Ármann Jakobsson. Glæsir.

JPV útgáfa, 2011.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2012

Skáld og rithöfundar hafa gert sér ýmis erindi á slóðir Íslendingasagna, inn í þeirra tíma. Ófáir hafa komið sér í rómantískan ham til að minna á að „þá riðu hetjur um héruð“. Bæði vegna þess að um tíma voru öll ráð góð til að hressa upp á sjálfstraust hnípinnar þjóðar í vanda – og svo höfðu vinsældir sagnanna valdið því að ekki er langt síðan að annarhver strákur hafði sagt við sína félaga: Panta að vera Skarphéðinn.

GlaesirStórskáld réðust síðar í að afhjúpa hetjuskapinn eins og Halldór Laxness gerði í Gerplu og uppskar reiði meiri en við nú skiljum. Einnig hafa þau skoðað t.d. kristnitökutímann til að fá tveggja tíma sýn á íslenska sérstöðu í bráð og lengd: eigum við að halda í okkar þjóðlega sérvisku (eins og heiðinn sið) eða gerast kristnir eins og allir hinir? Að þessu spurði Gunnar Gunnarsson í „Hvítikristur“ og einhvern ávæning höfum við af þessu sama á seinni árum, þegar kristnitaka er gerð að hliðstæðu við dagskrármál eins og inngöngu í Evrópusambandið.

Menn hafa reynt að skrifa í þeim anda sagnanna að forðast að ryðjast inn fyrir athafnir og tilsvör persónanna, inn á þeirra innlönd – en hitt er algengara að menn hafi virkjað sitthvað úr sálfræðivitneskju og mannskilningi síns eigin tíma til að fylla í þær eyður og ráða þær gátur sem hin knappa aðferð Íslendingasagna ögrar sínum lesendum með.

Það má vel vitna í Halldór Laxness í þessu sambandi. Fullþroska höfundur reyndi hann að halda frekum og alvitrum höfundi í skefjum í ýmsum verkum og studdist þá eins og allir muna við fordæmi höfunda Njálu og Eglu. En ungur fór hann af stað í skáldsögudrögum sem nefnd voru „Heiman ég fór“ með reiðilestur yfir þessum leiðindasögum sem Íslendingar guma af – þar sem „eins og hiksti búti sundur frásögnina, setníngarnar eru snubbóttar, tilbreytingalausar og algeingar“ og lýsingar á tilfinningum manna og sálarlífi afar fátæklegar – enda kemst Njála „ekki í hálfkvisti við smásögur eftir Hermann Bang og Alexander Kielland“ (Heiman ég fór, bls. 66).

Það er altént svo, að öll aðferð okkar fornu bókmennta, sú naumhyggja sem þar er stunduð og um leið vægi þeirra í vitundinni bjóða fyrr og síðar upp á það, að rithöfundur ryðjist inn á þeirra vettvang, geri hann að sínum, komi ýmsu því sem honum liggur helst á hjarta fyrir einmitt í sögu sem gerist fyrir meir en þúsund árum. Ég get trútt um talað: sekur um að gera Þorvald víðförla að viðfangsefni í skáldsögu, þar sem reynt er að skoða bæði það sem sérstætt er á hverjum tíma og það sem óforgengilegt er í leit manns að trú til að reisa líf sitt á, í glímu við trúarþörf í víðum skilningi.

Þá kemur að þessu: Ármann Jakobsson, sem allan skrattann veit um fornan heim og nýjan, hvað hyggst hann fyrir þegar hann tekur upp þráð úr þeirri fornu sögu sem einna erfiðust er fyrir okkar mannskilning og ratvísi um fornar mannaslóðir? En það gerði hann í skáldsögunni Glæsir sem sækir efnivið í Eyrbyggju.

Draugur og þjóðlíf

Fyrst er að lofa Ármann fyrir hugvitssemi og frumleik í sjálfri sögusmíðinni. Hann kemur sér fyrir í skrokki og haus magnaðasta og undarlegasta draugs sem sögur frá greina – í nautinu Glæsi, sem hímir í fjósi Þórodds á Finngeirsstöðum, eins þeirra Þorbrandarsona sem réðu bana syni Þórólfs, Arnkeli goða, helsta keppinauti sjálfs Snorra goða um völd á Snæfellsnesi.

