Trúðarnir Barbara (Halldóra Geirharðsdóttir) og Úlfar (Bergur Þór Ingólfsson) eru enn komin á kreik á Litla sviði Borgarleikhússins, nýbúin að færa okkur Gleðileikinn guðdómlega eftir Dante. Nú hafa þau fengið trúðinn Bellu (Kristjana Stefánsdóttir) í lið með sér og leika á sinn sérstaka hátt fyrir okkur sjálft jólaguðspjallið í verkinu Jesús litli. Benedikt Erlingsson leikstýrir og skrifar í samvinnu við Berg Þór og Halldóru.
Það þarf meiri fræðing en mig til þess að bera þessi verk saman vísindalega, bæði upprunalegu verkin og úrvinnsluna, en það sem blasir fljótlega við á þessari yndislegu sýningu er að saga Jesú gengur mun nær flytjendum og höfundum leiksýningarinnar en för Dantes um Víti, Hreinsunareld og Paradís. Gleðileikurinn er auðvitað fullur af óhugnanlegum sögum og vítum til varnaðar, en saga litla drengsins sem fæðist í Betlehem eftir erfiða för foreldranna um langan veg til að láta skriffinnana skrásetja sig og er kominn á flótta undan valdsmönnum heimsins áður en hann fer að ganga er saga sem er því miður alltaf að gerast, ekki síst einmitt á hans heimaslóðum. Það gera Barbara, Úlfar og Bella deginum ljósara í frásögn sinni. Aðferðirnar sem þau nota til að koma okkur til að þjást með barninu og foreldrum þess og þá um leið öllum börnum og foreldrum í grimmilegum aðstæðum skulu ekki raktar hér, þær verða að koma ykkur á óvart.
Trúðarnir gera það brall í bauk að segja okkur söguna af fæðingu Jesú tvisvar, fyrst eins og hún er sögð í Mattheusarguðspjalli og síðan eins og við þekkjum hana best frá Lúkasi. Þar er hún mun dramatískari og tilfinningahlaðnari – löguð að smekk alþýðunnar, eins og Barbara segir. Söguna segja þau með ýmsum ráðum, leik og söng og látbragði, og blanda inn í hana ótal óvæntum atriðum. Skirrast heldur ekki við að nota nútímavísanir til að koma skilaboðum áleiðis. Þetta verður ómótstæðilegur kokteill sem hlægir mann og grætir og hrærir upp í tilfinningum manns svo maður verður ekki samur lengi á eftir.
Við vitum öll hvað Bergur og Halldóra geta en Kristjana var fyrir mér óskrifað blað sem leikkona. Hún reynist þyngdar sinnar virði í gulli á þessu sviði. Fyrst og fremst er hún guðdómleg söngkona og reynist hafa makalaust raddsvið og ráða við hvers konar tónlistarstíl. Hún sér um tónlistina í sýningunni og ég halla ekki á neitt eða neinn þó ég segi að það sé áhrifamesti þáttur hennar. Hún brá sér léttilega í ýmis hlutverk eins og þau hin, var dýrlegur Gabríel erkiengill en best þó sem ungbarnið Jesús.
Hvað getur maður þá sagt að lokum annað en: Ástarþökk fyrir ógleymanlegt kvöld.