Söguloftið á Landnámssetrinu í Borgarnesi hefur hýst marga góða sagnamenn og löngu kominn tími til að rifja upp sögu mannsins sem byggði á sínum tíma húsið sem landnámssýningin, Eglusýningin og Söguloftið eru í, Thors Jensen. Thor var rúmlega tvítugur þegar hann tók við verslunarrekstri í Borgarnesi og tók rækilega til hendinni þau ár sem hann var þar. Í gærkvöldi kom svo langafabarn hans, Guðmundur Andri Thorsson, og sagði merka sögu afa sína fyrir fullu húsi áhugasamra gesta á Söguloftinu.

Thors saga Jensen - Guðmundur Andri

Guðmundur Andri

Thor Jensen fæddist í Danmörku 1863. Hann missti föður sinn ungur, var tekinn inn í skóla fyrir fátæk, föðurlaus börn þar sem hann lærði verslunarrekstur og tilviljun réð því að hann var látinn afplána lærlingsár sín hjá dönskum kaupmanni á Borðeyri við Hrútafjörð. Þar kynntist hann konuefni sínu, Margréti Þorbjörgu Kristjánsdóttur, og í tímans rás eignuðust þau saman tólf börn sem mörg hver urðu þekktir einstaklingar í íslensku samfélagi. Frá Borðeyri fóru þau hjónin til Borgarness, þaðan til Akraness, Hafnarfjarðar og loks til Reykjavíkur. Alls staðar sýndi Thor dugnað og framsýni en vissulega gengu fyrirtækin sem hann stofnaði misvel – stundum vegna hastarlegra óhappa, stundum vegna þess að samfélagið var ekki tilbúið til að taka við þeim. Hann dó 1947.

Guðmundur Andri sagði þessa sögu ekki aldeilis svona skipulega og magurt. Hann hóf kvöldið á að setja áhorfendur rækilega inn í erfiðleikana á því að byrja ævisögu, taldi upp hverja leiðina af annarri til að hefja sögu langafa síns: það væri hægt að byrja á því að spjalla um manninn á málverkinu sem hann hafði með sér, eða á fyrstu bernskuminningu Thors, þegar hamrinum var stolið af honum, það mætti byrja á því þegar hann hitti Margréti Þorbjörgu, bjargvætt sinn í sextíu ár, í fyrsta sinn, það mætti byrja á skáletruðum heimspekilegum eða rómantískum kafla um ungan Thor – eða fjörgamlan – í faðmi íslenskrar náttúru og svo framvegis og svo framvegis. Þetta varð eins og góð kennslustund í skapandi ævisagnaskrifum.

Í framhaldinu kom svo ævisagan í lifandi stiklum með mörgum persónulegum innskotum, sögum sem Thor faðir Guðmundar Andra hafði sagt honum og sögum úr ættinni; hann sýndi erfðagripi úr fórum ættarinnar – þar voru skemmtilegastir dansskór Thors Thors sendiherra sem reyndust smellpassa á systursonarson hans þarna á Söguloftinu. Thor Jensen varð í frásögn afkomandans greindur maður og gegn sem lærði góða íslensku, unni fósturlandi sínu og vildi hag þess sem vænstan. Hann sýndi hvernig Thor skipti ævi sinni milli þriggja höfuðatvinnugreina þjóðarinnar. Á fyrsta skeiðinu var það verslun, svo dembdi hann sér í sjávarútveginn þar sem gengið varð best og auðurinn mestur (meðan það var) og loks landbúnaðurinn þegar hann reisti Korpúlfstaði og stofnaði mjólkurbú fyrir höfuðborgina. Þar tengdist saga Thors Jensen óvænt beint við blæðandi samtímann.

Það er fróðlegt að heyra Íslandssögu liðinnar aldar frá þessu sjónarhorni og ekki þarf að fjölyrða um það hvað Guðmundur Andri er einstaklega skemmtilegur maður. Það verður enginn svikinn af því að príla upp á Söguloftið og hlusta á hann.

Silja Aðalsteinsdóttir