Steinunn Sigurðardóttir. Góði elskhuginn.

Bjartur, 2009.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2010.

Góði elskhuginn„Það er kunnara en frá þurfi að segja að piparsvein í góðum efnum hlýtur að vanta eiginkonu.“ Þannig hljóða upphafsorð einnar frægustu ástarsögu allra tíma, Hroka og hleypidóma eftir ensku skáldkonuna Jane Austen. [1] Öfugt við hið klassíska ástardrama enska leikskáldsins William Shakespeares, Rómeó og Júlíu, hafnar Austen tragedíunni í sínum ástarsögum, þær eru rómantískar kómedíur og enda allar vel – það er að segja með því að elskendurnir ná saman, eftir nokkurt basl, og ganga í hjónaband. Og lýkur þar sögunum. Þó er þetta ekki endir alls því fræðifólk, sérstaklega úr röðum femínista, hefur á undanförnum árum velt mjög fyrir sér hinum ‘góða endi’, hvað í honum felst og hvað hann í raun tákni. Er það endilega ‘góður endir’ fyrir konuna að ganga í hjónaband með sínum heittelskaða? Þrátt fyrir að femínistar efist um að allar þessar góðu niðurstöður skili endilega jákvæðum árangri (fyrir persónur og lesendur), þá er óhætt að gera ráð fyrir að almennt megi ætla að það að njóta samvista með ástvini feli í sér hamingju.

Steinunn Sigurðardóttir býður ekki uppá svo þægilega niðurstöðu í bók sinni Góði elskhuginn. Í verkum sínum hefur Steinunn fjallað um ástina í ýmsum myndum. Frægasta saga hennar er líklega Tímaþjófurinn (1986), sem lýsir ástarsorg, áhrifum hennar og afleiðingum. Frá og með þeirri sögu hefur Steinunn haldið áfram að vinna með form ástarsögunnar, Ástin fiskanna (1993) fjallar um ást sem ekkert varð af, Hundrað dyr í golunni (2002) lýsir fornum ástum og Sólskinshestur (200) gengur útá ástleysi. Ástin kemur líka við sögu í Hjartastað (1995) og Jöklaleikhúsinu (2001) þótt ástarsagan sé ekki eins miðlæg þar, en aðalsöguhetjum beggja sagna er neitað um þá menn sem þær unna. Hanami: Sagan af Hálfdáni Fergussyni (1997) hverfist í lokin í ástarsögu, en þar er að finna eitt af fáum dæmum um ást sem felur ekki í sér sársauka. Tragedían er Steinunni því nærtækari en rómantíska kómedían, en húmorinn í sögum hennar flækir málin þó nokkuð. Í raun mætti lýsa ástarsögum Steinunnar sem kómískum rómantískum tragedíum, þarsem kómedían styrkir tragedíuna, eykur á vægi hennar og teiknar upp sárari drætti en tragedían ein hefur á valdi sínu.

Það eru því nokkur umskipti þegar höfundur slíkra sagna sendir frá sér ástarsögu sem endar vel, hamingjusamlega, með tilheyrandi sameiningu elskenda. Lesendur skulu þó ekki óttast að ég sé hér að gefa upp einhvern endi, því hinir farsælu endurfundir gerast í fyrsta hluta bókarinnar, nánar tiltekið á blaðsíðu 77 af 200. Á síðu 86 fær lesandi staðfestingu á að endurfundirnir leiða til þess að elskendurnir eiga framtíðina fyrir sér og þá mætti halda að sagan væri búin – eða hvað?

Góði elskhuginn segir frá piparsveininum Karli Ástusyni sem getur ekki gleymt æskuástinni sinni, Unu. Hann er sonur einstæðrar – og einstakrar – móður sem deyr þegar hann er unglingur, en nokkru síðar hefur hann samband við Unu sem hann hafði elskað lengi á laun. Því sambandi lýkur sjö mánuðum síðar (tímasetningar eru mjög mikilvægar í bókum Steinunnar, og talan sjö er lykiltala í Tímaþjófinum) þegar Una segir honum upp, án útskýringa. Karl gengst uppí því að leika hlutverk hins fullkomna og tillitssama elskhuga og gengur burt án þess að krefjast útskýringa en jafnframt ákveður hann að nú sé lífi hans í raun lokið, án hinnar fullkomnu ástar á hann sér enga framtíð. Hann byggir líf sitt upp í kringum þetta hlutverk hins góða, en ástlausa, elskhuga, flytur til Bandaríkjanna og auðgast á viðskiptum, sem hann kallar brask, og setur sjálfum sér leikreglur í kynlífi. Þær ganga útá regluleg skyndisambönd við konur, sem hann gerir ákveðnar útlitskröfur til, gerir allt til að fullnægja, en neitar sjálfum sér um fullnægingu – bæði líkamlega og þá fullnægju sem finna má í nánum samskiptum við ástvin. Una er honum glötuð að eilífu og því eru örlög hans þau að vera einn. Auk ástkvennanna er líf hans þaulskipulagt og til að tryggja að allt gangi upp hefur hann hina fullkomnu aðstoðarkonu.

