LunguPedro Gunnlaugur Garcia: Lungu.

Bjartur, 2022. 391 bls.

Úr Tímarit Máls og menningar, 2. hefti 2023.

 

Það er ekki létt verk að skrifa gagnrýni um skáldsögu sem þegar hefur hlotið verðlaun sem sú besta sem kom út á síðasta ári. Eftir sem áður er það þó skylda gagnrýnanda að rýna vandlega í innihald og stíl, skipulag, frumlegheit og trúverðugleika viðkomandi skáldverks og skal ég ekki skirrast við það.

Ég hafði hrifist mjög af fyrstu skáldsögu Pedros Gunnlaugs Garcia, Málleysingjarnir, sem bar merki um hugmyndaauðgi og dirfsku ungs höfundar í sinni fyrstu skáldsögu, sem leyfir sér að fara um víðan heim og taka um leið á margvíslegum málefnum líðandi stundar í sögulegu samhengi, af alvöru og íhygli, en samtímis með léttleika og gáska. Þegar ég fyrir stuttu las ritgerðarsafn Milans Kundera, Svikin við erfðaskrárnar, þóttu mér eftirfarandi orð fransk/tékkneska rithöfundarins í fyrstu ritgerð bókarinnar „Þegar Panúrg þykir ekki lengur fyndinn“, viðhöfð um skáldsögu Rabelais um Gargantúa og Pantagrúl, gætu hæft frumraun Pedro Gunnlaugs: „Þar er allt á sínum stað, trúlegir og ótrúlegir atburðir, dæmisögur, háðsádeilur, tröll og venjulegt fólk, innskotssögur, raunveruleg og ímynduð ferðalög, deilur spekinga, útúrdúrar sem byggja alfarið á snilldarlegum leik með tungumálið.“[1] Frumraun Pedros Gunnlaugs og fimm hundruð ára gamalt verk Rabelais, sem oft er sagt fyrsta evrópska skáldsagan, eru þó kannski ekki sambærileg verk. En þótt aldir skilji að þá eru þar tengsl, því í báðum eru ólíkindin, helsti eðliskostur skáldsögunnar, að mati Kundera, í fyrirrúmi. Þar sé allt hægt því skáldsagan sé „svæðið þar sem siðferðisdómar eru afnumdir.“[2] Pedro Gunnlaugi tekst nefnilega í Málleysingjunum sem og í verðlaunabókinni Lungu að sneiða hjá siðferðisdómum um leið og stórar siðferðislegar spurningar eru undir í báðum verkunum.

 

Víðfeðm ættarsaga

Skáldsagan Lungu hefst haustið 2089, ung móðir, Jóhanna, er að kveðja dóttur sína að morgni dags í leikskólanum og mun nú ekki sjá hana í heila viku, því það er pabbavika. Jóhanna er þegar full af söknuði og áhyggjum, einkum af því að henni takist ekki að nýta tímann á meðan Ella er hjá pabba sínum til að koma skikki á heimilið, „að drekka minna og einbeita sér að því ljúka við að forrita Ferðalag til endaloka alheimsins“.[3] Venjulegur hversdagur hjá ungri konu í Reykjavík árið 2089 og gæti fullt eins verið árið 2022. Heimkomin og ein gengur Jóhanna í verkin, þrífur og skúrar, hugsar um kóðana í sýndarveruleikasýningunni sem hún er að forrita. Einhverra hluta vegna ákveður hún að fara niður í geymslu, þar er óreiðan enn verri en í íbúðinni, dót frá fyrrverandi og hennar eigið. Líklega best að moka öllu út. En eins og svo oft í sögum þá rekst hún á eitthvað sem breytir öllu. Þetta er skókassi og ofan í honum er nýjasta bók Stefáns, föður hennar. Hún íhugar að fleygja kassanum með öllu innihaldi. Hún hafði á sínum tíma kíkt á bókina og komist að raun um að þar stóð ekki neitt hvorki um hana né Elías bróður hennar og til hvers þá að lesa. En „Jóhanna var þreytt og eitt augnablik laut fyrirlitningin á föður hennar í lægra haldi fyrir forvitni.“ (9) Það þarf ekki meira til þess að tæplega 200 ára ættarsaga í þremur heimsálfum geti hafist suður á Ítalíu.

