Sofðu ást mín

Andri Snær Magnason. Sofðu ást mín.

Mál og menning, 2016.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2017

I

Jólavertíðin 2016 var gjöful á smásagnasviðinu. Auk örverkabóka frá Sigurlaugu Þrastardóttur, Gyrði Elíassyni og Kött Grá Pje voru að minnsta kosti fimm veigamikil smásagnasöfn á allsnægtaborði flóðsins: Allt fer eftir Steinar Braga, Þættir af séra Þórarinum og fleirum eftir Þórarinn Eldjárn, sagnasveigurinn Raddir úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur, Takk fyrir að láta mig vita eftir Friðgeir Einarsson og þetta hér: fyrsta smásagnasafn Andra Snæs Magnasonar síðan Engar smá sögur komu út árið 1996.

Smásagnasöfn toga lesandann í tvær áttir samtímis. Ekki síst lesanda sem hefur gengist inn á að standa skil á lestrarupplifun sinni á prenti. Annars vegar eru sögurnar hver um sig einhverskonar heild, listaverk á sínum eigin vegum. En svo eru þær líka komnar saman í einni bók. Er ekki rétt að leita að samnefnara? Skoða þræðina á milli þeirra, eða ef allt um þrýtur að spinna þá sjálfur? Smásagnasöfn gera missterkar og ósamhljóða kröfur að þessu leyti. Í þessari bók eru þær báðar nokkuð háværar. Sjö sögur, tvær tengjast skýrum söguþráðarböndum, samnefnarinn í heildinni blasir við, en engu að síður stendur hver og ein óstudd og býður heim að vera skoðuð út af fyrir sig. Ef Sofðu ást mín væri hljómplata væri hún þemaplata. Ef hún væri þemaplata væri hún Animals frekar en The Wall.

II

Andri Snær Magnason hefur lengst af verið hugmyndadrifinn höfundur. Eða þannig koma verk hans mér fyrir sjónir. Þau bera flest þess merki að sækja eldsneyti sitt í spurningar á borð við „hvað ef?“, eða „hvernig væri ef?“ Þannig sögur birtast alveg hráar í fyrra smásagnasafninu, Engar smá sögur, frá 1996, en henni lýkur á fjögurra þátta seríu sem hver um sig skoðar hvernig hversdagslífið væri ef tilteknum náttúrulögmálum væri kippt úr sambandi. Söguþráður og persónur eru fyrst og fremst til staðar til að varpa ljósi á þessar afleiðingar.

Þessi hugmyndabotn er líka í ljóðum Andra Snæs, gefur þeim hnyttni, gerir þau eftirminnileg. Ég þekki veislustjóra sem notar ljóðabækur hans eins og kollegar hennar nota eftirhermur og neðanbeltisbrandara. Það er eiginlega merkilegt að smásögur skuli ekki vera meginvettvangur rithöfundarins í Andra Snæ Magnasyni. Þær eru kjöraðstæður fyrir hugmyndir. Það er hægt að setja þær fram, máta þær við mannlífið og leiða afleiðingar þeirra til lykta á nokkrum síðum. Sem er gott, því helmingunartími jafnvel bestu hugmynda er ekki langur. Það er ekki tilviljun hvað smásagan er fyrirferðarmikil í höfundaverki manna á borð við Jorge Luis Borges, Chine Miéville og Neil Gaiman.

Það er líka merkilegt að nú, þegar hann stígur sín stærstu skref frá því að treysta á Hvað ef …? og Hvernig væri ef …? velur Andri Snær að skrifa smásögur. Sögurnar sjö í Sofðu ást mín eru af allt öðrum toga en flugeldasýningin í Engum smá sögum, eða ef því er að skipta í Love Star, Tímakistunni og Sögunni af bláa hnettinum.

Núna er það raunveruleikinn sem setur mál á dagskrá. Það sem er hefur ýtt Hvað ef …? til hliðar, í bili að minnsta kosti. Sögurnar hverfast um minningar, tíðaranda og ástand bæði hugar og samfélags frá sjónarhóli snemmmiðaldra Árbæings. Hvernig var að fullorðnast, hvaða þýðingu höfðu ákvarðanir um val á leið í gegnum lífið. Hvað er framundan.

