Kristín Steinsdóttir. Ljósa.

Mál og menning, Reykjavík, 2010. [1]

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2011

LjósaÁ saurblöðunum í Ljósu eru ýmisskonar línur þvers og kruss og samanflæktar. Þetta óreglulega munstur erfatasnið en fólki sem er óvant saumaskapgæti reynst þrautin þyngri að leysa úr flækjunni því á sníðaörkum tíðkast að nýta plássið og hafa útlínur fyrir mismunandi parta í einni bendu. Þótt ólíkar gerðir af línum séu notaðar eru mörkin milli þeirra ekki endilega augljós. Á leiðinni frá sníðaörk til fullgerðrar flíkur getur síðan ýmislegt farið úrskeiðis, jafnvel hjá þrautþjálfuðum. Fyrst þarf að finna réttu línurnar á sníðaörkinni, ná forminu óbrengluðu, yfirfæra það á annað efni. Þegar búið er að sníða kemur að því að sauma bútana saman á réttan hátt og loks að ganga frá þeim, m.a. falda jaðra eða gera aðrar ráðstafanir svo að efnið rakni ekki upp.

Ljósu, aðalpersónunni í samnefndri skáldsögu Kristínar Steinsdóttur, gengur misvel að sníða eigið líf og „raða heimsmyndinni saman“ (24). Hún er fær saumakona þegar heilsan er í lagi en í veikindum hennar raknar tilveran upp, hún missir tökin á saumaskapnum og ýmsu öðru, til dæmis gerir hún sér ekki grein fyrir því að foreldrar hennar eru dánir og undir lokin finnst henni jafnvel að „veggirnir færist til og húsgögnin líka“ (198). Tími og rúm fara á flot.

Það er eftirtektarvert hversu margbreytileg rými verða til í frásögninni. Um alla bók eru markalínur af ýmsu tagi ýmist dregnar upp eða þurrkaðar út. Sum rýmin sem myndast við það eru hefðbundin og áþreifanleg. Ljósa reynir oft að staðsetja sig í heiminum, t.d. er húsum gjarnan lýst og hún skilgreinir stað sinn í þeim auk þess sem hún á sér uppáhaldsstaði úti í náttúrunni. Þegar hún flytur með eiginmanni sínum burt af æskuheimilinu leitar hún að nýjum samastað í nágrenninu en gengur það illa:

Lét augun líða eftir hlíðinni, leitaði að fossi eða hvammi sem gæti orðið minn. Hlustaði eftir sjávarnið en heyrði bara brimhljóðið í eigin höfði. Jökullinn varallt öðruvísi hér en heima. Horfði á húsið sem kúrði á miðju túni og minnti mest á líkkistu. (109)

Samhengið sem Ljósa sér milli hússins og líkkistu er til marks um að rýmisskynjun hennar er ekki bara hlutlæg heldur líka huglæg og það kemur fram í mörgum öðrum atriðum. Í bernsku einblínir hún gjarnan langt í burtu í von um að sjá fleira en hversdagsleikann, reynir t.d. að „koma auga á seglin á franskri skútu“ (19) en hún lítur ekki síður út fyrir áþreifanlega heiminn og gerir ráð fyrir öðrum víddum. Ljósa trúir á huldufólk og er skýjaglópur í orðsins fyllstu merkingu því hún telur sig oft sjá fólk þegar hún starir upp í himininn. Og þegar hún leikur á orgelharmóníum fyrsta sinni hverfur hún líka yfir í annan heim:

Ég settist á stólinn, lagði hendurnar á nótnaborðið og byrjaði að stíga fótstigin. Þá heyrðust þessir undursamlegu tónar, bæði háir og lágir. Á samri stundu hvarf litla stofan en ég sat í ljósheimum. (58)

