir ferðalögunum á staðinn, aðstæðum á vettvangi, útbúnaði jarðvísindamannanna og vinnubrögðum þeirra, en þetta tvennt síðast nefnda mun án efa koma nútímalesendum talsvert á óvart því búnaðurinn, einkum í jöklaferðunum, var ansi frumstæður miðað við það sem nú tíðkast, og hvað rannsóknir varðaði er augljóst að oft var teflt á tæpasta vað, svo sem þegar þeir Sigurður Þórarinsson og Árni Stefánsson hlupu upp á gígbarminn á Öskju til að taka myndir og þrömmuðu svo ásamt Halldóri Ólafssyni, aðstoðarmanni Sigurðar, yfir tiltölulega nýrunnið hraunið þannig að glóandi spor mynduðust þar sem þeir fóru um. Ekki veit ég hvað hefði verið sagt ef amerískir túristar hefðu hagað sér svona í nýloknu Merardalagosi. Á mynd sem birt er með frásögninni má sjá Trausta Einarson með heimatilbúinn skjöld og tein úr áli sem hann notaði til að kanna seigju hraunsins. Myndin minnir óneitanlega á ýmislegt af því sem sjá mátti í Merardölum og þótti ekki pent. Ekki slapp Sigurður þó alltaf. Í Kröflueldum spýtti viðskotaillur leirhver drulluslummu á Sigurð án þess þó að hann yrði fyrir meiðslum.

Eftir þennan inngang snýr höfundur sér svo að uppruna, æsku og uppvexti Sigurðar á Austurlandi og svo námsárunum á Akureyri. Það verður að segjast eins og er að fyrsti hluti þessa kafla er ærið seigur undir tönn. Því höfundi nægir ekki að fjalla um foreldra Sigurðar og nánustu ættingja heldur rekur ættir hans langt aftur á bak, út og suður. Vel má vera að áhugafólk um ættfræði kunni að meta þetta en sá sem hér heldur á penna fór fljótt yfir sögu.

Næstu hlutar verksins fjalla svo um námsár Sigurðar, fyrst í Danmörku og síðan í Svíþjóð, eftir að hann tók það gæfuspor að færa sig þangað, svo og fyrstu rannsóknir hans. En vísindarannsóknir Sigurðar eru, eins og gefur að skilja, aðalviðfangsefni ævisögunnar.        Segja má að vísindarannsóknir Sigurðar hafi í meginatriðum skipst í þrennt. Í fyrsta lagi eldgosarannsóknir, en Sigurður kom að rannsóknum á nær öllum gosum á Íslandi meðan hann lifði og var, að minnsta kosti í augum blaða- og fréttamanna, JARÐFRÆÐINGURINN því alltaf var byrjað á því að tala við Sigurð Þórarinsson svo að á seinni árum þótti ýmsum yngri kollegum hans nóg um.

Í öðru lagi má nefna jöklarannsóknir en Sigurður tók þátt í sænsk-íslenska Vatnajökulsleiðangrinum1936 og var því meðal frumkvöðla á því rannsóknasviði hérlendis, hann var einn af stofnendum Jöklarannsóknafélagsins og sat þar lengi í stjórn. Upphaflega hugðist Sigurður skrifa doktorsritgerð í jöklafræðum en heimsstyrjöldin síðari, einkum þó hernám Þjóðverja á Danmörku, þar sem flest gögnin sem Sigurður þurfti á að halda voru varðveitt, urðu til þess að hann breytti um kúrs.

Á endanum skrifaði Sigurður því um öskulagarannsóknir og einkum hvernig nota mætti öskulög til að tímasetja til dæmis mannvistarleifar. Þar sköruðust tvö af fjölmörgum áhugamálum Sigurðar því hann var alla tíð mikill áhugamaður um sögu, þjóðfræði og menningu. Því má til sanns vegar færa að þótt Sigurður veldi raunvísindin sem sitt fræðasvið þá hafi hann lagt drjúgan skerf til íslenskra sagnfræðirannsókna með gjóskulagarannsóknum sínum og kenningum sem oft eru meginforsendan fyrir aldursákvörðunum mannvistarleifa hér á landi.

En Sigurður var þó ekki einn um að þreifa fyrir sér á þessu sviði og með nokkrum rétti má segja að hann sé hér sporgöngumaður. Guðmundur Kjartansson hafði velt fyrir sér mikilvægi öskulaga og sótt um rannsóknarstyrk en lítið varð úr. Árið 1934 birtu þeir Hákon Bjarnason skógræktarstjóri og Henning Muus grasafræðingur svo grein í Náttúrufræðingnum um skógarleifar og jarðveg í skógum. Í þessum rannsóknum höfðu þeir félagar tekið mikið af sniðum, skoðað þau og mælt, og þegar þeir gerðu grein fyrir rannsóknum sínum í Náttúrufræðingnum klikktu þeir út í lokin með málsgrein, sem segja má að komi eins og skrattinn úr sauðarleggnum miðað við efni greinarinnar en fangaði kjarnann í hugmyndunum bak við gjóskulagatímatalið.

