Eftir Florin Lăzărescu

úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2020

Gunnhildur Jónatansdóttir og Roxana Doncu þýddu

Florin Lăzărescu

Florin Lăzărescu / Mynd: Teodora Rogoz

Ríkið þurfti nauðsynlega á króklöppum að halda. Enginn virtist vita fyrir víst hvers vegna ríkið vantaði einmitt þessa plöntu þá stundina en það breytti því ekki að ég og aðrir ráðvilltir félagar í ungliðahreyfingu Kommúnistaflokksins vorum handvissir um að þetta væri mál sem varðaði þjóðaröryggi. Eða þannig blasir þetta við mér núna þegar ég lít til baka. Í þá daga fannst mér bara að þetta hlyti að vera gífurlega áríðandi. Og ef ég á að vera alveg hreinskilinn, þá vildi ég ólmur standa skil á mínum króklöppukvóta til ríkisins því mig dauðlangaði að komast yfir ákveðið afreksmerki sem ég hafði hingað til farið varhluta af: áttavitarós. Ég hafði að minnsta kosti heyrt að það væru verðlaunin fyrir að safna tíu kílóum af króklöppurót.

Þannig er nú það. Tilhugsunin um að næla í áttavitarós var óskaplega freistandi. Ég hafði reyndar lesið í einhverjum bæklingi að slík afreksmerki væru venjulega einungis veitt fyrir rathlaup, en í þorpsskólanum okkar höfðu engin rathlaup verið skipulögð þau fjögur ár sem liðin voru af skólagöngu minni. Nema þá að það hafi gerst án minnar vitundar. Í þá daga hafði ég bara óljósa hugmynd um hvað rathlaup væri. Í ofanálag átti skólinn okkar ekki önnur afreksmerki á lager en framúrskarandi ungliði. Ef maður fór fram úr áætluðum afköstum í glerflösku- og krukkusöfnuninni fékk maður afreksmerki fyrir að vera framúrskarandi ungliði. Ef maður var efstur í bekknum var maður framúrskarandi ungliði. Næstefstur, þriðji efstur og svo framvegis, framúrskarandi ungliði.

Þar sem nemendafjöldinn við skólann okkar var í lægri kantinum (bara níu til tíu í hverjum árgangi) voru flestallir á mínum aldri löngu búnir að hreppa afreksmerkið framúrskarandi ungliði, nema kannski einhver einn smalastrákur sem hafði lært að skrifa „mamma“ í fyrsta bekk, þekkja helstu stafina í stafrófinu í öðrum bekk, benda á orð sem væru fleiri en eitt atkvæði í þriðja bekk og stafsetja nafnið sitt nokkurn veginn villulaust í fjórða bekk. Yfirleitt fékk hann þó að verða framúrskarandi ungliði að lokum, svona til að hvetja hann áfram.

Var nema von að mig langaði í áttavitarós?

 

Þegar öllum bekkjunum var smalað út á skólalóð eins og vanalega til að mynda fylkingar óraði mig ekki fyrir því að barnaskóladraumur minn væri í þann mund að rætast.

Ég var í miðjum gamnislag við strákana aftast þegar kennarinn birtist. Hann var svo strangur að maður mátti ekki svo mikið sem depla auga framan í hann. Hann olnbogaði sig í gegnum þyrpinguna, danglaði í nokkra ungliða svona til að sýna hver réð og reif svo sárasaklausan fyrstabekking upp á beltinu og dröslaði honum fram fyrir alla. Á meðan grey strákurinn hékk í lausu lofti og baðaði út öllum öngum ávarpaði félagi kennari fylkinguna:

„Þögn þarna aftast eða ég kem og lem ykkur! Haldið kjafti! Frá og með morgundeginum eigið þið öll að koma með poka af króklöppum í skólann. Er það skilið?“

„Jaaaaaaaaá!“

Þetta var langt já.

„Haldið kjafti! Hver sagði að þið mættuð tala?“

Við stirðnuðum upp.

