Ef þið eruð að velta fyrir ykkur hvers konar fólk fyllir raðir ofstækismanna sem nú vaða uppi víða um lönd og mótmæla móttöku flóttamanna og öðrum skyldum mannúðarmálefnum þá ættuð þið að sjá sýninguna Old Bessastaðir í Tjarnarbíó. Þetta er nýtt leikverk eftir Sölku Guðmundsdóttur sem æpir beint inn í samtímaumræðuna og það er Sokkabandið sem sýnir undir stjórn Mörtu Nordal.

Old BessastaðirÞorbjörg (María Heba Þorkelsdóttir) og Áróra (Arndís Hrönn Egilsdóttir) virðast vera kunnugar fyrir en þegar leikurinn hefst er Dagrún (Elma Lísa Gunnarsdóttir) að bætast ný í hópinn. Hóp sem ætlar að ákveða í eitt skipti fyrir öll hver „við“ erum og hjálpa til að varðveita „okkur“ af því að maður er svo skíthræddur um að það verði bara allt tekið af manni. Fundarstaðurinn er afar frumstæður, gæti verið skúr eða jafnvel tjald. Staðan er orðin önnur í leikslok, þá tala þær á sviði vandlega skreyttu fánum og kristilegum táknum sem Finnur Arnar Arnarson hefur skapað af mikilli og margræðri smekkvísi.

En þarna fyrst er allt í gerjun. Og af því að konurnar eru alls ekki vissar um hvað þær vilja upp á dekk og hafa ekkert nema merkingarlitla frasa til að halda sér í er langeinfaldast að ráðast gegn nýliðanum sem kann ekki ennþá jargonið – frasaforði Dagrúnar er framan af meira úr barnaefni en pólitískri umræðu. Hún er auðmýkt á áberandi og árangursríkan (og fyndinn) hátt og hefur verið rækilega sýndur sinn staður í lok þess atriðis. Þá fáum við líka innsýn í heim og hugarheim Dagrúnar í fyrstu einræðu verksins og þar er ófagurt um að litast. Elma Lísa lék hana af óhugnanlegri sannfæringu.

Dagrún er öryrki og Áróra er í umönnunargeiranum en við fáum ekki það ég muni að vita hvað Þorbjörg gerir. Í afhjúpandi samtali þeirra Áróru kemur fram að skoðanir Þorbjargar hafa farið einhverja kollhnísa, og eintal hennar birtir okkur algerlega ónýta manneskju þótt ekki sjáist það í samskiptum hennar við félaga sína. Áróra virkar skynsömust þeirra þriggja og hugarheimur hennar er að minnsta kosti skiljanlegur þótt ekki sé hann aðlaðandi. Bæði María Heba og Arndís unnu vel úr sínum efniviði. Það segir svo sína sögu að í lokin hafa valdaskipti átt sér stað í hópnum.

Ég er ekki ötull lesandi kommentakerfis netmiðlanna en jafnvel lélegur neytandi þeirra getur séð hvaðan Salka hefur orðræðu persónanna í Old Bessastaðir þó að hún breyti henni líka, yddi hana, skrumskæli og leiki sér með hana ýmislega. Svo hefur hún líka hlustað á ákveðna stjórnmálamenn sér til gagns, maður heyrir predikanir þeirra enduróma með sínum endalausu klifunum, einkum í lokaræðunni. Þessi blanda af hátíðaræðum og kommentum verður eðlilega baneitruð, í senn hatursfull og óljós, beinskeytt og þversagnakennd. Það eitt verður ljóst að konurnar þrjár „elska“ allt íslenskt, og þó að ég hafi ekki heyrt Bessastaði nefnda í texta þeirra í gærkvöldi þá eru „old Bessastaðir“ auðvitað hið endanlega tákn fyrir það íslenskasta af öllu – staðurinn þar sem Fjölnismenn gengu í skóla, þar sem Grímur Thomsen bjó, þar sem forseti Íslands hefur setið frá stofnun þess embættis.

En þó að orðræðan spretti úr þessum ófrjóa stað þá er texti Sölku afar skemmtilegur, þéttur, ögrandi og oft fyndinn, einkum framan af. Það var frekar að mistækist að gefa sýningunni líf. Konurnar þrjár voru vissulega að drekka kaffi, færa hluti til og skúra en það var dálítið kyrrt líf (textinn hefði náð svipuðum áhrifum í útvarpi). Alveg þangað til í lokin. Búningar Helgu I. Stefánsdóttur og þó einkum tónlist Högna Egilssonar gerðu þó sitt til að magna áhrifin af textanum.

Silja Aðalsteinsdóttir