Eiríkur Örn Norðdahl: Einlægur Önd – ævisaga.

Mál og menning, 2021. 283 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2022.

 

I

„Ég get aldrei komið aftur á billann, ég er alveg viss um það. Eins og ég hafði nú gaman af því.“
(Dúddi rótari, Með allt á hreinu)

 

Einlægur ÖndHvernig er sambandi skáldskapar og raunveruleika háttað? Hvað tjóðrar hugarflugið við heiminn? Hvaða siðareglur gilda um samspil sköpunar og veruleika? Og hvað ef það væru formleg viðurlög við brotum á þeim?

Upptalningin á viðfangsefnum Eiríks Arnar Norðdahl í nýjustu skáldsögu sinni gæti auðveldlega verið lengri. Sjálft form bókarinnar byggir enda á stigveldi höfundaradda sem hver rekur sitt erindi í sögunni. Sumar flytja varnarræður, aðrar reyna að takast á við hálan veruleikann sem þeim hefur verið búinn af höfundinum „sjálfum“ sem er fljótur að smyrja sápu á gólfið þegar sköpunarverk hans gera sig líkleg til að fóta sig í flóknum heimi sögunnar.

 

Refilstigin byrja strax við innganginn. Þegar bókin er opnuð mætir titilsíða lesendanum:

Eiríkur Örn Norðdahl

Einlægur Önd

ævisaga

Og að henni flettri tekur önnur við:

Eiríkur Örn Norðdahl

Eiríkur Örn

skáldsaga

Sú síðari er „réttari“ innihaldslýsing þó titillinn á þeirri fyrri sé betri, og vísi eins og svo margt í bókinni í endurminningar hins eiginlega höfundar. Það er að segja af við tökum stutta innskotskafla með glefsum úr tölvupóstum, bloggum og öðrum slíkum textum á orðinu um að vera áreiðanlegar heimildir og höfund þeirra trúverðugan sögumann. Einhvern tímann á bernskuárunum knúði vinur hans dyra og spurði hvor Eiríkur Önd væri heima. Góð saga. En skáldsagan Eiríkur Örn er engu að síður annað tveggja meginefna bókarinnar.

Sá Eiríkur er um margt líkur höfundi sínum. Tveggja barna faðir, ísfirskur að uppruna, með fortíð í rækjuvinnslu og öflugri jaðarútgáfustarfsemi. Metnaðarfullur og vinnusamur rithöfundur, handhafi Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir skáldsöguna Illsku og höfundur frumlegrar matreiðslubókar. Og síðast en ekki síst: höfundur umdeilds leikrits og síðar skáldsögu um trans-nettröllið Hans Blæ. Verk sem fær enga aðsókn og bók sem fáir kaupa en mætir ekki bara fálæti heldur vekur reiði í hópum sem berjast fyrir réttindum kynsegin fólks.

Einhversstaðar þarna byrjar saga höfundarins og sögupersónunnar að gliðna. Eiríkur bókarinnar er þegar hún hefst skilinn við konuna, fluttur til Reykjavíkur og sér þegar sagan hefst loksins til sólar eftir að hafa dottið illa niður í andlegan og listrænan doða eftir fjaðrafokið í kringum Hans Blæ. Sem í heimi Einlægs Andar er kröftugra en tilfellið var í raunheimum og kemur auk þess í ljós að botnar ekki síður í framferði höfundarins í aðdraganda og kjölfar frumsýningarinnar en efni verksins um illyrmið Hans Blæ.

Allt þetta samspil veruleika og skáldskapar í kringum forsöguna er skemmtilega unnið, bæði það sem Eiríkarnir tveir eiga sameiginlegt og hitt sem greinir þá að. Eiríkur sögunnar leitar að „stórum hugmyndum“ að næstu bók: „Hann gæti skrifað eitthvað allt annað, framtíðardystópíu eða saklausan landsbyggðaróman…(20)“, en næsta skáldsaga Eiríks á undan Hans Blævi er einmitt dystópían Heimska (2015) og í kjölfar Hans kom Brúin yfir Tangagötuna (2020), sem vel má einmitt lýsa sem ástarsögu úr heimahögum höfundar. En hvoruga þessara bóka hefur aðalpersóna Einlægs Andar komist til að senda frá sér.