„Af hverju starið þið svona á mig eins og sauðir? Vitið þið ekki hvernig króklappa lítur út?“

„Júúúúúúúúú!“

„Frá og með morgundeginum hafið þið eina viku til að safna tíu kílóum af króklöppurót hvert.“

Þegar félagi kennari lét skíthræddan krakkann detta á jörðina og hótaði að lemja hann í klessu ef hann kæmi ekki með króklöppur í skólann skildist okkur öllum að þetta yrði enginn dans á rósum.

 

Ég vissi alveg hvernig króklappa leit út. Þessi risavaxna planta átti meira að segja sérstakan stað í huga mér. Ég hafði nefnilega lesið sögu sem ég veit ekki til að nokkur muni lengur: Karl og kerling í koti sínu vakna eitt sinn af djúpum svefni. Úti er niðamyrkur. „Spjöllum aðeins saman þar til birtir af degi.“ Þau spjalla og spjalla þar til þau hafa fengið nóg af spjalli. „Skrepptu út og vittu hvað veldur,“ segir kerling við bónda sinn. Karlinn fer út. „Hvílík vandræði, kerla mín!“ segir karl. Kerling gægist út. Hvað er að sjá? Króklappan í garðinum hefur vaxið svo hátt að laufið skyggir alveg á húsið. Karl og kerling príla upp króklöppustilkinn og þegar þau ná toppnum er sólin í hádegisstað. Þau halda kyrru fyrir á króklöppunni sem heldur áfram að vaxa. Að nokkrum dögum liðnum birtist nágranni þeirra. „Sælt veri fólkið. Gætuð þið ekki rifið eins og eitt gat á þessa króklöppu svo sólin geti skinið á garðinn minn?“ „Ekki nema sjálfsagt!“ svarar karl vinalega. „Hvað fáum við í staðinn?“ spyr kerling. Nágranninn gefur þeim það sem hann má missa. Króklappan í garði gömlu hjónanna heldur áfram að vaxa og breiðir úr sér yfir allt þorpið. Þau tvö gerast drottnarar króklöppunnar og skammta sólskin að vild, allt eftir því hvað þorpsbúar eru tilbúnir að láta af hendi rakna. En svo verður króklappan að lokum of götótt og hrynur undan eigin þunga og drottnarar króklöppunnar deyja.

Þannig er nú það. Sagan hafði gert mig hryggan en ég vissi að minnsta kosti hvers króklöppulauf voru megnug. Það að króklappan skyldi líka vera með rót var atriði sem ég leiddi fyrst hugann að þegar við áttum að koma með tíu kíló af henni í skólann. Ég reiknaði með að ég þyrfti rúmlega það ef ég ætti að hreppa áttavitarós.

 

Á leiðinni heim úr skólanum þræddi ég skurðina og rýndi í hverja þá plöntu sem passaði við lýsinguna á króklöppu en fann ekki eina einustu. Það hefði mátt halda að allar króklöppur landsins hefðu fengið veður af nauð ríkisins og í ofboði gripið rætur sínar og flúið land. Svo ekki sé talað um sundurlyndið sem nú hafði verið sáð meðal okkar skólasystkinanna. Áður höfðum við verið vön að rölta saman heim í hópum, en núna voru allir á móti öllum þar sem við rótuðum í runnunum beggja vegna vegarins. Jújú, við fundum stöku króklöppu hér og þar, en jörðin var hörð og mér tókst bara að rífa af þeim laufin.

Þegar heim var komið fékk ég mér í flýti eitthvað að borða og spurði mömmu hvar skóflan væri.

„Pabbi þinn hlýtur að hafa skilið hana eftir í garðinum, hann var að stinga upp nokkrar piparrætur.“

Guð hafði sannarlega lagt blessun sína yfir garðinn okkar þegar kom að piparrót. Á hverju ári reif pabbi þetta illgresi upp með rótum og lagði til þerris við heimreiðina. Ég beið þess að þær þornuðu og yrðu léttari svo ég gæti hlaðið þeim á hjólbörur, dröslað þeim alla leið að tjörninni og kastað þeim út í. En mánuði seinna höfðu piparræturnar hertekið garðinn að nýju eins og við hefðum gróðursett þær sérstaklega. Þannig er nú það! Ég á ekki erfitt með að ímynda mér Sísýfos burðast með piparrætur.