Hákon og Sigurður áttu síðan eftir að fara víða um land og kanna jarðvegssnið og gjóskulög. Hákon var hins vegar skipaður skógræktarstjóri 1935, sem var krefjandi embætti, og því voru litlar líkur á að hann ynni einhver stórvirki á sviði gjóskulagarannsókna, og Guðmundur Kjartansson var kominn á kaf í rannsóknir á móbergsfjöllum. Boltinn var því hjá Sigurði. Þekkinguna sem þeir Hákon höfðu aflað nýtti Sigurður í grein sinni um Þjórsárdalsrannsóknirnar í Forntida gårder i Island og steypti sér svo út í að skrifa doktorsritgerð sína, Tefrokronologiska studier på Island. Rannsóknir á gjóskulögum urðu síðan eitt af mikilvægust viðfangsefnum Sigurðar.

Á sama tíma og þetta var að gerast á Íslandi og í Svíþjóð var japanski framhaldsskólakennarinn Shinobu Yamada að rannsaka öskulög í heimalandi sínu en því miður vöktu rannsóknir hans ekki þá athygli sem þær verðskulduðu og varð Yamada ekki þekktur fyrr en löngu síðar. Þeir Sigurður hittust 1964 og varð þá fagnaðarfundur.

Hákon Bjarnason mun hafa orðið nokkuð undrandi þegar hann frétti af doktorsverkefni Sigurðar en ekki varð það þeim að vinslitum.

Höfundur gerir rækilega grein fyrir upphafi gjóskulagarannsóknanna í fyrra bindi ævisögunnar auk þess sem í seinna bindinu er yfirgripsmikill kafli um þetta rannsóknasvið, enda full ástæða til. Að öðrum rannsóknum ólöstuðum eru gjóskulagarannsóknirnar og tímatalið sem þeim fylgdi mikilvægasta viðfangsefni Sigurðar Þórarinssonar. Hér er rétt að geta þess að það mun hafa verið hinn orðhagi landlæknir Vilmundur Jónsson sem datt niður á orðið gjóska.

Sigurður hafði alla tíð tröllatrú á vísdómi og visku íslenskrar alþýðu. Hann lagði áherslu á að fá upplýsingar frá almenningi um upphaf gosa og upplifun fólks af þeim. Þetta gerði hann líka í einu af sínum fyrstu verkefnum, rannsóknunum á Dalvíkurskjálftanum 1934, þegar hann lagði áherslu á að fá lýsingar fólks á skjálftanum og auglýsti meira að segja eftir þeim.

Sigurður átti við ákveðna fötlun að stríða. Honum lynti ákaflega illa við ýmiss konar nútímatæki og úir og grúir af slíkum sögum í bókinni. Enginn veit hversu oft hann velti jeppa Náttúrufræðistofnunar og þegar hann var á ferð með öðrum var yfirleitt einhver annar við stýrið. Einnar sögu af viðskiptum Sigurðar við nútímatækni sakna ég þó en það er sagan um myndvarpann. Þetta var á þeim tíma þegar glærur og myndvarpar voru að hasla sér völl í kennslustofum landsins og dag nokkurn bar svo við að Sigurður Þórarinsson birtist í tíma með glæru, kveikti á myndvarpanum, skellti glærunni á og hóf fyrirlestur sinn. Fyrir þá sem ekki þekkja fyrirbæri myndvarpa þá var þetta sterkur lampi með linsu sem varpaði stækkaðri mynd af glærunni á tjald eða töflu á vegg. Lampinn var kældur með viftu og stundum vildi svo illa til að vindstrengurinn frá viftunni náði til glærunnar og dró hana niður á gólf. Sá sem þetta skrifar lenti í slíku oftar en einu sinni á kennsluferli sínum. Nákvæmlega þetta gerðist hjá Sigurði, glæruskrattinn fór að síga hægt og rólega upp eftir sýningartjaldinu svo Sigurði leist ekkert á, greip til örþrifaráða og stökk á tjaldið til að stoppa glæruna.

Heppni Sigurðar var og viðbrugðið. Fræg er sagan af því þegar hann stakk niður skóflu í tóftunum á Þórarinsstöðum til að kanna gjóskulög og kom niður á kolu frá landnámsöld. Hann sagði félaga sínum Kristjáni Eldjárn frá þessu. Honum leist vel á og fór með fríðu föruneyti til að grafa upp tóftirnar. Það er skemmst frá því að segja að þar fannst ekki einu sinni ryðgaður nagli og hafði Sigurður fundið það eina markverða í rústinni.

Þegar Hekla gaus 1981 var Sigurður á leiðinni heim í flugvél og sá gosið vel úr vélinni. Þegar heim kom og félagar hans voru að tala um að nú hefði Sigurður verið fjarri góðu gamni kom hann blaðskellandi inn á kaffistofuna og hafði að sjálfsögðu séð gosið miklu betur en þeir, þar sem skyggni á landi hafði verið lélegt undanfarið.