Bókin hefst á þeirri skyndiákvörðun Karls að fara heim til Íslands í von um að sjá Unu bregða fyrir, og áður en hann veit er hann flæktur í net furðulegra tilviljana sem á endanum leiða til þess að hann hringir í Unu, sem samþykkir að yfirgefa heimili sitt og eiginmann og fara með honum, æskuástinni sem hún hefur heldur aldrei gleymt og alltaf séð eftir. Samband þeirra er fullkomið, þótt sautján ár séu liðin ná þau saman bæði sem ástvinir og elskendur og framtíðin er tryggð í lokin þegar í ljós kemur að Una er barnshafandi, á von á stúlkubarni. (Afsakið en þarna gaf ég upp endinn.)

Þessi lýsing gefur til kynna að Góði elskhuginn sé hugljúf, og dálítið fyndin ástarsaga um draum sem rætist, mann sem nær að fanga hamingjuna. Eða eins og Gunnþórunn Guðmundsdóttir segir í ritdómi sínum: „mætti búast við að umfjöllunarefnið yrði árekstur draums og veruleika, ídealsins og hins jarðbundna hversdags“. [2] En ekkert er fjær sanni. Þótt sagan sé hreint ekki eins hugljúf og lýsingin gefur til kynna gengur hún enganveginn útá slíkan árekstur, brestirnir eru af allt öðru tagi. Því inn í þennan fagurlega ofna vef eru spunnir þræðir sem sundra byggingunni, rjúfa mynstrið og veikja undirstöðuna.

Lesandi kemst nefnilega fljótlega að því að þetta fullkomna líf sem Karl hefur búið sér er uppfullt af mótsögnum. Sú fyrsta kemur fram strax í fyrsta kafla; skyndiákvörðunin að fara til Reykjavíkur er greinilega alveg úr takti, enda segir aðstoðarkonan fullkomna „Hvað kemur til?“ (9) og bregður þannig út af vana sínum að spyrja aldrei neins. Í Reykjavík heldur Karl áfram að fokka upp í kerfinu, hann lætur ekki vita af ferðum sínum og er vanbúinn fyrir kuldann, og hreinlega „hoppandi pirraður á ráðslaginu á sér“ (13). Áður en hann veit er hann kominn í leigubíl á leiðinni að heimili Unu og þar hefst atburðarás sem er gersamlega stjórnlaus. Ekki er þó svo að skilja að það hafi verið hin óvænta Reykjavíkurferð sem ruglaði manninn, því í ljós koma fleiri sprungur í hinu fullkomna skipulagi. Ein sú stærsta lýtur að ástkonunum sem hann gerir svo miklar kröfur til: „hún mátti ekki vera raddljót. Hún átti að hafa kímnigáfu … Hún þurfti ekki að vera fegurðardís, en hún átti að vera tíguleg. Lýtalaus. Og auðvitað grönn“ (29). Svona er mælikvarðinn, „en hann var því miður veikur fyrir konum sem voru í þéttara lagi, hálf-feitum konum. Honum fannst það jaðra við undarlegheit hjá sér“ (29). Þær feitu veita honum þó mun meiri ánægju og ein svo mikla að hann braut þá reglu að hitta sömu konuna aldrei oftar en þrisvar sinnum, og hefur hitt hana fimm sinnum. Öll sjötíuogfimm kílóin.