Eins og draugsi rifjar upp í sögunni hrökk Þórólfur upp af í gremju yfir því að hafa reynt að beita Snorra fyrir sig í illdeilum við son sinn og mistekist. Gekk svo aftur fyrir sakir óuppgerðrar heiftar í garð allra, drap mann og annan, eyddi byggð – allt þar til Arnkell tók hann úr haugi og kom honum fyrir. En fór aftur á kreik þegar sonur hans var dauður og lét Þóroddur Þorbrandsson þá brenna draugsa – sem tórði þó áfram í ösku sinni og gekk enn aftur í nautkálfi, sem Þóroddur vill ekki skera þótt framsýn fóstra hans skynji að „vábeiða þessi“ vill illt eitt.

Sagan er svo ofin úr upprifjun á því úr Eyrbyggju sem helst kemur við sögu bægifóts, bið eftir því að Glæsir geri það upp við sig hvort hann vilji hefna sín á sonarbana sínum Þóroddi – sem er um leið að hans dómi eina manneskjan sem hefur sýnt honum vinsemd. En að auki og ekki síst er sagan tilraun höfundar með tilvistarvanda drauga og könnun hans á þeirri illsku sem knúið hefur til fólskuverka Þórólf bægifót, lifandi og margdrepinn.

Ármann Jakobsson er ekki á þeim buxum einkum að gera upp við fegraða mynd af „þjóðveldinu“ eða öld hetjuskapar – enda óþarft eftir Gerplu og margþætta afhjúpunaráráttu seinni áratuga. Það er gengið út frá því að Þórólfur bægifótur sé staddur í bófafélagi sem er í senn framandi og kunnuglegt (merkilegt annars hve krafan um „virðingu“ sem Glæsir tönnlast mjög á er náskyld tali mafíósa samtímans eins og við þekkjum það úr frægum kvikmyndum: Show me some respect, man). Í því „kerfi“ er skynsamlegt að verða fyrri til áreitni og yfirgangs vilji menn halda sínum sessi eða hækka hann.

Í sögunni er að auki gefinn nokkur gaumur að því, að þótt morð og brennur séu enn sjálfsögð aðferð í valda- og virðingarstríði er pólitísk lævísi og „lagatækni“ að sækja á – þær brellur tryggja öðru fremur sigur Snorra goða bæði yfir Arnkeli og föður hans Þórólfi. Að því er varðar þjóðfélagsmyndina verður þó eftirminnilegust sagan af því þegar Þórólfur bægifótur heldur þrælum sínum veislu og lofar þeim frelsi ef þeir fari að skjólstæðingi sonar hans og brenni hann inni. Árásin mistekst og Arnkell lætur hengja þrælana alla.

Af þessu segir í einni málsgrein í Eyrbyggju – en hér er sagan stækkuð með þeim kostum að verða áleitin áminning um ömurlegt hlutskipti fátækra og ófrjálsra, þeirra einatt nafnlausu peða sem höfðingjar ota fram í valdatafli.

Illskan og réttlæting hennar

Samfélagið er á sínum stað og sá sem í því lifir mun af þeim pækli saltur verða. En eins og Ármann Jakobsson hefur að orði komist í viðtali, þá hefur hann mestan áhuga á illskunni – því afli sem hann telur blunda í öllum en nær algjörlega tökum á Þórólfi bægifóti. Illskan er allstaðar, það er rétt og satt. Í Talmúd segir: komi einhver til þín og segist geta losað þig við þá hvöt illt að gjöra ( jetser hara), trúðu honum ekki.

