Vilborg Davíðsdóttir. Auður: Skáldsaga.

AuðurMál og menning, 2009.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2010.

Það ber að taka fram í upphafi máls að sú bók sem hér verður gerð að umtalsefni er skáldsaga og nýtur allra réttinda í því efni. Hún er ekki sagnfræðirit en leitast við að nota skáldaleyfin til þess að sýna inn í heim, sem vissulega er sannfræðilegur að einhverju marki. Það skal líka tekið strax fram áður en lengra er haldið að Vilborg Davíðsdóttir er ágætur, skynsamur og hófstilltur sögumaður.

Líklega er konan sem skipar öndvegi í skáldsögunni Auði formóðir okkar allra sem nú teljumst af íslenska stofninum. Samt átti hún aldrei nema eitt barn. Hún var greinilega einn mestur höfðingi á Vesturlandi á sinni tíð. Samt eru menn ekki einu sinni alveg vissir um hvað hún hét. Íslendingabók virðist kalla hana Auði djúpauðgu (ef rétt er lesið úr Oþi), Laxdæla nefnir hana í einu handriti Unni djúpúðgu. Eyrbyggja stendur með Íslendingabók. En það eitt að hún er nefnd í sögu eftir sögu og greinilega alltaf átt við sömu manneskju, gerir okkur kleift að staðhæfa að hún var vissulega til. Punkta úr sögu hennar lesum við úr nafnaskránum í Íslenskum fornritum. Ef blaðsíðutölum er sleppt segir Íslendingabók okkur: „landnámskona; fer frá Írlandi til Suðureyja og Orkneyja; fer til Íslands; landnám, deyr.“ Sé Laxdæla leikin á sama hátt fáum við að vita að hún „fer vestur um haf; fer til Íslands; nemur land; gefur af landnámi sínu; hefur boð inni í Hvammi og andast.“ Þetta síðasta finnst mér dálítið flott!

Þegar í sögutextana er gáð fæst samt miklu meira. Laxdæla er að vísu fáorð um ævi hennar, fer sennilega rangt með ætt eiginmannsins, Ólafs hvíta, enda skiptir hann litlu í þeirri frásögn og það er fyrst þegar allir eru dauðir, eiginmaðurinn, faðirinn Ketill flatnefur og sonurinn Þorsteinn að ástæða er til að segja ofurlítið frá Auði (Unni): „Unnur djúpúðga var á Katanesi, er Þorsteinn féll, son hennar. Og er hún frá það að Þorsteinn var látinn, en faðir hennar andaður, þá þóttist hún þar enga uppreist fá mundu. Eftir það lætur hún gera knörr í skógi á laun, og er skipið var algert, þá bjó hún skipið og hafði auð fjár. Hún hafði í brott með sér allt frændlið sitt það er á lífi var og þykjast menn varla dæmi til finna að einn kvenmaður hafi komist í brott úr þvílíkum ófriði með jafnmiklu fé og föruneyti. Má af því marka að hún var mikið afbragð annarra kvenna.“ (Svart á hvítu bls. 1538–39). – Það er með öðrum orðum engin hversdagsmanneskja sem hér er á sviði.

Vilborg Davíðsdóttir er búin að fá umtalsverða þjálfun í að skrifa sögulegar skáldsögur, og ég hygg hún taki reyndar gott skref framávið með skáldsögu sinni Auði. Að því er ég best veit hefur hún hingað til notað uppdiktaðar persónur þótt þær eigi sér ýmislegar fyrirmyndir. Nú kýs hún að söguhetju margfræga konu úr Íslandssögunni og þarf bæði kjark og þekkingu til að endurrita söguna svo sem hún gerir. Kannski má skilja það svo að nú sé komið að kvennasögunni. Þá verður spennandi að fylgjast með framhaldinu. Sérlega hlakkar sá sem hér ritar til að lesa um Íslandsförina þar sem Auður hafði viðkomu á Orkneyjum og efndi til höfðingjaættar Orkneyjajarla, og í Færeyjum þar sem efnað var í Götuskeggja. Það er eins og Auður hafi ætlað sér með því að gifta sonardætur sínar á strategískum stöðum að skapa Norður-Atlantshafs stórveldi. Því miður tókst það ekki alveg.