En ef til vill kom fleira til en hreinræktuð heppni. Þekking Sigurðar var svo víðfeðm að hann var fljótur að átta sig á þegar feitt var á stykkinu og reyndi þá að koma sér inn í rannsóknarhópinn, svo ýmsum kollegum hans þótti jafnvel nóg um.

En Sigurður Þórarinsson var síður en svo óumdeildur. Hann var alla tíð langt til vinstri í stjórnmálum og tók skýra afstöðu gegn herstöðvum og hernaðarbrölti en slíkt var síður en svo vinsælt í valdakreðsum þessa lands. Gekk svo langt að Hannes á horninu, skoðanadálkur í Alþýðublaðinu, krafðist þess undir rós að Sigurður yrði rekinn úr stöðu sinni við Menntaskólann í Reykjavík. Sigurður gekk á þeim árum venjulega með svarta alpahúfu og fór svo að nemendur Menntaskólans urðu auðþekktir á götum bæjarins því allir báru þeir svartar alpahúfur Sigurði til stuðnings, óháð stjórnmálaskoðunum að öðru leyti.

Sigurði bauðst að taka þátt í fyrstu hópferð Íslendinga til Kína árið 1956 og sótti um leyfi til menntamálaráðuneytisins af því tilefni. Þáverandi menntamálaráðherra, Bjarni Benediktsson, svaraði því til að hann gæti ekki bannað honum að ferðast en ef hann færi yrði staðan hans auglýst. Lágkúran aldrei svíkur mann þar er að taka af nógu.

Maður veltir því fyrir sér hvort eitthvað af þeim andbyr og sinnuleysi sem einkenndi afstöðu valdamanna til náttúruverndar á árunum eftir miðja síðustu öld hafi að einhverju leyti verið tilkomin vegna andúðar á Sigurði því hann stóð jafnanfremstur í flokki náttúruverndarmanna. Má sem dæmi nefna Ásgeir Pétursson, fyrsta formann Náttúruverndarráðs og stækan Sjálfstæðismann, sem virðist á köflum hreinlega hafa þvælst fyrir verkefnum ráðsins, að minnsta kosti lét hann sig þau stundum litlu varða og leið oft langur tími milli funda.

Það verður seint sagt að Sigurður Þórarinsson hafi verið átakasækinn maður, ef þess var kostur vék hann sér hjá slíku havaríi. Hann var líka þeirrar gerðar að sjá spaugilegu hliðarnar á flestum málum. Hann talaði heldur aldrei illa um fólk, sleppti því bara að minnast á þá sem honum líkaði ekki við. Einu sinni var honum þó nóg boðið en það var þegar Guðmundur Einarsson, ráðgjafi ríkisstjórnarinnar varðandi gufuöflun í Kröfluvirkjun, birtist með bandaríska kerlingu, sem hafði meðferðis svartan kassa sem átti að gefa upplýsingar um vatn, gufu, olíu og ýmislegt fleira. Guðmundur þessi var mikill áhugamaður um dulræn málefni og sálarrannsóknir. Þótt þjóðin hlægi dátt að tilburðunum þegar þetta kvisaðist út var Sigurði ekki skemmt og sendi, ásamt fleiri jarðvísindamönnum við Háskólann, frá sér harðorða ályktun um kukl þetta.

Það verður að segjast eins og það er, sama hvernig á málið er litið, að bókin sem hér er fjallað um er allt of löng. Í henni úir og grúir af efni sem tengist viðfangsefninu takmarkað. Hér að framan var nefnd ættarsaga Sigurðar en einnig mætti nefna sem dæmi rammagrein með smáu letri á heilli síðu um fjölskylduna sem studdi Sigurð til náms. Í bókinni er einfaldlega allt of mikið af slíkum þáttum sem auðveldlega hefði mátt skera niður eða einfaldlega sleppa. Ég verð þó að viðurkenna að ég skil höfund mætavel, sumt af þessu efni er bráðskemmtilegt, en stundum verður að gera fleira en gott þykir. Hins vegar hefði gjarnan mátt hafa stutta innskotskafla, samda af sérfræðingum, þar sem gerð væri grein fyrir mikilvægustu þáttum í og þróun þekkingar á helstu fræðasviðum Sigurðar Þórarinssonar. Það hefði tvímælalaust aukið gildi bókarinnar.

Ævisaga Sigurðar Þórarinssonar er mikið eljuverk og í alla staði vel frá því gengið jafnt varðandi útlit, prófarkalestur og frágang. Til fyrirmyndar er til dæmis að hafa neðanmálsgreinar en ekki aftanmálsgreinar. Ríkulegt myndefni gerir bókina að sérstökum kjörgrip. Það er því full ástæða til að óska höfundi og útgefanda til hamingju. Hér gafst aðeins tækifæri til að minnast á nokkur atriði varðandi vísindarannsóknir Sigurðar Þórarinssonar en að mestu sleppt að fjalla um kennarann, félagsmálatröllið og skemmtikraftinn, hvað þá fjölskyldu- og heimilishagi, en það er nú bara … eins og gengur, eins og gengur.

Guðmundur J. Guðmundsson