 

Það var bara Sætabrauð gamli sem naut einhvers króklöppuláns. Hann bjó í húsi langt frá þorpinu, við bakka tjarnarinnar þar sem þjóðvegurinn lá. Þar hafði þorpið upprunalega risið en svo hafði komið í ljós að það var ekki tekið út með sældinni að búa við þjóðveginn sem lá að borginni. Tvisvar til þrisvar á ári fóru Tyrkir ránshendi um þorpið á leið sinni til og frá borginni. Margir þorpsbúanna höfðu þá flutt sig um set, yfir að skógarjaðrinum ofar í fjallshlíðinni, þar sem þorpið er í dag. Aðrir höfðu látið sér segjast seinna meir, eftir innrás Þjóðverja og síðar Rússa, og flutt í nýja þorpið úr því gamla sem orðið var að einskismannslandi alveg við víglínuna.

Kommúnistarnir vildu endilega flytja Sætabrauð gamla, einn af síðustu íbúum gamla þorpsins, yfir í nýja þorpið. Það er erfitt að ráða ríkjum í heimi sem er í algjörri óreiðu. Sætabrauð gamla hafði verið gefið land í nágrenni við okkur, lítill skiki sem krakkar notuðu til að spila fótbolta eða stytta sér leið í skólann. Sætabrauð gamli flutti hvorki frá heimili sínu við tjörnina né heldur vildi hann sleppa hendinni af nýja skikanum. Hann var að bíða eftir Ameríkönunum svo hann gæti loksins fengið að vera í friði. Af og til blossaði upp í honum hið herskáa eðli landeigandans og hann tók sér stöðu á skikanum með barefli í hendi til að verja hann fyrir boðflennum.

Rigningardag nokkurn, þegar ég var á leiðinni í skólann, var hann mættur á skikann og þegar ég reyndi að forðast hann datt ég ofan í skurð og varð drullugur upp fyrir haus. Ég hljóp grátandi heim og sagði mömmu að Sætabrauð gamli hefði hent mér ofan í skurðinn. Mamma sagði pabba frá og pabbi var næstum því búinn að lúskra á aumingja manninum þegar sá gamli var á leið heim frá messu.

Og núna þurfti ég sem sagt að fá pabba til að fara og biðja Sætabrauð gamla um leyfi til að grafa eftir króklöppurótum á skikanum hans. Pabbi bölvaði hlutskipti sínu í sand og ösku en fór samt og lét reyna á það.

Allt frá því að króklöppuskorturinn skall á hafði Sætabrauð gamli tekið upp á því að sofa á skikanum sínum á næturnar. Við skikann hafði myndast röð af börnum. Afi skólabróður míns hafði barist með Sætabrauði í stríðinu. Þeir höfðu báðir verið sæmdir orðum fyrir hetjuskap.

„Gjörðu svo vel, drengur, taktu eins mikið af króklöppum og þú vilt!“

Nokkrir krakkanna voru ættingjar hans. Einn var munaðarlaus (pabbi hans hafði hengt sig í skóginum og mamma hans stungið af). Að sjálfsögðu fékk hann líka króklöppur! Annar krakki var bara föðurlaus (pabbi hans sat inni fyrir að stela maís).

„Gríptu skóflu, strákur, og náðu þér í króklöppur!“

Þannig er nú það þegar maður hefur sambönd! Pabbi tók í höndina á mér, við gengum til Sætabrauðs og – hvað annað? – lutum höfði.

„Þetta er ansi myndarlegur skiki sem þú átt þarna, Sætabrauð gamli!“

Pabbi áttaði sig of seint á skelfilegum mistökum sínum. Sætabrauð gamli þoldi ekki að vera kallaður Sætabrauð.

„Að þú skulir ekki skammast þín að kalla mig þessu ónefni! Ég sem er jafnaldri hans föður þíns, Guð blessi minningu hans!“

Ég ríslaði mér eitthvað með skófluna mína.

