Carroll berserkurSpindrift Theatre hefur lagt undir sig Tjarnarbíó í rúma viku fyrir sýningu sína Carroll berserkur sem Bergdís Júlía Jóhannsdóttir leikstýrir, og þegar ég segi „leggja undir sig“ eru það ekki bara orðin tóm. Mig hefði aldrei grunað að það væru svona margar ólíkar vistarverur í því litla húsi.

Þetta er svonefnt þátttökuleikhús sem ég hef fengið að prófa nokkrum sinnum á undanförnum árum, einkum í sýningum Margrétar Vilhjálmsdóttur á ýmsum stöðum, m.a. varðskipinu Óðni og Safnahúsinu við Hverfisgötu. En ólíkt flestum öðrum slíkum þá gengur áhorfandinn beinlínis inn í hlutverk um leið og hann gengur í salinn í Tjarnarbíó. Hann er Lísa, komin í Undraland. Hópnum er í upphafi skipt í þrennt og fær hver hluti sitt attríbút. Minn fékk svuntu og við eltum svuntuklædda leikkonu með sleifar (kokk hertogaynjunnar?) á milli viðkomustaða. (Engin hlutverk eru merkt leikurum í leikskrá og ég þori ekki að geta mér til um nöfn af því ég þekki ekki þennan hóp.)

Við í mínum hópi fengum fyrst að kíkja á kónginn sem var að raka sig, svo fórum við beint í teboðið þar sem okkur var kennt að brosa í stíl við köttinn frá Cheshire. Veitingarnar voru fremur þunnur þrettándi en meira fjör varð hjá hjartadrottningunni sem einmitt átti afmæli í gær og heimtaði gjafir og svör við ósvaranlegum spurningum. Ég lenti svo sjálf í spurningaflóði kálormsins sem var ansi aðgangsharður. Uppi á svölum fengum við að heyra dapurlegan söng selkonunnar. Þaðan fórum við í tíma til kennslukonunnar og þá var nú heppilegt hvað við höfðum minnkað mikið af minnkunarbrjóstsykrinum því lofthæðin var líklega um það bil einn metri. Við heimsóttum fallega fuglinn sem kenndi okkur að lokka til okkar þann sem við elskum mest (ef hann er annars staðar), við potuðum okkur inn í kanínuholuna, heimili sjálfrar hvítu kanínunnar sem allt byrjaði með, og loks var slegið upp balli. Ég gleymi ábyggilega einhverju en það verður bara skemmtilegra fyrir ykkur sem farið að sjá að uppgötva það.

Hugmyndin að þessari sýningu er mjög fín og margt í úrvinnslunni heppnast ágætlega. Búningar Lúcíu Sigrúnar og Áslaugar Sigurðardóttur eru til dæmis margir skemmtilegir og jafnvel fallegir, þá er ég einkum að hugsa um búning fuglsins. Svið hans með öllu eggjaskurninu var líka flott og það átti við fleiri sviðsmyndir Hallveigar Kristínar Eiríksdóttur. Það sem hópurinn þyrfti að þróa betur er textinn og þó enn fremur leikurinn við áhorfendur. Þátttökuleikhús er ekki auðvelt viðfangs. Það þarf ómældan sviðssjarma og takmarkalaust sjálfsöryggi til að leika sér við bláókunnugt fólk þannig að allir hafi gaman af eða verði fyrir annars konar djúpum áhrifum og komi ríkari út úr þeim samskiptum. Spindrift-meðlimir eru ekki alveg komnir þangað en geta vel komist alla leið með góðri ástundun.

Silja Aðalsteinsdóttir