En sigur illskunnar er vitanlega ekki sjálfgefinn, hann er möguleiki. Ármann vill kanna forsendur hennar og til þess skoðar hann sögu þess skrímslis sem Þórólfur bægfótur er, lifandi og ódauður draugur. Sú könnun hrekur svo til allar aðrar persónur sögunnar í lítil aukahlutverk. Hún dregur dám af ýmsum algengum nútímalegum hugmyndum um það hvernig persóna verður til og tortímist, um leið og haldið er inni í myndinni þeirri forneskju sem Eyrbyggjutíminn telur sjálfsagða og við höfum tekið í arf (það hefur aldrei þótt kurteisi á Íslandi að efast um góða draugasögu, enda halda slíkar sögur áfram að verða til eins og þúsund ár hefðu ekki í skorist).

Dirfskan í þessari sálgreiningu draugs sem svo mætti kalla birtist svo ekki síst í því að fá Glæsi sjálfum orðið – á það skal reynt hve langt einn nútímaskrifari kemst inn í tilvistarvanda hins ódauða ódáms.

Aftarlega í sögunni er að finna skondið rifrildi: tvær afturgöngur, Þórólfur bægifótur og seinni kona hans sem hann hefur drepið og dregið í sína draugasveit deila um lánleysi sitt í hjónabandi. Þórólfur kennir konu sinni um og öðrum sem „hafa smánað mig alla mína ævi“ – og minnir um leið á „óhamingju“ sína sem geri hann að trölli. Konan svarar því til að „aðeins illmenni verða að tröllum“ og að auki þessu: „Eg hefði unnað þér meira ef þú hefðir öðru hvoru leitt hugann að öðrum en sjálfum þér“ (157).

Þetta er kjarni máls í skoðun Ármanns á illsku draugsa og á þeim málflutningi sem hann leggur í munn honum. Hér eru um leið á ferð eilífðarspurningar: eru menn illir vegna „óhamingju“ (grimmar aðstæður, illt hlutskipti manna í mannlegu félagi eru illskuhvetjandi)? Eða er sú fólska sem tortímir sjálfum þeim og öðrum sjálfskaparvíti? Frelsi viljans eða hvað?

Glæsir – Bægifótur er fullur af sjálfsréttlætingu. Stundum talar hann í hugtökum Eyrbyggjutíma: kannski hafa goðin illan bifur á honum og hafa dæmt hann til ógæfu. Oftar þó er sem hann taki – kannski með of auðveldum hætti – upp sér til málsbóta þær hremmingar sem blaðalesendur og sjónvarpsþáttaáhorfendur okkar tíma eru alvanir. Þórólfur sætir ofbeldi í æsku af föður og stjúpa, liggur meira að segja við að faðir hans nauðgi honum (tíðarandinn er frekur til fjörs: hvaða nútímaskáldsaga kemst af án slíkra glæpa í fjölskyldum?). Barsmíðarnar sem eru tilefni þessarar málsvarnar eru hugarsmíð höfundar og ekkert slíkt að finna í Eyrbyggju sem annars er þó farið furðu nákvæmlega eftir í allri framvindu.

Önnur ógæfa Þórólfs er það óhapp sem leiðir til þess að hann er illa haltur og hlýtur viðurnefnið bægifótur fyrir bragðið – og þykir það mesta svívirða. Atvik sem að því liggja eru í Eyrbyggju og afgreidd næsta stuttaralega – en blása hér út og verða að föstu stefi í söguvefnum. Draugurinn er sífellt að minnast á skakkalöpp sína og vanvirðu sem henni fylgir – og er þar með orðinn fórnarlamb eineltis sem nú heitir svo. „Ég er þessi fótur. Þannig sjá aðrir mig“ ( 34). Í hvert sinn sem hann gengur af stað þarf hann að draga á eftir sér margbölvaðan fót og fyllist illsku „sem að lokum heltók mig“ ( 70). Bægifóturinn er stöðugt tilefni til þess að honum finnist hann „hæddur, svívirtur, sniðgenginn. Jafnvel af mínum eigin börnum“ (86).

Vel á minnst: honum er enginn styrkur í afkvæmum. Það sem verra er: sonur hans, glæsimennið Arnkell goði, fyrirlítur hann og hundsar með þeim hætti að föðurstolt kemur ekki til mála heldur verður með þeim feðgum fullur fjandskapur sem að lokum verður Arnkeli að bana eftir að Þórólfur er horfinn í draugstilveru sína.

