Ég vaknaði í morgun með lokasönginn í hausnum: “Ástin er diskó – lífið er pönk”. Kannski verður það smellur. En hápunktur kvöldsins fyrir mig var síðasta lag fyrir hlé, “Hiroshima” eftir Bubba Morthens, sem Nonni rokk (Þórir Sæmundsson) flutti af miklum krafti og reyndar frábærlega vel. Jafnaðist ekki á við höfundinn (hver gerir það?) en var svo fínn að það er full ástæða til að sjá sýninguna þó ekki sé nema þess vegna.

Söngleikurinn Ástin er diskó – lífið er pönk eftir Hallgrím Helgason var sem sagt frumsýndur í gær á stóra sviði Þjóðleikhússins undir stjórn Gunnars Helgasonar. Um tónlistina sér Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson sem semur nokkur lög sjálfur en notar líka “ekta” lög frá sögutímanum. Þetta er í kjarna sínum einföld “rómeó og júlíu”-saga frá þeim árum þegar diskóið og pönkið börðust um hylli unga fólksins í höfuðborginni. Diskódísin Rósa Björk (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) fer í bæinn með vinum sínum eftir að hún er kosin ungfrú Hollywood, hún er með kórónuna og Danna kærasta (Sveppi) og allt. Pallíettuliðinu bregður í brún þegar það er skyndilega umkringt fjandaliði pönkara. Þar er fyrirliðinn Jón nokkur Sigurðsson, kallaður Nonni, og verða nokkur orðaskipti með hópunum. En Manni Mercury (skínandi vel sunginn og leikinn af Ívari Helgasyni) sér peninga í þessum uppreisnarseggjum og áður en varir hefur hann búið til efnilega pönkhljómsveit sem Rósa Björk skírir Neysluboltana og gefur Nonna viðurnefnið rokk.

Að launum fyrir snjallar hugmyndir fær Rósa Björk í fyrstu ljótan söng í andlitið á sér, “Ég vil ekki stelpu eins og þig” (eftir Danny Pollock og Bubba), en ekki líður á löngu áður en ungmennin eru fallin hvort fyrir öðru með ýmsum afleiðingum. Þó má nefna (úr því farið var að nefna frægasta kærustupar í heimi sem Hallgrímur Helgason hefur áður skipt sér af) að enginn deyr.

Hegel hefði verið ánægður með þetta verk því undirtexti þess er eindregið díalektískur. Við höfum tesu: diskóið, og antítesu: pönkið. Og í lokin kemur svo syntesan sjálf, skilgetið afkvæmi diskós og pönks, þegar Kristín, litla systir Rósu Bjarkar (Sara Marti Guðmundsdóttir), birtist á sviðinu í stífu pilsi með bleika slaufu á maganum og hárið í tveim hnútum fyrir ofan eyrun! Kannist þið við lýsinguna?

Þetta er fjörugt verk og var vel sungið, leikið og dansað. Vigdís Hrefna er svo falleg og hefur sýnt slíka snilldartakta undanfarið (í Litlu hryllingsbúðinni hjá LA og í Höllu og Kára hjá HHH) að hún var augljóst val í aðalhlutverkið. En Þórir kom á óvart í hlutverki Nonna rokk. Hann var virkilega fínn í norway@today í vetur en að hann ætti þá takta til sem hann sýndi í gær hefði mig ekki grunað. Baldur Trausti Hreinsson og Ragnheiður Steindórsdóttir voru fín sem foreldrar Rósu Bjarkar, og Sara Marti ansi skemmtileg litla systir sem tók hamskiptunum. Selma Björnsdóttir leikur vinkonuna Mæju og er eins og ævinlega einstaklega þokkafull bæði í söng og dansi. Mæja fellur líka fyrir pönkara, Ragga rúnk (ískyggilegur Sigurður Hrannar Hjaltason), og þau stóðu þétt upp við aðalparið. Sveppi var hæfilega álappalegur Danni diskó og söng ágætlega. Auk þeirra þarf að nefna Sigga topp (Þröstur Leó Gunnarsson) sem man fífil sinn fegri þegar hann var aðaldægurlagasöngvarinn á svæðinu og barnaði konur í akkorði. Þröstur Leó fer létt með svona karaktera nú orðið, enda fær hann þjálfunina! Kringum þessar aðalpersónur raða sér leikarar og dansarar sem fylla sviðið lífi og lit.

Sýningunni var firnavel tekið þótt venjulegt frumsýningarlið Þjóðleikhússins sé ekki markhópur hennar beinlínis. Um einn heyrði ég á níræðisaldri sem langaði heim í hléi af því hvað honum fannst tónlistin hávær, en konan hans leyfði honum ekki að fara. Ég vona og veit að sýningin mun rata til sinna og óska aðstandenum til hamingju með hana.

 

Silja Aðalsteinsdóttir