Ísak Harðarson. Rennur upp um nótt.

Rennur upp um nótt

Rennur upp um nótt

Uppheimar, 2009.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2010.

Ísak Harðarson liggur mjög vel við því höggi að formáli umfjöllunar um bók hans sé fullur af frösum á borð við: „Eitt stærsta skáld sinnar kynslóðar“ eða: „Helsta nútímaskáld okkar Íslendinga“ eða: „Hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem okkar fremsta skáld …“

Allt bendir raunar til þess að stórskáldið sjálft sé meðvitað um þetta, vegna þess að í eftirmála ljóðasafnsins Ský fyrir ský (2001) leggur Ísak blátt bann við því að nokkru sinni verði reist af honum stytta, og ekki einu sinni af tómum hausnum(!) Það er að vísu í anda spaugarans Ísaks, sem alltaf er vel sýnilegur í bókum hans. Við þessa frómu ósk bætir hann því að Áslaug frænka biðji að heilsa okkur öllum.

Fyrsta bók Ísaks, Þriggja orða nafn, kom út árið 1982, Ræflatestamentið 1984 og allar götur síðan hefur hann verið „eitt af okkar virtustu ljóðskáldum“ svo að það komi nú örugglega fram. Mörg ljóðanna í fyrstu bókunum fjalla um óttann, enda ort á válegum tímum kjarnorkuógnar. Óttinn er þó alltaf kímni blandinn, eins og þessar línur úr Ræflatestamentinu bera með sér:

Þeir segja atómstríð í vændum.
Væri ekki ráð að byrja að lifa
svo þeir hafi eitthvað að drepa?

Ógnin er til staðar en lífsþráin yfirgnæfir hana – svo ekki sé talað um ísmeygilega kímnina. Hvort tveggja, kímnin og þráin til þess að ljá lífinu merkingu og tilgang (þrátt fyrir margan rassskellinn), einkennir allt höfundarverk Ísaks.

Annað einkenni á skáldskap hans er að vanahugsun lesendanna er trufluð í sífellu. Þetta gerir Ísak með því að tefla fram því sem er nýtt og óvænt, reka fleyg í tungumálið. Stundum er það bara einn stafur sem er færður til eða honum sleppt, jafnvel aðeins bil á milli orða. Textinn er tilraunakenndur; stundum er sami bókstafurinn endurtekinn, stundum runa af táknum eða tölustöfum.

Glíman við tungumálið er gegnumgangandi. „Orð er þriggja stafa morð“, segir Ísak í Veggfóðruðum óendanleika. Í sömu bók ber ljóð titilinn Masfélagið Ísland. Skáldið er stundum komið með upp í kok af orðum, enda er gríðarlegt óþol í textanum, stundum hreinn tryllingur.

Þriðja einkennið á höfundarverki Ísaks Harðarsonar er svo trúarþörfin, sem liðast um bækur hans eins og straumþungt fljót. Honum er lagið að yrkja um hvernig manneskjan má forðast að gleyma sér í glysi og geðveiki og leita eftir samfélagi við almættið. Sífelld er leit hans að sjálfum sér, mennskunni, Guði og tilganginum.

Og sólin rennur upp

Í upphafi bókarinnar Rennur upp um nótt er stakt ljóð, einhvers konar sjóferðarbæn, sem kemur á undan hinum eiginlegu þremur hlutum bókarinnar. Þar segist skáldið hafa uppgötvað að almættið stýri sér sem penna við skriftirnar og ber fram þessa ósk:

Æ, GUÐ, LÁTTU MIG ÞÁ FREKAR SPÝTA LJÓSI EN MYRKRI! (8)

Ekki virðist hann þó viss um að fólk lesi það sem á eftir kemur og biður þess ennfremur að mega finna fró í því „að sjálfur sonur þinn/skrifaði fingri í rykið/ eitthvað/sem enginn las.“ (8)

Orð Predikarans eru í bakgrunni allrar bókarinnar. Titillinn, Rennur upp um nótt, vísar til hans: „Ein kynslóð fer og önnur kemur, en jörðin stendur að eilífu. Og sólin rennur upp, og sólin gengur undir og hraðar sér til samastaðar síns, þar sem hún rennur upp.“ (Pred. 4–6)

Þessa tilfinningu fyrir hringrás lífsins/sálarinnar má sjá í upphafs- og lokaljóðum bókarinnar, sem mynda eilífan hring. Endastöð heitir fyrsta ljóðið og Upphafsstaður það síðasta. Á endastöðinni er ljóðmælandi ekki enn lagður af stað og á upphafsstað er hann á sama stað og hann lagði upp „fyrir rykmekki af árum“ (92).

Allt er hégómi

Ísak hefur löngum verið með hugann við græðgi, guðleysi og tómleika samtíðar sinnar. Jafnvel hefur hann fengið á sig orð fyrir að vera spámannlega vaxinn og geta öðrum skáldum fremur lesið samtíð sína og framtíð. Og oft var þörf en nú er nauðsyn. Fyrsti kaflinn ber heitið Fyrirsjáanleg blinda og kemur vel heim og saman við stöðu skáldsins sem sjáanda.

