Una Margrét Jónsdóttir. Gullöld revíunnar. Íslensk revíusaga fyrri hluti: 1880–1957.

Skrudda 2019. 480 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2020

 

Gullöld revíunnar. Íslensk revíusaga fyrri hluti: 1880–1957

Gullöld revíunnar. Íslensk revíusaga fyrri hluti: 1880–1957

Revíur brugðu ekki lengur lit á lífið í höfuðstaðnum þegar ég komst á aldur til að fara á slíkar skemmtanir en samt var ég alin upp við revíuvísur. Mamma söng af innlifun við eldhússtörfin kvæði á borð við „Tóta litla tindilfætt“ sem er úr revíunni Haustrigningum frá árinu 1925, „Kalla á Hóli“ (úr Hver maður sinn skammt, 1941), „Jón og ég við vorum eins og bræður“ (úr Allt í lagi, lagsi, 1944) og „Ég var um aldamótin svo upplögð fyrir glens og grín“. Það kvæði, „Kerlingarvísu“ úr revíunni Upplyftingu (1946) söng ég raunar sjálf á skemmtun í Laugarnesskólanum þegar ég var 13 eða 14 ára og var gerður allgóður rómur að! Og ég man vel eftir því þegar foreldrar mínir komu heim af sinni fyrstu 17. júní-skemmtun eftir að við fluttum til Reykjavíkur, sumarið 1954, fussandi og sveiandi yfir því að Soffía Karlsdóttir söngkona skyldi koma fram á skemmtuninni á Arnarhóli og syngja „Það er draumur að vera með dáta“, studd af tveim mönnum í hermannabúningi (eins og þau lýstu því). Þeim datt auðvitað ekki annað í hug en að þetta hefðu verið raunverulegir bandarískir dátar.

Nú hefur Una Margrét Jónsdóttir dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu gefið út nærri 500 blaðsíðna bók í stóru broti um revíur á Íslandi, prentaða á fínan pappír og mikið myndskreytta. En þó að bókin sé stór og mikil er verkefni Unu einungis hálfnað. Þetta fyrra bindi nær yfir tímabilið frá 1880, þegar fyrsta verkið var sýnt hér sem talið er til revía, og til 1957 þegar „gullöldinni“ lauk. Í síðara bindi hyggst hún taka fyrir tímabilið allt til 2015. Þetta þýðir að heildarmat höfundar á fyrirbærinu revíum og áhrifum þess á þjóðlífið bíður síðara bindis.

 

Þjóðlífið endurskoðað

Í gagnlegri yfirferð Unu Margrétar yfir rætur revíunnar erlendis kemur fram að orðið „revue“ er franskt og þýðir endurskoðun. Enda má rekja upphaf revíanna til eins konar leikins „áramótaskaups“ sem tíðkaðist í París á fyrri hluta 19. aldar þar sem tekið var fyrir liðið ár á gamansaman hátt og spáð í framtíðina.

„Revían er gamanleikur sem skopast að samtíma sínum, þekktum persónum í þjóðfélaginu og atburðum líðandi stundar, jafnvel svo að stundum er um beitta ádeilu að ræða,“ segir Una Margrét (13) og bætir við : „Flestar revíur einkennast líka af söngvum, oftast gamanvísum …“ Þetta er nokkuð skýr afmörkun en tilfellið er að aðrar tegundir sviðsverka geta komið býsna nærri revíum, til dæmis kabarettar, vaudeville og music-hall sýningar sem eru þó yfirleitt líkari blönduðum skemmtidagskrám en leikritum með söngvum, samanber flestar sýningar Bláu stjörnunnar á árunum 1948–1952. Í öllum þessum gerðum sviðsverka voru söngvar og öll gátu þau haft söguþráð en hann var eindregnari í revíum en hinum týpunum og ádeilukennd umfjöllun um samtímann var skylda í revíum. Þessar skilgreiningar má eflaust hártoga en í aftanmálsgrein Páls Baldvins Baldvinssonar við grein hans í Skírni 1980 (120), „Og þú skalt sofa í hundrað ár. Revíur í Reykjavík“ er einföld og snjöll yfirlitsmynd af þessum gerðum sviðsverka til samanburðar ef maður er í vafa.

