Shakespeare verður ástfanginnVegir hugverkanna eru margir og margvíslegir. Oftast fara þó skáldsögur upp á svið eða í bíó en líka kemur fyrir að bíómyndir fara upp (eða niður) á leiksvið. Shakespeare verður ástfanginn byrjaði með handriti eftir Marc Norman og Tom Stoppard í kvikmynd sem naut mikilla vinsælda og hlaut ótal verðlaun og viðurkenningar. Þessa bíómynd lagaði Lee Hall að leiksviði og sú leikgerð var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu fyrir viku undir stjórn Selmu Björnsdóttur. Kristján Þórður Hrafnsson þýddi, bæði nýjan texta og tilvitnanir í verk Shakespeares sjálfs.

Hugmyndin í verkinu er skemmtileg en kjarni hennar er að skýra það hvers vegna gamanleikritið um Rómeó og Júlíu fékk svo einstaklega átakanlegan endi. Ástæðan, vilja höfundar meina, er persónuleg sorg Shakespeares og sú saga opinberast á sviðinu. Varla er nokkur fótur fyrir sögunni en um það veit enginn fyrir víst og þetta er spennandi efni. Ég þýddi einu sinni óskaplega skemmtilega unglingabók sem gerðist á 16. öld og snerist að hluta um Shakespeare og Rómeó og Júlíu; Cue for Treason hét hún á frummálinu en ég kallaði hana Á flótta með farandleikurum. Þar var líka leikið að flækjunni sem verður til þegar stúlka dulbýr sig sem strák til að fá hlutverk á tíma þegar stúlkur máttu ekki leika á sviði og leikur svo strák sem er dulbúinn sem stúlka …!

Hér er Will Shakespeare (Aron Már Ólafsson) ungt og upprennandi leikskáld í Lundúnaborg, skuldugur upp fyrir haus enda leikhússtjórarnir Henslowe (Guðjón Davíð Karlsson) og Burbage (Björn Ingi Hilmarsson) tregir til að borga fyrir leikrit. Helst þyrfti hann að afhenda báðum leikritið sem hann er að reyna að semja og á að fjalla um unga manninn Rómeó og ástir hans og dóttur sjóræningjans. Meðan verkið er varla hálfskrifað heldur Henslowe prufur til að velja í hlutverk og þangað kemur ungur maður, Thomas Kent (Lára Jóhanna Jónsdóttir), sem er valinn í hlutverk Rómeós. Will hrífst af unga manninum sem hrósar texta hans meira en hann er vanur að heyra og leyfir hrifningunni að vaxa frjálst þegar í ljós kemur að Thomas er í rauninni auðmannsdóttirin Víóla de Lesseps. Þau eiga í stuttu ástarævintýri og fyrir röð tilviljana fær Víóla að leika á frumsýningunni – ekki hlutverk Rómeós heldur Júlíu – og verkið slær í gegn. Síðan er hún leidd eða öllu heldur toguð með handafli út úr leikhúsinu af bandóðum eiginmanni sínum, jarlinum af Wessex (Stefán Hallur Stefánsson), sem ætlar með hana á tóbaksekrur sínar í Virginíu, en eftir situr Will með blæðandi hjartasár. Engin hamingja fyrir þau en ódauðlegt listaverk handa okkur hinum.

Utan um þessa fjörmiklu en hryggilegu ástarsögu iðar borgin með sitt litríka lið, leikara, skáld, barþjóna, vændiskonur, okurlánara og handrukkara, klæðskera, kaupmenn og tónlistarfólk svo eitthvað sé nefnt, og yfir öllu saman trónir drottning Englendinga, Elísabet I (Jóhanna Vigdís Arnardóttir) sem skiptir sér af stóru sem smáu. Á sviðinu er tuttugu manna leikhópur auk fimm manna hljómsveitar. Það leiðir af sjálfu að ekki fá allir stór hlutverk en nokkrir ná að skapa eftirminnilegar persónur. Til dæmis er Edda Björgvinsdóttir í essinu sínu sem fóstra Víólu og Sigurður Sigurjónsson líka þegar hann leikur fóstruna í leikritinu inni í leikritinu. Gói fer hornanna á milli á harðahlaupum í baráttunni fyrir lífi sínu þegar okurkarlinn Fennyman (Þröstur Leó Gunnarsson) ætlar að drepa hann upp í skuld. Hilmir Jensson var góður í öllum sínum hlutverkum en bestur þegar hann reri Will og Víólu yfir Themsá í einu besta atriði sýningarinnar. Ragnheiður Steindórsdóttir var myndarlegur vert á kránni og Jóhann G. Jóhannsson naut þess að stinga hverri fínu hugmyndinni af annarri að Will í skemmtilegu hlutverki Christophers Marlowe.

Ég var svo heppin að vera á sýningu með stórum hópi af á að giska fjórtán ára unglingum og þeim fannst ekkert vanta upp á ástarhitann milli aðalleikaranna, Arons Más og Láru Jóhönnu. Þau skræktu, hrópuðu og hvíuðu af gleði yfir kossunum og keleríinu sem líka var vel úti látið á sviðinu. Aron Már er fallegur ungur maður og fór lengst af ágætlega með hlutverkið, ekki síst ástarsenurnar. Lára Jóhanna var svolítið feimnari í þeim (eins og stúlku ber) en naut sín betur þegar Víóla sýnir skapstyrk sinn og ástríðu fyrir fallegum texta. Hún bar líka afar vel fallegu kjólana sem María Th. Ólafsdóttir hannaði handa henni (sá grái var meistaraverk) og það gerði Jóhanna Vigdís sannarlega líka.

Leikmynd Finns Arnars Arnarsonar var gífurlega viðamikil á hringsviðinu sem snerist og sýndi okkur inn í alls kyns skúmaskot borgarinnar og leikhúsin, bæði framsviðs og baksviðs. Stúkurnar hvorum megin sviðs voru líka ágæt viðbót við sviðið og vel notaðar. Það er mikill hraði í sýningunni og erill sem aðeins dettur niður stöku sinnum þegar texti meistarans þarf að njóta sín. Tónlistin er eftir þá bræður Jón og Friðrik Dór Jónssyni, flutt af hljómsveit undir stjórn Karls Olgeirs Olgeirssonar og söngkonunni Guðrúnu Ýri Eyfjörð. Mér þótti hún helst til hávær en það er aldurinn, býst ég við. Unglingarnir á bak við mig hefðu ekki tekið undir þessi orð. Ólafur Ágúst Stefánsson hannar lýsingu og er heldur spar á hana en er sjálfsagt að kalla fram hugmynd um aðstæður á sögutíma þegar híbýli voru lýst upp með því að brenna hákarlalýsi á kveik.

Shakespeare verður ástfanginn er prýðilegt verk fyrir unglinga og snjöll leið til að kynna þennan mikla orðsins listamann fyrir nýjum kynslóðum. Þær fá að vita að hann var mannlegur. Jafnvel er ýjað að því að hann hafi hrifist af eigin kyni. Sýnt er hvernig atburðir hversdagslífsins geta umbreyst í undurfallegar ljóðmyndir en líka að jafnvel meistarar eiga stundum erfitt með að koma orðum að hugsun sinni. Dæmi um það er barningur Wills við að setja saman sonnettuna sem sonnettuskáldið Kristján Þórður þýðir svo yndislega: „Má segja að þú sért sumardegi lík? / Svo svipul er ei hin ljúfa fegurð þín …“

Silja Aðalsteinsdóttir