Vonarglæturnar í lífi hans eru af öðru tagi. Eiríkur er kominn í einhverskonar losaralegt ástarsamband við tannlækninn Röskvu og hefur fengið sæmilega launaða vinnu við að kenna ritlist á netinu á vegum norsks fyrirtækis. Hann er einmitt að búa sig undir kennslustund þegar múrsteini er kastað inn um gluggann hjá honum, með áfastri orðsendingu um að hætta kennslunni, ellegar verði gömlu hneykslismálin rifjuð upp, bæði gagnvart íslenskum almenningi og norskum vinnuveitendum.

Stór hluti þessarar „ystu“ atburðarásar er síðan í nokkurskonar kómískum glæpasagnastíl, þar sem Eiríkur Örn reynir að grafast fyrir um hver nemenda sinna sé líklegastur til að hafa kastað steininum, eða öllu heldur, standi á bak við handskrifaða orðsendinguna. Öllu mikilvægara fyrir gang mála er þó að áfallið hristir rithöfundinn Eirík í gang, og við fáum aðgang að næsta sviði.

 

II

‘But if someone kills somebody else?’
Gurgeh shrugged. ‘They’re slap-droned.’
‘Ah! This sounds more like it. What does this drone do?’
‘Follows you around and makes sure you never do it again.’
‘Is that all?’
‘What more do you want? Social death, Hamin; you don’t get invited to too many parties.’
‘Ah; but in your Culture, can’t you gatecrash?’
‘I suppose so,’ Gurgeh conceded. ‘But nobody’d talk to you.’

(Iain M. Banks, The Player of Games)

 

Kannski er það áfallið við að fá múrstein inn um rúðuna, eða kurteislega orðuð ógnin í meðfylgjandi miða, sem hristir sköpunarstöðvar í gang í huga aðalpersónunnar. Meðan nemendurnir glíma við tímaverkefnið byrjar hann að „dútla orð í skissubók“ og teikna upp sögusvið, „nánast einsog í leiðslu“ (43). Fyrst verða til staðhættir með merkingarþrungnum heitum, „Úlfúðará“, „Greddukriki“, uns orðin er til eyja sem höfundur tekur meðvitaða ákvörðun um að kalla Arbítreu. Önnur nöfn er frekar eins og hann uppgötvi við að skoða það sem ber fyrir hugskotssjónir.

„Arbítrea“ vísar beint í geðþóttann sem ræður valinu, en enska orðið „arbitrary“ er m.a. notað um stjórnar- eða réttarfar sem lýtur þannig stjórn, gjarnan undir einvaldi eða öðru ólýðræðislegu fyrirkomulagi. Það kemur fljótlega í ljós að þó nafnið sé sett fram sem skyndihugdetta í textanum er það lýsandi fyrir menningu eyjarinnar, sérstaklega því sem snýr að réttarkerfi og félagslegu taumhaldi.

Arbitreu svipar nokkuð til Íslands. Eins og „gamaldags vekjaraklukka“ (64) í laginu, en ekki „útflött mús“ eins og Pétur Gunnarsson lýsti Íslandi í Punktur punktur komma strik. Örlítið minna flatarmál, vissulega milljón íbúar en ekki 360.000 en skiptast álíka ójafnt milli höfuðborgarinnar, Angurs, og landsbyggðanna, þar sem Felix, líkt og Eiríkur Örn, bæði höfundur og persóna, ólst upp.

Um leið og eyjan hefur fengið nafn er aðalpersóna þessarar „innri sögu“ kynntur til. Hávaxinn maður með kúluhatt, líkt og Eiríkarnir báðir, höfundur Einlægs Andar og sögunnar af Arbitreu og Felix Ibaka, sem er nafnið sem nýja persónan fær í næstu rittörn. Síðan fáum við líka að vita að líkt og Eiríkur bókarinnar er Felix Ibaka í hálfgerðri einangrun í samfélagi sínu, þó hann sé í fullu starfi sem rithöfundur, ritlistarkennari og bókmenntaprófessor. Felix er horfinn af samfélagsmiðlum og glímir við þunglyndi sem á rót sína í sjálfsvígi eiginkonu hans, sem hann telur sig eiga nokkra sök á.

