Óperan Skjóta eftir Sigrúnu Gyðu Sveinsdóttur var frumsýnd fyrir skömmu í Ásmundarsal og ég sá hana í gær. Þetta er heimspekilegt verk sem teflir saman á frumlegan hátt fótboltaleik og baráttunni við loftslagsvá. Sigrún Gyða semur bæði texta og tónlist en Baldur Hjörleifsson er með henni í músíkinni; innsetningin utan um verkið er líka eftir Sigrúnu Gyðu og hún sá sjálf um leikstjórn ásamt Snæfríði Sól Gunnarsdóttur. Eftirminnilega flottir og skemmtilegir búningarnir voru verk Mirjam V. Mengershausen. Verkið tekur 90 mínútur en í hléinu – eða hálfleik – kom Halldór Björnsson haf- og veðurfræðingur og ræddi við áhorfendur um viðbrögð við loftslagsvánni.

Leikmaður (Vera Hjördís Matsdóttir, sópran) er hugsi í byrjun leiks, veltir fyrir sér þversögnum nútímamannsins sem harmar loftslagsbreytingar en heldur samt áfram að ferðast, ekki síst fótboltamennirnir sem fljúga fram og aftur um heiminn í keppnisferðir. Þjálfari liðsins (Sigrún Gyða, sópran) íhugar í sinni fyrstu aríu yfirmann sinn, eiganda liðsins, sem ekki hugsar um neitt nema að græða sem mest, hefur engan áhuga á liðsheildinni, bara stjörnum sem trekkja að áhorfendur. Næst fáum við að heyra hugsanir eigandans (Kristín Sveinsdóttir, messósópran). Hún veit vel hvers liðið þarfnast en getur ekki gert hið rétta, fíknin í gróða hefur hana á valdi sínu og hún játar á sig bæði mútur og svindl ef það kemur henni vel. Í dúett leikmanns og þjálfara kemur fram hvað þær eru samtaka í liðsandanum og við skynjum að ef þeirra stefna fær að ráða kemur það jörðinni til góða. Bæði einsöngsaríurnar og dúettinn voru vel samin en ennþá áhrifaríkari var aría allra þriggja strax eftir hlé um ólíka framtíðardrauma. Þar og í framhaldinu kristallaðist erindi höfundar um það sem við þurfum og verðum að gera til að það verði einhver framtíð yfirleitt.

Tónlistin í Skjóta er vel heppnuð, fallegar aríur og fjölbreyttir millikaflar sem Helga R. Óskarsdóttir, Gunnhildur Daðadóttir, Anna Elísabet Sigurðardóttir, Júlía Mogensen, Snorri Skúlason, Baldur Hjörleifsson og Sigrún Gyða sjálf sáu um. Það var helst að hinn eiginlegi fótboltakafli yrði nokkuð langur og tilbreytingarlaus en vel að merkja þá endist ég yfirleitt ekki til að horfa mjög lengi á fótboltaleik. Vera Hjördís hefur afar fallega sópranrödd og túlkaði leikmanninn af einlægni og innlifun. Þjálfarinn var í traustum höndum Sigrúnar Gyðu sem var sérlega öflug í fótboltakaflanum. Kristín var æðisleg í hlutverki eigandans, bæði er röddin máttug og fögur og svo var gervið á henni glimrandi skemmtilega útfært – hún minnti mest á vondu drottninguna í Disneymyndinni um Mjallhvíti! Enda er persóna hennar fulltrúi þeirra sem hugsa eingöngu um líðandi stund og eigin hag.

Það var biðlisti á þessa lokasýningu á Skjóta. Ég vona sannarlega að hún fái framhaldslíf sem fyrst.

 

Silja Aðalsteinsdóttir