Þó að við fáum ekki niðurstöður Unu Margrétar af rannsókninni í þessu bindi er þar sannarlega nóg efni. Svo ég haldi aðeins áfram með sönginn um drauminn að vera með dáta þá bendir hún á að þegar Alfreð Andrésson, einn allra vinsælasti revíuleikarinn, söng þann texta í revíunni Hver maður sinn skammt árið 1941, þá hneykslaðist ekki nokkur maður svo vitað væri en flutningur Soffíu þrettán árum seinna vakti svo almennt ergelsi að jafnvel var skrifað um hann í blöðin. Var hneykslanlegra að heyra konu syngja þessa lofgjörð til dátanna eða var það kannski umbúnaðurinn – ef það er rétt munað hjá mér að hún hafi komið fram studd leikurum í hermannabúningi?

Una Margrét gengur skipulega til verks og af lofsverðri vandvirkni. Meginheimild hennar er BA-ritgerð Páls Baldvins Baldvinssonar og Sigurjóns Sighvatssonar, Revían á Íslandi 1880–1978 (1978) en hún fer mun nákvæmar í flesta þætti og er erfitt að ímynda sér að hægt sé að komast nær þessu ákveðna fyrirbæri í íslenskri leiklistarsögu en hér er gert. Auk þess sem hún skiptir þessum nærri áttatíu árum í styttri tímabil sem hvert fær sína einkunn, þá fær hver revía sinn undirkafla með öllum fáanlegum upplýsingum um stað og stund, listræna aðstandendur og leikara, forsögu, söguþráð (í endursögn sem tekur jafnvel margar blaðsíður, gjarnan með dæmum úr söngvum eða samtölum sem oft komu mér til að flissa upphátt), nákvæmri lýsingu á viðtökum með dæmum úr leikdómum, umfjöllun um tónlistina og sérstökum tónsmíðalista. Á þeim lista er tiltekið heiti hvers lags í revíunni, nafn tónskáldsins, nafn persónunnar sem syngur það, upprunalegt heiti lagsins (því oftast voru þetta erlend lög, mörg hver úr revíum eða söngleikjum) og loks hvaða heimild Una hefur fyrir þessum fróðleik. Þarna er líka heilmikill persónufróðleikur; hún fjallar sérstaklega um alla nefnda höfunda að revíunum og þar má sjá nokkur óvænt nöfn, m.a. Einar Benediktsson, Kristján Eldjárn og Tómas Guðmundsson sem raunar beitti snilld sinni í þágu revíunnar um árabil. Allar stórstjörnurnar fá sérstaka umfjöllun. Í kaflanum um Soffíu Karlsdóttur komst ég til dæmis að því að þetta átrúnaðargoð mitt á unglingsárum hafði steinhætt að syngja þegar hún gifti sig, árið 1955, og ekki nóg með það, hún hafði líka fargað öllu efni sem hún hafði flutt í fjölmörgum revíum og á skemmtunum. Hún segir í viðtali árið 1978: „Sumt af þessu voru dýrmætir textar eftir góða höfunda, og mikið safn. Ég brenndi þeim og öllum fínu kjólunum, sem ég hafði komið mér upp til að koma fram í.“ (323). Olli því máske árásin sem hún varð fyrir eftir 17. júní 1954 sem henni sárnaði svo mjög?