Þar er samfélagið á Arbítreu sammála honum og sýnir vanþóknun sína á einstakan hátt. Þar hefur þróast sérstök smánunarmenning sem felst í því fólk skilur múrsteina eftir við heimili og vinnustaði þeirra sem brjóta gegn venjum og siðferðilegum normum samfélagsins. Þessi skömmun er viðurkennd og jafnvel studd af hinu opinbera, sem sér til þess að múrsteinar séu alltaf til reiðu, en það er undir almenningi komið, og á endanum hverjum og einum Arbítreuþegn, hver telst verðskulda múrsteina og hve lengi.

Annað sérkenni menningar Arbítreu eru sú bannhelgi sem hvílir á því að skrifa nokkuð sem á sér „stoð í raunveruleikanum“:

Hafi nokkuð gerst í Angri [höfuðborg Arbítreu] rataði það ekki á prent. Allt sem skrifað var var annaðhvort skáldskapur, fræði eða hugleiðingar almenns eðlis. (66)

Felix Ibaka hefur allan sinn feril fengist við að rannsaka og ögra þessum viðmiðum. Eitt kostulegt dæmi er tekið í bókinni, úr æskuverkinu Fjálgraþulu:

Karl og kerling bjuggu í koti sínu. Nema það gerðu þau ekki, því það var aldrei neinn karl og þaðan af síður kerling, ég er bara að finna upp á þessu núna, en þarna bjuggu þau samt meðan sögunni, því þetta er bara saga, vindur fram og verður til í höfði lesenda sinna, sem eru sannarlega ekki til heldur þegar þessi orð eru skrifuð … (66)

Stóra synd Felixar, sú sem veldur því að múrsteinshlaði mætir honum daglega bæði heima og í háskólanum, er gróft brot á þessari reglu. Í bókinni Blómarós leyfir hann sér bæði að draga upp mynd af Flórensíu, eiginkonu sinni, og jafnvel leggja henni orð í munn. Skömmu eftir útkomu bókarinnar sviptir Flórensía sig lífi, eins og til að staðfesta hætturnar sem leynast í því að sjúska út línurnar milli sköpunar á blaði og lífsins í raunveruleikanum. Æ síðan hefur múrsteinastafli beðið hans á morgnana, við skrifstofuna í háskólanum og svo aftur heima þegar hann og Hortensía dóttir hans snúa heim.

Sú bók sem Felix hefur í smíðum þegar við kynnumst honum í Einlægum Endi er Skrúð laufanna (sem Felix viðurkennir sjálfur að sé tilgerðarlegt nafn), hugleiðingar um refsikerfi Arbítreu og fræðileg greining á hugtökunum „skömm“ og „smán“. Verk sem rúmast vel innan siðaramma arbítreskra bókmennta og mögulega hugsuð sem einhverskonar höfuðlausn fyrir hið ærusvipta skáld.

 

III

Hvað í ósköpunum heldurðu eiginlega að þú sért að gera, gæskurinn?
(Einlægur Önd, bls.79)

 

Það er ekki flókið að átta sig á veruleika Eiríks Arnar í Reykjavík og Felixar Ibaka í Angri, eða því hvernig aðstæður þeirra og örlög speglast hvor í hinni, með félagslega útskúfun og múrsteina sem nokkurskonar samnefnara. Hitt verður fljótlega mest spennandi þráðurinn hvernig heimarnir byrja að tengjast, hafa áhrif hvor í öðrum og losa þannig um þau raunsæistök sem höfundurinn hefur á hvorum heiminum fyrir sig.

Við sjáum Felix Ibaka bregða fyrir á Lækjartorgi. Í húsinu gegnt heimili Felixar heldur maður grunsamlega líkur Eiríki Erni (og þá Felix sjálfum) fundi með grímuklæddu fólki (sagan gerist á Covid-tímum) sem gæti samsvarað reykvískum ritlistarnemum Eiríks Arnar. Daihatsu Charade bifreið full af matarbökkum sést bæði á götum Angurs og Reykjavíkur.

