VHS velur vellíðanFjórmenningarnir í uppistandshópnum VHS frumsýndu nýja sýningu í Tjarnarbíó í gærkvöldi undir heitinu VHS velur vellíðan. Boðorð tímans er að við eigum að stunda líkamsrækt og hugsa vel um líkamann og öll fjögur hefja þau atriðið sitt á stuttu vídeói til að minna á þetta boðorð. Vilhelm Neto fer í nudd, Hákon Örn í ræktina, Vigdís Hafliðadóttir í jóga og Stefán Ingvar á lyftingabekkinn. En ekki er allt sem sýnist. Villi er svo aumur í skrokknum að hann þolir ekki minnstu snertingu, Hákon Örn er svo þreyttur að hann kemst ekki út úr stöðinni áður en öllu er skellt í lás, Vigdís læsist í hroðalegri jógastellingu og Stefán er niðurlægður af þeim sem æfa með honum. Allt var þetta býsna fyndið og gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi.

Því þau spila öll á það að gera gys að sjálfum sér, tala sjálf sig niður. Villi fær ekki einu sinni að vera hann sjálfur því að allir sjá ameríska leikarann Jack Black í honum. Bæði hann og Stefán gera mikið úr því að vera að verða þrítugir. Það hljómar ekki svo illa í eyrum manneskju á mínum aldri en er greinilega alvarlegt mál fyrir þá pilta. Það er kannski sorglegt að deyja ungur, segir Stefán, en verra er þegar meðalmenni lifir og lifir.

Hákon Örn setti áhorfendur inn í líf sjálfstætt starfandi listamanns og grínara með svo litlar tekjur að þeir endurskoðandinn hans ná aldrei að skilja hvor annan. Ég tengdi af lífi og sál við þá umræðu! Hún leiðir hann áfram inn í pælingar um það hvað hann muni skilja eftir sig – ekki lítur út fyrir að það verði mikið en vangaveltur hans um framhaldslíf ástarbréfa ungmenna í nútímanum voru hrikalega fyndnar. Æ, hvað samtíminn mun sýnast fátæklegur eftir hundrað ár!

Vigdís reyndi líka að tala sig niður í ítarlegum fyrirlestri um lágt sjálfsmat og meðvirkni, og þau mistök sín að taka öllum tilboðum af ótta við að annars hættu þau að berast. En í rauninni hefði hún getað tekið þveröfugt á efninu því að henni hefur gengið allt í haginn síðan hópurinn frumsýndi síðast. Hljómsveitin hennar hefur verið vinsæl og meðal verkefna hennar fyrir fjölmiðla á liðnu ári var ofurlítill sjónvarpsþáttur sem heitir áramótaskaup, eins og hún orðaði það – og þar sem hún sló í gegn, hefði hún getað bætt við. Ég hló mig máttlausa að framlagi hennar en við félagarnir ræddum það á eftir hvort hún hefði ekki átt að leyfa sér að njóta velgengninnar. Hún var greinilega dauðhrædd við að vera sökuð um mont en það má líka vinna vel úr því.

Þau eru öll skemmtileg, þessir ágætu uppistandarar, en eftir á að hyggja var bara Hákon Örn með ekta efni undir. Hin þrjú mega íhuga það. Brandarar um að Íslendingar séu í ofbeldissambandi við veðrið á landinu, eða vandann við að verða þrítugur eða hvort fólk eigi að hætta á samfélagsmiðlum geta verið mjög fyndnir en þeir duga ekki alveg til.

Silja Aðalsteinsdóttir