Nýr vefur Tímarits Máls og menningar fór í loftið í dag eftir talsverðar umbætur og breytingar. Hér mun úrval efnis úr nýjustu heftum Tímaritsins birtast, í bland við greinar, viðtöl, ljóð og sögur úr eldri heftum. Aðaláherslan verður þó enn á prentaða útgáfu TMM sem kemur út fjórum sinnum á ári. Áskrift kostar 7.000 kr. á ári en heftin fást einnig í lausasölu í bókaverslunum. Hér má lesa meira um áskrift að ritinu.

Jóhann Jóhannsson

Vefurinn mun styðja við prentútgáfu Tímaritsins, birta valin brot úr nýjum og eldri heftum. Í dag birtist á vefnum fyrri hluti greinar Davíðs Hörgdals Stefánssonar um feril og höfundarverk tónskáldsins Jóhanns Jóhannssonar sem féll frá langt fyrir aldur fram á nýliðnu ári. Seinni hluti greinarinnar mun birtast á vefnum í næstu viku. TMM mun einnig nota samfélagsmiðla í auknum mæli til að miðla efni úr Tímaritinu til stærri hóps lesenda. Á áttugasta aldursári sínu er Tímaritið orðið virkt á Facebook, Twitter og Instagram.

Allir bókadómar birtast á vefnum um leið og ný hefti koma út, en TMM leggur mikla áherslu á vandaða umfjöllun um ný íslensk skáldverk og fræðibækur. Þar að auki munu leikdómar Silju Aðalsteinsdóttur allt aftur að árinu 2008 verða aðgengilegir á vefnum, en þeir birtast hvergi annars staðar og eru stórmerkileg heimild um leikhúslíf landsins.

Ritstjórar Tímarits Máls og menningar eru Elín Edda Pálsdóttir og Sigþrúður Gunnarsdóttir. Tölvupóstfang ritstjórnar er tmm@forlagid.is.