Það var í óvænt gjöf að fá að sjá kvöld eftir kvöld nýjustu sýningar Þjóðleikhússins, einleikinn Völvu sem sýndur er í Kassanum og Brennuvargana eftir Max Frisch sem spóka sig á stóra sviðinu. Báðar eru sýningarnar vandaðar, einstaklega fallegar – og áhrifamiklar.

VölvaVölva byggir á sjálfri Völuspá, eldfornu kvæði sem allir íslenskir framhaldsskólanemar kynnast enn þann dag í dag. Það er lagt í munn spákonu sem sér fortíð, nútíð og framtíð, sér heim rísa, þroskast og farast – og rísa á ný. Pálína Jónsdóttir og Walid Breidi eiga hugmyndina að sýningunni. Þau nota snjalla “þýðingu” Þórarins Eldjárn á kvæðinu en bæta við textann dansgaldri og hljóðinnsetningu sem á köflum er næstum því eins göldrótt en textinn og jafnvel göldróttari en dansinn. Pálína fer með textann og dansar hann um leið, og eins og fram hefur komið í fjölmiðlum framkallar hún hljóðin með því að spila á kjólinn sinn. Þetta er rosalega smart, og kjóllinn líka út af fyrir sig hreinasta listaverk sem þær hanna Filippía I. Elísdóttir og Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir. Tónlistina semur Skúli Sverrisson en hljóðinnsetninguna á Walid Breidi.

Framan af fannst mér Pálína helst til ung í hlutverk völvunnar. Röddin ekki nógu dramatísk, of há og ungleg. En Pálína sótti í sig veðrið um leið og sýn völvunnar varð ískyggilegri og svo fór að hún kallaði fram gæsahúð um allan kroppinn á mér. Sviðið með sínum haglegu spjöldum á bakvegg, hljóðin undarlegu og tónlistin og stúlkan í galdrakjólnum, allt varð þetta að lokum ein voldug eining sem gerði mann stoltan og hrifinn. Þetta eigum við. Þennan ómetanlega menningararf og listamenn í nútímanum sem kunna að meta hann og nota.

Kvöldið eftir sáum við enn heim skapast og tortímast í verki Frisch. Enn vakti undrun og aðdáun hvað sviðið var rosalega flott. Heiðurinn af því á Ilmur Stefánsdóttir sem fær nóg að gera í leikhúsunum þessi misserin. Við erum heima hjá Biedermann hjónunum, Gottlieb (Eggert Þorleifsson) og Babette (Ólafía Hrönn Jónsdóttir), og aðalsviðið er stofan þeirra. Aftast á sviðinu er lyfta sem gengur niður í kjallara þar sem eldhúsið er og vistarverur Önnu vinnukonu (Edda Arnljótsdóttir), en fyrir ofan er óinnréttað loft. Strax í fyrstu setningum verksins erum við upplýst um eldhættu. Það hafa kviknað óútskýrðir eldar um alla borgina auk þess sem fólk talar um brennuvarga sem setjast að á háaloftum húsa til þess eins að kveikja í þeim. Þetta vita Biedermann hjónin ósköp vel, samt tekst þeim ekki að verjast innrás slíkra varga á sitt eigið heimili. Hvernig á því stendur er list þessa leikrits sem er hreint ótrúlega vel samið.

Brennuvargarnir

Fyrstur mætir Schmitz (Björn Thors), atvinnulaus glímukappi sem hefur marga fjöruna sopið að eigin sögn. Hann biður ekki um mikið, bara mannúð og húsaskjól. Og þó að Biedermann vilji alls ekki hýsa hann getur hann ekki neitað því að sýna miskunnsemi. Hann vill ekki vera slæmur maður, og áður en hann getur sagt “háaloft” en gaurinn fluttur þangað upp. Þegar vinur Schmitz, Eisenring (Magnús Jónsson) er allt í einu kominn upp á loftið líka og loftið er orðið fullt af bensíntunnum ákveður Biedermann að það eina sem geti orðið til bjargar sé að vera bara ennþá elskulegri við þessa óvelkomnu gesti. Ekki brennir maður húsið ofan af vinum sínum, eða hvað?

 

List þessa verks er meðal annars að það má heimfæra upp á hörmungar af mannavöldum af ýmsu tagi. Augljósasta tengingin er við uppgang nasista í Þýskalandi, illskuna sem ótrúlega margir þóttust ekki sjá eða vildu ekki sjá – fyrr en um seinan. En jafnvel í okkar efnahagsþrengingum má sjá tengslin; hér brunnu mikil auðæfi upp til agna.

Ég sat aftarlega í salnum og yfirleitt finnst mér það erfitt, en ekki í þetta sinn. Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri lætur sitt fólk leggja almennilega undir sig bæði svið og sal. Það heyrðist hvert orð hjá leikurunum, nema kannski Magnúsi sem stundum talaði ekki við allan salinn. Og sviðið nýtur sín vel langt frá. Sýningin er vel leikin og sérstök nautn að horfa á atriði þeirra Babette og Schmitz þar sem Ólafía Hrönn og Björn spila á allan tilfinningaskala áhorfenda. Sömuleiðis voru atriðin með Biedermann og Önnu í senn sorgleg og hlægileg.

Það eina sem ég var ósátt við var kórinn sem var stundum ósamhæfður og hreinlega leiðinlegur á þessari sýningu. Að vísu hló ég svolítið innan í mér að honum framan af, af því hvað hann minnti mig á auglýsingarnar um nágrannavörslu sem tröllríða samfélaginu þessa dagana, svo skemmti ég mér ekki meira yfir þeim. En allt annað fannst mér gott. Og ég vona að þessi sýning laði að sér fjölda manns.

Silja Aðalsteinsdóttir