Ein af þessum ‘röngu’ ástkonum er Doreen Ash og það er þarna sem hún er fyrst nefnd til sögunnar, sem „kerfisruglari“ (29). Doreen Ash var ekki aðeins ekki eins og hún átti að vera, heldur braut hún ýmsar samskiptareglur (sagði honum til í kynlífinu, reykti og var þarmeð ekki nægilega raddfögur), gerði sig of heimakomna og endaði svo á því að sálgreina hann. Svo virðist sem tök Karls á hinu fullkomna kerfi sem hann kallar tilveru sína hafi byrjað að riðlast fyrir alvöru með tilkomu Doreen Ash. Enda halda áhrif hennar áfram, Karl hringir í hana um miðja nótt, ringlaður og örvæntingarfullur, og það er hún sem hvetur hann til að hringja í Unu og hreinlega nema hana á brott með sér og þannig er það hún sem leggur grunninn að hans fullkomna framhaldslífi með Unu.

Og það er hún sem er í raun rétta konan fyrir Karl, konan sem hann elskar sem fullorðinn maður, konan sem getur gert úr honum fullorðinn mann. Þetta er nokkuð sem Karl áttar sig ekki á en lesandi skynjar fljótlega. Meðan Doreen Ash leiftrar af lífi og krafti nær Una aldrei að verða annað en skuggi af persónu, sá skuggi sem Karl sér þegar hann ekur að heimili hennar seint um kvöld: „Kona á dimmbláum náttfötum gekk fyrir aflangan stofuglugga. Rimlatjöldin fóru hægt niður. Og skugginn af konunni slökkti á lampanum og lét sig hverfa“ (16). Þótt Una eigi eftir að koma heilmikið við sögu þá nær hún aldrei að komast út úr þessum skugga, sem er í raun draumsýn Karls, spegilmynd hans sem þjónar aðeins því hlutverki að staðfesta hugmyndir hans um sjálfan sig, ást sína og réttu ástkonuna. Hér er ekki úr vegi að nefna fræga kenningu belgíska femínistans og sálgreinandans Luce Irigaray sem einmitt skrifaði heila bók um þessa speglunarþörf karla í konum. [3] Irigaray leggur útaf kenningum Lacans um ‘skort’ konunnar og spegilstigið og varpar upp bráðskemmtilegum vangaveltum um þörf karlmanna fyrir staðfestingu á eigin ágæti, því að þeir ‘hafi’ eitthvað. Einungis konan, með sínum ‘skorti’ getur gefið þeim það sem þeir þurfa, en um leið verður hún að ógn, því hún er jafnframt áminning um möguleikann á ‘skorti’. Það er svo sérlega skemmtilegt að skoða kenningar Doreen Ash sjálfrar í samhengi við skrif Irigaray en þó þar megi vissulega sjá ákveðna tengingu þá er líka ljóst að Doreen Ash snýr þessu að einhverju leyti við í skrifum sínum um ‘móðursyni’, en þar er það móðirin sem útbýr hinn fullkomna karlmann. Vissulega verður niðurstaðan á því sú að samband mæðginanna verður svo náið að sonurinn leitar alla ævi að hinni fullkomnu konu sem er spegilmynd móðurinnar (sem fullkomnaði hann sem karlmann, svo ég haldi áfram með þráð sálgreiningar Irigaray) og finnur, í Unu. Því auðvitað á lýsingin á hinni fullkomnu ástkonu bæði við móðurina og Unu.

Þessi sifjaspellski undirtónn er síðan undirstrikaður enn þegar í ljós kemur að Doreen Ash ber sama eftirnafn og faðir Karls, maður sem hann hitti aðeins einu sinni. Sálgreining er víða undirliggjandi í skáldskap Steinunnar en Góði elskhuginn er sterkasta dæmið um hvernig höfundurinn vinnur beinlínis með þetta átakasvæði fræða og bókmennta. Tengslin milli sálgreiningar og bókmennta eiga sér langa sögu sem er að mörgu leyti áhugaverðari en inngrip sálgreiningar í sálfræðina sjálfa. Steinunn grípur þekktar klisjur á lofti (hina sifjaspellsku ást sonar á móður og móður á syni sem Freud fjallaði um í kenningum sínum um Ödipúsarduldina og er lykilatriði í mótun sjálfsverunnar) og brýtur þær saman eins og japanska origami-fígúru og skapar þannig eitthvað alveg nýtt úr þessum, að því er virðist, uppþornaða efniviði. Því Doreen Ash sálgreinir ekki aðeins Karl eftir þeirra fyrsta fund, heldur skrifar hún bók um samskipti þeirra og það sem hún ‘lærði’ af honum, bók sem hún nefnir Góða elskhugann.