Huglæga rýmið felst ekki bara í víðáttunni sem opnast Ljósu þegar hún horfir út í bláinn eða leikur á orgelharmóníum heldur einnig andstæðunni því í huga hennar eru margvísleg þrengsli. Kvíði og þunglyndi Ljósu eru t.d. myndhverfð í kæfandi fugli sem ýmist þrengir sér uppum hálsinn eða liggur ofan á henni. Þrengslin í veikindunum verða síðan áþreifanleg þegar maður Ljósu sér sér ekki annað fært en loka hana inni í köstunum en sú innilokun á aftur hliðstæðu í því hvernig ranghugmyndir Ljósu í veikindunum má túlka sem innilokun í eigin huga. Þetta tvennt blandast saman í skynjun Ljósu þegar hún er fyrst lokuð inni og svefnherbergið fær annarlegan blæ í augum hennar: „Horfi út á milli borðanna. Á rými sem ég þekki en þó ekki. Fangi í fjárkró á gólfinu í svefnherberginu mínu heima.“ (208–209) Þannig myndast hvað eftir annað nýjar tengingar þar sem mörkin milli andstæðna og hliðstæðna eru á floti. Veikindin einkennast ekki heldur eingöngu af þrengslum því í maníu fyllist Ljósa m.a. útþrá:

Óróleikinn í kroppnum óx með hverri viku sem leið. Ég fann hvernig krafturinn gagntók mig og ég vann eins og berserkur, gerði hvað ég gat til að sýna að ég réði við heimilishaldið. Reyndi að beisla útþrána. En hvernig sem ég barðist gegn henni hlaut ég að bíða ósigur. Ég var hætt að geta sofið, gleymdi hvítvoðungnum og fór af stað í loftköstum.Vigfús var búinn að fela söðulinn og ég reið berbakt. (144)

Ennþá fleiri rými geta síðan opnast íhuga lesandans, m.a. við lestur annarra bóka. Ljósa kom út á sama tíma og bók Sigrúnar Pálsdóttur: Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847–1917. Óhætt er að mæla með því að lesa þessar tvær bækur saman. Þótt önnur bókin sé skáldsaga en hin sagnfræðirit og Ljósa sé nokkru yngri en Þóra eiga bækurnar það sameiginlegt að lýsa lífi kvenna á svipuðum tíma. Þau hugrenningatengsl kvikna ekki endilega af sjálfu sér, enda er oftast óravegur milli þeirra heima sem í sögunum eru afmarkaðir, ekki síst vegna stéttamunar. Sögusviðið er einnig gerólíkt en það skarast þó lítillega því Austurvöllur og styttan af Bertel Thorvaldsen koma við sögu í báðum bókunum. Þetta litla sniðmengi getur minnt lesendur á mörk heimsmyndarinnar sem dregin er upp í hvorri bók um sig, tengt sögurnar saman og þar með víkkað báðar út.

Umfjöllunarefnin í Ljósu eru býsna margvísleg. Framan af bókinni er uppvöxtur stúlku einna mest áberandi sem og daglegt líf í sveit á síðari hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu. Strax í byrjun verður staða kvenna líka áberandi efni sem gengur gegnum alla bókina. Snemma er t.d. vakin athygli á litlu valdi kvenna á eigin lífi með frásögn út frá takmörkuðu sjónarhorni barnsins af Möggu, vinnukonu á bernskuheimilinu. Fullorðinn lesandi skilur strax að „pápi“, faðir Ljósu, er faðir drengsins sem Magga fæðir og fleiri barna út um sveitir. Ennþá flækjast örlög kvenna í sögunni þegar Magga er send í burtu án drengsins og það kemur í hlut móður Ljósu og annarra á heimilinu að ala hann upp.

Mismunandi örlagaþræðir eru fléttaðir afar vel inn í frásögnina og birtast ýmist beint eða óbeint í hugrenningum Ljósu sem veltir t.d. sjálf fyrir sér eigin möguleikum. Ljósa fær meiri menntun en flestar konur því hún er send til Reykjavíkur í Kvennaskólann og skólastýran hvetur hana til að halda náminu áfram og verða kennari. Þótt Ljósu langi til að læra meira hefur henni ekki liðið vel í Reykjavík og kýs að halda heim. Vanlíðanina tengir hún sjálf við ástarsorg og lesendur hneigjast kannski til að samþykkja þá túlkun hennar í fyrstu umferð en við annan lestur verður nokkuð skýrt að í partinum um Reykjavíkurdvölina koma þunglyndiseinkenni upp á yfirborðið sem eiga eftir að setja enn frekara mark sitt á líf Ljósu.

