Núna Þorsteinn frá Hamri

Þorsteinn frá Hamri. Núna.

Mál og menning, 2016.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2017

Núna er 21. ljóðabók Þorsteins frá Hamri á rúmrar hálfrar aldar skáldferli. Þó að allar þær bækur beri greinileg höfundareinkenni og myndi ákveðna samfellu hefur hver og ein eitthvað nýtt og ferskt fram að færa, og þessi er engin undantekning. Í einkunnarorðum bókarinnar fjallar skáldið um „sum“ ljóðin af hógværð og ákveðinni angurværð vegna þess hve lítið andsvar þau hafi vakið. Eða sá er minn skilningur. Þetta minnir á undurfagurt ljóð í áttundu ljóðabók Þorsteins, Spjótalögum a spegil, sem heitir Saknaðarstef um læk og er reyndar margrætt eins og flest önnur kvæði hans.

Ljóðið sem ég staldra fyrst við heitir Útlegð og fjallar um orð sem skáldið hefur strikað út, en saknar, því að þar var „letrað / nákvæmlega það / sem ég nú vildi þyrmt hafa“. Þessi útlægu orð hafa síðan lifað einhvers konar eigin lífi, persónugerð eins og margir félagar þeirra úr fyrri bókum Þorsteins, lent á vergang, kannski guðað einhvers staðar á glugga. En í lokaorðum ljóðsins kemur fram til hvers er ætlast af þeim, hvers þau geta verið megnug. Þau kviknuðu til lífs í svartasta skammdeginu, „leyndasta kima / hinnar yfirskyggðu árstíðar“, en alltaf var von til að þau fyndu sér stað í vorinu góða

sem á það til að opinbera
iljastað
margra hinna óvart erindisbæru skrefa.

Ljóðið á sér erindi, hefur hlutverki að gegna í þágu hins lifandi lífs, en að vísu er misjafnt hversu móttækilegir lesendurnir eru fyrir boðskap þess.

Orðin eru einnig viðfangsefni í ljóðinu Gestaboð, en þau orð sem ljóðmælandi vill helst leggja lag sitt við, „sérlunduð orð, / móleit, veðruð og myrk / eða ljóðstafaglöð af litlu“ verða utangátta í þessu „flaumósa, falbjóðandi / hástemmda og háskalega samkvæmi“. Orðið ljóðstafaglaður er nýyrði, og reyndar birtast stuðlar og rím víða á síðum bókarinnar, oft þegar lesandi á þess síst von. Hnitmiðað, blæbrigðaríkt orðaval þessara ljóða, nýyrðin, persónugervingarnar, beiting andstæðna innan ljóðanna væri efni í sérstaka umfjöllun.

Bókin hefst á ljóðinu Farþegi, nokkuð óljósri líkingu mannlífs „síðan í árdaga“ og flughraðrar lestarferðar „aftur og fram, milli hikandi vonar / og drottna sem þjaka og deyða“. Hér er heldur dökk mynd dregin af ójöfnum leik, en utan við lestargluggann er „unaður heimsins“ í mynd þéttra, gjöfulla skóga sem eru innan seilingar ljóðmælanda og sem hann gerir tilraun til að festa hendur á „núna!“, „í þeirri trú að mannveran sjálfbjarga sé“. Og hann nær að spenna greipar um grein. Orðið sjálfbjarga eins og ég sé það er tvírætt: getur mannveran bjargað lífshamingju sinni, verður mannkyninu bjargað undan ótryggum örlögum?

Drottnar sem þjaka og deyða, ógn sem steðjar að náttúru og mannkyni hafa verið Þorsteini áleitið yrkisefni, síðast í Skessukötlum sem kom út 2013. Í þessari bók eru þau efni ekki eins í brennidepli heldur þokast fremur í bakgrunninn, en geta orðið áhrifarík eigi að síður.

Titill ljóðsins hvar maður fæðist er sótt í ljóð Sigurðar Breiðfjörð, og þar með veit lesandinn að sú sem ávörpuð er og ber „örkuml eitthvert“ í svip sínum er sjálf móðurjörðin:

Þá sé ég hvað er á seyði;
kann reyndar yfir það orðin,

en hvoru tveggja;
lækjarniðnum
og ljóði mínu
kýs ég að þyrma við þeim

núna … Nánar sagt:
þessa stund hjá þér

sem luktir mig örmum ungan,
víðfeðma, grýtta
græna, lyngsæla vin.

Reyndar bregður hnyttinni háðsádeilu fyrir í ljóðunum Samgöngur og Krukksspá, en ádeilan felst í því hvernig skáldið setur sig í spor veruleikafirrtra skýrslugerðarmanna nútímans og talar með þeirra munni. Ég minnist þess ekki að hafa séð ljóð af þessu tagi hjá Þorsteini áður. Þar kann að gæta áhrifa frá síðustu ljóðabókum látins skáldbróður og vinar, Stefáns Harðar Grímssonar, og hið sama gæti átt við ástarljóðið sem á eftir fer og nefnist Þessi orð og þú.