Þannig falla hlutverk höfundar og sálgreinanda saman, og saman við hlutverk ástkonunnar, sem er sú sem býr til söguna um ástmanninn, hinn fullkomna elskhuga, sem hún er sjálf ástfangin af. [4] Karl, hinsvegar, hafnar ást hennar og flýr í skjól hinnar fullkomnu ástkonu sem hann hefur búið til.

Samkvæmt útgefanda Góða elskhugans eftir Doreen Ash fjallar bókin „um möguleika ástarinnar, um möguleika manneskjunnar til að lifa í ást og með ást“ (136). Þetta er að sjálfsögðu ágætislýsing á Góða elskhuganum eftir Steinunni Sigurðardóttur, enda fjallar skáldsagan, eins og áður hefur verið sagt, um ást. En þarmeð er ekki öll sagan sögð, því þrátt fyrir að hin léttlyndu orð Austen eigi ágætlega við Karl Ástuson, þá búa þau líka yfir þunga og íhygli, alveg eins og saga Steinunnar. Orð Austen fela í sér heilan heim væntinga og vona, auk samfélagslegs aðhalds: efnaði piparsveinninn á að giftast, það er hans samfélagslega skylda, sem jafnframt gerir hann að skotmarki ungra kvenna, ekki síst í ljósi þess að staða einhleypra kvenna á tímum Austen (við upphaf nítjándu aldar) var ákaflega veik – jafnvel enn veikari en þeirra giftu. [5] Ástin er í þessu samhengi aukaatriði, ágæt í bland, en skiptir alls ekki sköpum. Og það eru þessar spurningar um ást og ástleysi sem einkenna verk Austen. Hvað er þessi ást og hvaða máli skiptir hún?

Augljóslega eru aðstæður allar aðrar í sögu Steinunnar, en þó er ljóst að vangaveltur um ást og ástleysi eru lykilatriði í Góða elskhuganum. Í nútímasamfélagi er gengið útfrá því að einhverskonar ást þurfi að ríkja til að fólk fáist til að para sig, og því er flækjustigið mun hærra en í ástum í bókum Austen. Svarið við ‘hvaða máli skiptir ástin?’ er gefið, en spurningin ‘hvað er ást?’ er enn til staðar. Elskar Karl Unu eða elskar hann Doreen Ash? Líklegast báðar, Una er æskuástin, fyrirmyndin sem vegna sambandsslita (þar sem hún hafnaði honum) hefur verið hafin upp í goðsögulegar hæðir. En getur sú ást staðist tímans tönn? Þarna er efinn en Steinunn byggir meistaralega upp mótsagnir og spennu milli þess sem sagt er og þess sem textinn gefur til kynna. Samkvæmt orðanna hljóðan er Una ástin eina og hamingjan fullkomnuð í félagsskap hennar. En orðin hljóðna þegar fjallað er um Unu, en hljóða þegar Doreen Ash kemur við sögu. [6] Allt í kringum Doreen er kraftmikið, meðan nærvera Unu dempar textann. Þessi mismunun kvennanna tveggja í textanum á sér svo spegilmynd í því hvernig góði elskhuginn aflar sér tekna, eins og Þröstur Helgason bendir á í ritdómi sínum, en þar segir: „Ábatasamt starf Karls Ástusonar byggist til að mynda á því að finna út mismun og hagnast á honum, hann starfar við mismunun og er mismunari, eins og sagt er í sögunni, sem er athyglisvert í ljósi þess að öll merking byggir einmitt á mismun.“ [7] Í þessari mismunun ástarinnar felast átök sem óneitanlega krefja lesandann um dálítið erfiða sjálfsskoðun. Hver er mælikvarði hamingjunnar? Hvað er ást? Felst þetta tvennt í þægilegu samlífi við manneskju sem hvorki ögrar þér né ógnar? Eða á ástin að vera erfið, ‘kerfisruglandi’.

Að einhverju leyti er þessari spurningu svarað með því umhverfi sem Karl finnur Unu í þegar hann kemur til Reykjavíkur. Konan sem hjálpar honum fyrst að nálgast Unu er eins og draugur, hún gengur í litlausum fötum og virðist einhvernveginn glær eða gufukennd, enda er hún með gufubað í húsinu sínu. Leigubílstjórinn er skyggn og Una sjálf er skuggi, og þannig gefur allt umhverfið og aðstæður til kynna að tilvera með þessari konu einkennist af deyfð og doða – jafnvel dauða. Enda er ást þeirra afturgengin, minning eða jafnvel svipur. Sjálfur er hann einnig í raun dauður, framtíðarlaus maður sem neitar sér um kynferðislega fullnægingu, og þarmeð þá staðfestingu á lífinu sem margir telja að felist í henni (allavega hjá körlum). [8]

