Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi í gær á stóra sviði Borgarleikhússins bandaríska söngleikinn Eitruð lítil pilla eftir Alanis Morissette og Diablo Cody, í þýðingu Ingólfs Eiríkssonar og Matthíasar Tryggva Haraldssonar og undir stjórn Álfrúnar Helgu Örnólfsdóttur. Hljómsveitarstjóri er Karl Olgeirsson.  Söguna samdi Cody upp úr hljómplötunni Jagged Little Pill eftir Morissette sem kom út 1995 en söngleikurinn er bara sex ára. Viðamikla sviðsmynd sem nýtir hringsviðið til hins ýtrasta hannaði Eva Signý Berger og hún gerði líka myndbönd og teikningar sem oft voru alveg ævintýralega flott og spennandi, stundum svo að maður gleymdi sér við að horfa á þau og gáði hvorki að söng né leik! Með þessu spilaði lýsing Pálma Jónssonar listilega vel. Myrkustu senurnar voru sérstaklega heillandi.

Búningaofgnóttin var á hendi Karenar Briem, en þrátt fyrir glannalega litadýrð og ótrúlegan fjölbreytileika búninganna hygg ég að minnisstæðastur verði fábrotinn, hvítur klæðnaður aðalpersónunnar, Mary Jane Healy (Jóhanna Vigdís Arnardóttir). Hún – „sú seka“ – var eins og saklaus engill innan um alla óreiðuna og rótleysið. Dansatriði voru mörg ágætlega útfærð en sumir balletttaktarnir áttu illa heima í þessum heimi, að mér fannst. Danshöfundur var Saga Kjerúlf Sigurðardóttir.

Í sögunni kynnumst við Healy-fjölskyldunni. Heimilisfaðirinn Steve (Valur Freyr Einarsson) vinnur inni í borginni og skaffar vel. Kona hans Mary Jane hugsar um heimilið í úthverfinu, hún er að jafna sig eftir bílslys og stundar líkamsrækt og jóga og borðar hollt, fyrirmynd annarra kvenna. Sonurinn Nick (Sigurður Ingvarsson) kemst inn í Harvard í byrjun verks, foreldrum sínum til hamslausrar gleði og stolts og ættleidda dóttirin Frankie (Aldís Amah Hamilton) er skapandi og listræn. Hún er líka lifandi sönnun þess að hjónin eru víðsýnir og frjálslyndir mannvinir því að þau eru hvít en hún er þeldökk. Það er falleg glansmynd sem blasir við, glæsilegt fólk í góðum efnum.

En þegar nánar er gáð kemur í ljós að Steve vinnur svo mikið að hann er að verða sambandslaus við konu sína og börn. Mary Jane er svo háð sterkum verkjalyfjum eftir slysið að hún þarf að leita ólöglegra leiða til að útvega sér þau. Frankie pirrar mömmu sína með klæðaburði sínum og hegðun og er sífellt leið og reið bæði heima og í skólanum þar sem henni er líka strítt fyrir að vera „öðruvísi“. Mamman er alveg sátt við að Jo (Íris Tanja Flygenring) sé kannski meira en vinkona en verður æf þegar upp kemst um samband Frankie við Phoenix (Haraldur Ari Stefánsson).  Og þegar Nick horfir upp á glæp og ætti að fara til lögreglunnar og hjálpa til við að koma upp um hann kemur brestur í glansmyndina.

Fyrir einhverjum árum hefðum við sagt að þetta væri fjarskalega amerísk saga sem ekki ætti heima hér, en það á ekki við lengur. Hér hafa feður löngum verið eins og gestir á eigin heimili. Hér er fólk líka að misnota ópíóða og þó að í verkinu sé það miðaldra húsmóðir en við heyrum meira um unglinga og ungt fólk er það aukaatriði. Við verðum æ oftar vör við rasisma hér á landi, og glæpurinn sem Nick verður vitni að er því miður ekki bundinn við einstök þjóðlönd.

Verki og sýningu er beint að ungu fólki (ég ætti auðvitað alls ekki að skrifa um hana) og tónlistin höfðar að líkindum fremur til þess en eldra fólks, fyrir utan aðdáendur Morissette á öllum aldri. Á móti þessu kemur að aðalpersóna verksins er miðaldra kona sem Jóhanna Vigdís túlkaði af innlifaðri snilld, auk þess sem hún syngur þessa erfiðu tónlist af gríðarlegu öryggi og listfengi. Það var makalaust gaman og gefandi að fá að upplifa hana aftur í stóru hlutverki, eftir langt hlé – raunar talsvert átakameira hlutverki tilfinningalega en í Mamma mia og Mary Poppins. Samleikur þeirra Sigurðar í átökum mæðginanna um glæpinn og viðbrögðin við honum var sannfærandi og Sigurður var lifandi ímynd hins efnilega unga karlmanns. Samband mæðgnanna kom afskaplega kunnuglega fyrir sjónir og Aldís Amah var ekta uppreisnargjörn unglingsstúlka. Valur Freyr var líka sannfærandi utangátta eiginmaður sem ekki hefur hugmynd um vanda konu sinnar.

Í kring eru vinirnir, Jo og Phoenix í öruggum höndum Írisar Tönju og Haralds Ara, Bella (Rán Ragnarsdóttir), Andrew (Sölvi Dýrfjörð) og skólasystkini, partífélagar og ýmis önnur hlutverk leikin af Hákoni Jóhannessyni (sem var líka dæmalaust flottur klæðskiptingur í hættulegu New York-nóttinni hennar Frankie), Birnu Pétursdóttur (sem líka var sallafínn sálfræðingur Healy-hjónanna), Esther Talíu Casey (sem líka var bæði kvefaður kennari og virðulegur læknir), Hannesi Þór Egilssyni, Marínó Mána Mabazza, Rakel Ýr Stefánsdóttur og Védísi Kjartansdóttur.

Tónlistin hljómaði býsna einhæf í mínum eyrum, lögin innbyrðis lík, en hún var leikin af list og þrótti af hljómsveitinni, stundum heldur miklum þrótti þannig að erfitt var að skilja textana. Í textaframburði báru þau af Jóhanna Vigdís og Valur Freyr, þar skildist hvert orð, en einstaka atriði duttu niður dauð vegna þess að söngtextarnir skiluðu sér ekki. Þetta eru erfið lög í flutningi vegna þess hve ílangir tónar eru einkennandi fyrir þau og leikararnir réðu misvel við þá en að öðru leyti var söngurinn ágætur.

Söngleiknum Eitraðri lítilli pillu var vel tekið í heimalandinu, hann þótti brjóta blað með því að fjalla um raunveruleg vandamál og taka einarða afstöðu í erfiðum málum. Okkur sem höfum notið Níu lífa undanfarin ár kemur slíkur efniviður kannski ekki eins mikið á óvart.

Silja Aðalsteinsdóttir