Vorið vaknar Vorið vaknar eftir þýska leikskáldið Frank Wedekind er hvalreki fyrir ungt áhugafólk um leiklist eins og nemendur í Kvennaskólanum sýna fram á þessa dagana. Leikfélag þeirra Fúría sýnir nú þetta rösklega aldargamla leikrit í skólanum sínum við Þingholtsstræti í þýðingu Hafliða Arngrímssonar og undir stjórn Kára Viðarssonar og túlkun krakkanna á kvíða, kvöl og alsælu unglingsáranna er lifandi og sannfærandi. Þó að þau séu ekki lærðir leikarar hafa þau annað sem einmitt þessu verki er svo nauðsynlegt til að virka: Þau eru sjálf ung.

Það verður fljótlega ljóst í sýningunni hvers vegna þetta verk var umdeilt frá upphafi – eins og önnur verk þessa byltingarmanns leikhússins – og bannað áratugum saman. Frank lýsir í leikritinu á raunsæjan hátt hvað það felur í sér að vera unglingur, sársaukanum og sælunni þegar ástríðurnar vakna, leitinni örvæntingarfullu að viðfangi og útrás ástarinnar, jafnvel hinni réttu kynhneigð, og áhyggjum af skólanum og framtíðinni. Þegar unglingarnir leita til fullorðna fólksins fá þeir tóm undanbrögð og skröksögur eða hálfan sannleik sem getur reynst mun verri en enginn. Áhorfendur voru alls ekki tilbúnir að taka þeim upplýsingum í upphafi 20. aldar og raunar ekki langt fram eftir þeirri öld.

Skýrustu persónur verksins eru tveir vinir á fermingaraldri, Moritz (Gunnar Smári) og Melchior (Ari Freyr) og Wendla (Hulda), jafnaldra þeirra og kærasta Melchiors. Wedekind gefur okkur skýra mynd af þeim sem leikararnir gerðu góð skil, og vangaveltur þeirra, órar og angist eru í fullu gildi enn í dag þótt krakkar á okkar tímum fái ólíkt meiri uppfræðslu – ekki alltaf umbeðna eða æskilega. Í kringum þau er unglingahópur þar sem einkum eru áberandi Ernst (Stefán Gunnar sem líka leikur lækninn alveg skínandi vel), Ilse (Brynhildur) sem er létt á bárunni, Martha (María Björk) og Hänschen (Þorvaldur Sigurbjörn sem líka spilaði og söng), sem kannski hefur hneykslað mest á sínum tíma fyrir fullkomlega heilbrigða hegðun sína! Af foreldrunum reyndi mest á frú Bergmann, móður Wendlu, sem Vala Björg lék af öryggi og húmor.

Kári leikstjóri veit sem er að þótt ungt fólk ráði ekki endilega við langan talaðan texta þá eru músík og dans þeim töm. Þetta kann hann að nota og það var ánægjulegt að sjá hvað krakkarnir hreyfðu sig af miklu öryggi um sviðið og voru heillandi ung og falleg. Reyndar fóru þau flest ágætlega með textann líka, ekki síst Gunnar Smári sem náði afar góðum töklum á erfiðu hlutverki Moritz.

 

Silja Aðalsteinsdóttir