Það var kannski heppilegt að komast ekki á frumsýninguna á Insomnia í Kassanum á miðvikudagskvöldið. Alltént voru á sýningunni í gær að því er virtist eintómir aðdáendur Friends-þáttanna sem verkið snýst um og héldu uppi stuði allan tímann. Insomnia er samvinnuverkefni Þjóðleikhússins, leikhópsins Stertabendu og Everybody’s Spectacular-hátíðarinnar. Verkið er samið af Amalie Olesen og leikhópnum og Gréta Kristín Ómarsdóttir stýrir því eins og hinni eftirminnilegu sýningu Stertabendu fyrir tveim árum. Snjalla leikmynd gerir Halldór Sturluson og búningar og gervi eru á vegum Alexíu Rósar Gylfadóttur og Evu Signýjar Berger.

Þegar við komum í salinn stendur María Heba Þorkelsdóttir eins og stytta fremst á sviðinu með svefngrímu fyrir augum og hvítklædd með skikkju yfir sér. Þetta var fyrsta sjokkið. Hvaðan úr Friends var þessi fígúra? Fyrsti þátturinn gerðist svo í öðrum heimi en okkar – kannski himnaríki? Þar gengu

persónur um í hvítum klæðum sem minntu á Aþenu til forna og töluðu spaklega. Þetta fólk er sjúklega hrætt við átök og deilur en áfjáð í upplýsingu og svo umburðarlynt að það getur ekki tekið neinar ákvarðanir. Þarna var að líkindum verið að gera grín að „góða fólkinu“, „pólitískri rétthugsun,“ á okkar tímum, þrátt fyrir búningana, en enn vafðist fyrir mér hvað þetta kom Friends-þáttunum við sem voru yfirlýst viðfangsefni sýningarinnar.

Insomnia

Þeir komu svo í næsta atriði og þá fór allt að falla í fyrirfram boðað form. Nú vill svo til að ég hef bara horft á örfáa Friends-þætti með löngu millibili þannig að ég veit ekkert um neina framvindu í seríunni og mundi meira að segja ekki eftir öllum persónunum. En úr þessu var nokkuð bætt í gærkvöldi. Þær voru kynntar fyrir áhorfendum, hver af annarri, og jafnvel tíundað hvaða hremmingar sumar þeirra höfðu gengið í gegnum á ævinni. Persónuleikum þeirra var lýst á lifandi hátt í leik og líka söng, því hljómsveitin Eva er hér innanborðs (Sigríður Eir Zophoníasdóttir og Jóhanna Vala Höskuldsdóttir). Einnig var ljóst að ein persóna þáttanna var langsamlega vinsælust – leikararnir vildu allir vera hún og sviðsmaðurinn líka. Þetta er að sjálfsögðu Rachel sem Jennifer Aniston leikur og hún lifnaði á sviðinu í kækjum og töktum svo maður sprakk úr hlátri.

En þó að Insomnia geri gys að þáttunum er um leið söknuður eftir þeim byggður inn í verkið – söknuður eftir fullkomnum heimi þar sem vinátta og skilningur ríkti. Og á endinum mátti jafnvel skilja að ákveðinn „heimsendir“ hefði orðið þegar hætt var að framleiða þá.

Spunaleikritum eins og Insomnia er alltaf hætt við að vera aðallega skemmtileg fyrir þátttakendur og í þessu tilviki innvígða í áhugamálið. Í Stertabendu-hópnum eru bráðflinkir og flottir leikarar – auk Maríu Hebu og hljómsveitarinnar Evu þau Bjarni Snæbjörnsson, Tinna Sverrisdóttir og Þorleifur Einarsson – sem yndi er að horfa á. En verandi utan markhóps þótti mér sýningin talsvert of löng og játa að ég datt út af við og við. Ætli Friends-þættirnir endi kannski sem meðal við svefnleysi?

-Silja Aðalsteinsdóttir