„Það er vissara‘ að fara varlega, vissara‘ að óska sparlega“ því óskir geta nefnilega ræst – það gera þær að minnsta kosti í sprellfjörugum söngleik Kristínar Helgu Gunnarsdóttur, Karls Ágústs Úlfssonar og Þorvalds Bjarna Þorvaldssonar hjá Leikfélagi Akureyrar sem var frumsýndur um helgina undir öflugri stjórn Ágústu Skúladóttur.
Gallsteinar afa Gissa segir frá systkinunum Grímu (Steingerður Snorradóttir) og Torfa (Örn Heiðar Lárusson) sem ekki búa við mikla heimilislukku. Mamma (María Pálsdóttir) er herforingi sem stjórnar börnunum með harðri hendi. Pabbi (Benedikt Karl Gröndal) er alger andstæða, hann getur ekki slitið sig almennilega frá pappírunum sínum og heyrir hvorki né sér börnin sín. Loks er á heimilinu Úlfur stóribróðir (Jóhann Axel Ingólfsson) sem Gríma er viss um að geimverur hafi breytt í það skrímsli sem hann er orðinn. Það reynist rétt, við fáum að sjá aðfarirnar þegar ógurlegar verur frá sólkerfinu Gelgju koma og toga hann sundur og saman við dillandi músík!
Eina almennilega manneskjan í lífi barnanna er Gissi afi þeirra (Karl Ágúst Úlfsson), réttsýnn og skynsamur maður og góður hlustandi, þess vegna verða börnin verulega leið þegar hann er lagður inn á sjúkrahús með gallsteinakast. En afi Gissi lætur slíkt lítt á sig fá, hann skemmtir sér og öðrum sjúklingum á spítalanum svo að þar verður hver dagur hátíð. Í ofanálag reynast gallsteinarnir úr honum töfrasteinar sem láta óskir rætast, og það notfæra börnin sér ótæpilega – þrátt fyrir varnaðarorð afa síns.
Torfi er að vísu svolítið tregur til að óska eftir breytingum, hann er jarðbundnari en Gríma og ekki eins gagnrýninn á fjölskylduna. En Gríma er hiklaus og þegar hún er komin á skrið hrífst Torfi með og það eru fá takmörk fyrir því sem þau vilja fá í staðinn fyrir það sem þau hafa eða auk þess sem þau hafa. Og allar óskir rætast. Jafnvel þær ævintýralegustu. Til dæmis fyllist húsið af hvolpum og kettlingum og Úlfur hreinlega hverfur! Mamma man ekki eftir því að þessi frumburður hennar og eftirlæti hafi nokkurn tíma verið til.
En hvað gerist svo … þegar allar óskir hafa ræst? Það er hið dásamlega viðfangsefni Kristínar Helgu í sögunni sem Ágústa, Karl Ágúst og Þorvaldur láta lifna við á sviðinu hennar Þórunnar Maríu Jónsdóttur í gamla Samkomuhúsinu og í endalaust fjölbreyttum búningum eftir hana líka. Fráleitustu atburðir sögunnar eru ekki ofviða þessum snillingum. Meira að segja förum við siglandi á uppblásnum sófa út á Pollinn í kjölfar Nonna og Manna, börnunum til skelfingar! En þó að þetta sé í grunninn móralskt verk er niðurstaðan margslungin því lífið er aldrei einfalt.
Lögin hans Þorvalds Bjarna eru öll áheyrileg og inn á milli eru heillandi eyrnaormar. Söngtextar Karls Ágústs eru einstaklega hnyttnir og vel ortir en líka merkingarbærir, þess vegna hefði ég stundum viljað skrúfa aðeins niður í músíkinni til að missa ekki úr.
Steingerður og Örn Heiðar sem léku krakkana á frumsýningu voru eins og atvinnumenn þótt ung séu, bjuggu til sannfærandi persónur, töluðu skýrt og sungu vel. María og Benedikt Karl þurftu að taka sannfærandi stökkbreytingu fyrir framan nefið á okkur eftir óskastundina og fóru létt með það. Herforinginn mamma varð hippinn mamma sem kærði sig kollótta um óhreinindi og óhollustu. Pabbi viðutan varð pabbi súperhress sem vildi helst leika sér úti allan daginn. Þau voru bæði alveg frábær. Karl Ágúst var hinn frelsandi og frjálslyndi afi holdgerður. Það var heldur ekki ónýtt fyrir okkur í salnum að fá að taka þátt í bráðskemmtilegu tónlistaratriði með honum.
Aðrir leikendur fóru með fleiri en eitt hlutverk. Margrét Sverrisdóttir lék aðallega Boggu blákollu, kærustu afa Gissa á spítalanum sem svífur um í litríkum hliðarheimi þar sem ævintýrin eru á hverju strái. Jóhann Axel var gersamlega óþolandi Úlfur og yfirmáta vesæll Skarphéðinn sjúklingur, en þegar allt er komið á ystu nöf í lífi fjölskyldunnar bregður hann sér í gervi ýmissa yfirvalda sem koma til að kanna málið. Hann var óhemju snöggur að skipta um föt en þar átti þó metið Birna Pétursdóttir sem leikur hvorki fleiri né færri en sjö hlutverk og sum nánast í einu! Gervin voru svo ólík að það var erfitt að ímynda sér að sama manneskjan væri inni í fötum Jónínu nágranna, Svanlaugar Schöth sjúklings, Elsu kennara, kennara Úlfs, Báru frá barnaverndarnefnd, pizzusendilsins og geimverunnar en það er þó fullyrt í leikskránni á netinu. Þar eru líka allir söngtextarnir sem er til fyrirmyndar. Ekki er gefin út prentuð leikskrá en gott væri að fá útprent með helstu upplýsingum til að glöggva sig strax á aðalatriðum því ekki fer maður inn á netið í leikhúsinu.
Vafasamt er kannski að telja tónlistarmennina Jaan Alavere, Philip Doyle og Kristján Edelstein til leikara en þeir setja líf og lit á sýninguna í innkomum sínum milli atriða. Enda var ekki dauð mínúta í þessari sýningu. Skiptingar gengu líka greitt og þar skipti máli hnitmiðuð ljósahönnun Lárusar Heiðars Sveinssonar.
Þetta er mikil og góð upplifun og ég vil setja Gallsteina afa Gissa undir eins í flokk með bestu íslensku söngleikjunum fyrir börn, Bláa hnettinum og Skilaboðaskjóðunni. Megi gallsteinar afa Gissa töfra börn um langa framtíð.