Á næstu 390 blaðsíðum sem skiptast í ellefu hluta og reyndar einn að auki spretta þau svo fram eitt af öðru, ættboginn allur. Til að byrja með eru þetta persónur með framandi nöfn í framandi umhverfi þar sem framandlegir hlutir gerast á ýmsum tímum. Ömmur og langömmur svífa um himinn eða eru þessar svífandi verur forspá um afkomendur eða lá meintur sjáandi einfaldlega sauðdrukkin í grasinu og hemur því ekki ekki huga sinn? Það sem þó óyggjandi gerist er að Enzo, uppvaxinn, munaðarlaus ömmudrengur, er kallaður til herþjónustu í fyrsta stórstríði Evrópu í langan tíma. Í örvæntingu um líf sitt reikar Enzo út og íhugar að hann eigi aldrei eftir að líta aftur þorpið og hæðirnar í kring. Það skrjáfar í laufum ólífutrjánna í golunni og til allrar guðslukku grípur hann óstjórnleg löngun til að finna bragðið af hráum ólífum, sprottnum úr sama jarðvegi og hann sjálfur. Þrátt fyrir beiskju ávaxtanna treður hann allmörgum þeirra í sig, vaknar veikur og er í læknisskoðun úrskurðaður „óhæfur til að gegna herskyldu vegna ólæknandi krabbameins“ (15) og getur því ekki svo löngu síðar flutt ásamt eiginkonu sinni Benedettu til Bandaríkjanna. Þar eignast þau soninn Federico og þegar Bandaríkjamenn dragast inn í heimstyrjöldina síðari heimta þeir Federico í lið sitt. Faðirinn kann ráð. Hann verður sér úti um óþroskaðar ólífur og skipar syninum að innbyrða þær vilji hann lifa. Líkt og faðirinn tuttugu og fimm árum fyrr verður Federico sárkvalin og er úrskurðaður með krabbamein og óhæfur til að gegna herskyldu. Öðru sinni er því þannig varnað að ættbogi ítölsku hjónanna, Beatrice og Giacomo, deyi út. Federico kvænist Söru, þeirra sonur er Anthony. Og enn er stríð og Anthony skal fylgja ráði ættarinnar. Það fer hins vegar ekki eins og ætlað er og ekkert vottorð um vanhæfi til herþjónustu fæst. Anthony má skunda til Víetnam, sem hann gerir þó ekki heldur flýr hann yfir landamærin til Kanada þar sem Tháo, dóttir hjóna sem flúðu einmitt undan Víetnamstríðinu, verður í einmanaleika sínum yfir sig ástfangin af honum og þau ákveða að giftast. Líkt og foreldrar sínir eignast Anthony eitt barn með konu sinni, dótturina Söru. Endar þar með saga stríðs og ólífa hins ítalska ættboga og hinn víetnamski tekur við því hjónabandi Anthonys og Tháo lýkur og hún snýr aftur til foreldra sinna í Kanada ásamt dótturinni.

