Kári Tulinius. Móðurhugur.

JPV, 2017. 160 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2018

MóðurhugurMóðurhugur er önnur skáldsaga Kára Tulinius sem hefur getið sér gott orð sem ljóðskáld og útgefandi en hann stofnaði Meðgönguljóð á sínum tíma, ásamt Valgerði Þóroddsdóttur og Sveinbjörgu Bjarnadóttur, sem síðar varð forlagið Partus. Fremur lítið hefur farið fyrir umfjöllun um Móðurhug frá því að hún kom út í byrjun mars 2017; mögulega hefur framandi sögusvið haft áhrif þar á en sagan gerist í Bandaríkjunum og fjallar um persónur sem hafa fremur litla tengingu við Ísland. Líklega eru það þó fyrst og fremst ósanngjörn örlög vorbóka að falla í skuggann af haustinu en því er vissulega ástæða til að sporna gegn.

Aðalpersónurnar í Móðurhug eru vinirnir Inga og Abel sem kynnast á netinu en hittast í fyrsta skipti átta árum síðar í borginni Providence á Rhode Island þar sem Inga dvelur við nám. Abel, sem býr í Boulder í Colorado, er í upphafi bókar á leið til Nýja-Englands í rannsóknarerindum en kemur við í Providence hjá Ingu og vinátta þeirra verður í fyrsta skipti þrívíð, eins og Inga kemst að orði; þau skynja hvort annað á nýjan hátt í raunheimum. Við þetta breytist allt því Inga verður ástfangin af Abel en sú ást er ekki endurgoldin. Sögur þeirra tvinnast í framhaldinu saman á flókinn og óræðan hátt og í sögulok eru þau bæði dáin eða horfin – en þó ekki.

Raunar er þó ekki rétt að segja að Inga og Abel séu aðalpersónur bókarinnar, því sú persóna sem hefur mest áhrif er rithöfundurinn Theodóra, móðir Ingu. Hún er í raun allt í senn, höfundur, persóna og stundum sögumaður – móðurhugurinn alltumlykjandi. Sögur Ingu og Abels eru rammaðar inn af frásögn hennar eftir að hún hefur ferðast frá Reykjavík til Providence til að veita einkadóttur sinni náðarhöggið, eins og hún segir sjálf; Inga liggur í dái eftir sjálfsmorðstilraun og Theodóra þarf að gefa læknunum leyfi til að taka hana úr sambandi. Örvingluð af sorg og reiði út í dóttur sína grípur hún til þess ráðs sem hún þekkir best og byrjar að skrifa: „Skáldalistin er það eina sem ég kann, að raða saman orðum, finna merkinguna bak við hrynjandi og frásögn. Láta sögu líða fram að niðurstöðu. Inga verður lögð í grafhýsi úr orðum.“ (bls. 6)

***

Af því sem hér hefur komið fram má ráða að Móðurhugur sé sjálfsmeðvituð skáldsaga og það er hún. Hún er „grafhýsi úr orðum“ sem Theodóra byggir yfir dóttur sína og Abel en þó fyrst og fremst fyrir sjálfa sig – sprottin út frá þörf og viðleitni mæðgnanna beggja til að ná tökum á tilverunni í gegnum skrif. Viðfangsefni bókarinnar eru af ýmsum toga, svo sem samband móður og barns, trú og yfirskilvitleg málefni, sjálfsmynd og veruleiki trans fólks (Abel hefur farið í gegnum kynleiðréttingu) og síðast en ekki síst ást og ástarsorg. Virkni skáldskapar og skapandi skrifa er þó alltaf ótvírætt í brennidepli. Nær allar persónurnar fást við einhvers konar ritstörf og velt er upp ýmsum tilvistar- og siðferðislegum spurningum sem þeim tengjast: Hvað gerist ef saga okkar er, eða er ekki, færð í orð? Lifum við áfram í textanum en týnumst að sama skapi ef enginn ritar sögu okkar? Hver má skrifa sögu hvers og á hvaða forsendum? Allt eru þetta krefjandi álitaefni og að vissu leyti tímalaus en þau eiga þó ekki síst við nú á tímum rafrænnar tjáningar þegar allt og ekkert fer á netið og verður þar mögulega að eilífu.

