Vísindasýning VillaEf ég vissi ekki að Vilhelm Anton Jónsson hefur skrifað nokkrar afar vinsælar bækur fyrir börn um vísindi þá hefði mér dottið í hug að hann væri uppiskroppa með efni á sýningunni sinni, Vísindasýningu Villa, á litla sviði Borgarleikhússins. Hann var rétt svo byrjaður að fræða fullan sal af börnum um hugðarefni sín þegar Vala Kristín Eiríksdóttir birtist úr allt öðru leikriti og fór að skipta sér af sýningunni. En tilfellið var að þetta gekk ofan í krakkana eins og ís með dýfu. Annar félagi minn, Arnmundur tæplega níu ára, var stórhrifinn af tiltækinu, fannst eins og verið væri að búa til sýninguna á sýningunni – mjög avant garde og smart.

Vala Kristín er að æfa sína eigin sýningu annars staðar í húsinu þegar hún heyrir í Villa, hann er að sannfæra áhorfendur um að rafmagnsgítar sé svalasta hljóðfæri í heimi og hefur hátt. Hún hefur sett saman nokkra fræga mónólóga úr leikbókmenntunum sem hún leyfir Villa að heyra brot af og orðið „mónólóg“ – eða var það „mólónóg“? – verður tilefni til nokkurra góðra brandara.

Vala kom með hið barnslega sjónarhorn inn í sýninguna, sjónarhornið sem Villi kallaði eftir hjá börnunum í salnum í upphafi: forvitnina og undrunina. Hina brýnu spurningu „af hverju?“. Hún fékk að gera tilraunir með honum, meðal annars búa til reykhringi með því að slá reyk úr öskutunnu með gati á botninum og skjóta úr ryksugufallbyssunni. Hún eyðilagði óvart stóru gullgerðarvélina hans og að lokum tókst henni að fá hann með sér í stelpuleiki, dansa og syngja og leika. Þannig varð sýningin fyrir allan skarann.

En tilraunirnar gleymdust ekki alveg, þær komu inn á milli og lokatilraunin var svo æðisleg að ég tók engu minni andköf en félagar mínir. Skemmtilegt svið Sigríðar Sunnu Reynisdóttur tók mið af tilraunastofu en búningarnir voru í takt við þá tvo heima sem mættust í verkinu.

Vilhelm Anton er ekki leikaramenntaður, hann er heimspekingur og tónlistarmaður, þó hefur hann leikið meira en margur leikarinn og líður greinilega vel á sviði. Vala Kristín er afskaplega skemmtileg leikkona sem gaman er að horfa á og bjó til eðlilega andstæðu við alvarlegan vísindamann Villa. Vignir Rafn Valþórsson hélt svo utan um sprellið af hæfilegri alúð.

Aðalsteinn, alveg að verða sex ára, var hrærður yfir því að Villa skyldi finnast skemmtilegast að tala við börn og spila á rafmagnsgítar. Hann reyndist líka vera opinn fyrir boðskap Villa. Það undraði hann og gladdi að heyra að „forvitinn“ væri besta orð í heimi og heilinn geggjað tæki. Ég held að það sé ákaflega hollt fyrir börn að heyra að þau séu með stórkostlegasta tæki veraldar í höfðinu á sér: ímyndunaraflið sem getur allt.

Silja Aðalsteinsdóttir