Sara er eldklár og á því ekki í vandræðum með að fylgja óskum móður sinnar um að ganga menntaveginn og lærir það sem heimurinn hefur mestan áhuga á á ofanverðri 20. öld, erfðafræði. Skömmu fyrir útskrift rekst hún á auglýsingu um starf hjá nýstofnuðu erfðarannsóknafyrirtæki á eyju langt í norðri og sækir um. Hún fær starfið og þar með flyst sögusviðið til Íslands og drengurinn Páll getur stigið inn í söguna og síðar kynnst Söru. Páll elst upp í íslenskum afdal þar sem einn daginn eldingu hafði slegið niður í hænsnakofa á bænum. Allar hænurnar drepast utan ein sem beinlínis springur utan af ægistóru eggi sem, þrátt fyrir að enginn sé haninn, reynist innihalda sprelllifandi hanaunga. Sá á eftir að verða fréttaefni á heimsvísu fyrir „gígantíska og gargantúska“ (72) stærð sína, sem verður til þess að vekja grunsemdir á alþjóðavettvangi um stórfelldar tilraunir til framleiðslu erfðabreyttra matvæla á Íslandi. Án þess að farið sé nánar ofan í súrrealískar og stórskemmtilegar sögurnar af Júpíter og örlögum hans né sögurnar af því hvernig Sara naut stúdentsáranna heima í Kanda þrátt fyrir annir í námi, sem fáum sögum fer af en þeim mun fleiri af sérstæðri skyggnigáfu hennar, sem tengist kynlífi. Strax í fyrsta sinn þegar karlmaður þrengir sér inn í hana öðlast hún innsýn í, sér beinlínis og horfir á fortíð viðkomandi og ættaráföll. Hæfileiki sem minnir á skyggnigáfu aðalpersónu nýjustu skáldsögu Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Innsýn, og kom út um svipað leyti og Lungu.

Við fáum sem sagt í skáldsögunni Lungu ótal skringilegar og súrrealískar sögur af ólíkum persónum sem hver á fætur annarri dansa fram á síðum bókar Stefáns, föður Jóhönnu, og hún, þrátt fyrir fyrirlitningu sína í hans garð, hefur tekið að glugga í.

Hvort þær fjölmörgu stöku frásagnir bókarinnar úr lífi hinna 23ja einstaklinga, sem mynda ættartréð og eru nokkurn veginn í tímaröð, eru í fullu samræmi við bók Stefáns sem „[m]eð skrifunum hafði […] reynt að fanga forfeður sína úr djúpi tímans.“ (315) eða hvort frásögn Stefáns birtist lesanda skáldsögunnar Lungu jafn gloppótt og raunin er vegna þess að Jóhanna hefur aðeins, „flett í gegnum hana og síðan ekki kært sig um að klára“ (316) er ekki gott að segja til um og skiptir kannski ekki máli heldur það hvernig höfundurinn, Pedro Gunnlaugur, lætur hvern ættlið smeygja sér létt og áreynslulaust inn í þann næsta og með þeim „[e]rfðirnar – áföllin og sjúkdóm[ana] og öll óheilbrigðu bjargráðin sem […] ferðast kynslóða á milli“ (61) allt þar til CRISPR-erfðatæknin kemur til.

Með CRISPR erfðatækninni, sem í raunveruleikanum er enn á tilraunastigi, mun hægt að aftengja ákveðin, óæskileg gen og einhvern tíma kannski tengja önnur og hanna þannig ný genamengi, nýjar manneskjur sem þurfa þá ekki draslast með ættina alla í líkama sínum, lífi og sál. Skáldsagan Lungu fjallar sem sagt m.a. um framtíð sem orðin er nútíð, heill og hættur sem þar lúra, og er sjónum einkum beint að erfðatækni og tölvutækni. Í verkinu er þó aldrei tekin bein afstaða til möguleikanna sem framtíðartækni gæti átt eftir að færa okkur heldur aðeins tæpt á því. Eftirlaunafræðimaðurinn Stefán – sérsvið sagnfræði internetsins – hefur varið starfsævinni í að rannsaka þátt internetsins í uppgangi popúlískra afla og hnignunar lýðræðisins og komist að þeirri niðurstöðu að „[r]óttækar nýjungar [hafi] alltaf ófyrirséðar afleiðingar“ (86) og er þessi afstaða hans rót stirðleikans í samskiptum feðginanna.

Ást og vinátta er auðvitað líka hluti af svo víðfeðmri ættarsögu sem spannar hátt í tvö hundruð ár. Hinn eiginlegi sögutími, rammasagan um heimsókn Stefáns til Íslands eftir einhverra ára fjarveru í Bandaríkjunum og samskipti feðginanna spannar hins vegar aðeins rúma viku.