Aðalefni Unu eru auðvitað vinsælu Reykjavíkur-revíurnar en hún sinnir líka revíum sem voru settar upp í öðrum bæjum, Akureyri, Ísafirði, Akranesi, Höfn í Hornafirði og víðar.  Hún sinnir jafnvel einstaka revíum sem settar voru upp af félagasamtökum og íþróttafélögum. Það má vel efast um að þetta hafi almennt gildi, slíkar skemmtanir voru ætlaðar ákveðnum, þröngum hópi með sínum einkabröndurum. En það fer ekki svo mikið pláss í þessar einkasýningar að ástæða sé til að kvarta. Kannski hafa einhverjir gaman af að vita að á skemmtunum KR-inga voru fluttar heimatilbúnar revíur á árunum 1929–1936. Gamanvísur voru líka skemmtiefni út af fyrir sig og Una Margrét fjallar um þær sem mest voru sungnar á hverju tímabili þó að þær hafi ekki verið í revíum. Flutningur þeirra var eins konar syngjandi uppistand og gríðarlega vinsælt á skemmtunum af öllu tagi.

Söguþræðirnir eru keimlíkir frá revíu til revíu, ekki sérstaklega skemmtilegir aflestrar en alveg nauðsynlegir ef fólk vill kynna sér nákvæmlega hvað fjallað var um. Þar má sjá hvað var efst á baugi í þjóðfélaginu hverju sinni, til dæmis var spíritisminn algengt skotmark lengi framan af 20. öld, togstreitan um fullveldið, kvenréttindabaráttan, áfengisbannið, útlendingadaður, lýðveldisstofnunin, húsnæðisvandræðin sem voru viðvarandi, skammtanir og höft, umdeildir stjórnmálamenn, til dæmis Jónas frá Hriflu og fræg embættisverk hans. Raunar er Framsóknarflokkurinn algengt skotmark í revíunum, enda „er nú einu sinni svo að það verður að leita að efni í brandara-revýur þangað, sem mest er spillingin að hnýta í og afkáralegust hræsnin að skopast að,“ eins og gagnrýnandi Þjóðviljans segir í umsögn um Forðum í Flosaporti (187). Sú revía var frumsýnd 29. apríl 1940 en endurfrumsýnd 11. nóvember sama ár vegna þess að það þurfti að vinna markvissar úr áhrifum af hernámi Breta en hægt var með einföldum viðbótum. Um þetta vitnar Una Margrét í blaðaviðtal frá 1965 við Lárus Ingólfsson, einn leikaranna í sýningunni. Í viðtalinu minnir Lárus að frumsýningin hafi verið kvöldið fyrir hernámið en þar munaði rúmri viku því breski herinn steig á land 10. maí eins og kunnugt er. Una leiðréttir þetta aftanmáls en sú leiðrétting hefði tvímælalaust átt að koma strax í meginmáli, því það fara ekki allir lesendur í aftanmálsgreinar og þetta virkar afar klaufalega eins og það stendur.

 

Heilsusamlegar skemmtanir

Ýmislegt kemur á óvart við þessa nákvæmu yfirferð yfir efni revíanna og dæmin úr þeim. Til dæmis reynast vera nútímalegar enskuslettur í revíu Einars Benediktssonar, Hjá höfninni, frá 1895, en það er að vísu Vestur-Íslendingur sem talar (29). Stórskemmtileg dæmi um enskuslettur koma svo að sjálfsögðu inn í texta revíanna með hernáminu og áleitin áhrif enskunnar vekja snemma athygli. Í umsögn um Vertu bara kátur (1947) segir gagnrýnandi Fálkans: „Ensku skilur hvert mannsbarn en danskan er orðin óskiljanlegt hrognamál“ (288).