Það er leitun að þeirri bók Biblíunnar sem fjallar um græðgi og girnd sem aldrei seðst á eins skorinorðan hátt og Predikarinn. Fleygustu orð hans (og þau sem endurtekin eru í sífellu) eru þau að allt sé hégómi og eftirsókn eftir vindi. Í Predikaranum eru einnig spekimál, ráðleggingar til þjóðar.

Þessi bók Biblíunnar ómar raunar svo sterkt í gegnum ljóðin í Rennur upp um nótt að stundum dettur manni í hug að Ísak hafi verið með hljóðbókarútgáfuna á fullu blasti í i-Podnum á meðan hann var að skrifa. Og víst er hann predikari, sem ekki þreytist á að deila á þjóð sína, eins og í ljóðinu Öld vatnsberans – leiðbeiningar 1.

Já, góðir fávitar, þið neitið því ekki
að við erum sammála um að aukinn hagvöxtur
er það sem allt snýst um
og að til þess dó Jesús að feðgarnir í Baugi
og Landsbankanum mættu ríkja á markaðnum
og tryggja okkur um eilífð hin hagstæðustu kjör

– sem jafnvel englana fýsir að kynnast … (bls. 32)

Margt er ort til samtíðarinnar en aldrei kemst ljóðmælandinn undan því að leita ábyrgðarinnar fyrst og fremst hjá sjálfum sér, eða hreinlega bara leita að sjálfum sér, eins og í ljóðinu 811 Hvergi – Snældusnuffsljóð – Til sjálfs mín, hvar sem mig er að finna. Þeirri leit lýkur víst aldrei og skáldið stillir sjálfu sér upp andspænis heiminum öllum í ljóðinu Heimurinn og segir í örvæntingu (og með hástöfum): „Ó, ÞAÐ ER KANNSKI BÚIÐ AÐ FINNA ALLAN HEIMINN, EN ÉG VAR EKKI EINU SINNI BÚINN AÐ FINNA MIG!“ (19)

Eins og skepnan deyr

Vitnað er til Rogers Waters í upphafi miðkafla bókarinnar Verði myrkur (Á vit hins undursamlega) – til textans við lagið Dogs, sem fjallar um lífsangist og eftirsjá (Just another sad old man/all alone and dying of cancer), óttann við það sem er sárt og erfitt, en óumflýjanlegt.

Þar skrifar Ísak smáprósa í orðastað manns, sem segist vera á síðasta hluta lífs síns, þó að hann sé ekki mikið eldri en fimmtugur. Hann er þó ansi lífsþreyttur, „einsamall á flótta undan mistökum lífs míns…“(61), viss um þetta eitt: að hann muni deyja (og það fremur fyrr en seinna.) „Eins og skepnan deyr, svo deyr og maðurinn.“ (Pred. 3. 19.)

Hann lýsir búksorgum, einsemd og eftirsjá mannsins, enda virðist mikið hafa gengið á. Skilnaðir (í fleirtölu) og misheppnað samband við afkvæmin, brostnar vonir ótalmargar. Því drekkur ljóðmælandi, reykir og tekur geð- og svefnlyf, meðan hann lætur hugann reika og reynir að komast að niðurstöðu um líf sitt:

Hlýt að viðurkenna að líf mitt er innantómt – annars myndi ég ekki semja ljóð um draslið á skrifborðinu mínu, undirbúning undir svefninn og spurninguna um það hvort ég eigi að mæta á eitthvert námskeið eða ekki. Ég hef ekki sofið hjá í heilt ár – og síðustu skiptin voru ekki mjög æsandi. Ég bý í 12 fermetra kjallaraholu, þar sem rykið ríkir, á Laugaveginum rétt ofan við Hlemm, en ég verð að viðurkenna að leigan er lág og mér miðar vel við að greiða niður skuldir svalláranna. Hingað býð ég engum – herbergið er of lítið og dimmt, og börnin eru alveg hætt að hafa samband við mig út af óæskilegum eiginleikum mínum. Nú stóð ég upp og klóraði mér vandlega í rassinum, hef ekki skipt um skyrtu í heila viku. Ég keypti mér borðviftu fyrir hálfum mánuði til að blása út tóbaksreyknum og hún er þegar orðin brún og loðin af skít. „Svifryk“ er ekki óglæsilegt orð en það lítur illa út lifandi í viftunni minni. […]
Svifryk (50).

Hnignunin er æði mikil, ekki bara er þunglyndið svart, heldur er líkaminn einnig að gefa sig. Maðurinn skítur t.a.m. á sig (í kjölfar baunaáts og rauðvínsdrykkju) og sem eina lausn í stöðunni sér hann að útvega sér fullorðinsbleyjur(!). Tilgangsleysið bankar þráfaldlega upp á og á einum stað er hann kominn með snöruna um hálsinn, en hættir við „útaf Jesú og börnunum“ (51).

