Þjóðleikhúsið frumsýndi í gærkvöldi leikverkið Eddu eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur, Jón Magnús Arnarsson og Þorleif Örn Arnarsson sem einnig var leikstjóri sýningarinnar. Leikmyndina með sínum stílfærða Aski Yggdrasils fyrir miðju hannaði Vytautas Narbutas. Áheyrileg tónlist og flókin hljóðhönnun var í höndum Sölku Valsdóttur, Egils Andrasonar og Arons Þórs Arnarssonar en Salka var tónlistarstjóri. Karen Briem sá um búninga en Andri Unnarsson var sérstakur sjálfbærnihönnuður búninga og átti að sjá um að allir búningar á sviðnu væru endurnýttir – þar voru engir „nýir“ búningar. Glæsileg, margbrotin og merkingarbær lýsingin sem oft bjó til mögnuð myndverk á sviðinu í bland við leikhúsreyk var hönnuð af Ástu Jónínu Arnardóttur. Í verkinu er mikið um myndrænar uppstillingar og jafnvel dans, það er Ernesto Camilo Aldazábal Valdés sem sér um sviðshreyfingar en hann er líka aðaldansarinn í hlutverki Fenrisúlfs. Atriðin hans undir lokin voru eftirminnilega flott.

Það er ekki lítið verkefni sem þau hafa tekið að sér, höfundar Eddu; þau vilja endurskapa heiðna heimsmynd fyrir okkur, samtímamenn sína, láta okkur skilja hana, og ekki aðeins það, þau vilja líka tengja hana við nútímann og benda okkur á lærdóma sem við getum dregið af henni. Fyrst og fremst vilja þau þó segja okkur að maðurinn hafi alltaf verið samur við sig, valdafíkinn, gráðugur og sjálfselskur og það muni á endanum tortíma honum. Í sögunum gömlu sem Snorri Sturluson skráði í Eddu sína og vann mikið til úr fornum kvæðum birtast skýrar andstæður góðs og ills en einnig að hættulegasta fólkið er það sem býr yfir hvoru tveggja og þarf stöðugt að heyja hatramma innri baráttu.

Þessar aðalpersónur eru í verkinu Óðinn (Arnar Jónsson) og Loki (Atli Rafn Sigurðarson). Báðir eru af jötna kyni en Óðinn hefur í krafti vits og áræðni tekið sér æðsta vald í Ásgarði. Loki er bragðarefurinn, hrekkjalómurinn, sá ófyrirsjáanlegi, en lengi vel fær hann að vera í Ásgarði, þrátt fyrir uppruna sinn og æ verri skammarstrik, vegna þess að þeir Óðinn sórust í fóstbræðralag ungir. Þó fer svo að lokum að honum hefnist fyrir stríðnina – enda hefur hann þá ekki aðeins rakað gyllta hárið af Sif (Þuríður Blær Jóhannsdóttir), lofað jötninum Þrym (Pálmi Gestsson) sjálfri ástargyðjunni Freyju (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) fyrir brúði heldur valdið dauða hins mjúka og milda Baldurs (Almar Blær Sigurjónsson), sonar Óðins og eftirlætis móður sinnar Friggjar (Guðrún S. Gísladóttir). En þegar Loki hefur verið bundinn á bjarg með eitursnák yfir sér þá er skammt í endalokin. Ragnarök.

Þeir Loki og Óðinn eru báðir kvennabósar en kvennafar Óðins er lítið til umræðu í verkinu. Hins vegar snýst einn kjarni sýningarinnar um börnin þrjú sem Loki eignast með jötnameynni Angurboðu (Ólafía Hrönn Jónsdóttir), þau Miðgarðsorm (Almar Blær), Hel (María Thelma Smáradóttir) og Fenrisúlf. Óðinn getur ímyndað sér vandræðin sem af þeim muni leiða og kemur þeim öllum fyrir: Orminum í hafinu umhverfis jörðina, Hel í Niflheimi þangað sem sóttdauðir og sjálfdauðir fara en úlfinum hjá sér í Ásgarði. Hjá Snorra er ekki að sjá annað en Loki hafi megnustu skömm á þessum ófétum sínum en hér er brotið blað: Loka tekur sárt til barnanna sem eru tekin af honum og hann verður líka harmi lostinn þegar Óðinn hrifsar af honum folaldið Sleipni rétt eftir að Loki fæðir það. Þetta er fersk túlkun og auðgandi og gaf Atla Rafni tækifæri til dýpri og næmari persónusköpunar. Loki verður aðalpersóna verksins og Atli Rafn lék hann af ómótstæðilegri list, vakti ýmist andúð, ógeð eða innilega samúð. Búningurinn hæfði honum líka fullkomlega sem þeirri tvíkynja veru sem hann er.