Og í hvorum heimi blasir við ráðgáta um „raunverulegan“ höfund: Skrúð laufanna virðist fullkláruð án þess að Felix minnist þess að hafa skrifað neitt, þó allt sem í henni stendur sé það sem hann vildi sagt hafa. Sagan af Felix og Arbítreu, sem kviknar í ósjálfráðri skrift Eiríks, heldur áfram í textum nemenda hans. Sú gáta sem drífur atburðarásina er síðan sú hver kasti múrsteinunum og sé að reyna að hrekja Eirík aftur inn í skammarkrókinn. Það er léttur og skoplegur sakamálasögublær á þeirri rannsókn, smámyndirnar af ritlistarnemunum meinfyndnar og skýrar. Svo er einnig með fleiri aukapersónur, bæði sálfræðinginn dr. Hjörvar Hafliðason sem þykir ekki mikið til um viðkvæmni Eiríks, og Hortensíu, hina bráðþroska og bráðskemmtilegu dóttur Felixar og Flórensíu.

Almennt er texti Eiríks Arnar Norðdahl, hins „endanlega“ höfundar léttur og fullur af leik og ólíkindum. Þó gangverk bókarinnar sé flókið, ekki hægt að segja að það sé vandlega gengið frá öllum endum að hætti afþreyingarbókmennta og hugmyndir og vangaveltur taki sitt pláss á kostnað persónusköpunar og plotts, verður seint sagt að Einlægur Önd sé erfið eða tyrfin.

Skrúð laufanna er að sönnu enginn skemmtilestur og það virðist Felix Ibaka sjálfum ljóst, og hæpið að ætlast til að greiningin þar sé tekin alvarlega sem erindi bókarinnar um félagslegt taumhald. Til þess er menningarástandið í Arbítreu þrátt fyrir allt of sérkennilegt og einfalt í sniðum eins og því er lýst hér í þeim þrönga stakki sem sagan í heild sníður því.

 

 

IV

You can’t be careful on a skateboard, man!
(Stephen King, It)

 

Hvað viljum við þá lesa úr – eða í – Einlægan Önd? Við kærum okkur sennilega ekki um að eiga á hættu að þurfa að burðast með múrsteina kvölds og morgna fyrir mis-alvarlegar sakir, með engan málskotsrétt eða fyrningu í sjónmáli. Enn síður – og það er kannski kjarni málsins – myndum við sætta okkur við þær skorður sem höfundum eru settar af siðvenjum Arbítreu. Við viljum líka fæst að það sé óhugsandi að skrifa eða gefa bækur á borð við Hans Blæ.

Hvað sem líður hinni snjöllu hugarflugstilraun sem Arbítrea er, er kannski ástarsaga Eiríks og Röskvu áhrifaríkasta hliðstæðan við líf án áhættu sköpunarinnar.

Þau kynnast á Tinder, bæði fráskilin og þrá skuldbindingarlausa nánd:

„Ég held að við séum svona góð saman af því okkur stendur á sama“ segir Röskva […] „Ég get svarið það, ég myndi varla yppa öxlum þótt jörðin gleypti þig.“
„Já einmitt“, segir Eiríkur og fær sér kóksopa. „Það er svo þægilegt að eiga í samskiptum við fólk sem maður er ekki hræddur um að særa. Mér er alveg sama um tilfinningar þínar.“ (33)

Og þetta dugar þeim alveg, lengi vel, eins og skyndibitinn, matarlíkið, sem þau eru að gæða sér á meðan þessar samræður fara fram. Röskva virðist alveg heil og einlæg í afstöðu sinni. En lesandinn sér í gegnum þetta. Sér að hættan sem þau eru að forðast verður ekki umflúin ef lifa á til fulls.

Það verður að vera til staðar hætta á að særa til að eitthvað hreyfi raunverulega við einhverjum. Að særa hefur ekkert gildi í sjálfu sér, hvorki í samskiptum fólks né í skáldskap eða annarri listsköpun. Ekki frekar en marblettirnir séu markmið brettakappans. Því betri sem hann er því færri marblettir. En hann verður ekki fær nema þeir séu í það minnsta möguleiki.

Við þurfum skáldskap. Hann þarf að vera í þannig nálægð við raunveruleikann að hann geti rekist á eitthvað eða einhverja. Líkt og ástarsambönd þurfa að hreyfa við þeim sem í þeim eru. Ástlíkissamband Eiríks og Röskvu dugar ekki, og arbítreskar bókmenntir ná ekki máli. Felix Ibaka mun aldrei fá Nóbelsverðlaunin.

 

Þorgeir Tryggvason