Hildur Knútsdóttir: Ljónið.

JPV útgáfa, 2018. 410 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2019

Það barst hár dynkur innan úr skápnum.
Þær hrukku báðar við. Þegar Elísabet opnaði skápdyrnar lá græni ullarkjóllinn á gólfinu.
„Oh, þetta er alltaf að gerast,“ sagði Elísabet um leið og hún beygði sig niður til að hengja kjólinn upp aftur. „Ég get svo svarið að það er bara eitthvað að herðatrjánum. Eða það er draugur í þessum skáp.“ (226)

Ljónið

Það er sannarlega ýmislegt á reiki í skáldsögu Hildar Knútsdóttur, Ljóninu. Bókin er ætluð ungmennum, en eins og með svo margar góðar ungmennabækur þá er hún ekki síður skemmtileg fyrir þá sem eru ekki endilega sérstaklega mikil ungmenni. Ég veit um þrjá ættliði sem hafa lesið söguna með ánægju, en sú yngsta er einmitt í fyrsta bekk í menntaskóla.

Sagan hefst á því að Kría er nýflutt frá Akureyri til Reykjavíkur eftir atburði sem ekki skýrast fyrr en á líður. Henni líður illa og hún kvíðir fyrir að byrja í nýjum skóla, það er greinilegt að slæmar minningar tengjast skólanum á einhvern hátt. Strax á fyrstu síðu kemur vel fram hvernig Hildur heldur góðu jafnvægi í textanum og tekst vel að fanga talsmáta og hugsanir unglinga, án þess að tala niður til þeirra:

Birtan úti var í öfugu hlutfalli við myrkrið í sálinni. Því verr sem Kríu hafði liðið í sumar því skærar hafði sólin skinið. […] Myrkrið í sálinni. Það var svo glatað að það var eiginlega ekki hægt að tala um þetta án þess að hljóma eins og fáviti. (5)

Fyrsta daginn sem hún fer í skólann þarf Kría verulega að taka sig á og minna „sig á að stundum voru það litlu sigrarnir sem skiptu máli“ (6). Í lýsingu á innri baráttu stúlkunnar dúkkar upp tilvísun í íslenskar bókmenntir, en víða í sögunni má finna skemmtilegar útfærslur á samtali við bókmenntir og menningu, eins og hefð er fyrir í furðusögum.

Höfuðið var líka þungt. Það var átak að rétta úr hnakkanum, að horfa fram. Höfuð konunnar. Það var uppáhaldsljóð mömmu hennar. Hún reyndi að rifja upp ljóðlínurnar þar sem hún gekk yfir Skólabrú og í átt að Dómkirkjunni. (5)

Þetta er fyrsti skóladagurinn og Kría er hrædd um að allir hafi heyrt af því sem gerst hafði á Akureyri og líður eins og allir séu að horfa á sig og tala um sig. Hér er í raun afskaplega eðlileg lýsing á fyrsta skóladegi nemanda sem kemur einn, annarsstaðar frá, og ætti því að vera kunnugleg tilfinning fyrir marga nýnema. Leyndardómurinn gefur sögunni hinsvegar strax auka slagkraft og kveikir áhuga hjá lesendum á að vita meira.

Þegar heim er komið vilja foreldrarnir vita hvernig var, en tala samt greinilega varlega við stúlkuna. Þau búa í Þingholtunum og í kjallaranum býr amma Kríu, Gerða. Hún er ekki þessi dæmigerða alltumvefjandi amma, heldur frekar þurrleg og praktísk kona, þó vissulega sinni hún Kríu vel. Gerða amma á eftir að leika lykilhlutverk í sögunni, sérstaklega eftir því sem leyndardómarnir byrja að hlaðast upp.