„Vesalings pabbi, hann dó svo ungur!“ Pabbi var fljótur að grípa tækifærið. „Ég er aumur munaðarleysingi, aleinn í heiminum. Og þú, jafnaldri föður míns, hefur ekki betra hjartalag en svo að þú neitar syni mínum um að stinga upp örfáar króklöppurætur? Gerðu það, hann þarf á þeim að halda fyrir skólann!“

„Elsku drengur, það er ekkert að hjartalaginu í mér, þó svo að hjartað sé ekki sterkt og ég sé á lyfjum. En þrátt fyrir það get ég ekki gefið þér neinar króklöppur, því ættingjar mínir eru búnir að biðja mig um þær allar.“

„Gerðu það, Sætabrauð gamli!“ Þarna hljóp pabbi aftur á sig. „Skikinn er troðfullur af króklöppum!“

„Svínið þitt!“ orgaði Sætabrauð gamli. „Þú ættir að skammast þín! Gróðursettir þú þessar króklöppur með mér? Þú ættir bara að rækta króklöppur í þínum eigin garði, betlarinn þinn!“

Við fórum aftur heim til piparrótanna okkar. Að skikanum hans Sætabrauðs gamla undanskildum voru króklöppuauðlindir þorpsins löngu uppurnar. Og svo varð málið enn flóknara. Í skólanum daginn eftir komumst við að því að kílóin tíu af króklöppurót áttu að vera þurrkuð. Ég dirfðist að viðra þá fáránlegu kenningu að það væri ekki hægt að þurrka króklöppurót á einum degi. Kennarinn, sem nú er orðinn skólastjóri, dró mig afsíðis og sagði við mig:

„Drengur minn, ég hef lagt allt mitt traust á þig. Ég veit að þú ert duglegur nemandi. Ég ætlaði meira að segja að senda þig á ungliðamótið í ár, ég sem er jafnaldri hans pabba þíns og í ofanálag erum við skyldir, ef mér skjátlast ekki. Og svo geturðu ekki einu sinni safnað tíu kílóum af þurrkaðri króklöppurót?“

Við slíkri röksemdafærslu átti ég engin svör.

 

Í nokkra daga var hugur minn myrkur, eins og hann væri hulinn risastóru króklöppulaufi. Svo allt í einu kom gat á laufið. Ég hafði skilið nokkrar vanþroskaðar króklöppurætur eftir hjá piparrótarhaugnum sem ég var að þurrka og átti eftir að henda í tjörnina. Þetta var það sem ég sá: Himinhár haugur af piparrót, örfáar króklöppurætur. Og skyndilega sló myndunum tveimur saman og ég áttaði mig á því að það var ekki mikill munur á þurrkaðri piparrót og þurrkaðri króklöppurót. Hugmynd laust niður í kollinn á mér og ég dreif í að fylla poka af piparrót og raða króklöppurótunum efst.

Þegar kennarinn skoðaði fenginn skalf ég eins og glæpamaður. Hann áttaði sig ekki á neinu. Hann sló í hnakkann á mér og sagði:

„Sko, þetta gastu!“

Ég hafði skilað inn meira en tíu kílóum af króklöppurót.

Þannig er nú það! Stundum er hægt að blekkja almættið.

Þannig að ég fór á ungliðamótið, ég hreppti áttavitarósina, en þar sem ég sé alltaf dökku hliðarnar á öllu verð ég að minnast á að í árslok komst ég að því að allir hinir í þorpinu voru líka búnir að verða sér úti um áttavitarós.

Svo skall silkiormaæðið á, sem ég segi ykkur frá einhvern tímann seinna. Ég ætla bara rétt að bæta því við að þetta rifjaðist allt saman upp fyrir mér þegar ég frétti að Sætabrauð gamli hefði dáið. Einn sona hans reyndi að fremja sjálfsmorð með því að gleypa hjartapillurnar hans. Sonurinn lifði af en Sætabrauð gamli fékk slag vegna þess að allar pillurnar hans voru búnar. Það var hjartað sem dró hann til dauða.