Eftir heimkomuna gengur Ljósa inn í hefðbundið kvenhlutverk, giftist og eignast börn. Tilhugsunin um takmarkaða möguleika kvenna sem „ganga ekki út“ ræður úrslitum um að hún játast manninum sem biður hennar. Þótt hún setji spurningarmerki við hjónabandið sér hún ekki aðra betri kosti.

Hvað á að verða um mig ef ég giftist ekki Vigfúsi? Vera hjá pápa og mömmu meðan þau endast og lenda svo í horninu hjá einhverjum bræðra minna? Hjá mágkonu sem líkar ekki við mig og mér ekki við hana? Vera vinnukona. (86)

Í sögunni er samt sýnt óbeint að fleiri möguleikar hafi verið fyrir hendi þótt Ljósa viðurkenni þá ekki, það kemur m.a. fram í fyrrnefndu tækifæri til frekari skólagöngu en einnig í vali systurinnar Gunnhildar sem var send með Ljósu í Kvennaskólann en kann betur við sig, reynist andstæða Ljósu í ýmsu og velur sér annað líf en hún. Eins og fleiri af systkinunum losar hún sig undan valdi föðurins. Gunnhildur giftist þeim manni sem hún vill, sest að í Reykjavík og lærir yfirsetukvennafræði. Ljósu virðist það vera „náttúrulögmál að vera sífellt barnshafandi“ (110) en einnig í þeim efnum hefur Gunnhildur önnur tök á veruleikanum. Ljósu langar að spyrja hvernig hún „komst […] hjá þvíað vera síólétt“ (181) en stillir sig umþað.

Geðveiki er síðan umfjöllunarefni sem blundar undir niðri stóran hluta bókarinnar, brýst fram öðru hvoru og magnast eftir því sem líður á söguna enda verða veikindaköst Ljósu tíðari, langvinnari og verri með tímanum, sérstaklega undir lokin. Þessu er m.a. miðlað í stílnum þar sem kraumandi reiði Ljósu yfir hlutskipti sínu og meintu skilningsleysi umheimsins kemur t.d. upp á yfirborðið í því hvað hún verður orðljót þegar veikindin ágerast. Tryllingurinn nær síðan hámarki í mögnuðu blóðbaði í fjárhúsinu:

Þá kemur kuti upp í hendurnar á mér. Orðin vön myrkrinu sé ég glitta í fjöldann allan af augum. Þau skína eins og stjörnur í myrkrinu. Geng á stjörnurnar, gríp í horn og bregð kuta á kverk. (204)

Kristín Steinsdóttir hefur afburða vald á frásögninni. Hún virðist látlaus, enda hefur Kristín lag á að segja margt í fáum orðum eins og lesendur eldri bók ahennar vissu fyrir, en einfaldleikinn er bara á yfirborðinu. Kristín hefur valið sér frásagnaraðferð sem hún nýtir út í ystu æsar til að miðla margþættri sýn á söguefnið. Nær öll bókin er fyrstu persónu frásögn út frá sjónarhóli Ljósu. Slíkt er vel til þess fallið til að veita lesendum innsýn í hugarheim aðalpersónunnar og það eitt og sér væri fullnægjandi í Ljósu. En í meðförum Kristínar verður frásögnin ennþá margbrotnari, m.a. því Ljósa miðlar ekki einungis eigin hugarheimi heldur einnig orðum og viðmóti annarra í sinn garð og þetta dregur vel fram hversu erfið veikindin reynast öllum, jafnt Ljósu sjálfri sem öðrum í fjölskyldunni.