Í titilsögunni leggur aðalpersónan djúpa merkingu í hring sem markast af Keili (120°) Móskarðshnjúkum (240°) og Snæfellsjökli (360°). Þessi hugmynd rekst síðan harkalega á veruleikann:

Jökullinn var ástin í fullkomnum hring. … En um daginn fann ég gamalt landakort og datt í hug að teikna hring á það og sjá hvort þetta hefði verið rétt reiknað hjá okkur. Hið ótrúlega var að Móskarðshnjúkar og Keilir voru nákvæmlega á hring með radíus í Gróttu en svo kom að Snæfellsjökli. Hann var lengst utan hringsins, einhvers staðar úti í rassgati og þar sem hann hefði átt að vera var: Ekkert (45)

Hin skáldlega hugmynd víkur fyrir mælitækjunum. Hvað stendur eftir? Er „ekkert“ rétta lýsingin á því? Og hefur Andri Snær Magnason eitthvað áhugavert um það að segja?

Titilsagan á sér systursögu í Hamingjusögunni. Báðar lúta að ástinni á tímum hjónabandsins, ástinni á æviskeiðinu þegar sjálfvirknin tekur við. Í þeirri fyrrnefndu leggur sögumaður á sig nokkuð erfiði til að leita að tjáningu yfir þann heim sem þau hjónin „eiga ein og enginn fær að sjá“, eins og Gautar á Siglufirði sungu um með hjálp kórs og kvartetts um árið. Falleg saga. Hamingjusagan er hins vegar mögulega veigaminnsta sagan í bókinni. Þar hafa önnur hjón fundið snjalla en þekkta lausn til að varðveita neistann og frásagnarhátturinn, spennugjafinn í sögunni er jafnframt vel kunnur, svo hinn óvænti endahnútur gleður ekkert sérstaklega, og kemur satt best að segja ekkert svo mikið á óvart.

Sömu brellu – að dylja mikilvægt atriði fram að sögulokum – er líka að finna í Randaflugu, upphafssögu bókarinnar og mögulega þeirri sterkustu. Þar skiptir hún litlu sem engu máli. Sniðugt krydd en ekki merkingarkjarni.

III

Eitt af því sem hugmyndadrifinn skáldskapur; fantasíur, dystópíur og framtíðarsögur gera næstum sjálfkrafa er að skapa andrúmsloft. Það eru hugmyndarnar sjálfar, heimssmíðin, sem býr til stemninguna. Eitt af því sem er forvitnilegt að sjá í sögunum hér er hve Andri Snær nær traustum tökum á þessari list án hjálpardekkja hugmyndanna. Randafluga er sterkasta dæmið.

Nú þykir ekki fínt að grafast um of fyrir í staðreyndum í lífi skáldanna eftir skýringum á því sem þau skrifa. Óhjákvæmilegt samt. Það þarf heldur ekkert að grafa djúpt til að finna að sögurnar í Sofðu ást mín eru atlögur að því að miðla á skáldskaparformi hvernig er að vera Andri Snær Magnason. Hvernig er að vera úr fjölskyldu eins og hans, hvað það þýðir að alast upp á tímum eins og þeim sem ólu hann af sér og mótuðu. Hvers konar fólk hefur orðið á vegi hans. Þetta er samnefnarinn. Hvað af söguefnum og persónum spegla hvaða atburði og fólk skiptir minna máli fyrir okkur, þó það hafi mögulega allt að segja fyrir höfundinn.

Þetta eru hugsanir sem vakna strax í Randaflugu. Við vitum að foreldrar Andra voru tíðir gestir á hálendinu, mér finnst endilega að ég hafi heyrt hann tala um Laplander. Og hér erum við stödd í slíkri ferð, með barnungan sögumann sem segir á hlutlægan hátt frá hvernig þau verða viðskila við hópinn, Volvo-inn ekki fær í sömu torfærur og tryllitæki ferðafélaganna. Viðskila og villt. Bensínið á þrotum, taugaspennan eykst við hefðbundnar deilur um leiðir og kort. Fyrir utan svartir sandar, skriðjöklar og vegaslóðar sem liggja í núll. Allt blandast þetta tíðaranda kjarnorkuógnar svo úr verður einstaklega mögnuð mynd, byggð upp af hófstilltri og hlutlægri nákvæmni.