Þetta hljómar eins og mjög sorglegur og átakanlegur kveðskapur, en hann er það ekki. Þó að sjálfsgagnrýni ljóðmælandans sé vægðarlaus á köflum, þá eru þessir kaflar þeir langskemmtilegustu í bókinni – þökk sé hárnákvæmri kímnigáfu höfundar. Maður þarf náttúrlega að vera smá illa innrættur til þess að hlæja að mörgu því sem þar stendur, en það gerði skrifari þessara lína margoft (og upphátt).

Að hætti Ísaks er þó nóttin aldrei öll úti. Prósinn Nýtt og þægilega óvænt – Ársdvöl á Patmos hefst t.a.m. átakanlega:

Alveg búinn að eyðileggja sambandið við
börnin mín; sendi þeim níðingsleg sms í örvæntingu
minni og þrá eftir þeim – það verður ekki til þess
að laða þau að mér heldur til að ýta þeim
endanlega burt […]

en endar á nýrri von:

– Og hver veit nema
eitthvað algerlega nýtt og þægilega óvænt bíði
mín, ef ég læt verða af því að eiga ársdvöl í Aþenu eða
á Patmos, eins og mig hefur alltaf langað til? (58)

„Sólin rennur upp,“ eins og Predikarinn spáði.

Rennur upp um nótt

Þriðji og síðasti hluti bókarinnar ber sama heiti og hún sjálf. Hann kallast á við tragískan miðhlutann og lýsir voninni – nei, fullvissunni – um Guð sem að endingu bætir allt. Eins og í ljóðinu Vinir tveir (91):

Himinn á ferð um geim
með mann í bandi.

Gegnum nótt eftir nótt
með manninn í ól úr ljósi.

Veður svarthol og myrkva
með manninn í logandi taumi …

Því minni sem ég er,
því víðari himinn
rignir mér ljóðum.

Þó að maðurinn sé smár með öll sín vandamál, ótta og vonbrigði, þá er til náð, sem vex í jöfnu hlutfalli við þörfina fyrir hana. Ljósið sigrar myrkrið.

Í öðru ljóði, sem hefur ákaflega „ísakskt“ heiti, Enn eitt ótímabært ljóð um tímann (85), kallast skáldið enn á við Predikarann (sem tönnlast á orðunum „Allt hefur sinn tíma“ í tugum versa) og segir:

Þetta kemur allt: Allt
kemur sem á að koma
og allt kemur það á sínum tíma.
Því allt hefur sinn tíma:
Jafnvel tíminn hefur sinn – já,
sjálfur tíminn hefur sinn eigin
sérstaka og afmarkaða tíma …

Og niðurstöðuna hlýtur að vera að finna í ljóðinu sem ber heiti kaflans og bókarinnar:

Og jafnvel þótt slokkni á heiminum
þarf ekki að slokkna á okkur.
Logandi sólir erum við
og vitum hvar eldsneytið er að finna
og rennum upp um nótt
– aldrei skærari en um niðdimma nótt.
Við sigrum dauðann með fagnaðarsöng,
og sérhver hráki á andlit okkar
minnir okkur á komandi Lífsins vötn. (84)

Í samtímanum hvílir ákveðin bannhelgi yfir trúmálum. Tímarnir leyfa ekki að guð sé dýrkaður í orðum, nema á mjög afmörkuðum svæðum. „Nú er ekki í tísku að eiga himin/og þykir merki um úrelta tilfinningasemi,“ segir í ljóðinu Himinninn snýr niður í Hvítum ísbirni sem fjallar á einstaklega áhrifamikinn máta um vandamál þess sem vill eiga lifandi trú þrátt fyrir beina andstöðu samfélagsins.

Hvað eftir annað teflir Ísak Guði fram á tímum þar sem helst þykir við hæfi að fólk haldi trú sinni í hugskotum – og þegar menn fari að rausa um Guð sé það óbrigðult merki þess að þeir hafi glatað allri frumlegri hugsun og séu jafnvel smávegis geggjaðir.

Ég hef svosem heyrt að trúarsannfæringin í ljóðum Ísaks falli ekki öllum í geð. Kannski síst þeim sem fundu lífsskoðunum sínum stað í fyrstu tveimur bókum hans, þar sem efahyggjan var allsráðandi. Því er ástæða til að dást að hugrekki skáldsins, sem vísast fer nærri um þessar gagnrýnisraddir. En hvort sem fólk er veikt fyrir Guði eða lætur hann fara í taugarnar á sér er Rennur upp um nótt óendanlega djúp, fögur og mannbætandi ljóðabók.

Auk þess legg ég til að reist verði stytta (í fullri líkamsstærð) af Ísaki Harðarsyni. Hún færi ákaflega vel fyrir framan Hallgrímskirkju (enda ótækt að hafa þar endalaust þennan Leif, þó að hann hafi verið heppinn).

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir