Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins voru veitt í Brussel í þriðja sinn 28. nóvember síðastliðinn. Þá hlutu verðlaun höfundar frá tólf Evrópulöndum en áður höfðu höfundar frá 23 löndum hlotið verðlaunin, tólf árið 2009 og ellefu árið 2010. Ísland var í síðasta hópnum og tók Ófeigur Sigurðsson við verðlaununum fyrir Skáldsögu um Jón sem kom út hjá Máli og menningu í fyrra. Á næsta ári hefst þessi þriggja ára „hringur“ aftur en ekki er vitað hvort löndunum verður raðað eins í næstu umferð.

Framkvæmdin er þannig að á vegum Evrópusambandsins eru skipaðar verðlaunanefndir í hverju landi sem ákveða sinn verðlaunahafa. Í íslensku dómnefndinni sátu að þessu sinni Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Auður Aðalsteinsdóttir og Gyrðir Elíasson. Ferð Ófeigs til Brussel var kostuð af Evrópusambandinu og auk þess hlýtur hann 5000 evrur í verðlaun. Fyrir utan verðlaunaféð lofar Evrópusambandið útgefendum bókanna utan heimalandsins sérstaklega myndarlegum þýðingarstyrk.

Verðlaunaafhendingin fór fram við hátíðlega athöfn á glæsihótelinu Plaza í miðborg Brussel að viðstöddum miklum fjölda embættismanna, allra menntamálaráðherra Evrópusambandsríkja, útgefenda hvaðanæva að úr Evrópu auk aðstandenda verðlaunahöfundanna. Kynnirinn var hinn bráðskemmtilegi Damian Horner sem setti grínagtugan svip á hátíðleikann strax í upphafsorðum sínum: „Rithöfundar eru feimnir og innhverfir menn, eins og allir vita,“ sagði hann. „Þeir vilja alls ekki láta trufla sig og helst loka sig af í litlum herbergjum. Einmitt þess vegna er þeim refsað í kvöld með því að stilla þeim upp á sviði og láta þá tala yfir hundruðum manna sem þeir þekkja ekki neitt!“

Þrír háttsettir embættismenn Evrópusambandsins afhentu verðlaunin; Ófeigur tók við sínum verðlaunum úr hendi Doris Pack, formanns menningar- og menntamálanefndar Evrópuþingsins. Að lokinni afhendingunni tók kynnirinn gamansami hvern höfund tali og reyndi sitt besta til að koma þeim úr jafnvægi. En þeir stóðu skensið merkilega vel af sér, ekki síst Ófeigur sem gerðist svo djarfur að svara honum með pólitískri yfirlýsingu: „Það er gaman að taka við verðlaunum sem hafa að hugsjón að sameina Evrópu gegnum bókmenntir. Og mér finnst sérstaklega gott að Ísland skuli fá að vera með af því að það vill stundum týnast í hafi – ekki vita hvort það á að snúa sér til vesturs eða austurs, til Ameríku eða Evrópu, eða standa eitt.“
Ekki er víst að margir í salnum hafi áttað sig á fullri merkingu þessara orða en góður rómur var gerður að þeim.

Með Ófeigi stóðu á verðlaunapalli þetta kvöld í Brussel Kalin Terziyski frá Búlgaríu, Tomáš Zmeškal frá Tékklandi, Kostas Hatziantoniou frá Grikklandi, Inga Zolude frá Lettlandi, Iren Nigg frá Liechtenstein, Immanuel Mifsud frá Möltu, Andrej Nikolaidis frá Montenegro, Rodaan Al Galidi frá Hollandi, Jelena Lengold frá Serbíu, Ciler Ilhan frá Tyrklandi og Adam Foulds frá Englandi.