Sjálfsmeðvitund skáldsögunnar birtist meðal annars í formgerð hennar og óvissu um uppruna eða „eiganda“ textans hverju sinni. Móðurhugur skiptist í þrjá meginhluta: „Vefdagbók Ingu“, „Ævisögu Abels“ og „Skáldskap Theodóru“. Fyrsti hlutinn samanstendur af vefdagbókarfærslum Ingu á tveggja mánaða tímabili, frá því að hún hittir Abel í fyrsta skipti í raunheimum og þar til hann hverfur og hún ákveður að binda enda á líf sitt. Annar hlutinn er sjálfsævisaga Abels sem Inga vinnur upp úr tölvupóstum og skilaboðum sem fóru á milli þeirra áður en þau hittust í Providence, í þráhyggjukenndri tilraun til að kynnast Abel betur og skapa nánd þeirra á milli. Báðir þessir textar eru, að því er virðist, teknir upp óbreyttir frá Ingu og felldir inn í skáldsöguna. Loks er þriðji og síðasti hlutinn, eins og titillinn gefur til kynna, skáldskapur Theodóru sem fjallar um hvað gerðist, eða hefði getað gerst, eftir hvarf Abels.

Þegar upp er staðið er þó vel mögulegt að öll bókin, ekki bara þriðji hlutinn, sé runnin frá Theodóru – að það sé hún sem setji hana saman og skrifi hana jafnvel að hluta eða heild. Inn í sögur Ingu og Abels fléttast síðan frásagnir af fleiri persónum, svo sem Jerome, sem Abel elskar en getur ekki átt út af fyrir sig, og rithöfundinum Lionel sem einangrar sig í kofa úti í skógi, og eftir því sem innar dregur í völundarhús frásagnanna verður óljósara hver segir frá, hver stýrir framsetningunni og á hvaða forsendum. Ólíkir hugir renna saman og hugmyndir um höfund og eignarrétt hafa lítið gildi.

„Til að vera góður ljóðaþýðandi þarf að leggja eigið sjálf til hliðar og verða það skáld sem samdi upprunalega kvæðið,“ segir Inga við Foster vin sinn og líklega eiga þessi orð hennar um samruna hugvera í texta vel við um það viðhorf sem er áberandi í Móðurhug: „Raddir flakka milli huga. Það er hægt að leyfa öðrum röddum að streyma inn og láta hugsunina flæða með. Þá hættir þýðandinn að vera túlkandi og fer að mæla réttri röddu á annarri tungu.“ (bls. 33–34) Vandamálið er hins vegar að tveir hugir geta aldrei runnið fullkomlega saman og þýðandinn getur aldrei orðið skáldið sjálft eða mælt „réttri röddu“, sama hvað hann reynir. Inga lifir því í blekkingu, sér í lagi varðandi eigin getu til að miðla rödd Abels.

***

Samskipti Ingu og Abels fara eingöngu fram á netinu fyrir utan dagana í Providence; skömmu eftir það hverfur Abel og Inga sér hann aldrei aftur. Í hennar augum er hann þó enn til – enda hefur vinátta þeirra aldrei grundvallast á „þrívíðum“ samskiptum og raunar upplifir hún samvistir þeirra í Providence sem vonbrigði. Til að nálgast Abel ákveður hún fyrst að skrifa ævisögu hans en síðar gengur hún enn lengra og hverfur úr raunheimi yfir í þann rafræna; hún eyðir öllum færslunum úr vefdagbókinni öðrum en þeim sem tengjast Abel, birtir ævisöguna þar og sendir vinkonum sínum kveðjuskilaboð:

Sjálfið er rafeind á hreyfingu. Þetta ég, sem er í líkama sem vaknar og hreyfist á æfingu og í skóla, það þjáist í veröld þar sem Abel er ekki lengur. Í rafrænum textum er hann ennþá til. Ef ég hverf úr þessum heimi get ég lifað áfram með Abel í skrifunum á netinu. Nú er ég búin að tengja okkur tvö saman í huga ykkar, rafeindaboðum sem geyma mig. Við munum lifa í ykkur eins og Abel lifir í mér. (bls. 68)

Þarna birtist sams konar þrá og hjá Theodóru; þrá eftir því að skapa ástvinum framhaldslíf í orðum. Báðar glíma mæðgurnar við sorg og höfnun en neita að sleppa tökum á ástarviðfanginu.

Afleiðingarnar eru umtalsverðar, sérstaklega fyrir Abel sem fær engu ráðið um sína eigin rafrænu tilvist. Hann á sér enga rödd aðra en þá sem Inga (og/eða Theodóra) miðlar til lesenda; hún semur ævisögu hans án þess að spyrja hann álits og fyrst og fremst til að þjóna eigin þörfum. „Skáldskapur Theodóru“ er einnig sjálfþerapískur texti fremur en nokkuð annað; Theodóra lífgar bæði Ingu og Abel við og stillir þeim upp í skálduðum heimi þar sem hvorugt vill vera. Mæðgurnar eru þannig gerendur sem leitast við að ná tökum á tilverunni með því að skapa og móta rafræna tilvist, eigin og annarra. Abel og tilvera hans er aftur á móti fyrst og fremst viðfang og mögulega er hann einungis til sem hugarfóstur mæðgnanna.