Allt er á sömu bók lært: samskipti við eiginkonur tvær og barnsmóður eru einnig heldur en ekki kaldranaleg. Draugsi gerir svo mikið úr þessu öllu að lesanda verður stundum nóg um. Þórólfur hefur breitt úr sér á kostnað granna sinna og fegrað sem best sín hýbýli – og Glæsir hugsar: ég hafði ekki gert það „til að deila þeim með öðrum. Ég hafði unnið það starf fyrir sjálfan mig einan, til að bæta fyrir ófagra bernsku og ófagurt göngulag“ (73).

Svo sem hver sáir

Sjálfsskilningur afturgöngunnar er augljós: öll umsvif hans, flest illu marki brennd, eru svar hans við „óhamingju“ sem aðrir valda: allir eru á móti mér, guðir og menn. Ef hér væri látið staðar numið yrði illskurannsóknin næsta einföld og banöl. En sem betur fer réttir höfundur söguna af með íróníu, með háðslegu misræmi milli þeirra orða sem afturgangan fer með sér til afbötunar og þess sem Þórólfur bægifótur hefur í rauninni gert.

Glæsi gengur ekki einu sinni vel að hafa bölvun guðanna sér til réttlætingar – því hann hefur á löngum heimspekistundum í sínu fjósi komist að niðurstöðu sem snýr því dæmi við með nokkrum hætti: „Guð eru hugkvæmari en menn. Einkum þegar kemur að því að snúa misgjörðum annarra við og láta þær endursendast eins og mistilteinn aftur í þá sjálfa“ (153).

Þetta er að vísu fágæt viðurkenning Bægifótar á því að misgjörðirnar séu hans – en hún er í fullu samræmi við niðurstöðu hins íróníska leiks sem nú var nefndur.

Þórólfur – Glæsir hefur kvartað sárt yfir bægifæti sínum – en það er öllum ljóst að þau örkuml eru honum sjálfum að kenna. Þórólfur skoraði á hólm gamlan mann til þess að sölsa undir sig land hans og vissi vel að sá hafði ekki afl við fólskan víking og einnig að „enginn kæmi honum til hjálpar“ (67). En Úlfar, bóndi sá sem hér var drepinn – honum tókst þó að koma sári á Þórólf sem skemmdi fót hans – rétt svo sem maklegt var. Hverjum sem þetta hefur í huga verður erfitt að snökta yfir „fórnarlambi eineltis“ í þessari sögu.

Þegar kemur að afdrifaríkum kulda í samskiptum við soninn Arnkel þusar draugsi hundfúll um að hann hafi þó verið skárri faðir en hans faðir sínum syni (ekki barði ég hann!), og eigi því ekki skilið fjandskap hans og fyrirlitningu. En tætir sjálfur niður viðleitni sína til að koma allri sök yfir á Arnkel með því að segja frá því að þennan ambáttarson lét hann frá sér í fóstur sem fyrst og gaf engan gaum síðan að uppvexti hans.

Þannig mætti áfram telja: kaldranaleg sambúð við eiginkonur, banvæn barátta hans fyrir því að svínbeygja son sinn – allt kemur frá honum sjálfum, gerist að hans frumkvæði. Við mætti bæta, að allt tengist þetta þeim mafíósamóral sem svífur undir og yfir – en valið er hans og þar með sök. Svipað má segja um það sjálfsmat draugsa að hann hafi ekki verið sérlega grimmur víkingur og „sanngjarn og mildur húsbóndi“ (104) þrælum sínum. Þær ályktanir æpa rammfalskar á lesandann sem rétt áður las hans eigin frásagnir um hrottalegar aðferðir víkinga við að skapa þann ótta sem allri andspyrnu við þá eyðir og svo um grimmar hýðingar á búi Þórólfs. Sjálfshól hans er líka undanfari þess, að frá því segir hvernig Þórólfur teflir þrælum sínum til illvirkja sem kosta þá sjálfa lífið.