Það kemur líka á óvart að fyrsta íslenska revían sem virkilega sló í gegn, Allt í grænum sjó, sem var frumsýnd 3. maí 1913, var líka fyrsta íslenska revían sem var bönnuð. Þekktur einstaklingur sem þar var skopgerður kvartaði og fékk því framgengt að sýningum var hætt (61). Eðlilega leið næstum áratugur þar til næsta revía var sýnd í Reykjavík, fyrsta revía Páls Skúlasonar sem seinna varð mikilvirkur á þessu sviði (69 o.áfr.) og hún virðist ákaflega meinlaus – góð skemmtun og græskulaus, eins og segir i einni umsögninni. Páll kom að mörgum revíum á tímabilinu sem Una Margrét nefnir „fyrri gullöld“, 1922–1930, auk þess sem hann var ritstjóri spéritsins Spegilsins.

Þá er fróðlegt að sjá hvað Una hefur fundið margar umsagnir um sýningarnar þó að sjálfsagt hafi þær oft verið eftir blaðamenn frekar en leiklistargagnrýnendur. Ekki voru þessir gagnrýnendur hótinu meira sammála um sýningarnar en gagnrýnendur nú til dags en eins og Una Margrét bendir nokkrum sinnum á voru þeir mun viðkvæmari fyrir djörfu orðalagi en við eigum að venjast.

Stríðsárin voru gjöful í revíubransanum, ekki síst ástandið svokallaða, samskipti íslenskra kvenna og erlendra dáta. En ástandinu var snúið upp á íslenska karla á nokkuð miskunnarlausan hátt í revíunni Nú er það svart, maður, sem var frumsýnd í maí 1942. Þar er í sögumiðju „skýrsla frá kvenlögreglunni yfir saurlifnað nokkurra nafngreindra borgara í Reykjavík, svokölluð Portkarlaskýrsla“! (220) Og ekki vissi ég fyrr en ég las það í þessari bók að erlendu setuliðsmennirnir sömdu líka sína eigin revíu um sambúðina við Íslendinga, All this and Iceland too, sem var frumsýnd í Fiskhúsinu að Þormóðsstöðum í Skerjafirði 14. janúar 1942 (228 o. áfr.).

Það verður deginum ljósara í Gullöld revíunnar að þessar geysivinsælu skemmtanir hafa skipt miklu máli fyrir geðheilsu borgarbúa og annarra landsmanna, hvort sem þær hafa haft merkjanleg eða varanleg áhrif á stjórnmál og viðskipti sem svo harkalega voru gagnrýnd í þeim. Margir gagnrýnendur hylla þær fyrir hláturinn sem er svo heilsusamlegur – eða eins og fréttaritari Morgunblaðsins á Akureyri segir um revíuna Svífur að hausti árið 1949: „Leikhúsgestir skemmtu sér ágætlega og gleymdu þá stundina dýrtíðinni, síldarleysinu og kosningaþrefinu. Reykvíkingar hljóta að verða allra karla elstir meðan þeir hafa Bláu stjörnuna.“ (326)

Við höfðum um skeið Spaugstofuna í sjónvarpinu sem tók þetta hlutverk að sér og nú er uppistand afar vinsælt form á leikhúsafþreyingu. Er samt ekki laust pláss fyrir hugkvæman leikhóp á þessu sviði?

 

Öllu til skila haldið

Auk nákvæms efnisyfirlits eru í bókinni afar nytsamlegar skrár. Tilvísanir eru aftanmáls, um 2.500 talsins, þar er líka heimildaskrá yfir útgefnar bækur, blöð og tímarit sem Una Margrét fór yfir, revíuhandrit og önnur handrit, leikskrár, hljómplötur og hljóðritanir. Svo er að sjálfsögðu skrá yfir myndirnar sem eru yfir 400 og loks er nafnaskrá. Í formála boðar Una Margrét að í síðara bindi þessa mikla verks verði skrá yfir allar revíurnar í nákvæmri tímaröð en stundum var óhagkvæmt að hafa þær í laukréttri tímaröð í umfjölluninni, þar gat farið betur að spyrða saman tengdar revíur en halda sig við nákvæma röð. Þessi vinnubrögð eru til fyrirmyndar.

 

Silja Aðalsteinsdóttir