Stefán er síðasti sprotinn sem birtist okkur á mynd ættartrésins í bókinni og sem er mjög handhægt að geta flett upp á hinu mikla kraðaki persóna bókarinnar. Stefán er einbirni eins og þau eru flest í þessari ætt og ólst á sínum tíma upp hjá ömmu sinni. Hann varð háskólakennari og kvæntist Möggu. Þau eignuðust Jóhönnu og eldri bróður hennar, Elías, listrænan dreng sem lést ungur að árum af völdum ólæknandi sjúkdóms. Í kjölfarið leystist fjölskyldan upp, eins gjarnt virðist í þessari ætt. Þegar hlutirnir ganga ekki upp eða áföll verða flýr fólk af hólmi. Stefán flutti vestur um haf, en hafði þá þegar sem „sunnudagshöfundur“, eins og sagnfræðingurinn kallar það sjálfur, tekið að færa sögu ættar sinnar í skáldsagnaform, „ræddi þetta aldrei við börnin sín en skrifaði síðan fyrir almenning þessar groddalegu ýkjusögur um forfeður sína.“ (9)

 

Frásagnarmátinn

Það er alvitur sögumaður sem færir okkur skáldsöguna Lungu og er frásagnarmátinn sá sami hvort heldur er í byrjun hvers hinna ellefu hluta þar sem við fylgjumst með Jóhönnu og svo Stefáni föður hennar og samskiptum þeirra þessa rúmu viku sem Stefán dvelur á Íslandi. Þessir hlutar sögunnar eru þó, eins og síðar skal vikið að, raunsæislegri og hægari en flest það sem greint er frá í bók Stefáns þar sem misítarlegar sögur úr lífi persóna ættartrésins mikla flæða fram og til verða tengingar við sögur annarra persóna. Af flestum persónanna eru sagðar margar sögur sem í heild ná yfir lengri tímaskeið. Oft eru talsverðar gloppur í þessum aðskildu persónusögum eins og þegar Sara í einni þeirra tilkynnir móður sinni að hún hafi fengið stöðuna sem hún sótti um en næst þegar segir frá Söru er hún orðin hagvön í þessu nýja umhverfi og farin að sækja bari. Þetta eru með öðrum orðum sögur um aðgreind atvik eða röð atvika úr lífi þessara einstaklinga en einnig þeirra sem lögðu sitt til nýrra sprota ættartrésins. Allir hafa sögur að segja, kannski réttar að segja, skilja eftir sig sögur sem halda áfram að vera til í ættarminninu. „Margt [er] byggt á heimildum; samskipti á netinu, dagbók Önnu, ljósmyndir úr ferðalögum – en stundum varð […] að láta ágiskanir duga“ (315) segir um aðferð Stefáns við að ná utan um ættarsögu sína og skýrir skoppandi framvinduna og eykur gáskann.

Saga Stefáns minnir oft á góða stund síðla kvölds á ættarmóti þegar nokkrar kynslóðir koma saman, segja sögur af forfeðrunum og henda gaman af samsvörunum við þau sem á eftir komu, því enginn kemst undan ætt sinni og erfðamengi. Ýkjur og furður eru við slíkar aðstæður í fyrirrúmi en minna skeytt um þá röklegu framvindu sem við annars reynum skipa minningunum niður með svo úr verði heildstæð og rökræn framvinda lífshlaups.

Í öllum ættum og fjölskyldum fyrirfinnast svo auðvitað leyndarmál og þegar grannt er að gáð er leyndarmál ástæðan fyrir því að Stefán skráir þessa sögu. Dóttir hans á að vita nákvæmlega hvaðan hún er komin. Lesandinn þekkir reyndar þegar leyndarmálið, búinn að lesa lungann úr bók Stefáns um áa hans og uppruna. Það sem lesandinn hins vegar ekki veit lengi vel er hvað þessi leynd hafði valdið Stefáni miklum sársauka og mótaði samskipti hans við sína nánustu eða öllu heldur samskiptaleysi. Þessum þætti eru hins vegar gerð of stuttaraleg skil til að það að efli skilning á eða meðlíðan með Stefáni.