Fyrsta daginn í skólanum kynnist Kría fólki, næstum gegn eigin vilja, en þó:

Kría sat kyrr. Hún vissi ekki hvað hún átti að gera. Hún var búin að kvíða þessum hluta, þegar það væri engin dagskrá, ekkert sem hún átti að vera að gera. Þurfti hún virkilega að fara og tala við fólk? Hún var alveg dottin úr æfingu. (14)

Aftur eru þetta kunnuglegar tilfinningar þeirra sem eru að byrja í nýjum skóla og sömuleiðis er það afskaplega eðlilegt að annar spánnýr komi til bjargar, strákur frá Svíþjóð sem byrjar að tala við Kríu. Og svo rúlla hlutirnir áfram eins og þeir eiga það til að gera, félagsmálafrömuður bekkjarins minnir alla á að ganga í Facebook-hóp til að fylgjast með því sem er að gerast og gefur sig sérstaklega að Kríu til að ítreka þetta. Kría er auðvitað ekki á Facebook eftir áfallið á Akureyri og þarf nú að taka erfiða ákvörðun, en henni líkar vel við stúlkuna og drífur í þessu. Þegar hún segir svo Gerðu frá þessari nýju „vinkonu“ sinni verða viðbrögðin önnur en hún bjóst við. Nafn stúlkunnar minnir Kríu á persónu úr bók eftir Laxness, hún heitir Elísabet Snæhólm Thorstensen. Amman bregst undarlega við nafninu og starir á Kríu : „Var þetta … ótti sem skein úr augunum?“ (21)

Og þar með byrja leyndardómarnir að hlaðast upp. Kría og Elísabet verða vinkonur og í leiðinni vingast Kría líka við vinkonur Elísabetar, Úlfhildi og Snæfríði. Stelpurnar tala um stráka og eru spenntastar fyrir þeim sem eru aðeins eldri:

„Eru sem sagt allir sætustu strákarnir í 6. bekk?“ spurði Kría.
„Auðvitað!“ sagði Elísabet. „Það eru reyndar nokkrir í fimmta bekk líka,“ bætti hún við hugsi. „En ekki jafn sætir.“
„Nema Fjölnir,“ skaut Úlfhildur inn í.
„Já, nema Fjölnir,“ samþykkti Elísabet.
„Hann er fáránlega sætur. En yfirleitt eru þeir miklu sætari í 6. bekk. En það er auðveldara að ná sér í fimmtabekking. En alls ekki púkka upp á neinn sem er jafngamall okkur. Það er algjört no no.“
Kría kinkaði kolli og hét því innra með sér að sama hvað annað hún gerði í lífinu myndi hún ekki ná sér í strák sem væri jafngamall henni. Hún áttaði sig reyndar ekki alveg á því hvað stelpurnar áttu við með „að ná sér í“, hvort það þýddi að kyssa einhvern eða byrja saman, en það var aukaatriði sem hún lagði ekki alveg í að spyrja út í á þessu stigi málsins og afhjúpa um leið fákunnáttu sína. (42–43)

Það skemmtilega við þessi samtöl er að þarna eru stelpur að tala um stráka og taka sjálfar virka afstöðu til þeirra og samskipta við þá. Samtöl eins og þessi um „að ná sér í“ hafa yfirleitt þótt tilheyra strákum frekar en stelpum. Hildi tekst þó algerlega að gera þennan kynjaviðsnúning átakalaust og án tilgerðar og það sama á við um samskiptin við strákana sem fylgja í kjölfarið.

Eins og gengur koma svo upp átök um heitustu strákana, með tilheyrandi usla í vinahópnum. Kría hittir strák sem er skotinn í henni og þau fara að vera saman. En þó að hún sé skotin í honum er hún uppteknari af öðrum sem hún hitti bara einu sinni og örstutt í partýi í húsi Elísabetar en er ekki í skólanum og virðist dúkka upp og hverfa óvænt og algerlega óskiljanlega. Þessi piltur er afar dularfullur og nokkuð ljóst að hann er ekki allur þar sem hann er séður.

Hann var hávaxinn og fölur, með dökk augu og kolsvart hár. Hann var klæddur í svartar buxur, hvíta skyrtu og svartan jakka. Eins og hann væri nýkominn úr jarðarför en hefði bara losað sig við
bindið.
Hann leit út fyrir að vera á aldur við hana en hann var eldri. Hún var viss um það.
„Loksins,“ sagði hann.
Rödd hans var lág og mjúk. Varla meira en hvísl. Samt heyrði hún hana vel, þrátt fyrir háværa tónlistina uppi.
„Loksins?“ spurði Kría.
„Ég er búinn að vera að bíða eftir þér.“
„Eftir mér?“
Hann kinkaði kolli. (107–108)

Þau ganga út og hann bendir Kríu á stjörnubjartan himin og talar um aðra heima: „Viltu sjá aðra heima?“ (112). Hún spyr hann að nafni og eftir nokkurt hik segist hann heita Davíð. Hann segist hafa verið að bíða lengi eftir henni og þegar hún spyr nánar segir hann tímann vera afstæðan. Þegar Kría spyr hann meira út í hver hann sé hallar hann undir flatt: „Eitthvað við hreyfinguna minnti Kríu á fugl. Svo brosti hann og í andartak sá hún blika á hvassar tennur fyrir innan varirnar“ (113). Og þó að hann fari inn í húsið með henni þá finnur hún hann ekki aftur.

Hluti leyndardómanna í sögunni snýr að heimili Elísabetar sem hefur verið í eigu fjölskyldu hennar í fjóra ættliði, en þar er mikið af undarlegum skápum, eins og þeim sem áður er lýst. Þegar Elísabet er að farða Kríu fyrir fyrsta skólaballið segir hún henni frá að hún hafi uppgötvað nýjan skáp, sem virðist hafa verið falinn. Inni í skápnum var skrín og í því mynd af stelpu sem eftir nánari eftirgrennslan reynist hafa verið ömmusystir Elísabetar, stúlka sem hvarf þegar hún var tólf ára. Síðan hafði enginn í fjölskyldunni talað um hana og því vissi hvorki mamma Elísabetar né hún sjálf að stúlkan, Sylvía Snæhólm, hefði nokkru sinni verið til. Stelpurnar ákveða að grafast fyrir um málið og sýna mikla útsjónarsemi í því. Sá þáttur sögunnar minnir skemmtilega á gamaldags sögur um unglinga að leysa ráðgátur.

Það er synd að rekja sögu leyndardómanna frekar, en þó þarf það ekki að koma lesanda á óvart að einhver tengsl eru milli ömmu Gerðu og Sylvíu, enda eru þær af sömu kynslóð og bjuggu báðar í miðbænum. En þó að sagan af eftirgrennslan vinkvennanna sé ákveðið burðarvirki í sögunni snýst hún ekki síður um samskipti ungs fólks í menntaskóla, vináttu, nám, ástir, tjáskipti og samskipti, félagslíf og föt. Og allt eru þetta flóknir hlutir, enda veltir Kría fyrir sér hvort hún „ætti kannski að byrja að glósa félagslífið líka“, því nýju vinkonurnar eru vel inni í öllu en hún „alveg græn“ (42). En hægt og hægt blandast hún inn í hópinn og reynir að yfirvinna erfiðleika fortíðarinnar.

Vinátta er því rauður þráður í Ljóninu. Erfiðleikar Kríu á Akureyri höfðu með vináttu og vinslit að gera, og hún þarf því bæði að takast á við spurningar um fyrirgefningu þegar gamla vinkonan bankar uppá, og að læra að treysta aftur:

Kríu hitnaði allri að innan. Hún ætlaði varla að trúa því að henni hefði á einhvern óskiljanlegan hátt tekist að vingast við þessar flottu stelpur. Hún reyndi að þagga niður í litlu óþægilegu röddinni sem bærði á sér einhvers staðar aftast í kollinum og sagði að hún ætti manna best að vita að þegar hlutirnir virtust of góðir til að vera sannir, þá væru þeir það yfirleitt. (38–39)

Í ljós kemur að það er nokkuð til í þessu – en þó á annan hátt en Kríu hafði órað fyrir.

Önnur hlið vináttunnar er svo í fortíðinni, en amma Gerða hafði verið vinkona Sylvíu, þótt hún vilji ekkert um það tala. Sú vinátta segir síðan aðra sögu, en fjölskylduaðstæður og samfélagsstaða Gerðu og Sylvíu var gerólík. Sylvía var af vel stæðu fólki – eins og kemur fram í ættarhúsinu og ættarnafninu, enda er mamma Elísabetar skólameistari Menntaskólans í Reykjavík. Gerða var hinsvegar af efnalitlu fólki þar sem ekkert var sjálfgefið, enda fór hún ekki í Menntaskólann. Mamma Kríu reynir að útskýra þetta fyrir dótturinni eftir að amman bregst illa við tali um Elísabetu og heimili hennar og bendir á að Snæhólm-fjölskyldan sé bæði þekkt og stöndug, meðan Gerða hafi „þurft að berjast fyrir öllu sem hún hefur fengið í lífinu“:

„Amma og afi áttu ekki mikla peninga, sérstaklega ekki eftir að hann veiktist. En hún vann og vann, lagði til fjölskyldunnar frá því hún var krakki og menntaði sig líka. […] Hún amma þín hefur aldrei fengið neitt á silfurfati, Kría. Og kannski sárnar henni bara að það sé fólk sem að … tja, hefur kannski ekki þurft að hafa fyrir hlutunum. Fjölskyldan hennar Elísabetar vinkonu þinnar er búin að eiga peninga í margar kynslóðir.“ (37–38)

Þannig er Ljónið öðrum þræði saga Reykjavíkur þriggja kynslóða, og þessi ferð í tíma er bæði áhugaverð og öflug, ekki síst í ljósi hinna dularfullu atburða sem tengja tímaskeiðin saman. Þessi sögulega tenging birtist einstaklega vel á kápu bókarinnar, sem er málverk eftir Þránd Þórarinsson. Sú stemning sem hann kallar fram í myndum sínum á sérdeilis vel við Ljónið, bæði hvað varðar tilvísanir til marglaga sögu og tíma og svo hina alltumvefjandi dulúð og óhugnað sem einkennir verk hans.

Allt er þetta afar vel gert og lýsingar á samskiptum, tökin á tungumálinu og innsýnin í heim unglinga er afar vel unnið og iðulega bráðskemmtilegt, enda tekst höfundi sérdeilis vel að halda jafnvægi milli drama og húmors. Skólastarfið í MR fær sinn skammt, eins og til dæmis stafsetningarprófin:

„… hin geysihaglega geit. Punktur.“
Þórður íslenskukennari leit upp og brosti.
Geysihagleg. Geisihagleg? Geysi hagleg? Eða geisi hagleg? Kría vissi það ekki. Hún velti fyrir sér hvar MR hefði eiginlega grafið upp textann í stafsetningarstílana. Kannski höfðu landnámsmennirnir komið með þá með sér frá Noregi. (82)

Það er líka ánægjulegt að lesa um venjulega unglinga, krakka sem eru bara að reyna sitt besta til að lifa lífinu og finna út úr því hvernig heimurinn virkar, með tilheyrandi tilfinningauppnámi, átökum og vonbrigðum, en líka vináttu, gleði og margvíslegum uppgötvunum. Persónusköpunin er góð og ég hafði sérlega gaman af ömmu Gerðu, sem á sín eigin leyndarmál, en vegna þeirra halda foreldrar Kríu að hún sé komin með elliglöp.

Furðusögur hafa blessunarlega verið að styrkja stöðu sína í íslenskum bókmenntum, meðal annars með fyrri bókum Hildar Knútsdóttur. Ljónið er af þeirri tegund fantasíu sem hefur báða fætur í hversdagslegum raunveruleika sem blandast atburðum sem ekki er hægt að skilja á röklegan hátt. Höfundur hefur sérlega góð tök á þessu formi, hversdagsleikinn er mikilvægur grunnur til að hinir óvenjulegu atburðir verði áhrifaríkir, án þess þó að taka yfir, eða taka á sig ofur-táknrænt form. Vissulega getur furðusagan verið mikilvægt tæki dæmisögu, en hættan er of oft sú að sagan sjálf, og furðurnar, drukkni í boðskapnum.

Þetta á ekki við í Ljóninu, þar er markviss stígandi í verkinu og vaxandi óhugnaður, eins og kemur fram strax í fyrstu köflum sögunnar, og Hildur skiptir áreynslulaust á milli hins dularfulla og óskýranlega og þeirra hversdagslegu flækja sem einkenna líf unglinga. Vísað er til þjóðsagna, sérstaklega er þó draugagangur fyrirferðarmikill, enda er hið klassíska fyrirbæri draugasögunnar, draugahúsið – fullt af dularfullum afkimum og skápum – fyrir miðju leyndardómsins. Líklega eru fleiri þjóðsagnaverur á vappi, en það er ekki óhætt að segja meira til um það, enda er Ljónið fyrsta saga í þríleik. Og ég er strax byrjuð að bíða spennt eftir næstu bók.

Úlfhildur Dagsdóttir