Það er laglega frá þessu misræmi gengið í sögunni. Afturgangan getur ekki tekið eftir því vegna þess, að Þórólfur bægifótur er, eins og hann er langur til, sokkinn í þá sekt og sök sem kona hans gat um í endurliti þeirra úr draugaheimum: Hann mun aldrei hugsa um það hvað öðrum líður, hann mun aldrei setja sig í annarra spor. Hann er gegnheill í sjálfhverfu sinni. Hann uppsker með allt að því biblíulegri rökfestu svo sem hann hefur til sáð: allt sem hann gerir sér til fremdar snýst í höndum hans, maður verður honum aldrei manns gaman, enginn vill af honum vita frekar en hann af þeim. Hann er einn. Þessi einsemd vex og magnast og gerir hann að vábeiðu.

Það er einsemdin sem á heimspekistundum í fjósi Glæsis er líkt við dauða í lifanda lífi: „Draugur varð ég löngu áður en ég varð draugur“ (27). Höfundur viðurkennir vitanlega að ýmislegt ólán geti vel verið illskuhvetjandi, en hann grefur jafnt og þétt undan þeim æviþáttum sem réttlætingu og afsökun veita fyrir fólskuna. Glæsir er í víti og það er sjálfskaparvíti. Þórólfur bægifótur er lífs og hálfdauður í fjötrum sem hann hefur gert sér – og „sjálfgerðir fjötrar eru traustastir fjötra“ segir Sigfús Daðason. Því segist draugsi vera „fastur í sjálfum mér“(149) og getur ekki drepist alveg, dæmdur til að eigra um og valda ótta og tortímingu og hefur náð þeim þroska í tilvistarspeki að hann veit ekki síður en karlskröggar sem Gúlliver víðförli hittir á sínum flækingi nokkrum öldum síðar, að ekkert er verra en fá ekki að deyja.

Með nokkrum sanni má líkja því víti sem Glæsir er staddur í við það helvíti sem samtíðarmaður Eyrbyggjuhöfundar, Dante, lýsti í sínum Guðdómlega gleðileik: þar eru vistmenn bundnir um allan aldur við sína höfuðsynd, sinn verknað eða hugarfar, frosnir þar fastir, sokknir á kaf. Eins og Glæsir segir: „Hinn ódauði er fastur í endurtekningu“ (151). Það gerist ekkert framar. Hver sem inn gengur gefi frá sér alla von.

Í Eyrbyggju, burt frá Eyrbyggju

Glæsir hefur reyndar gefist upp á þeim hefndarhug sem rak Þórólf bægifót áfram til illra verka. Hann segist í upphafi sögunnar vera kominn á Finngeirsstaði til að drepa. En hann langar hreint ekki til að drepa Þórodd bónda, sem hefur bjargað lífi hans í kálfslíki og er eina manneskjan sem hefur sýnt honum vinsemd. Að vísu er einnig hér nokkur tvíræðni á ferð. Þóroddur bóndi er góður við Glæsi – en vel gæti það verið vinsemd búhöldar sem senn mun slátra sínu nauti og gera úr steik góða.

Ekki sýnir hann vinsemd sem maður manni, hann veit ekki hver Glæsir í rauninni er. Vill ekki vita það þótt fóstra hans segi honum og vari hann við – því Þórólfur bægifótur er sannarlega ekki einn um að lifa í afneitun á því sem óþægilegt er. Afneitun Þórólfs á mörgu sem hann hefur gert og afneitun Finngeirsstaðafólks sem vill ekki „sjá það illa í þessum heimi“ – þetta verður, þegar grannt er skoðað, eitt af því sem helst kemur í veg fyrir að nokkur maður hafi einurð til að setja elkur við vési hins illa.

