Það er eiginlega óhjákvæmilegt að hugsa til skessunnar í ævintýrinu um Búkollu þegar maður veltir Vaðlaheiðargöngum fyrir sér, mestu framkvæmd Íslandssögunnar, eins og segir i kynningu á leikritinu um hana, Vaðlaheiðargöngum, sem frumsýnt var á Nýja sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi á vegum leikhópsins Verkfræðinga. Hljóðheimur Gunnars Karels Mássonar sem mætti okkur gat á köflum vel verið hávaðinn í „stóra bornum hans föður míns“ þegar skessan reyndi að þvinga sér leið gegnum fjallið á eftir Búkollu og Karlssyni. Eins og hún lokaðist inni í fjallinu eru manneskjurnar á sviðinu líka lokaðar inni, kvaldar, sveittar, úttaugaðar – ekki útafdauðar samt, þær lifa af. En innbrotið í fjallið hefur ekki farið vel með þær enda mótmælti fjallið rækilega á sinn hátt.

Enginn höfundur er nefndur að verkinu en listrænn stjórnandi er Karl Ágúst Þorbergsson og gisk mitt er að hann hafi samið það með leikurunum Aðalbjörgu Árnadóttur, Hilmi Jenssyni og Kolbeini Arnbjörnssyni og áðurnefndu tónskáldi, Gunnari Karel, sem átti drjúgan þátt í leiknum líka. Á sviðinu opnuðust stórkostleg göng sem Júlíanna Lára Steingrímsdóttir hannaði og hún hugsaði líka fyrir búningunum sem voru ýmist viðeigandi eða frumlegir og óvæntir. Ljósahönnun Ólafs Ágústs Stefánssonar var markviss og hnökralaus. Öll umgerð sýningarinnar var algerlega fullnægjandi.

Sýningin hófst (líkt og Edda í Þjóðleikhúsinu) á því að leikararnir kynntu verkið fyrir framan lokuð göngin, sögðu frá efni þess, fullyrtu að allt yrði satt og rétt sem við sæjum í framhaldinu og voru virkilega fyndin þegar þau lýstu aðdraganda, gangi framkvæmdarinnar og opnunarhátíðinni. Þau lýstu fjálglega kostum ganganna, hvað þau gerðu fólki miklu auðveldara að heimsækja ömmu fyrir austan, eða aðra ættingja, það væri bara miklu auðveldara yfirleitt að komast austur. Raunar væru Vaðlaheiðargöng æði – þó að þau væru auðvitað rosalega dýr og kannski ekki eins nauðsynleg og ýmis önnur göng sem ætti eftir að bora! Eftirá að hyggja var þetta skemmtilegasti partur sýningarinnar.

Síðan opnaðist hið mikla gin ganganna og sjálf leiksýningin hófst inni í litlu búri sem gat verið kaffistofa verkfræðinganna. Þangað tínast þeir allir og líður ömurlega, þeim er svo heitt og sennilega er líka súrefnisskortur. Þau tala saman lengi um mat – matinn á Akureyri, skyndibitastaði, ólíka skyndibita – svo berst talið að draumförum. Einkum eru það Aðalbjörg og Hilmir sem segja frá, Kolbeinn er svo lamaður af hita og lúa að hann er til lítillar skemmtunar. Þetta gerðu þau allt svo lifandi og sannfærandi að maður dauðfann til með þeim. Svo verður allt í einu gerbreyting á andrúmsloftinu – Hilmir tekur völdin á afar sérstæðan hátt og ábyggilega ógleymanlegan sem ég lýsi ekki með fleiri orðum – þetta verður maður bara að sjá!

En eftir þennan hápunkt var eins og vindurinn færi smám saman úr seglunum um leið og táknræn túlkun tók ennþá ákveðnar við af raunsæjari nálgun. En það var ótrúlegt að sjá hvernig plastdúkurinn mikli gat leikið vatn, gaman að horfa á bát sigla eftir göngum lengst uppi í fjalli og merkilegt að heyra hvernig hljóðheimurinn breyttist þegar umferðarniðurinn tók við af véladyninum.

Silja Aðalsteinsdóttir