Þjóðleikhúsið frumsýndi í gærkvöldi eftir æðilanga bið leikgerð Þorleifs Arnar Arnarssonar á Rómeó og Júlíu eftir William Shakespeare. Þorleifur leikstýrir líka en dramatúrg er Hrafnhildur Hagalín. Einföld en lúmsk leikmyndin er Ilmar Stefánsdóttur, myndband er á vegum Nönnu MBS og Signýjar Rósar Ólafsdóttur en rosalegt búningafylliríið er verk Önnu Rúnar Tryggvadóttur og Urðar Hákonardóttur. Flókna og markvissa lýsinguna hannaði Björn Bergsteinn Guðmundsson. Mikil tónlist er í sýningunni, henni stýrir Salka Valsdóttir sem einnig er einn höfunda tónlistar og leikur tónlistar-hliðarsjálf Júlíu í sýningunni. Júlía fær einnig dans-hliðarsjálf (Rebecca Hidalgo) og fóru búningahönnuðir algerlega hamförum við að klæða þessar óvæntu persónur.

Harpa Rún Kristjánsdóttir og Jón Magnús Arnarsson gerðu nýja þýðingu á verkinu fyrir þessa uppsetningu, djarfa og hugkvæma, mettaða fyndnum lausnum, samtímaslangri og tilvísunum í alls konar texta sem gátu bæði verið fyndnar og hlýjað manni um hjartarætur. Til dæmis var notkunin á 10. ljóði Tímans og vatnsins eftir Stein ör beint í hjartastað. Það verður fróðlegt og áreiðanlega skemmtilegt fyrir leikhúsfræðinga að bera þennan leiktexta saman bæði við frumtexta og aðrar þýðingar, því að Harpa og Jón stytta ekki einungis leikritið mikið heldur mæta þau líka kröfum leikstjórans um meiri áherslu á sögu Júlíu í verkinu en hefur verið venjan. Sú áhersla skilar sér vel í sýningunni og bætir við áhrifsatriðum sem jafnast alveg á við þau atriði sem venjulega standa upp úr í flutningi á þessu margleikna verki. Þar á ég einkum við átök Júlíu (Ebba Katrín Finnsdóttir) við foreldra sína vegna áforma þeirra um að gifta hana París greifa (Hallgrímur Ólafsson) sem aldrei hefur sýnt Júlíu áhuga – nema síður sé – en vill þó endilega kvænast henni; maður getur búið sér til ýmsar skýringar á þeirri löngun hans en enga þeirra sérlega fallega. Auðvitað er Júlía bálskotin í Rómeó (Sigurbjartur Sturla Atlason) en það er ekki bara þess vegna sem hún vill ekki giftast París. Hana langar ekki til að ganga inn í hlutverk móður sinnar.

Þó að texti Shakespeares sé mikið styttur er sýningin löng og viðamikil enda má segja að Þorleifur spinni nýtt leikrit utan um gamla leikritið; það er ýmist hreyfing án teljandi texta eða byggt upp af söngtextum. Tími og staður verksins er óljós, en margt minnir á síðustu áratugi 20. aldar. Annars vegar erum við í foreldralausum unglingaheimi ástarfíkilsins Rómeós þar sem fylgihnettirnir sveima um hann: Merkútsíó (Atli Rafn Sigurðarson), Benvolíó (Hilmar Guðjónsson), Mabba (Bríet Ísis Elfar) og Baltasar (Ernesto Camilo Aldazábal Valdés); hins vegar í borgaralegum heimi Júlíu þar sem Kapúlett (Arnar Jónsson) faðir hennar ríkir einráður, frændinn Tíbalt (Jónmundur Grétarsson) rekur erindi hans, móðir hennar (Nína Dögg Filippusdóttir) heldur kjafti og er sæt og jafnvel fóstran góða (Ólafía Hrönn Jónsdóttir) beygir sig að lokum.

Söguna er eflaust óþarft að rekja nánar en ég ítreka að þetta er grimm útfærsla á henni. Þorleifur lagar endinn að sínum þörfum en þó að freistandi sé að túlka hann hér má alls ekki taka þá upplifun af væntanlegum áhorfendum.

Leikurinn er jafn, þéttur og sannfærandi en stjarna kvöldsins er þó ótvírætt Ebba Katrín. Hún býr til þá raunverulegustu fjórtán vetra Júlíu sem ég hef séð, full af gáska og leik og heillandi yndisþokka svo að engin leið var að horfa annað þegar hún var á sviðinu. Skapsveiflur hennar voru líka ekta unglingslegar og ef manni fannst hún tala svolítið djarflega um ástamál þá var það ekki meira en Shakespeare fannst hún mega gera. Af öðrum leikurum langar mig að nefna Bríeti sem söng ekki aðeins og spilaði á gítar á sviðinu heldur lék félaga í gengi Rómeós alveg prýðilega. Svo þarf að þakka þeim Sigurði Sigurjónssyni  og Erni Árnasyni alveg sérstaklega fyrir innkomur þeirra sem Gregorí og Samson; það var sko kómískur léttir sem sagði sex!

Tónlistin er eftir Ebbu Katrínu, Sigurbjart Sturlu, Auð og Bríeti, auk Sölku tónlistarstjóra og er mjög áheyrileg. Danshöfundar eru þau Ernesto Camilo og Rebecca og voru mörg dansatriðin verulega glæsileg, einkum grímuballið hjá Kapúlett hjónunum þar sem þau sjást fyrst, Rómeó og Júlía. Kannski er það að einhverju leyti vantraust á leikritinu sjálfu sem kallar á þessi rúmfreku listrænu hjálpartæki, alltént er ekki hægt annað en líta á það sem vantraust á sviðinu sem vettvangi mikilla atburða hve mörgum af áhrifamestu atriðunum var varpað upp á stóran skjá. Nær sviðsleikur ekki lengur almennilega til okkar, skjáneytenda? En Þorleifur flytur ekki aðeins atburði upp á skjá, hann leggur af list undir sig allan salinn og „svalasenan“ í verkinu fær alveg nýja merkingu í þessari sýningu!

Þetta er stórsýning, sérstaklega ætluð ungum leikhúsáhorfendum. Ekki þarf að efa að þeir flykkist í Þjóðleikhúsið.

Silja Aðalsteinsdóttir