Þóroddur er reyndar eina persónan sem fær í þessari sögu að vera andstæða við afturgönguskrímslið. Hann er óttalaus, „sáttur við lífið og skelfist ekki dauðann“ (30). Hann virðist laus við hatur. Glæsir segir hann eiga þá lífsgleði „sem er það eina afl sem afturgöngum stendur af beygur“ (36). Þóroddur er látinn vera sá eini sem getur stigið út úr þeim vítahring hefnda og fólskuverka sem bannar Þórólfi gleði og sköpun. Hann fær meira svigrúm en jafnvel goðarnir frægu, Arnkell og Snorri – og því er eðlilegt að lesandi spyrji: væri ekki hægt að draga fram meira um þann eina mann sem á afl sem jafnvel draugar óttast?

Höfundur tekur sér drjúgt frelsi í lýsingu Þórodds, en fátt eitt segir Eyrbyggja um hann – og vel má sakna þess að ekki er haldið lengra áfram með þetta frelsi til að „lífsgleðin“ komi fram, fái vægi og skapi andstæður sem gert gætu söguna litríkari, því óneitanlega er hún stútfull af myrkri.

Kristni er að breiða úr sér á tíma draugsins, hann gefur lítið fyrir það og höfundur sömuleiðis – þó er það kristnin væntanlega sem helst færir með sér endurskoðunarkröfu á mörgu sem talið er sjálfgefið í heiðnum heimi. Hjá þessu er sneitt. Þóroddur til dæmis, hann telur sér til tekna þá skynsemi að virða hvern guð sem hann á rekst – og ekki meir um það. Þessi þögn er nokkur ljóður á ráði annars úrræðagóðs höfundar.

Aftur á móti er hitt vel til fundið, að láta Glæsi misskilja kristið tal nautamanns og griðkonu um „iðrun og yfirbót“ sem það eina sem „getur lokað hringum“ (189). Þetta tal er látið verða „frækornið að ráðagjörð“ draugsa. Hans yfirbót getur ekki verið gott að gjöra, hann tengir yfirbót við þá hefndarskyldu sem honum er sjálfsögð í heiðnu garpasamfélagi. Nú rifjast upp fyrir honum að „heiður og sæmd“ bjóða að hann hefni Arnkels sonar síns – eins þótt hann hafi sjálfur viljað syninum flest illt. Hann vill trúa því að þá fyrst verði „hringnum lokið“ að hann hefni sín með því að drepa Þórodd – sinn eina vin í heiminum. Þá fyrst geti hann hætt marklausu haturshringsóli um mannheima. Eins þótt hann viti ekki lengur fyrir hvað hann bæti með því að vega Þórodd (190).

Ármanni Jakobssyni gengur oft giska vel þegar hann fer langt frá Eyrbyggju og hennar aðferð – ekki síst um innlönd ills draugs. En það hefði ekki sakað að hann gerði sig enn frjálsari undan henni. Eyrbyggja er alltaf nálæg, ekki aðeins í söguþræði heldur og öðru hvoru í alllöngum orðaskiptum og frásögnum af atburðum, sem eru lítt fleyguð beint af skinnbókum tekin.

Þetta á einnig við um málfar og málblæ. Höfundur tekur þann skynsamlega pól í hæðina að skrifa sem næst tímalausa íslensku, hvorki fyrna né módernisera. En Eyrbyggjuívitnanirnar beinu skapa vissa mishljóma: það verður stundum einum of langt á milli þeirra og nútímatals, t.d. um að líf draugs sé „aðeins formleysa“ (50) goðar „komi sér upp kerfi“ (64) og „gamalt fólk er afskrifað af æskunni“ (40).

Hvað um það: í sögunni um Glæsi er lagt út í ævintýraferð þar sem forneskja Eyrbyggju og um margt framandlegur hugarheimur stíga dans við nútímaskilning á því hvernig persónuleiki verður til og á því ferðalagi má finna margt skarplega athugað um vegi illskunnar og eymd hennar. Það þarf ekki allt „að ganga upp“ eins og segir í leiðinlegri klisju, enda mega allir vita að hér er um að ræða málefni sem aldrei verða að fullu skýrð og skilin.

Mestu skiptir að þetta var góð skemmtiferð því höfundurinn ræður yfir fjörlegu hugviti og stílgáfu sem vel dugir til að bæla niður efasemdanöldur og annað vanþakklæti.

 

Árni Bergmann