ManndómurÞorvaldur Sigurbjörn Helgason. Manndómur.

Reykjavík: Mál og menning 2022, 63 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2023

Í upphafsljóði ljóðabókarinnar Manndóms eftir Þorvald Sigurbjörn Helgason er að finna þessa ljóðlínu: „ég vil ekki vera ég, ég vil vera einhver annar“. Ljóðið hefur yfirskriftina „Spádómur“ og þar er lýst atviki úr bernsku þegar ljóðmælandi er þriggja ára og „starir í forstofuspegilinn / setur í brýnnar og bendir á spegilmyndina“. Að móðurinni sem fylgist með setur ugg þegar hún heyrir son sinn segja þessi orð og þau enduróma lengi í huga ljóðmælandans:

orð sem sögð eru upphátt eru þung
og þótt drengurinn viti það ekki nú
munu orð hans enduróma
næsta aldarfjórðunginn

eins og spádómur
sem bíður þess að rætast
í hverjum spegli

Þetta fyrsta ljóð bókarinnar gefur tóninn fyrir það sem á eftir kemur og ber vitni um að það er þroskasaga og sjálfsskoðun ungs karlmanns sem myndar grundvöll bókarinnar. Sjálfur titillinn og ljósmyndirnar á forsíðu og baksíðu bókarinnar ítreka þetta þema. Á forsíðunni er mynd af höfundi sem líklega er tekin þegar hann er þriggja ára og á baksíðu er nýleg mynd af Þorvaldi sem tekin er á sama stað. Á innsíðum bókarinnar, milli myndanna tveggja, liggur sjálfsævisögulegur þráður sem markar leið höfundar á þroskabrautinni, leið hans og leit að manndómi, og má túlka hvert ljóð sem vörðu á þeirri leið.

Í Íslenskri orðabók er orðið manndómur skilgreint sem „dugur, atorka, karlmennska“ og ljóðabók Þorvaldar er innlegg inn í umræðu um þetta efni sem er nokkuð fyrirferðarmikil í samtímaljóðlist karlskálda, sér í lagi ungra karlmanna sem hafa alist upp á tímum uppgjörs femínista við bókmenntir og veruleika þar sem ríkt hefur mismunun og misrétti milli kynja. Það er því ekki skrýtið að ungir karlmenn velti fyrir sér hvað felst í því að vera karlmaður og sýna manndóm.

Drengurinn í áðurnefndu ljóði horfir í spegil og segir: „ég vil ekki vera ég, ég vil vera einhver annar“. Speglar eru hefðbundið tákn sjálfsmyndar í bókmenntum en þeir eru þó tvírætt sjálfmyndartákn því spegilmyndin er öfugsnúin og fölsk þótt hún virðist sýna raunveruleika. Vert er að taka eftir tveimur tilvitnunum sem standa fremst í ljóðabók Þorvaldar. Orð bandaríska rapparans Kendricks Lamar vísa bæði til spegils og ótta: „You live in a world, you livin‘ behind the mirror / I know what you scared of“. Hin tilvitnunin er í pólska skáldið Adam Zagajewski: „Við skildum fátt í lífinu og þráðum þekkingu. / Eins og plönturnar vaxa í átt að birtunni / þannig leituðum við réttlætis“. Ef til vill má segja að saman myndi þessar tilvitnanir, ásamt fyrrnefndri ljóðlínu, kjarna ljóðabókarinnar: Þroski einstaklingsins felst í að leita þekkingar og réttlætis um leið og hann speglar sig í öðrum og umhverfinu, leitar að ásættanlegri sjálfsmynd – og skammt undan lúrir óttinn og kröfurnar um að standa sig: sýna manndóm.

Ljóðabókin skiptist í fjóra hluta sem hafa yfirskriftirnar: vaxtarverkir, brjóstsviði, manndómur og í garðinum. Fyrstu þrír hlutarnir hafa að geyma níu ljóð hver en í síðasta hluta er eitt langt ljóð þar sem höfundur dregur saman viðfangsefni ljóðabókarinnar. Bygging bókarinnar er markviss og tekur mið af því þroskaferli sem ljóð hennar snúast um.

