Á undanförnum árum og áratugum hafa ótal ritgerðir og bækur verið skrifaðar um hegðun einræðisherra og harðstjóra út frá karakterum eins og Adolf Hitler, Jósep Stalín og Maó. Því væri eðlilegt að samtímaleikskáld okkar gæti samið gott verk um fyrirbærið. En það kemur á óvart að Shakespeare (f. 1564, d. 1616) skuli hafa vitað nákvæmlega hvernig svoleiðis maður þróast en það sýnir hann svo ekki verður um villst í leikriti sínu um skoska herstjórann Macbeth sem var frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins í gær undir stjórn Benedicts Andrews.

MacbethMacbeth (Björn Thors) er hetja í upphafi verks, snjall, djarfur og ósérhlífinn hermaður sem Dúnkan konungur (Pálmi Gestsson) verðlaunar maklega með því að hækka hann í tign eftir sigur í stríði. Macbeth veit ekki af stöðuhækkuninni þegar hann rekst á þrjár undarlegar verur á leið sinni burt úr bardaganum ásamt vini sínum Bankó (Hilmir Snær Guðnason). Verurnar ávarpa hann fyrst með hans gamla tignarheiti en leiðrétta það svo í það nýja og bæta við hinu þriðja: að hann verði næsti kóngur! Bankó segja þær að ekki verði hann kóngur sjálfur en afkomendur hans hljóti slíka tign. Macbeth gerir lítið úr spádómunum þangað til hann kemst að því að sá fyrsti er réttur: Dúnkan hefur gefið honum jarlstign hins svikula Kafdors, þá fer hann að láta sig dreyma um að fleiri spár rætist. Undir þær óskir er frú hans (Margrét Vilhjálmsdóttir) fljót að taka þegar þau hittast og hún stappar stálinu í mann sinn þegar henni finnst hann vera að linast. Kóngur gistir hjá þeim hjónum næstu nótt og Macbeth getur ekki stillt sig um að flýta fyrir því að spádómurinn rætist og myrðir hann í rúmi sínu. Frúin hjálpar honum að leyna morðinu. Synir Dúnkans (Jóhannes Haukur Jóhannsesson og Snorri Engilbertsson) átta sig á að þetta er samsæri og flýja land; þar með verða þeir grunsamlegir og Macbeth er kosinn konungur.

Þá hafa spár nornanna ræst en því fer fjarri að hér verði endir á blóðsúthellingum. Macbeth sér óvin í hverju horni, ekki síst meðal sinna nánustu vina og samherja. Hann er rétt að byrja.

En hann reiknaði ekki með einu: undirmeðvitundinni. Samviskunni. Macbeth er ekki glæpamaður að eðlisfari, hann er ofurmetnaðargjarn herforingi sem beitir þeim aðferðum sem hann kann til að ná og halda völdum. Í stríði hefur hann drepið margan manninn og það kemur honum hastarlega á óvart að dauðir vinir hans skuli ekki láta hann í friði eftir andlátið. Við fáum að fylgjast með vaxandi angist beggja hjóna uns yfir lýkur, svefnleysi, sýnum og órum sem draga frú Macbeth til dauða og ræna mann hennar vitinu.

Þetta er rosalega flott leikrit og ný þýðing Þórarins Eldjárn færir það alveg upp í fangið á manni, svo skýr er hún og snjöll. Það er freistandi að taka hér nokkur dæmi þessu til áréttingar en ég bendi áhugasömum frekar á að fá sér leikritið, það er komið út í kilju og afar gott að renna yfir það fyrir sýningu. Kassinn sem leikið er í á stóra sviðinu þjónar prýðilega því hlutverki að tákna innantóma tilveru þeirra sem sækjast eftir engu öðru en frama, En hann hefur þann vonda annmarka að það bergmálar í honum þannig að margar replikkur fara framhjá manni ef maður þekkir þær ekki fyrir. Þjálfuðustu leikararnir kunna ráð við þessu, aðrir síður. En gott var að leikstjórinn setur sumar ræðurnar og sum samtölin upp alveg á sviðsbrúninni og þau sluppu við bergmálið.

Það er mikið lagt á aðalleikarana í þessu verki – og þessari sýningu – en Margrét og Björn stóðust þá raun með miklum ágætum. Við sáum ung hjón, full af ást og aðdáun hvort á öðru, sem einmitt sú aðdáun leiðir í glötun. Veislusenan þegar einn gestanna kemur óboðinn og alblóðugur, nýmyrtur, og frúin þarf að afsaka óra manns síns fyrir gestum var alveg rosalega sterk, nærgöngul og sannfærandi. Pálmi Gestsson var heillandi konungur, svo barnslega hrifinn og glaður með sína menn. Hilmir Snær var flottur Bankó, ekki síst dauður. Macduff, sá sem ekki var alinn af konu heldur skorinn úr móðurkviði fyrir tímann, var vel leikinn af Atla Rafni Sigurðarsyni, en enn eftirminnilegri verður Vigdís Hrefna Pálsdóttir í hlutverki konu hans. Og samtal hennar við son sinn á sviðsbrúninni var bæði fyndið og harmþrungið.

Ekki kunni ég að meta meðferð leikstjórans á nornunum enda er honum vandi á höndum þar sem hann lætur verkið gerast í nútímanum og núna er sjálfsagt orðið sjaldgæft að hitta nornir á heiðum uppi. Tvær þeirra (Guðrún S. Gísladóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir) eru einna helst betlikerlingar en sú þriðja (Atli Rafn Sigurðarson) er í líki götudrósar. Miklu meira gaman hafði ég af Ólafíu Hrönn í hlutverki dyravarðarins sem fær að flytja einna minnisstæðustu ræðu leikritsins (um áhrif áfengis) og gerði það með tilþrifum!

Meðal annarra leikenda er ástæða til að nefna Arnar Jónsson sem sópaði að í hlutverki aðalsmannsins Ross, Hilmi Jensson sem fór fantavel með lýsinguna á frækinni framgöngu Macbeths í upphafi og var virkilega viðbjóðslegur fyrsti morðingi, og Þórunni Örnu Kristjánsdóttur, sakleysislega og trygglynda þernu Macbeths hjónanna.

Sviðsmynd Barkar Jónssonar var bæði smart og táknræn en hafði áðurnefndan afleitan galla. Búningar Helgu I. Stefánsdóttur voru fjölbreyttir og við hæfi. Einkum naut hún þess að klæða frú Macbeth og þar voru sannarlega glæsilegar flíkur í bland. Tónlist Orens Ambarchi var vel saman sett og voldug þegar það átti við en stundum helst til hávær.
Ég hef séð þetta leikrit á sviði oftar en ég nenni að rifja upp. Hið djúpa mannvit sem í því er hefur þó nærri því alltaf snortið mig. En ég hef ekki séð aðalhlutverkin eins sannfærandi leikin áður, og ekki síst þeirra vegna bið ég alla áhugamenn um leikhús sem þetta kunna að lesa að missa ekki af þessari sýningu.

Silja Aðalsteinsdóttir