Um fyrstu bók Pedro Gunnlaugs, Málleysingja, sagði Gauti Kristmannsson í gagnrýni sinni í þættinum Víðsjá að frásagnaraðferðin líktist tölvuleik. Um Lungu má segja að hún sé í ætt við sjónvarpsþáttaröð. Við stökkvum með alvitra sögumanninum líkt og kvikmyndatökuvél frá einni persónu til hinnar næstu í afmörkuðum frásögnum. Við heyrum hvað persónurnar segja, sjáum hvert þær horfa og fáum til viðbótar því, sem kvikmynd alla jafna gefur innsýn í, líka stundum að vita eitthvað um það hvað þeim finnst um það sem þær sjá og hugrenningar sem af því kvikna. Allt með hraða kvikmyndarinnar eða öllu heldur þáttaseríanna sem kannski er vinsælasta sagnaform samtíma okkar, frásagnarform sem virðist á bók verða til þess að persónurnar verða helst til yfirborðskenndar, forsendur og afleiðingar gerða þeirra stundum endasleppar.

Ýmsir þræðir eru þó stundum teknir upp síðar sem eykur á skemmtigildi sögunnar í heild og spennu framvindunnar án þess þó að gefa persónunum frekari dýpt. Um leið er vert að leiða hugann að því hvort höfundi, hvort heldur höfundi skáldsögunnar Lungu eða Stefáni, hafi verið giska umhugað um allar þessar persónur fyrir utan að vera angar á ættartré. Við sumar þeirra er vissulega nostrað, ytri aðstæðum og samskiptum eða samskiptaleysi lýst. Þannig varð Fjóla óheppna og síðar heppna, vinkona Önnu, móður Stefáns, einkar lifandi á skjá sögunnar, svo líkingu frásagnarmátans við sjónvarpsþáttaröð sé til haga haldið. Þó má spyrja sig hvort lesandinn þekki hana að einhverju marki þegar upp er staðið. Sara, sú sem teygir ættartréð til Íslands, er hins vegar ráðgáta sem gaman hefði verið að geta áttað sig betur á og það sama má segja um döngunarleysi Páls, afdalastráksins sem eitt sinn átti stærsta hana í heimi. Það verður með öðrum orðum stundum of lítið kjöt á beinum persónanna til að full mynd fáist af þeim. Kannski er það heldur ekki ætlun höfundar auk þess sem þær eru einfaldlega svo margar. Samtölin sem vitnað er til auka heldur ekki á dýpt persónanna þótt mörg séu hnyttin og skemmtileg eins og gestirnir í afmælisboði Önnu, sem Páll kemur henni á óvart ásamt fáeinum vinum hennar á Michelin-veitingastað í Suður-Frakklandi. Hópurinn ræðir heimsmálin án þess að hafa í þau mikla innsýn en sviðsetningin og samtölin gefa innsýn í tengsl þeirra og samfélagslegt samhengi.

Það sem hér hefur verið sagt um frásagnarhátt og persónusköpun á fyrst og fremst við söguna í sögunni; bók Stefáns. Framvinda hennar er hins vegar hröð og bráðskemmtileg, við stökkvum frá einum kafla með yfirskrift til hins næsta innan hinna númeraðra hluta bókarinnar, stundum í miklum tímastökkum, og Pedro Gunnlaugur er lunkinn í að flétta grótesku og furðum, töfraraunsæi og súrrealisma inn í raunsæisfrásögnina. Annað skemmtilegt einkenni á frásögninni er það sem kalla mætti frásagnarmyndhverfingar, þegar einstakar frásagnir líkt og speglast í öðrum og ólíkum síðar í sögunni, aðferð sem skapar áhugaverða spennu og viðheldur yfirsýn lesandans í þessu margslungna og persónuríka verki.