Í upphafsljóði vaxtarverkja staðsetur ljóðmælandi sig í tíma og rúmi, það er „mánudagskvöld á Skeggjagötu / járntjaldið er fallið en turnarnir standa enn“ (9), og þriggja ára drengurinn horfir í spegilinn og vegur sig og metur, eins og áður var vísað til. Í næsta ljóði undrast skáldið hversu seinþroska mannskepnan er í samanburði við önnur dýr: „hvílík óskilvirkni / að eyða öllum þessum tíma í að búa okkur undir lífið / og restinni af ævinni í að reyna að skilja það“ (10). Í þremur ljóðum þessa hluta líkir höfundur tímabilum í lífi sínu við vikudaga og kex; sunnudagur lífs hans er þegar hann var þriggja ára og þá „bragðaðist heimurinn eins og matarkex“ og „í sjónvarpinu var alltaf barnatími“ (11). Tíu árum síðar „bragðaðist heimurinn eins og tekex / í útvarpinu var alltaf gamla gufan / og í sjónvarpinu bara tvær stöðvar“ (13). Og öðrum áratug síðar „bragðast heimurinn eins og súkkulaðikex / í útvarpinu var alltaf Kendrick Lamar / og ég horfði ekki á sjónvarpið / því ég hafði ekki tíma til þess“ (16).

Þetta er hnitmiðuð leið til að lýsa bæði þroskastökkum, vaxtarverkjum og tíðaranda sem birtist ljóslifandi fyrir augum lesanda sem skynjar einnig að óttinn lúrir undir:

um nætur lá ég andvaka
bylti mér undir ólgandi stjörnumergð
eirðarleysið nagaði mig að innan
og gangverkið taldi niður slögin
að næstu hjartaskiptum (16)

Hér er vísað til reynslu höfundar og fyrri bókar hans, Gangverkið (2019), sem fjallaði um „tungumál hjartans, á forsendum bæði læknavísindanna og ástarinnar“, svo vísað sé í baksíðutexta þeirrar bókar. Í allri sjálfsmyndaruppbyggingu skiptir nánasta fjölskylda einstaklingsins mestu máli, þær fyrirmyndir og það atlæti sem hann nýtur í bernsku. Í fyrsta hluta bókarinnar eru einnig ljóð um foreldra höfundar og systur sem eru einstaklega vel heppnuð og bregða upp sterkum og innihaldsríkum myndum. Ljóðið „Kjötmamma“ lýsir mömmu sem „er ekki venjuleg mamma“, heldur sterk kjötmamma sem hefur gengið í gegnum lífshættu en hræðist ekki neitt og „getur séð bæði fortíð og framtíð“. Því „kjötmamma er sterk / ef til vill sterkust hér á landi“ (12). Ljóðið um föðurinn lýsir nokkuð dæmigerðum athafnamanni sem hefur „alltaf brjálað að gera“, hann er hvetjandi en kannski ögn fjarlægur:

þegar pabbi gengur inn í herbergi
verða hugmyndir samstundis að veruleika
fyrirtækið sem þið félagarnir ætluðuð að stofna
komið efst á lista í Kauphöllinni
bókin sem þú ætlaðir að skrifa komin á metsölulista (17)

Ljóðið „systir mín liljurós“ fjallar um systur sem „býr í álfakletti“ en þegar hún „heimsækir mannheima / verður allt eðlilegt um stund“ (14). Þetta er fallegt og djúpt ljóð sem vekur grun um mikla ósagða sögu sem leynist í vísuninni til þjóðsagna um fólk sem álfar ná að heilla og jafnvel tortíma.

Í öðrum hluta, brjóstsviða, yrkir Þorvaldur um ástarsamband sem er lokið en skilur eftir sig ljúfar minningar. Í ljóðinu „1900 Rue Tupper“ hugsar ljóðmælandinn til baka og hefur mál sitt á setningunni: „Þegar ég hugsa um þetta haust núna / þá hugsa ég ekkert svo mikið um það slæma“ (26). Ljóðið dregur hins vegar bæði upp slæmu atvikin og þau góðu og lýsir íslensku pari í útlöndum þar sem annar aðilinn ætlar að skrifa skáldsögu, en glímir við ritstíflu, og hinn stundar skiptinám, en gefst upp. Ljóðið bregður upp heildstæðri mynd og líkt og í ljóðunum um foreldra sína og systur tekst höfundi þarna að segja mikla og flókna sögu í hnitmiðuðu ljóðmáli. Yfirskriftin, brjóstsviði, nær vel að lýsa heildartilfinningunni sem ljóðin spinnast um; endalok ástarsambands vekur bæði upp ljúfar minningar og sviða í brjóstinu. Ljóð sem ber titilinn „alltaf alltaf“ endar þannig:

en þegar ég settist við rúmstokkinn
og þú spurðir mig
hvort ég ætlaði að vera hjá þér alltaf alltaf
fattaði ég að bréfið
sem átti að vera hamingjuósk
var í raun kveðjubréf (31)