Lengi er Ljósa meðvituð um að hún er á skjön við fólkið í kring. Hún tekur það t.d. nærri sér þegar sonur hennar fokreiðist yfir því að börn á öðrum bæ fullyrði að hún sé brjáluð og hugsar skömmu síðar: „Ég veit að þetta er erfitt fyrir börnin. Og Vigfús sem má ekki vamm sitt vita í neinu. Aumingja Vigfús veðjaði á rangan hest.“ (133) Þegar á líður gerir hún sér aftur á móti sífellt verri grein fyrir því af hverju fólk bregst illa við henni eins og kemur m.a.fram í þessum hugsunum hennar: „Fólk er alltaf að leggja stein í götu mína og skilningsleysið er algert.“ (223)

Þótt ýmsir reyni að útskýra ástandið fyrir henni ber það takmarkaðan árangur en lesendur hafa betri yfirsýn um samhengi hlutanna.

– Það eru augun, elskan mín, sagði hún á leiðinni yfir túnið. Fólk er hrætt við augun í þér í köstunum. Og svo skelfirðu náttúrlega alla með látunum. Þarftu að vera svona hávær, blessuð mín? (199)

Til viðbótar við viðbrögð annarra sem miðlað er gegnum Ljósu er fyrstu persónu frásögnin öðru hverju brotin upp með hugsunum elstu dótturinnar, Katrínar. Þessi breyting á sjónarhorninu er óvenju vel heppnuð. Þar skiptir máli að farið er sparlega með hana og tímasetningin á fyrsta bútnum af þessu tagi um miðja bók er fullkomin: einmitt vegnaþess að sjónarhornið hefur verið hjá Ljósu fram að því verður þetta uppbrot frásagnarinnar óvænt og áhrifameira en ella. Lesendur hafa fylgst með sívaxandi kvíða og vanlíðan Ljósu en gera sér vart fulla grein fyrir því fyrr en sjónarhornið breytist hvernig komið er fyrir henni.

Þér finnst mamma vera margar konur og þykir vænt um þær allar. Samt er mamma sem átti heima í höllinni hjá afa og ömmu í mestu uppáhaldi. Hún söng og spilaði, gerði að gamni sínu og var sjaldan leið. Þú saknar hennar. (119)

Tvísæið sem einkennir frásagnaraðferðina er sérstaklega viðeigandi því að veikindi Ljósu virðast vera geðhvarfasýki, sjúkdómur sem beinlínis einkennist af sveiflum milli tvenns konar öfga. En tvöfeldnin birtist á ýmsum öðrum sviðum bókarinnar, ekki síst í myndmálinu. Út um alla bók er t.d. sagt frá fuglum. Oft lítur Ljósa á þá sem tákn um gleði og frelsi en þeir eru líka notaðir sem tákn fyrir skuggahliðina því Ljósa líkir kvíða sínum og veikindum ítrekað við það að fugl sé fastur í hálsinum á henni eða liggi ofan á henni og sé að kæfa hana. Fuglinn er órjúfanlegur hluti af lífi hennar frá barnæsku og hún spyr í forundran: „Af hverju fór hann að þrengja sér upp um hálsinn á mér? Reyna að kæfa mig. Varna mér svefns um nætur. Leggjast ofan á mig og kremja. Rugla tilveruna og mig sjálfa.“(7)

Enn eitt dæmi um tvöfeldni í frásögninni er að upphafs- og lokakaflinn geyma sama textann. Í fyrra skiptið vekur kaflinn grunsemdir og spurningar. Af hverju er hurðin í herberginu sem lýst er t.d. snerilslaus að innan? Þegar aftur er komið að sama texta í lokin hafa fengist auknar forsendur til að leggja mat á aðstæður. Söguheiminum er þó ekki lokað og læst. Mátulega margt er skilið eftir ósagt til að sagan geti lifað áfram með lesendum sem eru þar að auki svo heppnir að mega lesa bókina aftur og aftur.

 

 

Erna Erlingsdóttir

[1] Blaðsíðunúmer innan sviga vísa til kiljuútgáfunnarfrá 2011