IV

Önnur þungaviktarsaga safnsins er Lególand. Önnur bílferðarsaga þó hér sé sögumaðurinn sjálfur kominn með próf. Bílferðin er líka bara upphaf. Ungt par með lítið barn á leið í Legoland með barnið sitt, sem er of lítið fyrir Lego en þau of stór. Eða hvað? Er sögumaður orðinn stór? Kannski stærri en hann vill, kannski of margar ákvarðanir búnar að taka sig. Hann sest niður og byggir svartan kassa úr Legokubbum og veltir fyrir sér merkingu hans. Yfir grúfir skuggi af sjálfsvígi vinar hans og jafnaldra.

Lególand er skrifuð eins og varnarræða sögumanns. Hann skoðar val vina sinna sem helltu sér kröftuglega út í neyslukapphlaupið, og hinna sem héldu djamminu áfram og þótti hann vera orðinn alltof fastur í rásinni. Hann rifjar upp möguleika sem ekki urðu veruleiki:

John hafði líka boðið mér að koma að vinna eitt sumar í Bronx-dýragarðinum nokkrum árum áður … En þá var erfitt að fá gott sumarstarf á Íslandi og ég var nýorðinn flokkstjóri hjá garðyrkjudeild Rafmagnsveitunnar. … Mér fannst borgir ljótar, skítugar og leiðinlegar og mér fannst barir dapurlegir, bjór rammur og kaffi vont og ég hafði aldrei lært á neðanjarðarlestakerfi, ímyndaði mér að þar væru bara eintómir morðingjar. … Svo ég hafnaði boðinu og safnaði peningum sem ég var núna búinn að eyða í ódýrasta Ikea-sófann, græna baststóla og FARGRIK-diskasett. (82–83)

Það er auðvelt að finna sjálfan sig í þessari sögu, jafnvel þó maður deili ekki alveg kynslóð með Andra Snæ. Öll veltum við fyrir okkur möguleikum sem ekki raungerðust, ævintýrum sem aldrei urðu. Þetta er ekki frumleg eða djúp skoðun á fyrstu umferð af miðaldrakrísu og snertingu við dauðann, en Andri Snær er líka góður í að vera beinskeyttur og einfaldur. Hann þorir það.

Lokasagan, 2039, tekur upp þráðinn með nálægð dauðans. Stysta sagan, segir frá banalegu langafa sögumanns. Og samhengi tímans:

Langafi hefur lifað í 87 ár en bróðir minn fæddist í haust. Ef hann fær að lifa jafn lengi og langafi verður hann ennþá til árið … ég reikna það út í huganum, 87 plús 2006. Langafi opnar augun og brosir til mín.
– Sæll vinur minn, segir hann.
– Hvað eru 87 plús 2006?
Langafi hugsar sig um og reynir að kyngja. Hann á erfitt með það.
– Það eru 2093, segir hann. 2093! (132)

Líkt og í Randaflugu er sögumaður barn og það er bernskur einfaldleiki yfir sögunni. Hér er ekki reynt að skapa dulmagnað andrúmsloft eins og í upphafssögunni. Áherslan er á minningabrot um langafa, sögur sem hann sagði, innsýn í lífið í horfinni veröld. Og, þegar yfir lýkur, fyrstu kynnin af dauðanum:

– Er allt í lagi? spurði mamma.
Ég gat ekki alveg svarað. Ég gat ekki sagt já vegna þess að mér fannst sorglegt að hann hefði dáið en ég gat ekki sagt að mér liði illa vegna þess að honum leið greinilega ekki illa.
– Ég get ekki svarað, sagði ég. (138)

Einfalt. Nákvæmt. Það er fyrir svona búta sem Andri Snær Magnason verðskuldar sína alþjóðlegu velgengni sem barnabókahöfundur.

V

Tvær sögurnar hverfast um útrásarvíkinginn Atla og fyrirtækið hans, Rex, rétt fyrir hrun. Sú fyrri heitir í höfuðið á fyrirtækinu og höfuðið prýðir líka kápu bókarinnar, sem er sérlega fallegur gripur úr smiðju Alexöndru Buhl, ekki síst eftir að hlífðarkápunni hefur verið svipt af.