Síðustu fjögur ljóðin í þessum hluta lýsa hægfara endalokum sambandsins á nærgætinn hátt. Ljóðið „ástarsorg í ágúst“ er sérlega áhugavert út frá sjálfsmyndarpælingum skáldsins en í því er til dæmis að finna þessar hendingar:

eina stundina ertu mjúkur nútímamaður
selur þorsta eins og límonaði
hjarta fyrir grammið

þá næstu ertu þjökuð húsmóðir
skrúbbar bakarofninn með tárum
eins og Sylvia ‘63

á slíkum stundum væri óskandi
að stéttarfélög greiddu ljóðskáldum
viðbótarstyrk fyrir sálfræðikostnaði (34)

Í lokaljóði þessa hluta harmar ljóðmælandinn að hann sé ekki „frumlegra skáld“ því þá gæti hann líkt „tilfinningunni við eitthvað / óvænt og sértækt“, svo sem „kríur að hausti að búa sig undir langflugið til Suður-Íshafsins / einmana jöklasóley í blindbyl uppi á hálendi / eða mótorhjól um miðja nótt, tætandi upp malbikið á bílaplaninu hjá Byko á Granda // en það eina sem hún minnir mig á eru sjávarföllin / sem koma og fara eins og þeim sýnist“ (35). Það má kallast nokkuð frumlegt að reiða fram líkingar sem skáldið segist ekki nógu frumlegt til að geta notað.

Í þriðja hlutanum, manndómi, eru þrjú ljóð sem kallast á og hnitast um hið yfirskipaða þema bókarinnar; hvernig sjálfsmyndin er byggð upp og spegluð í umhverfinu og öðrum manneskjum. Ljóðin heita „sjö skref manndómsins“, „sjö skref sjálfshaturs“ og „sjö skref sjálfsbirtingar“. Fyrsta ljóðið lýsir hvernig drengurinn verður að aðgreina sig frá stelpum og því kvenlega, „ekki borða bleika prinsessuköku / aldrei vera með í mömmó“, því „í aðgreiningunni felst skilgreiningin“ (39). Hann verður „að byggja sér varnir“ og falla að kynhlutverkinu:

byssur og sverð eru leikföng
eltingarleikur til að slást
fótbolti til að ákvarða valdapíramídann
þeir síðustu verða aldrei fyrstir (39)

Hann þarf líka að tileinka sér hörku, „brjóta niður varnir annarra“ og muna „að tilfinningar eru einkamál“, jafnvel er best að hlusta ekki á þær: „þær rugla þig bara í ríminu / þykkur skrápur bítur af sér allt / en spegilbrot sker dýpra en hnífur“ (40).

Hin „sjö skref sjálfshaturs“ felast í því að skapa sér „vonir og þrár / langt yfir hið raunsæja“, komast svo að því að „draumar þínir eru aðeins hjóm“ og „sannfæra sig um eigið fánýti“ (46). Ljóðmælandi þarf að „brjóta niður eigin varnir / [sá] efa í veiku punktana / [grafa] undan þeim sterku með afsökunum“ (47). Þetta er firnasterkt ljóð um efasemdirnar um eigið ágæti sem flestir hljóta að glíma við einhvern tíma á lífsleiðinni, síðustu tvö erindin eru svona:

sjötta skrefið er að hundsa öll rök
til hvers að hlusta á hið gagnstæða
ef niðurstaða hefur þegar fengist
í dómstólum hugans fá aðeins ákærendur
að taka til máls

sjöunda skrefið er að endurtaka leikinn
ef þú gleymir reglunum
farðu þá aftur á byrjunarreit
spurðu svo sjálfan þig
af hverju líður mér alltaf svona illa?

Í ljóðinu „sjö skref sjálfsbirtingar“ virðist ljóðmælandinn hafa náð einhvers konar sátt við sjálfan sig og heiminn, því „það er í lagi að vera ekki í lagi / manneskjur eru ekki verksmiðjur / líkaminn ekki samkeppnisáætlun“ (52). Ljóðið leggur áherslu á að við eigum að njóta þeirrar fegurðar sem lífið býður upp á og átta okkur á að „vöxtur á sér ekki stað í fortíðinni“ (53).