***

Það er gömul saga og ný að trans fólk þurfi að horfa upp á sískynja rit- og handritshöfunda og leikara tjá trans reynslu í sögubókum, skáldverkum og kvikmyndum með misgóðum árangri. Reynsla trans fólks og ýmissa annarra minnihlutahópa hefur gjarnan verið skráð og tjáð á forsendum meirihlutans og jafnvel þótt slíkt sé gert af velvild felst í því valdbeiting sem hefur verið réttilega gagnrýnd. Kári kýs að takast á við þessi siðferðislegu málefni í Móðurhug fremur en leiða þau hjá sér eða réttlæta þau. Þegar Abel kemst að því að Inga hefur skrifað ævisögu hans verður hann reiður, jafnvel þótt ekkert sem standi þar sé beinlínis rangt. Vandamálið í hans augum er að hann valdi orðin ekki sjálfur. „[É]g er þreyttur á því að annað fólk segi sögu mína, setji mig í samhengi, því ég þarf þess ekki, mér nægir að vera ég sjálfur,“ segir hann:

en fólk er alltaf að breyta mér úr manneskju í persónu, þegar ég var krakki, þegar ég var unglingur, þegar ég var í háskóla, og jafnvel núna þegar ég [er] nýbyrjaður í doktorsnámi er eins og samnemendur mínir og kennarar líti á mig sem áhugaverða furðuveru til að greina og skilja, transmann frá Translantis, ekki hugsandi einstakling sem er miklu meira en bara kyngervið eitt, og þegar raunveruleika er breytt í sögu verður hann óhjákvæmilega að lygi því að sannleikann er aðeins að finna í goðsögum, skáldskap og ljóðum, en endursögn á raunveruleika skilur svo margt og mikið út undan að hún verður að ósannindum, ekki einu sinni hálfsannleik, í besta falli upptalningu á staðreyndum sem eru lagaðar að þeim gildum sem ríkja í hverju samfélagi fyrir sig, það er alltaf verið að troða mér í hlutverk sem ég vil ekki leika í stað þess að leyfa mér að vera frumeind, mannvera innan um annað fólk, ekki stöðluð frásögn af transmanni, því kyngervi mitt er staðreynd, ekki örlög. (bls. 50–51)

Abel mótmælir en fær engu ráðið; í ævisögunni kemur fram að hann óski þess að rafeindasál hans þurrkist út og hann finni „eilíft líf annars staðar en í gagnagrunnum“ (bls. 117) en þrátt fyrir það birtir Inga sögu hans á netinu. Líkt og Inga og Theodóra glímir Abel við ástarsorg og þráhyggju gagnvart óendurgoldinni ást en ólíkt mæðgunum sleppir hann tökum og leitar annarra leiða til að skilja heiminn, svo sem í gegnum trúarbrögð og goðsagnir. Hann er þannig á fleiri en einn hátt fulltrúi kosta sem þær hefðu getað valið en gerðu ekki.

***

Móðurhugur tekst á við ýmis krefjandi og áhugaverð viðfangsefni og hún krefst virkni af hálfu lesandans; hún er ekki auðlesin eða grípandi bók við fyrstu kynni en vinnur nokkuð á. Ég átti erfitt með að tengjast persónunum sem olli því að lesturinn var á tímum þungur. Þar hefur vafalaust áhrif að stíllinn er fremur formlegur og stirður en persónurnar eru einnig fjarlægar. Þá á ég ekki við landfræðilega fjarlægð og þá staðreynd að sögusviðið er hinum megin við Atlantshafið heldur fremur „dýpt“ frásagnarinnar; við kynnumst persónunum yfirleitt ekki beint heldur í gegnum frásagnir annarra og í þessum flókna og sjálfsmeðvitaða miðlunarvef tapast nánd sem ég hefði þegið með þökkum. Það er pirrandi hvernig Inga og Theodóra ráðskast með trans persónur eins og Abel – og raunar einnig Jerome og Lionel – og ég hefði viljað að hin síðarnefndu fengju meira rými en á sama tíma er jaðarsetning þeirra innan skáldsögunnar þó vissulega merkingarþrungin í sjálfri sér. Langsterkasta hlið Móðurhugar er einmitt þessar siðferðislegu spurningar sem velt er upp varðandi skrif, rafræna tilvist og þá valdaafstöðu sem myndast þegar manneskja segir og skrifar sögu annarrar án samráðs – og gagnrýnni umræðu um þau mál má gjarnan halda á lofti sem víðast.

Ásta Kristín Benediktsdóttir