Maður var farinn að halda að unga fólkið væri búið að taka Hugleik yfir en nú kemur gamla liðið aftur á vettvang og hefur aldrei verið betra. Í leikritinu Einkamál.is eftir Árna Hjartarson sem var frumsýnt í húsnæði Hugleiks á Eyjarslóð í gærkvöldi undir stjórn Þorgeirs Tryggvasonar og Huldu B. Hákonardóttur er Rúnar Lund í hlutverki Karls sem þráir heitt að verða afi. Hann verður alveg ómögulegur maður þegar Sveinn sonur hans og tengdadóttirin Barbara (Einar Þór Einarsson og Elísabet Indra Ragnarsdóttir) tilkynna þá ákvörðun sína að eignast ekki barn. Þau eru bæði á brattri framabraut og hafa ekki tíma fyrir barneignir. Eiginkonan fyrrverandi, Lena (Júlía Hannam), náði sér í barnmargan seinni mann og fékk með honum fjölda barnabarna sem hún stærir sig af við hvert tækifæri og Karl verður æ öfundsjúkari. Þá er það sem hann fréttir af vefsíðunni einkamal.is …

Einkamál.isEinkamál.is er afbragðsvel fléttaður og vel skrifaður gamanleikur sem líka nýtir húsnæði leikflokksins vel. Það er leikið á breiddina að þessu sinni, enda þurfum við að vera til skiptis heima hjá Karli og syninum Sveini, en á milli íbúðanna er skotið barnum þar sem Karl hittir konurnar sem vilja sækja um starf barnsmóður hans (eða móður afabarnsins, réttara sagt). Það tefur framvindu sýningarinnar svolítið að þurfa að taka barinn burt á milli atriða, og ég held raunar að það hafi verið óþarft. Var ekki alveg nóg að beita ljósum til að sýna okkur hvar við erum hverju sinni, eins og gert var þegar skipt var á milli heimila ungu hjónanna og Karls?

Karl hittir hverja konuna af annarri og eins og hann er sjálfur vel sköpuð persóna verða þær hver með sínu skýra móti: Gleymérei (Hrund Ólafsdóttir), sú með meyjarkomplexana, Trúnó (Guðrún Eysteinsdóttir), sú fjármálaglögga, og Lóló (Sigríður Bára Steinþórsdóttir) sem langar bara í barn en er svo óheppin að bóndinn (Hjalti Stefán Kristjánsson) getur ekki gefið henni það. Svo má ekki segja meira um framvinduna því þá fer ég að ræna frá væntanlegum áhorfendum sem vonandi verða fjöldamargir.

Það gleður mann alltaf alveg sérstaklega að sækja sýningar hjá Hugleik en sjaldan held ég að þeim hafi tekist eins vel upp. Efnið er gott, sviðsetningin gerð af skemmtilegri hugkvæmni og leikurinn allur hinn vandaðasti, hófstilltur og einlægur um leið og leikarar túlkuðu skoplegar aðstæður sínar. Rúnar tók af skilningi á persónu Karls og sýndi vel sveiflurnar í tilfinningalífi hans í þessum einkennilegu aðstæðum og það sama má segja um aðra aðalleikara, Elísabet Indru, Einar Þór og Júlíu sem fór á kostum í hlutverki hinnar fjörugu ská-ömmu.

Silja Aðalsteinsdóttir