Eitt sviðslistaverkið á Listahátíð í Reykjavík í ár er einfaldlega kennt við höfundinn, íranska leikskáldið Nassim, og flokkast frekar sem viðburður eða leikhúsupplifun en leikrit. Höfundurinn heitir fullu nafni Nassim Soleimanpour og á við þann vanda að stríða að þótt verk hans séu leikin um víða veröld eru þau aldrei leikin í heimalandi hans. Hann hefur aldrei heyrt verk eftir sig á móðurmáli sínu. Hann skýrir ekki ástæðuna fyrir því en við getum giskað á að hann þyki erfiður á einhvern hátt í Íran – óþægur ljár í þúfu eins og maður segir.

Af sorg yfir því að móðir hans skuli aldrei hafa heyrt verk eftir hann á máli sem hún skilur skapaði hann verkið sem hér var sýnt og hefur nú sýnt það rösklega 500 sinnum vítt um heim. Nassim er sjálfur þátttakandi en á hverri sýningu stígur fram nýr leikari með honum sem ekki veit neitt um verkið, hefur ekki fengið að sjá neitt handrit og ekki fengið neina æfingu. Það þarf því æði hugrakkan leikara í hlutverkið, manneskju sem þolir óvissu og horfist ótrauð í augu við óttann við að gera sig hugsanlega að fífli. En sá ótti er ástæðulaus, því framvindan felst í því að höfundur þjálfar leikarann smám saman upp í að segja að lokum dálitla sögu á farsí sem síðan er flutt fyrir móðurina í síma – sögur sameina okkur hvar sem við búum. Og sagan í sýningunni byrjar auðvitað á „Einu sinni var“ eins og allar góðar sögur eða „Yeki bood yeki nabood“ á farsí. Þótt sýningin væri langdregin á köflum og stykki stundum svolítið útundan sér var endirinn markviss og áhrifamikill.

Á Listahátíð voru þrjár sýningar á verkinu í Tjarnarbíói: Brynhildur Guðjónsdóttir lék fyrsta kvöldið, svo Halldóra Geirharðsdóttir og loks Ingvar E. Sigurðsson. Ég var svo heppin að sjá tvö þau síðartöldu. Það var býsna fróðlegt að fá þennan samanburð og leitt að mér skyldi ekki takast að sjá Brynhildi líka. Auk aðalleikarans taka þrír sjálfboðaliðar þátt í leiknum í stutta stund, nýir á hverri sýningu.

Halldóra og Ingvar eru afar ólíkar persónur og ólíkir leikarar en bæði snilldargóð. Bæði virtust ráða furðuvel við framburðinn á farsí, alltént skildi móðir Nassims þau þegar þau lásu fyrir hana í lok sýningar. En það er kannski ekki að marka, hún er öllu vön, hefur heyrt yfir fimmhundruð leikara fara með þessar setningar fyrir sig í síma á öllum tímum sólarhrings í nokkur ár! En hvernig voru þau ólík? Það er erfitt að svara því nákvæmlega. Eitt er að sýningin með Halldóru var um 70 mínútur eins og gefið er upp í bæklingi Listahátíðar. Sýningin með Ingvari var nær 90 mínútum. Halldóra var sneggri, tók málið föstum tökum, gerði það sem gera þurfti, flutti textann rösklega – tók eiginlega stjórnina, svona eftir á að hyggja. Ingvar virtist taka efnið alvarlegar, taka það meira inn á sig, finna meira til með hinum útlæga höfundi – alla vega að því er séð varð. En bæði fengu þau salinn með sér, uppskáru gleði og samúð, hlátur og grát.

Það var svo óvæntur og heillandi bónus sem við fengum hér en engir aðrir áhorfendur hafa fengið nokkurs staðar: Nassim Soleimanpour hafði boðið móður sinni með sér til Íslands og hún kom til hans upp á svið í uppklappinu. Henni var vel fagnað.

 

Silja Aðalsteinsdóttir