Gatan hefur verið margslungið tákn í ljóðum Þorsteins. Í ljóðinu Þessar götur gengur ljóðmælandi götur sem hann þykist þekkja vel „með gjörhygli, varúð“. Þetta eru yfirlætisfullar götur, „margar því líkast / sem þær liggi til glæstra hæða“. Hann skyggnist eftir öðrum götum í leit að einhverri sem er „aflögð, týnd í gras, /segist vera á leið í sauðburðinn“. Þá götu dreymir hann um að fara að vori og „villast voðalega“, þar til hann kemur til byggða um síðir, „allslaus af óþekktri heiði“. Í Arfleifð er heimi sagna og ljóða stefnt gegn vélrænni afþreyingu (stálmenni, vélgenglar, skjástirni), sem er í huga skáldsins staðleysa, „svo lengi sem manneskjur / ösla blóðið í æðum mér“. Í ljóðinu Sólsetur er fjallað um tvenns konar tíma, daginn annars vegar, sem er pískaður áfram miskunnarlaust, og hins vegar hið fábreytta, almúgalega tif tímans, hinar stafalygnu stundir sem ljóðmælandi hefur leyft sér að ganga á hönd. Tvenns konar tími, tvenns konar verðmætamat, birtist einnig í Draumljóði, þar sem marglitum brotum er þröngvað saman í lífvana, storknaða heild „sem líkt og samkvæmt tilskipun / gaf frá sér glit; enginn vottur / innileiks, þrár eða kynngi“.

Skáldskapurinn og skáldið eru enn sem fyrr áleitin viðfangsefni. Gralriddarinn er hér áttavilltur og kvíðinn þar sem hann fetar sig áfram á gangvara orðsins um myrkviðinn, og leiðarstjarnan hulin skýjum (Stef ur strengleik). Farandskáldið á ekki þann kost að setjast um kyrrt; hann á það alltaf víst „að fjarskinn mikli / færðist ögrandi nær / og nísti hann síðast.“

Þessi bók er innhverfari, persónulegri en margar af fyrri bókum Þorsteins frá Hamri. Mörg ljóðanna fela í sér einhvers konar lífsuppgjör. Skáldið lítur yfir eigin ævi „með sínu af hverju: sætleik, bölmóði, þrám“, í vitund um hin óumflýjanlegu endalok:

Þvert sér um geð segir Gleðin:

Það dimmir,
drekkið mig út.

Biðjið nú ásjár
dísirnar Miskunn og Mildi!

Óboðin kemur
sú er þið flýið, forðizt
og dragið í lengstu
lög að nefna:

fjórða systirin,
sjálf hin rökkvaða Náð. (Systurnar)

Garðurinn í samnefndu kvæði er tákn fyrir huga ljóðmælanda, sem áður var „opinn til margra átta“ og „lýstur bragandi ljósum“, en mókir

núna,
ef nýtt bros fer stjörnum um stíginn …
– – –
hikar, spyr sig
hve hratt sér leyfist úr þessu
að grænka og gróa.

Minningar leita á hugann frá horfnum gleðifundum við skál í ljóðinu Kvöld hja gömlu kránni, sem lýkur á þessum ljóðlínum (og fallegu nýyrði: flökkubrek):

Ó, hvílík veizla vinum tveim: að finna
í vitum angan flökkubreka sinna …

Ljóðið Frá þeim dögum er æskumynd: ljóðmælandi í hópi fólks sem drap á dyr „ungra, brýnna erinda“

glaðbeitt, þykkjuþung

og þóttumst raunar á stundum
heyra í eigin höggum
hreim úr gömlu bergmáli
– – –
enn speglast í sjáöldrum okkar svipir
mikils háttar;

bros jafnt sem beiskja frá þeim dögum.

Ævi mannsins er sýnd í líkingu árstíðanna, óskirnar falla mönnum úr minni eins og reyniberin af trjánum að hausti, og enginn væntir þess í dögun að draumar næturinnar rætist (Seint).

Tímarnir eru óræðir, viðsjálir, háskalegir (Ásýnd heimsins, Hljóð), en á móti er teflt „friði, / vinafriði, / vinnufriði / eins og þeim / þegar manneskja reisir manneskju / hjástoð við hjartað“. Ljóðið Sólheimar hefst þannig: „Gæði veraldar: /sýn, ómur og orð / stikur sem vísa veginn til móðurdyra“. Orðið móðurdyr minnir á Ólaf liljurós og er annars einkaorð Þorsteins frá Hamri. Hér er fjallað um gildi listarinnar og ekki síður hin ósegjanlegu æðstu verðmæti lífsins, óeigingjarna umhyggju, vinarþel, heiðríkan huga.

Bókinni lýkur á fjögurra ljóða bálki sem nefnist Manstu. Vegfarandinn sem kynntur er í fyrsta erindinu er ekki nafngreindur, en undan síðhettinum kveður hann upp dóm yfir lífi ljóðmælanda og vandar um við hann fyrir ístöðuleysi, að hafa vikið af leið, farið að efast um hugsjónir sínar og verðmæti. Eða þannig skil ég þau véfréttarorð. Lokaerindi bálksins, Fararefni, mynda að sínu leyti ályktunarorð bókarinnar. Einstök andartök liðinnar ævi, sem virðast svo óralangt í burtu en voru þá ígildi heims sem var heill, líða fram í hugann og fylgja skáldinu og styrkja það, núna:

þau koma sem angan
úr kyrrþey

eða tónblær af strengjum
tærrar gleði

og eru, lifa:
ylur við bakið
og fylgdin fram

veg allra vega

hvort sem tíðin reynist sumarsæl
eða fjúksöm í fangið.

Þorleifur Hauksson