Í ljóðinu „innvols“ er þó ljóst að sjálfssáttin getur verið völt: „ég er bara ekki þessi týpa / þessi týpa sem er sátt í eigin skinni / nei, ég er þessi þjáða klisja […]“ segir ljóðmælandi og einnig segist hann vera „með sveinspróf í sjálfsvorkunn / doktorsgráðu í djammviskubiti / og hundrað ára einsemd á bakinu“ (42). Ljóðið „líf í brotum“ nálgast viðkvæma sjálfsmynd og þroskaferil frá öðru sjónarhorni, það hefst á því að „ungur maður gengur á milli herbergja / safnar ljósmyndum / stolnum augnablikum hér og þar“. Hér koma speglar einnig við sögu:

maðurinn horfir í spegil
honum líður eins en hann er ekki sá sami
líkt og rifin ljósmynd
sem hefur verið púslað saman

Í lok ljóðsins er minnt á óáreiðanleika spegilmyndarinnar: „líf okkar er í brotum / en spegilmyndin er alltaf heil“ (49). Og aftur er minnt á þetta falska eðli spegilmyndarinnar í ljóðinu „verk í vinnslu“: „vil ekki lengur verða gljáfægður spegill […] því eins og skáldið sagði / þá er maður ekki meistaraverk / heldur verk í vinnslu“ (51).

Í ljóðinu „ síðustu skilaboðin“ minnist ljóðmælandi látinnar vinkonu og spinnur ljóðið út frá skilaboðum sem hann á frá henni í talhólfi símans, sem og orðum sem hún sagði við hann augliti til auglits: „þú sagðir mér að það eina sem maður gæti gert / væri að skapa sína eigin fortíð / framtíðin væri að vissu leyti ekki til“ (44). Síðar segir ljóðmælandi: „ég ætla mér ekki að endurskapa fortíðina / það er ekki mitt að segja þína sögu / en ég ætla að halda áfram að skrifa nútíðina“ (45). Þessi orð má kannski yfirfæra á þá iðju að yrkja um fortíðina, líf sitt og þroskaferil, og þar með á alla ljóðabókina.

Eins og fyrr var á minnst lýkur Manndómi á ljóðinu „í garðinum“ þar sem viðfangsefni bókarinnar er dregið saman á einkar fallegan hátt. Fyrstu ljóðlínurnar vekja hugrenningatengsl við ljósmyndirnar á kápunni: „skuggi trés á gulri steypu / handan veggjarins / heyrast hróp barna“. Í lokaorðum bókarinnar er sama vísun á ferðinni: „skuggar á steypu // líkamar manna / líkamar trjáa“ (63). Ljóðlínan „sumt samþykkjum við skilyrðislaust“ er leiðarstef ljóðsins, endurtekin fjórum sinnum, tvisvar með viðbótinni „annað ekki“. Í sterkum, hnitmiðuðum myndum tekst Þorvaldi hér að yrkja um lífið, þroskann og hin yfirvofandi endalok í ljóði sem fer á dýptina í einfaldleika sínum. Hér er ort um börnin sem fæðast „umkomulausir einræðisherrar / krefjast umhyggju án orða // yfirstíga þyngdaraflið / hlaupa á eftir boltum / á brauðfótum // yfirstíga tungumálið / mynda orð og setningar / hraðar en fullorðinstennur // eru velkomin / nema þegar þau eru það ekki“ (58). Síðar breytist æskan „í ljósmyndir / ljósmyndir í minningar / minningar í bergmál / ljósrit af ljósriti“ og „líkamar eldast og skreppa saman“ (59). Skáldið hvetur lesandann til að hugsa um „eitthvað / dauðanum yfirsterkara / eitthvað / sem er brothættara en vonin // þráðinn á milli vina / þaninn boga / hönd sem teygir sig út í myrkrið“ (60). Einnig „um eitthvað / sem orðin ná ekki yfir / eitthvað / sem er lífinu yfirsterkara / þráðinn á milli alls / óslitinn streng / ljós sem lýsir upp tómið“ (62).

Manndómur er þriðja ljóðabók Þorvaldar Sigurbjarnar Helgasonar. Fyrsta bók hans, Draumar á þvottasnúru, kom út 2016 í Meðgönguljóðaseríu útgáfunnar Partusar. Fyrir handritið að næstu bók, Gangverki, hlaut Þorvaldur nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta og kom hún út 2018. Með þessum þremur ljóðabókum hefur Þorvaldur sýnt svo ekki verður um villst að hann á fullt erindi inn á svið íslenskrar ljóðlistar, hann hefur vaxið með hverri bók og það verður spennandi að fylgjast með honum í framtíðinni.

 

Soffía Auður Birgisdóttir