Þó skyldi varast að leggja of mikla túlkun í dauðann sem umlykur Unu, því Doreen Ash bókstaflega deyr í sögunni. Hún fremur sjálfsmorð daginn eftir útgáfuhátíðina fyrir bók sína, Góða elskhugann. Eins og Guðni Elísson hefur bent á er dauðinn viðvarandi þema í ljóðum Steinunnar og ekki er hann síður nærtækur í skáldsögum hennar og smásögum. [9] Höfundur sem vinnur svo markvisst með hugmyndir um dauðann á auðvelt með að ljá honum margvíslegar tilvísanir – dauðinn er ekki eitthvað eitt, heldur einmitt þvert á móti, hann á sér endalausar birtingarmyndir. Sem nærtækt dæmi má taka ljóðið „Haustverk“:

Haustin eru tími litanna sem varpa sér yfir landið
en gleymum ekki að það er líka á haustin sem menn drepa
kærustur sínar. Þetta gerist á ýmsan hátt eftir að kólna
tekur í veðri og menn missa trú á náttúruna. Víst er
október næstur og allir vita hvað við tekur síðan. Gallinn
er sá að menn treysta ekki húminu. Það er misskilningur og
á haustin fara menn þess vegna að drepa. Þegar nóg hefði
verið að hypja sig bara. Milli rauðra jóla og nýárs rísa
kærustur upp frá dauðum, stíga upp til himna á páskum og
detta niður á haustnóttum svo hægt sé að slá þær af á
nýjan leik. [10]

Dauðinn er fljótandi, óljós og árstíðabundinn en langt því frá endanlegur. Guðni segir meðal annars að „dauðafantasíur Steinunnar“ megi sjá „sem tilraun [hennar] til að gera úr dauða sínum tjáningarríka list, virkja lífið sem verður í vitundinni um dauðann.“ [11] Að einhverju leyti er dauði Doreen Ash staðfesting á þessu, þarsem í kjölfar dauða hennar kviknar líf í kviði Unu, en jafnframt er ekki annað hægt en að skoða dauða hennar sem endanlegan dauða á möguleikum Karls til að kynnast raunverulegri ást – dauði Doreen Ash skilar Karli óhultum inn í hinn ‘góða’ endi sögunnar. Jafnframt má sjá feigð hennar, sem er í raun ljós allt frá því að hann heimsækir hana til að þakka henni fyrir hjálpina með Unu, einmitt sem dæmi um hvernig hún auðgar síðustu stundir lífs síns í skugga dauðans: hún er aldrei eins falleg og á útgáfuhátíðinni, kvöldið fyrir sjálfsmorðið. Dauði hennar er gjörningur, lokapunktur á því ferli sem skrif bókarinnar Góði elskhuginn er.

Yfirskrift þessarar greinar er ‘Brúðuheimili’ sem vísar í annað þekkt verk bókmenntanna, verk sem einmitt fjallar um möguleika ástarinnar. Í þessu fræga leikriti Norðmannsins Henriks Ibsen, Et dukkehjem (1879), yfirgefur eiginkonan mann og börn í leit að lífshamingju, og brýst þannig út úr því hlutverki að vera spegilmynd eiginmanns síns (og reyndar föður líka). Brúðuheimilið vísar til hinnar fullkomnu ímyndar fjölskyldunnar sem þá var viðvarandi. Saga Steinunnar minnir okkur á að þessi ímynd er enn til staðar og fólk er enn að vanda sig við að ganga inn í hana – frekar en út úr henni eins og Nóra gerir. Í stað þess að eignast raunverulegt líf með konu sem getur gert úr honum mann velur Karl að hverfa inní brúðuheimili fortíðarinnar, þar sem allt er fullkomið, eins og kemur fram í lýsingunni á deginum „sem það kom í ljós að Una var ólétt“: „Hann snaraðist út í bakarí að kaupa marsípanhorn handa henni og beyglu handa sjálfum sér og lagði sparibollana hennar Ástumömmu á borð úti á stóru svölunum“ (189) og sýnir henni svo litla barnapeysu sem mamma hans hafði prjónað, á dánarbeðinum.

Það er ekki heiglum hent að henda svo marga þræði á lofti og halda (í það minnsta) tveimur misvísandi sögum gangandi. Sérstaklega í ljósi þess að ekkert er í raun endanlega afráðið, ekki frekar en með dauðu kærusturnar í „Haustverkum“; kannski er það hin fullkomna hamingja sem bíður Karls? Kannski felst hin fullkomna hamingja í að stíga inní dúkkuhúsið, loka á eftir sér og leggja sparibollana á borðið? En einmitt svona á ástarsagan að vera, líkt og sögur Austen valda enn deilum um hvað teljist hamingja og ‘góður’ endir þá krefur Góði elskhuginn lesanda um að fylgja eftir hinum ýmsu krókaleiðum textans sem er alger „kerfisruglari“, fokkar uppí öllu því sem við fyrstu sýn virðist við búið og neitar svo að skola á land einu einasta svari. Í leiðinni neyðist lesandi til að spegla sitt eigið líf í tilveru Karls Ástusonar – karlsins sem er sonur ástarinnar – og velta fyrir sér hver sé munurinn á ‘skorti’ eða því að ‘hafa’ eitthvað.

 

 

Úlfhildur Dagsdóttir

 

Tilvísanir

 1. Saga Austen, Pride and Prejudice, kom upphaflega út árið 1813. Rúmlega einni og hálfri öld síðar birtist hún í íslenskri þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur sem Hroki og hleypidómar, Reykjavík, Mál og menning 1988, bls. 5.
 2. Gunnþórunn Guðmundsdóttir, „Ást og tími“, á Bókmenntavef Borgarbókasafnsins, bokmenntir.is.
 3. Speculum of the Other Woman, ensk þýð. Gillian G. Gill, Ithaca, New York, Cornell University Press 1985. (Speculum de l’autre femme 1974.)
 4. Og hér er aftur hægt að sjá viðsnúning á kenningu Irigaray, en hér er það konan sem mótar manninn í sinni mynd, mynd sem hann svo þekkir ekki og gengst ekki við.
 5. Augljóslega blandast kynjafræðileg sjónarmið inní þessi (tilbúnu) tengsl milli Hroka og hleypidóma og Góða elskhugans, en umræða femínista um hinn ‘góða’ endi snýr fyrst og fremst að stöðu konunnar í þessum hjónaböndum. Þó er ljóst að það má vel yfirfæra Karl að einhverju leyti yfir á svið konunnar, það er hann sem þjáist af ástarsorg, auk þess sem einnig hefur verið bent á að sumir karlanna, þá aðallega yngri bræður og aðrir arfleysingjar, eru í svipaðri stöðu og konan í verkum Austen.
 6. Vinkona mín ein sagði: ég bara varð svo pirruð á þessu, þessi Una var algerlega litlaus og ómöguleg, hvernig gat maðurinn verið svona ástfanginn af henni?
 7. Þröstur Helgason, ritdómur fluttur á RÚV, í þættinum Víðsjá á Rás 1, föstudaginn 20. nóvember. Sjá http://dagskra.ruv.is/vidsja/bokmenntagagnryni/godi_elskhuginn_23/, skoðað 090410.
 8. Á hinn bóginn má líka halda því fram að höfnun fullnægingarinnar sé einmitt frestun á dauðanum, því fullnæging karla hefur verið nefnd ‘litli dauði’ með tilheyrandi tilvísunum um að feta sig nær dauðanum. Georges Bataille var mjög umhugað um fullnægingar (karla) í skrifum sínum og tengsl þeirra við dauða, sjá sérstaklega Tears of Eros, ensk þýð. Peter Connor San Francisco City Lights Books 1990 (Les Larmes d’éros 1961) og Eroticism, ensk þýð. Mary Dalwood, London, Marion Boyars 1990 (L’érotisme 1962).
 9. Sjá greinar Guðna Elíssonar, „Í kirkjugarði nefnum við ekki nöfn: Tími og tregi í ljóðum Steinunnar Sigurðardóttur, Ritið 3/2003 og „Hef ég verið hér áður? Nokkur stef í ljóðagerð Steinunnar Sigurðardóttur“, í Ljóðasafn – frá Sífellum til Hugásta, Reykjavík, Mál og menning 2004.
 10. Úr Kartöfluprinsessunni (1987).
 11. Guðni Elísson, „Hef ég verið hér áður? Nokkur stef í ljóðagerð Steinunnar Sigurðardóttur“, í Ljóðasafn – frá Sífellum til Hugásta, Reykjavík, Mál og menning 2004, bls. xxiv.