Eins og áður leggur höfundur sig fram um að skapa líf og segja spennandi sögu – og það gerir hún vel, þó að hér verði hins vegar bent á viss vandamál sem skapast í frásögninni.

Það er augljóst mál að skáld hafa fullt leyfi til að breyta sögunni þótt stuðst sé við sögulegar heimildir. Þannig er fátt við því að segja að Vilborg (eins og hún rekur í eftirmála bókarinnar) skuli víkja frá Landnámu varðandi viðskilnað þeirra hjóna Auðar og Ólafs hvíta en þar segir ótvírætt að Ólafur hvíti, maður Auðar, hafi fallið í bardaga og eftir það hafi hún farið með Þorstein son sinn í Suðureyjar („Ólafur féll á Írlandi í orustu, en Auður og Þorsteinn fóru þá í Suðureyjar“ ÍF Ia:136). Vilborg lætur þau hjón hins vegar skilja með mikilli heift og Ólaf reka Auði á brott með kvonarmundinn einan. Í Eftirmála bókar sinnar rekur Vilborg að fátt sé með vissu vitað um Ólaf. Það er laukrétt, en af því að auðæfi Auðar djúpúðgu (eða -auðgu) skipta miklu í þeirri mynd sem Íslendingasögurnar gáfu af henni er hentugt að láta hana standa til arfs eftir þrjá herkonunga. Það verður þrengra um vik eftir skilnaðinn. Vitaskuld er það góð dramatík sem Vilborg skapar með því að láta Ólaf ásaka konu sína fyrir að hafa tekið annan mann fyrr en hann og þar með rangfeðrað Þorstein.

Það er vitanlega freistandi, þegar fjallað er um tíma heiðninnar á Norðurlöndum að búa sér til verulega árekstra milli kristni og heiðni. Ekki síst á vorum trúarstyrjaldadögum. Í því ljósi er spennandi að láta Ketil flatnef höggva Gilla hinn kristna, meðal annars vegna þess að hann sé æfur yfir skírn dætra sinna. En það rímar illa við það sem Vilborg nefnir líka í Eftirmála: Aðeins eitt barna Ketils var óskírt, Björn hinn austræni. Helgi bjólan, sem á samkvæmt Laxdælu að hafa farið til Íslands þegar faðir hans neitaði að fara „í þá veiðistöð“ (og Íslendingar hafa aldrei almennilega fyrirgefið honum, nema þá kvótakóngar), hann var skírður – og þá líklega í Noregi? Í rauninni er fjarska fátt sem bendir til að Ketill hafi verið sérlega uppnæmur fyrir kristindómi. Reyndar gera íslenskar heimildir afskaplega lítið úr kristni Auðar. Í Laxdælu er hún heygð eins og hver annar heiðingi, þótt Landnáma segi að hún hafi verið greftruð í flæðarmáli, „því hún vildi eigi liggja í óvígðri moldu, er hún var skírð.“ Og eins og margir heiðnir landnámsmenn lætur Auður öndvegissúlur vísa sér til búsetu.

Sannleikurinn er sá, ef við höllum okkur að íslenskum heimildum, að við höfðum afskaplega lítið að segja af trúardeilum. Átökin í Kjalnesingasögu eru sennilega hreinn skáldskapur, og þar með er ekkert eftir nema Kristnisaga og túlkanir síðari alda. Hitt er miklu meira áberandi: Heiðnir og kristnir bjuggu í ágætri grannasætt, voru eiginlega ekkert að abbast hvorir upp á aðra. Þetta verður spennandi í framhaldi Auðar (því það er óhugsandi annað en Vilborg fylgi sinni konu áfram). Þegar hún kemur til Íslands með kristna kelta og sest að í Dölum vestur þá veldur það engum árekstrum, og reyndar hefur mig lengi grunað að Dalamenn hafi verið tvítyngdir um þessar mundir og nokkuð jafnvígir á norrænu og gelísku. Aldrei á Melkorka hin írska í neinum vandræðum með samskipti eftir að hún fer að tala og Ólafur sonur hennar er hraðmæltur á írsku þegar hann kemur til útlanda.

Með þessu er ég vitanlega ekki að segja að trúarbragðadeilur hafi ekki komið fyrir víða um lönd. Vissulega rændu víkingar, brenndu og nauðguðu. En ég held samt að þeir víkingar sem fundust einir fimmtíu talsins í fjöldagröf í Waymouth á Englandi um daginn og höfðu verið hálshöggnir, hafi ekki verið líflátnir fyrir trú sína heldur bölvaðan yfirgang. Frá þessum fundi sagði með þessum orðum á vef Ríkisútvarpsins:

Fornleifafræðingar frá Oxford telja að víkingarnir hafi verið teknir af lífi einhverntíma á árum 910 til 1030. Líklegast sé að þar hafi verið að verki heimamenn, Engilsaxar sem máttu þola miklar búsifjar vegna árása norrænna víkinga, sem að lokum leiddu til þess að Danakóngur náði yfirráðum á Englandi.

Nú gæti Vilborg bent á að það er ekki alltaf víst hverrar þjóðar eða hvaða búsetu menn eru á þessum tíma, en strontíum í tönnum hinna höggnu bendir til Norðurlanda, kannski Svíþjóðar. Þetta voru sem sagt ribbaldar ekkert síður en íslensku útrásarvíkingarnir.

En það verður fróðlegt að sjá hvernig Vilborg heldur áfram að endurskapa söguna í ljósi þeirra ákvarðana sem hún hefur tekið þegar.

Málnotkun er ævinlega stórmál þegar skrifaðar eru sögulegar skáldsögur. Á einum punkti má ég til með að hæla Vilborgu sérstaklega: Þótt ég kunni ekkert fyrir mér í írskri og skoskri gelísku, finnst mér afskaplega sannfærandi þegar hún slettir þeim tungum. Hún gerir það bráðsmekklega og aldrei svo að lesandi sem ekkert skilur sé í nokkrum vandræðum.

Hins vegar getur svo notkun móðurtungunnar ergt gamlan norrænufræðing. Til dæmis finnst mér ótrúlegt að lesa að „Úlfur kennir hana við hreinkýr sem bíður [ekki bíða] tarfsins“ (bls. 163). Í þolfalli heitir kýr kú í eintölu í íslensku ritmáli, ef ég veit rétt. Það er enginn vandi að gera svona mistök, en virðulegt forlag á að hafa lesara sem lagfæra. – Ég hef hrokkið við undanfarin ár þegar ég hef verið að lesa veftexta þar sem lítur út fyrir að óttinn við að festast á einsoginu, eins og það var einu sinni orðað, virðist hafa leitt til að menn eru fastir á lík-toginu. Í mínu máli er það sem er líkt einmitt ekki eins. Vilborg notar þetta „líkt og“ stundum ótæpilega og ég skil ekki hvers vegna. Er betra að skrifa „Gestrisni er helg skylda á Írlandi líkt og heima í Suðureyjum“ en að segja hreint út að það er eins? Ég ætla ekki að bera á fólk að það sé að þýða like!

Yfirleitt sýnist mér menningarfyrirbærum ágætlega til skila haldið í Auði. Þess vegna finnst mér skrítið að sjá að hinum áfengu drykkjum sem við sögu koma er stundum blandað saman. Þannig segir frá því bls. 45 að sóttur er kostur og mjöður til að fagna barnsburði, á bls. 50 er sá mjöður á hornum og svífur fljótt á Auði, en á næstu síðu brosir Þórunn hyrna sæl „ölvuð af víninu“. Hliðstæður má finna í öðrum veislum. Menn drekka mjöð og verða ölvaðir af víni. Í framhaldinu hlýtur Vilborg að gá að þessu, því fáar fornhetjur voru veisluglaðari en Auður djúpúðga.

Það er efnileg Laxdæla sem Vilborg Davíðsdóttir hefur byrjað með þessari sögu. Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu og sjá hvernig hún byggir upp stórveldi Auðar, sem stofnaði til höfðingjaætta í hverju eyríkinu af öðru.

 

Heimir Pálsson