 

Tíminn og kærleikurinn

Segja má að í fyrri skáldsögu Pedro Gunnlaugs, Málleysingjunum, sé – þrátt fyrir að fara víða um lönd og persónurnar séu margar – öllu haldið saman af tungumálinu, samskiptum á grundvelli tungumálsins og pælingum um það. Í skáldsögunni Lungu er það blóðskyldleikinn sem samskiptin grundvallast á eða öllu heldur samskiptaleysið, getuleysið til að gangast við tilfinningum og tjá þær.

Það er ekki tilviljun að höfundur lætur Jóhönnu starfa við forritun sýndarveruleika sem árið 2089 er orðin vinsæl afþreying og lýtur lögmálum eftirspurnar. En sýndarveruleiki er líka orðinn hluti af sálrænni meðferð. Með sýndarveruleika má hanna trúverðugar aðstæður áfalla, persónur og kringumstæður allar og þannig endurlifa það sem gerðist, öðlast skilning og jafnvel sátt.

Verkefnið sem Jóhanna er að vinna að þegar faðir hennar birtist snýst um að fólk geti upplifað tilurð heimsins og samfall og þarf hún „sífellt að hraða framrás tímans til að ná utan um markverðustu atburðina“ (58-59) í þeirri vegferð „í tíma og rúmi“. (59) Tíminn er auðvitað líka viðfangsefni Stefáns í ættarsögu sinni, tími lifenda og látinna, sem endurtekur sig í arfgerð afkomendanna, eftir því sem ættboginn lengist, tíminn líður og fleiri byggingar í Reykjavík ársins 2089 eru sprengdar til að reisa megi nýjar og snjallari, andrúmsloftið meira efnabætt svo að enn megi sjá til sólar. Jóhanna lendir í vandræðum með verkefnið þar sem ofangreind milljóna ára rás stórviðburða alheimsins, þrátt fyrir að vera samanþjöppuð, þykir ekki nægilega viðburðarík og spennandi afþreying. Það vantar manneskjurnar, sem eins og ljóst má vera eru sannarlega til staðar í ættarsögu föður hennar.

 

Að anda og elska

Eins og sagði hér í upphafi skiptist skáldsagan Lungu í ellefu hluta og við lok hans stendur skýrum stöfum „ENDIR“ (379), þ.e. endir bókar Stefáns. En þá bætist við tólfti og síðasti hluti bókarinnar, eins konar eftirmáli þar sem Stefán heimkominn til Bandaríkjanna íhugar heimsóknina til dótturinnar og lífið almennt. Á afmælisdaginn sinn fær hann sendingu frá dótturinni, boð um að mæta á svokallaða OvO stöð sem greinilega eru sjálfsagðir samkomustaðir árið 2089. Þar má í samræmi við pöntun ganga inn í ákveðinn sýndarveruleika, í þessu tilviki einn slíkan sérhannaðan af dóttur fyrir föður og hann einan með yfirskriftinni „Ólífur“.

Í þessum lokahluta skáldsögu sinnar Lungu tekst Pedro Gunnlaugi að hnýta ótrúlega flotta slaufu á þessa miklu ættarsögu með því að draga saman í eina sviðsetningu niðurstöðu hennar og allra ættarsagna og hverfist um það mikilvægasta af öllu í lífinu í allsherjarsamhengi kosmósins, að anda og að elska. Lungu er þannig séð einstaklega hnyttinn og nútímalegur titill þessarar ótvírætt skemmtilegu og frumlegu sögu sem fjallar um ást, kannski mest um ást sem ekki var tjáð, ást sem þó býr í hverjum andardrætti, þegar lungun dragast saman, þenjast út og dragast síðan aftur saman, aftur og aftur að eilífu.

 

Jórunn Sigurðardóttir

 

 

 

Tilvísanir

[1]Milan Kundera, Svikin við erfðaskrárnar: ritgerð í níu hlutum, Friðrik Rafnsson þýddi, Reykjavík : Ugla útgáfa, 2022, bls. 9-10.

[2] Sama, bls. 12.

[3] Pedro Gunnlaugur Garcia, Lungu, Reykjavík: Bjartur, 2022, bls. 7. Hér eftir verður vísað til verksins innan sviga í meginmáli.