Stór eru líka hlutverk hjónanna Sifjar og Þórs (Hallgrímur Ólafsson). Hann er auðvitað atvinnuhermaður, alltaf kallaður til þegar þarf að drepa jötna og óvætti, og hegðun hans og samband hjónanna ber merki þess. Samtöl og samskipti þeirra eru samin undir áhrifum nýlegra lýsinga á ofbeldissamböndum, andskoti vel skrifuð og leikin.

Minna verður úr systkinunum Frey (Sigurbjartur Sturla Atlason) og Freyju, frjósemisgoðunum sem voru send í Ásgarð til að sætta Vani og Æsi. Engin Gerður Gymisdóttir og ekkert Brísingamen. En gervin voru vel hugsuð og þau fóru ágætlega með sitt. Höfundar nota sér þá kenningu sem nú mun vera uppi meðal fræðimanna að Freyja og Gullveig sú sem nefnd er í Völuspá séu sama persónan en vandséð var hvort það skipti raunverulegu máli í verkinu.

Yfir og allt um kring eru Óðinn og Frigg, fyrirmannleg, þung, valdamikil. Arnar og Guðrún Snæfríður fóru meistaralega með textann, hvort sem hann var forn eða nýr – einkum naut ég þess að heyra Guðrúnu fara með vísurnar úr Völuspá.

Hlutverk Heimdalls var talsvert stórt framan af og Kjartan Darri Kristjánsson fór vel og skemmtilega með það en svo virðist hann hafa gleymst. María Thelma lék Iðunni og gaf henni lostafagurt yfirbragð. Ennþá magnaðri var hún sem Hel og sendi hroll niður hrygginn á manni þegar hún talaði um blessuð litlu börnin sem deyja í fæðingu. Loks tóku Pálmi Gestsson og Þröstur Leó Gunnarsson á sig gervi ýmissa persóna, hrafnanna Hugins og Munins, Gylfa konungs og Snorra Sturlusonar, dverga og jötna! Allt var það í traustum höndum, en ég áttaði mig ekki á markmiði ílangrar ræðu Munins í upphafi seinni þáttar.

Hér er unnið úr mörgum litríkum sögum úr safni Snorra og vísur og hendingar úr Völuspá vel notaðar til að keyra söguna áfram. Ég vona að enginn móðgist þó að ég nefni að sniðugt sé að renna yfir Gylfaginningu fyrir sýningu (ég gerði það sjálf), það gæti dýpkað upplifunina því að margar vísanir verða skemmtilegri ef maður veit til hvers er vísað. Oft tekst afbragðsvel að koma langri sögu til skila í furðu stuttu atriði en aðrar fara forgörðum, til dæmis sagan af borgarsmiðnum.

Stíllega verður textinn margbreytilegur, stundum svo úr hófi keyrði, til dæmis þegar texta Eddukvæða var blandað saman við útlend dægurlög – en vissulega fór Þuríður Blær prýðilega með Baby one more time í gervi Sifjar. Helsti gallinn á textanum eru of löng eintöl og honum var líka, að mínum smekk, íþyngt aðeins um of af siðferðisboðskap þegar á leið – þótt þarfur sé. Að þessu má vel huga, einkum er brýnt að þjappa eintölin betur.

Sýningin ber öll merki Þorleifs Arnar – hún er frumleg, óstýrilát, fyndin og oft skemmtilega ósvífin. Þó að hann láti vinna leikinn vel er hann ósmeykur við að minna okkur á að við erum í leikhúsi – þegar honum þóknast. Við fáum til dæmis að sjá nákvæmlega hvernig hárið er rifið af Sif en getum velt lengi fyrir okkur hvort Loki hafi virkilega drukkið hrákana sem áttu að fara í Kvasi. Þetta er æðislegt leikhús!

 

Silja Aðalsteinsdóttir