Þegar Atli setur sig í samband við Arnar og biður hann um að hanna merki fyrir fyrirtækið sitt rifjast upp dramatískir atburðir úr stopulli vináttu þeirra. Það er óhætt að segja að hvert einasta smáatriði í lýsingu Atla vísi í sömu átt. Sjarmerandi siðvillingur, sósíópati. Það má eiginlega kalla það lýti á sögunni að í henni leynist ekkert sem ekki stuðlar að því að sýna okkur þessa bresti í persónuleika hans. Hrollvekjandi atvik í sambandi við meðferð á dýrum orka sterkt á lesandann, eins og til er ætlast, en það er eitthvað ódýrt við persónusköpunina. Þó leynist hér eitt margræðasta og snjallasta augnablik bókarinnar. Við opnun sýningar á verkum Arnars, sem Atli kostar sem greiðslu fyrir lógóið, standa þeir fyrir framan eitt verkanna:

– Þetta er eins og svelgurinn, sagði hann og benti á spíral sem ég hafði unnið með sérstakri aðferð sem skapaði ákveðna sjónhverfingu á bláum grunni.
– Svelgurinn? sagði ég.
– Já, manstu ekki eftir kettlingunum? sagði hann og hló. Við vorum rosalegir. (28)

Hér er margt að skoða. Listamaðurinn sem er að vinna úr skelfilegu benskuatviki sem er „eins og vatnsmerki í svo mörgu“ sem hann hefur unnið. Félagi hans sem var gerandi í atburðinum, kveikir strax á tengingunni, en í stað þess að umlykja hana þögn og skömm, eða hneykslast á opinberuninni, vekur hann athygli á henni og gerir félaga sinn samsekan. Nema hvað „sekt“ er ekki rétta orðið. Atli sér ekkert rangt við það sem þeir gerðu. „Rosalegt“ kannski, en ekkert umfram það.

Úrvinnsla listarinnar andspænis ómeltum óhugnaðinum. Og þessi óvænti hlátur sem eykur hryllinginn. Flókið samlíf listamanns og peningavalds. Hver er betri til að meitla það í skýra mynd en höfundur Bónusljóða og handhafi Frelsisverðlauna Kjartans Gunnarssonar?

Andri Snær er fæddur 1973 og var því 35 ára í Hruninu eins og söguhetjurnar í þessum tvíleik. Það kemur skýrt fram í seinni sögunni, Wild Boys. Þar erum við stödd í dæmigerðu útrásarvíkingapartíi, með allri sinni ofgnótt og mannfyrirlitningu. Kannski ekki rétt að kalla það dæmigert, hafi maður ekki verið í slíkri veislu. Erkitýpískt væri réttara. Hér er ekki verið að reyna að segja neitt nýtt um þetta furðulega og harmræna tímabil, heldur fyrst og fremst að mála sterkari litum það sem við sjáum öll fyrir okkur. Það er snyrtilega gert:

Það var furðulegur gljái yfir öllu. Brynja skar sig frá systkinum sínum. Hjá henni var allt orðið svo þétt, svo öruggt og vandað. Bílhurðir lokuðust með þéttum dynk. Bílarnir voru orðnir svo þykkir, það drundi öðruvísi í þeim en öðrum bílum, þeir lágu betur, svo mikill bassi í öllu. (100)

Wild Boys er eina sagan í bókinni sem ekki er sögð í fyrstu persónu. Söguröddin sér í hug einnar persónu. Við fylgjumst með Brynju, æskukærustu og nú eiginkonu Atla, sem tekur þátt í félagslífi klíkunnar, en heldur þó smá fjarlægð, sem er að aukast hraðar og hraðar eftir því sem úrkynjunin verður augljósari.

Eins og víðast hvar í þessum sögum eru einfaldir hlutir og raunsæisleg atvik látin bera þunga merkingu á nokkuð augljósan hátt: „Hvar voruð þið?“ „Ég gleymdi að spyrja. Dubrovnik? Við sáum engin skilti, þetta var trít, við vorum með bundið fyrir augun“ (94) Þetta er oftast snyrtilega gert og almennt sýnir Sofðu ást mín að það er ekki bara frumlegar hugmyndir sem Andri Snær Magnason hefur fram að færa sem höfundur, heldur ekki síður þetta: að sjá skýra merkingu í einföldum hlutum og atvikum og þora að setja hana fram á beinskeyttan hátt, jafnvel þó hann sé að skrifa fyrir fullorðna.

 

Þorgeir Tryggvason