Orð gegn orðiÞjóðleikhúsið frumsýndi í gær einleikinn Orð gegn orði eftir Suzie Miller í Kassanum undir stjórn Þóru Karítasar Árnadóttur. Magnaða leikmynd sem þjónaði vel ólíkum þörfum verksins fyrir opinber og einkaleg híbýli gerði Finnur Arnar Arnarson og hann klæddi leikkonuna líka í hvern viðeigandi búninginn af öðrum. Lýsinguna sem átti stóran þátt í áhrifum sýningarinnar, sá fyrir viðbrögð áhorfenda og átti til að stjórna þeim – hannaði Jóhann Friðrik Ágústsson. Tónlistina átti Gugusar en hljóðmyndina sá Kristján Sigmundur Einarsson um.

Þetta er verk af mínu uppáhalds tagi. Vel samið um brýnt efni, prýðilega þýtt af Ragnari Jónassyni en þannig vaxið að það má eiginlega ekkert segja svo að ekki sé spillt fyrir upplifun væntanlegra gesta. Tessa Ensler (Ebba Katrín Finnsdóttir) geysist inn á skrifstofu sína á fínu lögmannsstofunni, í lögmannsskikkjunni, komin beint úr réttinum þar sem hún vann mál skjólstæðings síns með glæsibrag. Tessa vinnur öll sín mál. Hún er einn besti – kannski besti – lögmaður sinnar kynslóðar og veit af því. Tessa hengir upp skikkjuna og birtist okkur í rauðri buxnadragt, ljómandi af hreysti, sjálfsöryggi og ungri fegurð, og hún segir okkur af málinu. Hún setur okkur inn í list sína – hvernig hún notfærir sér kyn sitt og ljóst hár auk kunnáttu og snilldar til að slá ryki í augu vitnisins. Þetta er heillandi kona sé hún í liði með manni en illþolandi andstæðingur.

Ebba Katrín leikur sterkt alveg frá byrjun og vekur með manni alls konar tilfinningar. Er hún ekki of hrokafull? Of viss um að hún hafi alltaf rétt fyrir sér? Að lög og réttur hafi alltaf réttu svörin og réttu niðurstöðurnar? Nei, kerfið er það sem við verðum að halda okkur í. Það er siðmenningin. En svo hendir atvik sem grefur smám saman undan trú Tessu á réttarfarið og á næsta klukkutíma eða rúmlega það horfum við á stúlkuna bregðast við, hugsa, efast, þróast, berjast og breytast. Það var listilega gert og sýndi vel að Ebba Katrín er ein besta – kannski besta – leikkona sinnar kynslóðar. Það kemur heldur ekki sérlega á óvart eftir Atómstöðina, Ellen B, Rómeó og Júlíu og kannski ekki síst sjónvarpsmyndina Mannasiði eftir Maríu Reyndal.

Það er vandi að standa ein á sviði og tala í tvo klukkutíma og ljóst að þær Ebba og Þóra Karítas hafa unnið nákvæmnisvinnuna af alúð. Árangurinn er líka leiksigur sem lengi verður í minnum hafður, það fór ekki á milli mála eftir viðtökurnar í gærkvöldi. Innilegar hamingjuóskir!

 

Silja Aðalsteinsdóttir